mánudagur, 6. október 2014

Óhugur: Ebóla og Vanhæfni ráðamanna


Það er margt ógnvænlegt í loftinu um þessar mundir. Eins og svo oft áður stingum við hausunum í sandinn, raðir af höfðum ofaní sandinum.  Ég er ekki að tala um eldgos og hamfarir þó þær séu líka inn í myndinni.  Ytri ógnir tala ég um.
 
Hvaða hagsmunir ráða því hvenær stórveldi grípa til vopna eða skipta sér af umhveiminum? Bandaríkin, Rússland og Kína. 
   
Það er svo margt sem kraumar undir.  Svo margt sem við fáum ekki svör við.  Svo margir vanhæfir stjórnmálamenn, valdamenn og auðjöfrar. Fréttirnar ansi oft vafasamar sem við fáum af atburðum heimsins. 

Svo margt sem við spyrjum ekki um, við erum svo oft hlýðin. Ebólan færist nær okkur og nær. 
Hvað ætli sé búið að eyða meiru í hernaðarútbúnaðar en Ebóluhjálpargögn seinasta mánuðinn.  Hvað ætli ráði meiru um að gripið var til loftárása, olíusvæði Mið-Austurlanda eða velferð fólksins á þessu svæði? 

Allt þetta ráðaleysi speglast svo vel hjá okkur Íslendingum í minni skala.
Við kjósum vitavonlausa menn til valda, við látum lýðskrumara vaða yfir okkur.  Daglega spyr maður sjálfan sig:  Hvaðan kemur þetta fólk?  Sem kann engin vinnubrögð, gerir axarsköft á hverjum degi, heldur að það sé komið í stjórnmál til að sópa að sér gulli. Hefur ekki lágmarks þekkingu á listum og menningu.   Sem betur fer höfum við ekki her maður veit ekki hvað hefði þá gerst. 

Já lesandi góður það er óhugur í mér, í morgun hlustaði ég á fréttirnar um að líklega færi drepsóttin að komast til Evrópu.  Mér varð hugsað til orða sóttvarnalæknisins um daginn að við myndum svo vel ráða við þetta.  Er það nú alveg víst? 

föstudagur, 3. október 2014

Góðar fréttir: Svíþjóð viðurkennir Palestínu

Ánægjuleg tíðindi,http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/03/svithjod_vidurkenni_palestinu

Það er kominn tími til að þrýsta à Ísraelssríki af alvöru að gera eitthvað í þessum eilífðarmálum. Með nýjan og öflugan utanríkisráðherra er trúlegat að Svíar leggi Meira til màlanna. Við getum ekki endalaust upplifað slátranir á fólki.

Ef á að gera ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs betra þá er þetta góð byrjun.

Kissin Askenasí SÍ: Tónlistarlostinn blívur!

Það er ekki oft sem maður upplifir tónleika eins og í gærkvöldi í Hörpu:  Kissin, Askenasí og Sinfoníuhljómsveit Íslands.  Rachmaninoff nr. 2 Brahms nr 3.  

Maður hafði heyrt sögur af þessum píanórisa.  En sjón er sögu ríkari.   Um leið og hann kom inn í salinn þá átti hann sviðið.  Valda hans yfir spilamennsku og áhorfendum var algjört. Allt var í hágír. Hljómsveitin undir stjón Íslandsvinarins lék feiknavel.  Leikur hennar í Sinfoníu Brahms var magnaður, sérstaklega í síðasta kaflanum.   Troðfullt húsið fann tónlistarlostann streyma  um sig. 

Það var stórkostlegt að sjá af fyrsta bekk á fyrstu svölum, þegar allur salurinn stóð á fætur sem einn maður í lok konsertsins.  Og Kissin kunni vel að meta það spilaði tvö aukalög, Rachmaninoff og Brahsm.  Hann hélt sig á sömu slóðum.   Og  hið einfalda Brahms verk fékk tárin til að dansa niður kinnar á mörgum. 


Sum kvöld eru fullkomin, ekki mörg, en þetta var eitt af þeim. Eins og Gullfoss og Geysir í eina máltíð!!! Þetta var nú frekar ósmekkleg líking!!!!!! 

fimmtudagur, 2. október 2014

Bókahaust: Góð Kilja og spennandi bókavetur

Bókmenntahaustið byrjar með látum.  Kiljan komin í fullan gang. Ansi fínn þáttur í gærkvöldi.  Margar góðar bækur koma út í haust.

Dæmdar voru 2 afburðabækur, Þegar dúfurnar hurfu eftir Sofi Oksanen og Náðarstund eftir

Hannah Kent.

Og fjallað um spennandi nýútkomna ævisögu Gríms Thomsen eftir Kristján Jóhann Jónsson sem ég hlakka til að lesa.  En skrítið er að heyra þá félaga Kristján Jóhann og Egil tala um það eins og það sé ný frétt að Grímur hafi samið rit um Byron.  Jónas frá Hriflu fjallaði um þetta í biblíu okkar Kristjáns kynslóðar Íslandssögunni, en Egill var þá varla kominn úr vöggu (bls. 103-104). 

Það var gaman að heyra viðtalið við Sally Magnusson þar sem hún ræddi bók sína um móður hennar. En hún var með Dementiu, Ellihrörnunarsjúkdóm, og Sally skrifar um móður sína af mikilli hlýju og skilningi. Egill komst ansi vel frá þessu samtali, þar sem hann var persónulegur og hlýr.  Við sem höfum átt foreldri með þessa sjúkdóma, lestum þessa bók í haust.   

Þetta verður góður bókavetur, með eða án goss.   En skrítið var að sjá fólk komið á fullt að ræða nýja bók Arnaldar meira en mánuði áður en hún kemur út, á Facebook.  



miðvikudagur, 1. október 2014

Mr. Turner: Meistaraverk

Já, mögnuð mynd á kvikmyndahátíð og örugglega ekki sú eina.  Meistaraverk Mikes Leigh var vel tekið í gærkvöldi (þriðjudag) af fullum sal kvikmyndaáhugamanna í Sal 1 í Háskólabíó.  

Þvílík fegurð í myndatöku og sviðslist, þar sem myndlist Turners þessa meistara landslagsins
skilaði sér fáránlega vel, og leikararnir með Timothy Spall í fararbroddi sem meistarinn Herra Turner voru ótrúlegir.  Ég hef sjaldan séð persónumótun eins og hjá Spall í þetta skiptið.  Enda fékk hann leikaraverðlaunin í Cannes í vor. Þetta sagði Spall um möguleika sina á verðlaunum í Cannes: [on the possibility of an award at Cannes for 'Mr. Turner'] If it comes up, I'll have a go. Someone's got to win one. Actors always say, 'Oh, competition shouldn't be part of art'. Bollocks. It's a part of everything. Ég bít af mer vinstri handlegginn ef hann fær ekki Óskarinn.  Ég meina það!!!! 

Myndin er fyndin, dramatísk, við upplifum seinni ár Turners þegar hann er farinn að sækja út á ótroðnar slóðir í list sinni. Persónan er ótrúleg í höndum Turners, göngulag, hreyfingar, andlitssvipur,barkahljóð sem eru engu lík sem hann jafnvel var farinn að nota á kránni:   I grunted in a Georgian way, 'Are you a provider of wine?' I had to go and lean against a wall and take a deep breath to go back and ask, 'Can I have a glass of Pinot Grigio?'This is the only time in my life when the character bled into me.  
Í kringum Turner eru svo ótal aukaleikarar oft svo skemmtilegir eins og samlistamenn hans að maður hlær ennþá innra.  

Þeir sem þekkja ekki stíl Leighs og vinnu hans með leikurunum geta vart ímyndað sér þvílík vinna liggur þar að baki.  En drífið ykkur að sjá hana.  Hún hlýtur að verða sýnd áfram.  Ef maður fer einu sinni í bíó á ári þá er þetta myndin.  

Ég sé á skránni að það eru ótrúlega góðar myndir á þessari hátíð.  Er ekki kominn tími til að Reykjavíkurborg fari að taka aftur þátt í hátíðinni.  Er ekki ágætt að losa sig við einhverja geðvonsku?  Eða valdagræðgi?



sunnudagur, 28. september 2014

Bænastund: Fyrir hverja????

Nú er setið í Hörpunni og beðið, og sungið og dansað fyrir Drottni.
  „Biðjum fyrir ófæddum börnum og komandi kynslóðum. Biðjum um breytt viðhorf til fóstureyðinga, hugarfarsbreytingu og endurnýjaða ábyrgðartilfinningu.“   
 Er það furða þótt Silja Bára hrökkvi í kút yfir bænum sem
þessum.Sem hefur staðið framarlega i baráttu um konan ráði sjálf yfir sínum líkama.

Svona texti var í Stórbænahátíðinni í Hörpu. "Endurnýjaða ábyrgðartilfinningu".   Ísmeygilegur texti, eiga ekki allir að bera ábyrgð á gjörðum sínum?   
Hér er á ferðinni nýkristnihreyfingin í Bandaríkjunum sem er farin að læðast hægt og sígandi til annarra landa, oft á tíðum svipar henni til öfgahreyfinga annarra trúarbragða.  Hreyfing sem er hápólitísk tengd teboðinu og peningaplokkstrúarbrögðum.  Er það tilviljun að Geir Haarde er boðið þarna sem fyrirlesara????? Og tengingu við Bandaríkin er harðneitað þetta bænahald kemur frá Þýskalandi og Sviss :

Sömu og stóðu að Hátíð vonar

Hugmyndin að Kristsdegi er sú að kristnir einstaklingar úr sem flestum kirkjudeildum og sem víðast af landinu sameinist í bæn fyrir landi og þjóð. Það var Friðrikskapellusamfélagið sem stóð fyrir deginum en sömu aðilar stóðu að Hátíð vonar, sem haldin var í september í fyrra. Aðalræðumaður þeirrar hátíðar var Franklin Graham, sem er yfirlýstur andstæðingur hjónabands samkynhneigðra. Meðal þeirra sem fluttu ávarp á Kristsdegi í dag var Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Agnes M. Sigurðardóttir biskup. DV.


Og allir eiga að vera með, við erum svo umburðarlynd, svo sakar ekki að bæta inn "smá" þjóðernishroka að venju Forseta vors.  Eða hvert er það siðferði sem hefur skapað okkur Íslendingum sérstöðu?   Það væri gaman að vita það.  Kannski að gleyma sem mestu af því liðna eins og Forsetinn stundar, aldrei að biðjast afsökunar?  Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var; eins og Jesaja spámaður sagði.  Nú hef ég nýtt fyrir stafni það fer að votta fyrir því, sjáið þér það ekki?


"Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar við horfum því miður á öfgahópa annarra trúarbragða víða um veröldina efna til ófriðar og jafnvel aftöku á fólki að gleyma ekki að það umburðarlyndi, sá skilningur, það siðferði, sem hefur skapað Íslendingum sérstöðu, á allar sínar rætur, á allar sínar rætur í þeim boðskap og þeim styrk og þeirri bæn sem kristnin hefur fært þessari þjóð um aldir.


Það má segja það að bænaefnið sem vakið hefur töluvert umtal er sú furðulegasta samsuða sem ég hef upplifað.  Maður verður miður sín að glugga í þessu.  En um leið ef þú lest textann nákvæmlega styður hann við íhaldssöm öfl samfélagsins. Okkur er færður boðskapur að ofan,  við erum full af synd og iðrun og eigum að falla fram.  Ég vona að fólkið sem tekur þátt í þessu verði uppnumið og sælt.

En varla sameinar það þjóð vora.    










laugardagur, 27. september 2014

Framsókn: Hatur á hinu opinbera

Merkilegt að fylgjast með fólkinu sem hefur tekið völdin í Framsóknarflokknum.  

Framsóknarflokkurinn var hér á árum áður hinn dæmigerði bændamiðflokkur sem studdi við bakið á sínu fólki í sveitum landsins.  Svona flokkar voru til um alla lýðræðis-Evrópu og jafnvel
líka í SovétEvrópu.  Framsóknarflokkurinn var til dæmis með töluverð samskipti við bændaflokka í Austur-Evrópu sem var deild í Kommúnistaflokkum.   Fóru í boðsferðir í austur alveg eins og sósíalistar í Sósíalistaflókknum og Alþýðubandalagi. Tíma- Tóti skrifaði ferðasögur úr austrinu í Tímann. 

En síðan fékk Framsókn samkeppni frá Vinstri sósíalistum um fylgin í sveitunum og stuðning við landbúnaðarkerfið, meðan forysta Framsóknar sótti inn í útgerðaraðalinn.  Samanborið hagsmuni Halldórs Ásgrímssonar þar.  Loks tók forystan fullan þátt í uppbyggingu Nýfrjálshyggjunnar með helmingaskiptum við Sjálfstæðisflokkinn.  Þar sem Finnur Ingólfsson og Þórólfur á Sauðárkróki og Gunnlaugur Sigmundsson eru dæmigerðir fulltrúar.  

Umræðan um MS seinustu viku sýnir þörfina á uppstokkun á þessu samtryggingarkerfi sem allir flokkar nema Samfylkingin hafa leikið hlutverk, xB xV xD, ekki gleyma hlutverki Sjálfstæðismanna þessari uppbyggingu.  Ég heyrði Steingrím Jóhann ræða þetta í útvarpinu, með tilliti til stöðu Vinstri Grænna,  þetta var allt svo flókið, það finnst mér vera dæmi um að ekkert eigi að gera.  

Svo er ný kynslóð komin til sögunnar í Framsókn, sem hefur sýnt sig smátt og smátt sem fulltrúa nýfasisma, gegn útlendingum, sjúklegt hatur á hinu opinbera, nema þegar hægt er að nota það sjálfum sér til framdráttar. Sér aldrei neitt nema eigin hagsmuni.  Það er óhugnanlegt að hlusta á yfirlýsingar forystunnar.  Í hverri viku kemur eitthvað nýtt frá elítunni, hvort sem hún er edrú eða ekki.   

Það er sorglegt að sjá þegar fólk kann ekki fótum sínum forráð á opinberum vettvangi,  skandalíserar og sýnir sínar furðulegustu hliðar.  Sem í öðrum löndum þýddi afsögn og ærusviptingu. Eins og Lekamálið sýnir okkur.  Í Framsóknarflokknum finnst mönnum svona vinnubrögð töff.