Það er erfitt að þóknast þessari þjóð hugsa stjórnarþingmenn um þessar mundir, og ráðherrar líka. Þeir sem héldu að nú kæmi að gleðidögum, þegar öll þjóðin myndi hoppa upp í fang meirihlutans á Alþingi. En því miður var margt enn sem þjóðinni fannst að ætti eftir að gera. Sumir vilja fá alla hluti strax; geta ekki beðið í nokkur ár eftir að fá nýjan Landsspítala, finnst
ekki koma nóg upp úr buddunni eins og öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Sem halda að ríkisstjórnin eigi nóg fyrir launum alls kyns hátekjuhópa eins og lækna og tónlistarkennara. Svona hópar sem eiga auðvitað að vera á frjálsum markaði þar sem réttlætið eitt ríkir. Þar sem hinir óhæfu myndu hrökklast fljótt úr starfi, jafnvel til útlanda.
Alltaf eru einhverjir sem vilja eyðileggja ánægju og gleði hinna gjafmildu, sem dreifa lækkunum yfir lýðinn eins og Egill dreifði silfrinu forðum daga.
Og nú kveinka Vigdís Hauks og Pétur Blöndal unddan beittum skotum Öryrkjabandalagsins.
Kveinka sér undan beinni upptöku og vilja afsökunarbeiðni. En hvað hafa þau í gegnum árin sagt og látið hafa eftir sér. Það væri þá ansi löng buna afsakana sem koma ætti frá þeim. Þótt Vigdís ætti þar vinninginn þó á margfalt styttri tíma sé en Pétur.
Vigdís Hauks og Pétur fá ekki afsökunarbeiðni
„Þau eru bæði stjórnmálamenn, Pétur búinn að vera lengur í þessum bransa en Vigdís og vita hver ábyrgð þeirra er. Þau eru kjörin til áhrifa. Þau sögðu þetta og þetta var tekið upp. Þau vissu um upptökuna og það er ekkert óeðlilegt að við höfum eftir þeim og spilum það sem þau hafa sagt,“ sagði Ellen og bætti við að auglýsingin hafi verið lítið sem ekkert unnin.
Vigdís er eflaust búin að gleyma rosagusunum sem stóðu út úr henni þegar seinasta stjórn var við völd. Hún skildi þá ekki hvað 200 milljarðar voru miklir peningar hvað þá 300. Hún hefur kannski lært eitthvað í fjárlaganefnd upp á síðkastið. Pétur hefur örugglega meiri vit á fjármálum, enda hefur hann komið ár sinni vel fyrir borð. En grunnhugsun hans er alltaf vald fjármagnsins yfir öllum sviðum þjóðlífsins. Allt verður að lúta valdi þess.
Það eru fáir snillingar tungunnar í flokki Péturs um þessar mundir, ekki er Bjarni formaður þar framarlega, Björn Bjarnason opnar vart munninn án þess að hreita ónotum í magnaða starfsmenn RÚV. Styrmir búinn að koma sjálfum sér í landráðaskútuna Stasi.
Eini verulega góði penninn er búinn að stofna annan flokk. Mikið er grein hans í Herðubreið skemmtileg. Henni lýkur svona og betra er ekki hægt að gera, húmor og manngæska fara þar vel saman, Benedikt er betri maður í mínum huga eftir þennan lestur:
Þarna var auðvitað hópur af skemmtilegu fólki sem ég þekkti mismikið eins og gengur. Sumir spurðu hvort ég ætlaði að stofna flokk. Þegar ég sagðist búast við því spurðu aðrir hvenær ogég sagði fyrir næstu kosningar. Friðrik Sophusson spurði þá hvort við ætluðum að bjóða fram. Mér datt í hug að segja nei, þetta væri ekki svoleiðis flokkur, heldur bara flokkur til þess að stofna, en af því að ég er vel upp alinn sagðist ég líka vænta þess.
Allt í einu kom systir Magga á sjónarsviðið og spurði hvort ég væri ekki Benedikt Zoega og eftir að ég jánkaði því sagði hún að ég hefði ekkert breyst. Ég var auðvitað glaður yfir því að hún þekkti mig.
Þegar ég þakkaði henni fyrir sagði hún að ég ætti að segja að hún hefði ekki breyst heldur, en það gat ég ekki, því að hún var þrettán ára þegar ég sá hana síðast. Svo spurði hún hvað ég gerði.
Mér vafðist tunga um tönn.
Friðrik stóð enn við hliðina á mér og einhver spurði hvort hann væri líka í Viðreisn.
„Nei, ekki enn“, svaraði ég, „en afkomendur hans eru allir stuðningsmenn.“
„Það er nefnilega það“, sagði Friðrik. „Þá verður þetta fjölmennur flokkur.“