mánudagur, 21. mars 2016

Seðlabankastjórinn og Fjármálaráðherra:Vinir í raun?

Seðlabankastjóri hefur ástæðu til að vera ánægður með eftirlit sitt með efnahagsstöðu okkar í dag.   Margt gengur okkur í haginn.  En samt er oft forgangur sem stjórnvöld velja furðulegur.  Svo má ekki gleyma að þetta byrjaði ekki með þessari ríkisstjórn heldur með óvinsælum aðgerðum vinstri stjórnarinnar sem hún varð að gjalda fyrir í kosningum, niðurskurður sem varð til þess að flýta fyrir efnahagslegum bata.  Sem hægri stjórnin hrósar sér af í dag:

Þegar við komum nú saman til 55. ársfundar Seðlabanka Íslands er staða þjóðarbúskaparins að mörgu leyti góð. Það er fyrsti ársfjórðungur ársins 2016 og hagvaxtarskeiðið hefur varað frá öðrum ársfjórðungi ársins 2010 eða í sex ár. Ætla má að landsframleiðslan í þessum ársfjórðungi sé orðin ríflega 4% meiri en hún varð mest fyrir kreppuna. Slaki hefur snúist í spennu og við búum við fulla atvinnu, og kannski gott betur. Öfugt við mörg fyrri tímabil fullrar atvinnu er bæði ytra og innra jafnvægi þjóðarbúskaparins enn þokkalegt.

Seðlabankastjóri og fjármálaráðherra virðast starfa vel saman þótt sá síðarnefndi hafi reynt að losa sig við Seðlabankastjórann, þótt hann hafi ekki getað það vegna þeirrar virðingar sem Már nýtur á alþjóðavettvangi Fjármálaheimsins. Það er því skrítið að ríkisstjórnin nýti sér ekki þessa góðu skuldastöðu til þess að setja kraftinn í Heilbrigðiskerfið að koma upp Ríkisspítala á góðum hraða (ég minnist nú ekki á broðhlaup Forsætisráðherra suður í Garðabæ).  Í leiðinni væri ekki amalegt að setja arðgreiðsluskatt á ofurgróða banka og fyrirtækja. Og forystumaður ferðamála var svo góður að gefa til kynna að það kæmi til greina að Ferðaþjónustan borgaði smáskatt!!!!   

Á síðustu misserum hafa orðið mikil umskipti varðandi hreinar erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar. Nýlega voru birtar fréttir af því að þær hefðu verið 14½% af landsframleiðslu í lok síðasta árs og að fara þurfi aftur til síldaráranna á sjöunda áratug síðustu aldar til að finna dæmi um sambærilega skuldastöðu.

En Seðlabankastjóri varar okkur líka við mistökum sem við höfum of oft lent í þegar pólitískir ofurgossar sjá næstu kosningar nálgast.  En Seðlabankinn hefur nú líka gert sín mistök það er skrítið hversi stýrivextir þurfi endalaust að vera í hæstu hæðum.  Það þurfa allir að hugsa sinn gang. Lífið er ekki einfalt og hroki og heimska eru oft stutt undan.  Svo það er gott að huga að því að við getum öll lært hvert af öðru.  Eða hvað? 

Við höfum að undanförnu notið góðs af alþjóðlegri þróun en ekki er víst hversu lengi það verður og hún gæti snúist okkur öndverð. Þá sýnir sagan að okkur hættir til að gera mistök í hagstjórn í uppsveiflum og túlka tímabundna búhnykki sem varanlega. Ef sú saga endurtekur sig gæti innlend eftirspurn og verðbólga risið hærra en hér er gert ráð fyrir. Við verðum því að vera á varðbergi og vanda okkur við þær ákvarðanir sem framundan eru.

laugardagur, 19. mars 2016

Traust: Siðleysið er herra svo margra

Góður pistill sem ég skammast mín ekki að vitna í. Hringbraut er oft beittur frétta miðill. 
Við lifum furðulega tíma á Íslandi. Það er því gott að vitna í gott efni og halda valdamönnum við efnið. 
Siðleysið er herra svo margra, þýlyndi ræður ríkjum.

-----------

Stundum hef ég rifjað það upp þegar afi minn, sællar minningar, sagði við mig að þrennt væri mikilvægast í lífinu; að vera bjartsýnun, ná sér í góða konu og kjósa Framsóknarflokkinn. Þar væri komin sannkölluð uppskrift að lífinu.
Því er á þetta minnst að næstum tveimur kjörtímabilum eftir allt heila efnahagshrunið á Íslandi sem rakið er til ofsafenginnar græðgisvæðingar og arðgreiðslu-bónusa-bakherbergisbix, eru stjórnmálamenn farnir að sverja af sér skattaskjólin ... nefnilega, ekki bankamenn lengur, heldur stjórnmálamenn, já æðstu stjórnendur landsins.




-----------

Farsi? Nei, raunveruleiki.
Suður-Ameríka? Nei, Ísland.
Og á meðan annar sver fyrir að kona hans sé ekki hrægammur, segir hinn að vel megi vera að fleiri ráðherrar hafi leitað á náðir þessara skjóla úti í heimi sem eru þeirrar náttúru að hámarka arð og lágmarka skatt til samhjálparinnar heima fyrir.
Næstum tveimur kjörtímabilum eftir hrunið sitja Íslendingar sumsé uppi með stjórnmálamenn sem vilja að almenningur ávaxti sitt pund á heimaslóðum með einangruðum og ósjálfstæðum gjaldmiðli sem hefur rýrnað um 99,95% á fullveldistímanum á meðan þeir sjálfir vilja ekki sjá það að hafa allan fjölskylduauðinn á sama stað, en velja honum fremur skjól í annarri mynt og minni sköttum. 
Og þessum sömu mönnum finnst það ósköp eðlilegt að halda svona mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir þjóð sinni í meira en heilt kjörtímabil, upplýsingum sem varpa alveg nýju ljósi á þátttöku þeirra í helsta pólitíska úrlausnarefni síðustu ára.
Traust!
Það er jafn stutt orð og það er innihaldsríkt.
Merking þess er auðsæ.

Þorskur, langa, rauðspretta og skötuselur

Hann var góður Þorskurinn sem ég fékk heima hjá mér í gærkvöldi
í dásamlegri suðrænni sósu með hrísgrjónum og salati. Ég er alveg viss um að ég var ekki að snæða aðra tegund af fiski. Mér finnst Langa góð en það er ágætt að vita að maður er að borða löngu.



Það eru víða sem maður fær góðan fisk í veitingahúsum í Reykjavík.  Best er alltaf að koma á Þrjá Frakka, eindæma góð þjónusta.  Viðkunnanlegt þröngt umhverfi.  Við fengum okkur rauðsprettu (ég) og skötusel með humri (konan), konan sagði að vísu að skötuselurinn hefði verið ansi þurr, en rauðsprettan var dásamleg.  Gaman að sjá fullt hús af fólki í miðri viku mest ferðamenn að sjálfsögðu, við komum af fyrirlestri upp í Háskóla og datt í hug að fá okkur í gogginn í tilefni af afmæli mínu, komum fyrir klukkan sex og fengum borð strax en um 7 leytið var allt troðfullt.

Góðar fréttir vikunnar ( engin Tortóla ævintýri eða tryggingabrask hjá mér) Ó nei. 

fimmtudagur, 17. mars 2016

Ástir og þögn samlyndra hjóna.


Þetta félag hefði alltaf verið öllum ljóst sagði vinur hans Utanríkisráðherrann.   Formaður hins stjórnarflokksins vissi það ekki.  Öllum ljóst. Það þykir orðið sjálfsagt í stjórnmálum að ljúga.  Ætli það sé sjálfsagt að eiginkona æðsta valdamanns þjóðarinnar sé með peninga í skattaskjóli,
og segi svo að hún hafi alltaf greitt skatt af öllu á Íslandi.  
Og segir ekki frá því fyrr en í nauðir rekur.  Enginn annar er til frásagnar.  Nema helst eiginmaðurinn sem talar ekki við fjölmiðla, hann  gæti talað af sér.  Nema hann hafi ekki vitað af þessu.  Ætli það sé betra. Allir aðrir eru bundnir trúnaði. Þögnin er gulls ígildi.


Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sagði að þetta félag hefði alltaf verið öllum ljóst og aldrei hefði verið reynt að fela það.  Hann benti enn fremur á að eiginkona forsætisráðherra væri ekki opinber persóna. „Ég get ekki skilið að draga maka okkar inn í þingið,“ sagði Gunnar Bragi - reglur um hagsmunaskráningu þingmanna væru mjög skýrar og menn yrðu bara að horfa til þeirra. „Menn eru bara að reyna að skaða forsætisráðherra.“ (RUV)

miðvikudagur, 16. mars 2016

Hjónin í Sviðsljósinu og spillingin

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega áhugasamur um einkalíf annars fólks en þegar annað fólk fera að kvarta yfir því að það sé verið að ræða um það út í bæ, þá vil ég fá að vera með. Hvað er fólkið að segja út í bæ?  Ég er orðinn spenntur.  Svo ég varð að vita meira og fletti blöðum. 

Ég sé að þessi kona hefur geymt eignir sínar  á Bresku Jómfrúareyjum, og þær virðast töluverðar.  Ég sé líka að hún hefur ekki svarað fjölmiðlum sem hafa spurt um eignir hennar í útlöndum.  Vefmiðillinn Kjarninn upplýsti í dag að hann hefði ítrekað óskað eftir upplýsingum um
hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eða fjölskyldu þeirra, ættu eignir erlendis.  Af hverju ætli hún sjái þörf á því að birta upplýsingarnar núna?  Ætli sé eitthvert samband milli afstöðu ríkistjórnarinnar í kaupum á skattaupplýsingum erlendis frá, furðulegra yfirlýsinga fjármálaráðherrans og þessara eigna forsætisráðherrahjónanna.  Á aðstoðarmaður forsætisráðherra að svara fyrir hönd konu forsætisráðherrans?   

Nú veit ég ýmislegt um ástir samlyndra hjóna út í bæ. Þar sefur ýmislegt í djúpinu.  En oft er það þannig að það rís úr djúpinu. Músin sem læðist er oft fönguð á endanum.  Þetta kallast víst ekki spilling. Ó nei.

Hérna er bréf konunnar sem vill ekki vera í sviðsljósinu.

Ég hef aldrei haft áhuga á að vera í sviðsljósinu á neinn hátt. En ef fólk vill endilega tala um mig þá er bara best að það hafi staðreyndirnar réttar.
Ég á erlent félag sem ég nota til að halda utan um fjölskylduarfinn minn. Það heitir Wintris Inc. og er skráð erlendis því þegar það var stofnað höfðum við búið í Bretlandi og óljóst hvort við myndum búa þar áfram eða flytja til Danmerkur.
Félagið var stofnað til að halda utan um afrakstur sölu á hlut mínum í fjölskyldufyrirtækinu og bankinn sem ég leitaði til taldi einfaldast að stofna erlent félag um eignirnar svo þær væru vistaðar í alþjóðlegu umhverfi og að auðvelt yrði að nálgast þær hvar svo sem búseta okkar yrði. Ég lét bankanum eftir framkvæmdina en gerði það að skilyrði að allir skattar væru greiddir strax á Íslandi.
Það var því strax gerð grein fyrir öllum tekjum af sölunni og félagið hefur því frá upphafi verið skráð 100% í eigu minni á Íslandi, verið talið fram á skattframtölunum okkar Sigmundar hér heima og allir skattar verið greiddir samkvæmt því. Tilvist félagsins hefur því aldrei verið leynt. Auk þess hafa skattgreiðslurnar komið fram reglulega í blöðunum þegar álagningarskrárnar eru birtar. En þó við séum samsköttuð eru eignirnar samt sem áður mínar og eru skráðar í samræmi við það.
KPMG hefur haldið utan um skattamálin fyrir mig og mér hefur frá upphafi verið mjög mikilvægt að þau séu í fullkomnu lagi. Það var því aldrei frestað neinum skattgreiðslum eða neitt þess háttar þó að möguleikar væru til þess samkvæmt lögum.
Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fygldi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið. Félagið var því frá upphafi rétt skráð á Íslandi og hélt utan um séreign mína. Skráningin úti og leiðrétting hennar hafði því engin eiginleg áhrif.
Ef þetta er ekki nóg fyrir einhverja þá er ég líka undir sérstöku eftirliti skv. EES reglum til að tryggja rétt skattskil þar sem gilda sérstaklega strangar reglur um þá sem tengjast stjórnmálamönnum. Þar sem ég er ekki sérfræðingur í viðskiptum þá hef ég áfram haft fjölskylduarfinn í fjárstýringu hjá viðskiptabanka mínum í Bretlandi og þar eru gerðar sérstakar kröfur til mín og þeirra sem mér tengjast vegna þessara reglna. Frá því að Sigmundur byrjaði í stjórnmálum hef ég beðið um að ekki sé fjárfest í íslenskum fyrirtækjum til að forðast árekstra vegna þess.
Ég treysti á ráðgjöf fjármálamanna á árunum fyrir hrunið og eins og margir aðrir þá tapaði ég töluverðu fé á bönkunum, meðal annars vegna þess að þeir fjármögnuðu sig með eignum viðskiptavina sinna. Þar er ég í sömu stöðu og fjöldi annarra Íslendinga. Það er alveg ljóst að ég sit uppi með það tap og hef aldrei gert ráð fyrir að fá það bætt. Ég er engu að síður vel stæð fjárhagslega og hef því enga ástæðu til að kvarta í samfélagi þar sem við höfum horft upp á marga takast á við mikla erfiðleika.
Ég vinn ekki við pólitík og Sigmundur ekki við fjárfestingar. Við höfum haft mjög skýra reglu á því hvernig við aðskiljum þessa hluti, bæði gagnvart stjórnmálastarfinu og gagnvart okkar einkalífi. En augljóslega styðjum við hvort annað eins og hjón gera.
Ég veit að í pólitíkinni og umræðunni í kringum hana er allt gert tortryggilegt og í því andrúmslofti sem er í dag er það mjög auðvelt, ekki síst þegar kemur að fjármálum. Þess vegna er bara ágætt að þetta sé allt skýrt. 
 Endurskoðandi hennar er fenginn til að gefa út yfirlýsingu um skattframtöl hennar, við landar hennar treystum endurskoðendum svo vel og höfum góða reynslu af þeim.

„Verðbréf, skráð í eigu Wintris Inc. á hverjum tíma, hafa verið færð til eignar á skattframtölum þínum frá og með tekjuárinu 2009. Á skattframtali vegna tekjuársins 2008 var færð til eignar krafa á Wintris Inc. sem nam framlögðu fé þínu til félagsins.
Allan eignarhaldstíma þinn á Wintris Inc. hafa skattskyldar tekjur af verðbréfum, skráðum í eigu félagsins, verið færðar þér til tekna á viðkomandi skattframtali eftir því sem tekjurnar hafa fallið til.“


mánudagur, 14. mars 2016

Sigmundur Davíð í uppnámi

Æðsti valdamaður þjóðarinnar er snillingur að setja allt í háa loft.  Hann er með heimsmet í því. Hann safnar heimsmetum.
Nú er Landspítalinn floginn á Vífilsstaði.  Það liggur ekkert á að fá nýjan spítala, 83.000 manns skipta engu máli.  Hvað heldur hann að það taki langan tíma að hanna annað sjúkrahús? Það skiptir engu máli.  Hann er með hugmyndir, við erum líka með hugmyndir, en við þörfnumst sjúkrahúss sem fyrst. Við þurfum ekki fleiri hugmyndir. Við þurfum framkvæmdir.





Háskólinn titrar af seinustu útspilum meistarans. Sjálfstæði Háskólans einskis virt. Ráðherrann ætlar að taka yfir friðlýsingar landsins. Hann veit ýmislegt um skipulagsmál það gera líka fleiri.  En við viljum hafa lýðræði.  Við horfum á of marga valdamenn sem framkvæma og vita allt betur.  Þeir hafa komið heiminum á heljarþröm, við þurfum ekki fleiri. 

Vegna viðbragða rektors og þjóðminjavarðar við yfirlýsingu sem við
undirrituð sendum frá okkur 11. mars síðastliðinn um nýjan
samstarfssamning Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns tökum við eftirfarandi
fram: Fullyrðing þjóðminjavarðar um að samningurinn í núverandi mynd hafi
verið kynntur yfirstjórn Þjóðminjasafns og samþykktur af henni stenst
ekki, eins og mætti sannreyna með því að skoða fundargerðir
framkvæmdaráðsfunda. Samningurinn var vissulega kynntur háskólaráði, sem
þjóðminjavörður situr í, en það breytir því ekki að lokagerð hans var
hvorki kynnt í samstarfsnefnd Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, þar sem
við sátum, né heldur kynnt yfirstjórn Þjóðminjasafnsins með formlegum
hætti. Við samninginn hefur bæði verið bætt fjölmörgum atriðum og öðrum
breytt sem við höfum aldrei lýst fylgi við og sáum aldrei fyrir undirritun
og fengum ekki tækifæri til að ræða á fundum.
 
Okkur sem vorum fulltrúar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands í
samstarfsnefndinni var ætlað að gera hinn nýja samstarfssamning. Við
héldum opinn samráðsfund með starfsmönnum og stúdentum innan Háskóla
Íslands og starfsmönnum Þjóðminjasafns, vel sóttan og vel heppnaðan. Úr
fram komnum hugmyndum og tillögum unnum við á fjölmörgum fundum með
tilstyrk tveggja sviðsforseta og setts þjóðminjavarðar. Við töldum að við
hefðum komist að ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla sem málið snertir en
það var þá hrifsað úr höndum okkar og okkur ýtt til hliðar
án nokkurra skýringa. Við fullyrðum að við hefðum kosið að bera lokagerð
samningsins undir samstarfsmenn, og þar með stúdenta, en til þess gat
aldrei komið.
 
12. mars 2016
 
Bryndís Sverrisdóttir
Helgi Þorláksson
Sigurjón Baldur Hafsteinsson
Steinunn Kristjánsdótti
 

 
 

föstudagur, 11. mars 2016

Einkarekstur,Ofurgróði: Almenningur borgar

Hjallastefnan í uppnámi.  Fjöldi lykilstarfsmanna yfirgefur Margréti Pálu.  Vonarstjarna einkareksturs í skólakerfinu missir tökin.  Eða hvað?  Stundin fjallar um þetta í dag. 

Fjöldi fólks hefur sagt upp störfum hjá Hjallastefnunni eftir að Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, ákvað að stíga aftur inn í stjórn félagsins. Auk stjórnar Hjallastefnunnar og framkvæmdastjóra ákváðu fjármálastjóri, starfsmaður á rekstrarsviði,
verkefnastjórar á grunnskóla- og leikskólasviði og nokkrir starfsmenn í skólum að segja upp þegar ákvörðun Margrétar Pálu lá fyrir. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, segir að stjórnin hafi ákveðið að stíga til hliðar vegna áherslumuns við aðaleiganda og að hún hafi ákveðið að fylgja stjórninni.

Ríkisstjórnin hefur verið ansi höll undir hugmyndir um einkavæðingu í heilbrigðis og menntakerfinu. Framsóknarflokkurinn hefur gefirð Sjálfstæðisflokknum frjálsar hendar þar.  Útþensla Hjallastefnunnar hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Mikið tap seinasta árið og varla annað fyrirsjáanlegt svo Margrét Pála aðaleigandinn stígur inn sjálf, hættir með miðstig grunnskólans.  Þetta sýnir enn á ný að einkavæðing er erfið í menntakerfinu.  Einu stofnanir sem hafa staðið sig eru Skóli Ísaks Jónssonar og Tjarnarskólinn.  Öllum er í fersku minni örlög og undanskot fjármuna hjá Hraðbrautinni.  Margrét Pála er staðráðin að rétta þetta, hún fær örugglega góða hjálp Menntamálaráðherra. Eða hvað?

Heilbrigðiskerfið virðist bjóða upp á betri tækifæri fyrir ofurgróða.  Eins og dæmin sanna.  Sjúklingarnir borga góða viðbót við það sem kemur frá Sjúkratryggingum, þar er forstjóri góður fylgismaður einkaframtaks Steingrímur Ari, svo fjármunir renna þaðan endalaust án nokkurra óþægilegra spurninga, meðan annars staðar ríkir ofurstjórn.  Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er ekki boðið upp á viðráðanlega þjónustu fyrir meðal Íslending í því kerfi.  Fólk sem lendir í erfiðum og lífshættulegum sjúkdómum þarf að punga út hundruðum þúsunda.  Þetta kerfi er heldur ekki að byrja hjá Kristjáni Þór, vinstri menn hafa algjörlega brugðist í þessum málaflokki og koma alltaf af fjöllum þegar rætt er um þetta þegar óþægileg dæmi koma upp.  Sama hvort Álfheiður, Ögmundur eða Guðbjartur voru ráðherrar.  Við borgum langt umfram það sem tíðkast  í nágrannalöndum okkar.  Svo gróðatíkur íhaldsins fá örugglega að halda áfram að hala inn milljónum.  

Eflaust verður fjárhagskerfinu breytt í menntakerfinu svo arðurinn velti þar inn líka.  Sjáum hvað gerist.