mánudagur, 25. september 2017

SDG: Hann er upprisinn

Hann er upprisinn, sögðu þau hann er upprisinn.  Karlinn sem enginn hafði ná sambandi við. 
Svo birtist hann loks á skjánum.  Ábúðarfullur,  fullur af sannleika.  Sex sinnum, ég sagði sex sinnum var reynt að leggja hann í hina pólitísku gröf en þar heyrir enginn í manni, moldin hylur vitin, lokið er vandlega skrúfað ofan á kisuna.Enginn heyrir gullkornin sem streyma frá honum.   Það er allt gert til að stöðva hann, snillinginn, hugsuðinn, karl hreinleikans, fjölskyldumanninn, þann sem gerði ekkert af sér, átti enga fjármuni á suðlægum ströndum og eyjum, Hann sem var hrakinn frá völdum á svo óréttlátan hátt.  Hann gerði ekkert rangt!

Fíllinn í glerbúrinu, hann er búinn að fá einn fyrrverandi þingmann með sér, ein þann versta sem komist hefur á þing.   Kannski koma þeir fleiri, ég bíð spenntur eftir Vigdísi Hauks, ungir drengir og stúlkur vilja vera með hinum þungstíga meistara.  Fólk sem heldur að allt sé leyfilegt, hafa týnt siðferðisrammanum eða eru ekki búin að þróa hann upp með sér.  Það vill fara með honum á sæluslóðir, það vill bjarga okkur hinum úr klóm Íhaldsins eða Öfganna.   Undir leiðsögn hins misskilda stórmennis.   

Ekki er við bætandi að fá einn spillingarflokkinn í viðbót, sem vill að við sjáum hversu flóttamenn eru hættulegir fyrir þjóð okkar og menninguSem vill hreinsa ósómann úr vitum okkar.  Lyktina af fólki sem er að flýja styrjaldir og óstjórn þar sem ekki er líft lengur.  Stríð sem við eigum oftan en ekki þátt í með bandamönnum okkar í hernaðarbandalagi.   

Aldrei þessu vant hefur Morgunblaðið verið með upp á síðkastið viðtöl og kynningar á flóttafólki sem sýnir margbreytileika þess og  lífsvilja við ótrúlega erfiðar aðstæður. Sem vill fórna miklu að koma fjölskyldum sínum í skjól fyrir hörumungum heims.   Getum þess sem vel er gert.  Það er þörf á því í skilningleysi og mannsvonsku margra samlanda okkar.      

Svo vonandi verður endurkoma Sigmundar Davíðs ekki til að auka óró og dapurleika þjóðlífs okkar..  Nóg eru vandamálin fyrir.      





þriðjudagur, 19. september 2017

Smáflokkar SMALL IS BEAUTIFUL

Kaldhæðnislegt, að hlusta á Bjarna Benediktsson, kenna öllum nema sjálfum sér um stjórnmálaástandið á Íslandi. Það eru smáflokkarnir sem eru sökudólgarnir. Það er ekkert sem heitir SMALL IS BEAUTIFUL hjá honum. Þeir litlu eru vafasamir. Þeir eiga helst ekki að vera til. 

Það er sorglegt að sjá blaðamenn éta þetta upp eftir þeim sem mest eiga sök á núverandi stjórnarkreppu. En það er Sjálfstæðisflokkurinn. Það var hann sem misbeitti valdi sínu og áhrifum til að hindra upplýsingaflæði að koma í veg fyrir að samflokkar hans í ríkisstjórn fengju að vita þegar óþægilegar fréttir bönkuðu harkalega Þá var allt gert til þess að að koma í veg fyrir aðvið almenningur, stjórnarandstaða eða samflokksaðilar í ríkisstjórn fengju að vita sannleikann. 

En hvers vegna verða Smáflokkar til? Er það af illsku og skepnuskap íslensku þjóðarinnar?  Misskilur hún stjórnvisku, Davíðs, Geirs og  Bjarna? Gæti ekki þessi blessaða þjóð bara fengið nóg. Af spillingu stóru flokkanna, xD , xB, jafnvel Samfylkingin fékk líka stimpilinn undir forystu Jóhönnu og eftirmanna hennar. Það er spillingareitrið sem skapar nýja flokka sem geta seinna orðið stórir. 

Kaldhæðnislegt, sagði ég og meina. Ætli það verði ekki Flokkur fólksins sem verði sá eini sem vill starfa með Bjarna og klíkunni hans,  en líklega nægir það varla. Þótt maður geri allt fyrir völdin. Jafnvel að vinna með fólkinu sem hefur fengið þá ranghugmynd að öll óhamingja þeirra sé til komin vegna flóttafólks sem hefur orðið að flýja heimkynni sín leggja upp í ferð þar sem fjöldi kemst aldrei á leiðarenda. Það er sorglegt. 




sunnudagur, 17. september 2017

Enn einn heimsfrægur forsætisráðherra

Við erum bezt enn sannast það. Forarpyttur! Það erum við. Forareðja.  En ..... munum hið fornkveðna, skilum skömminni þar sem hún á heima, fyrst og fremst hjá xD, svo hjá xB.

Af hverju þeir og ekki hinir? Þeir sköpuðu kerfi og andblæ spillingar. Einkavæðing banka, gjöf ríkisfyrirtækja. Allt var leyfilegt, er leyfilegt, koma fé undan skatti, Tortólaævintýrið varð til, allir aðrir feluleikir. Sigmundur Davíð varð heimsfrægastur allra. Nú tekur Bjarni við.

Kannski hefur þetta alltaf verið svona, þeir ríku, auðugu hafa alltaf litið á að allt væri leyfilegt. Ég á það ég má það. Síðan breiðist þetta yfir á aðra þætti samskipta og mannlífs.  Mér verður hugsað til kvikmyndar  hins nýlátna sænska meistara Hans Alfredsons ; Den enfaldige mördaren, þar sem Hasse lék óðals eigandann og skepnuna sem gerði allt sem honum sýndist í valdi þjóðfélagsstöðu sinnar. Þar til sá veikasti, sá aumasti, tók til sinna ráða. Skilaði skömminni. 

Gleymum ekki fórnarlömbunum þau eru víða, oftast hafa þau engan að halla sér upp að, engan   Trúnaðarmann. Nú er það okkar að segja :Nú er komið nóg.  Ef ekki.....





föstudagur, 15. september 2017

Eða hvað?

Það er margt að gerast erfitt að fylgjast með og enn mörgu ósvarað. Var Brynjar verjandi Hjalta? Kunningsskapur ýmissra furðulegur. Þögn margra ótrúleg. Hroki og hrun sumra fyrirsjáanleg. Spillingin og siðblindan engu lík. Alltaf á að fela óhæfuverk. Svo kjósa Íslendingar þetta lið í næstu kosningum! Eða hvað? Ísland ögrum skorið.




sunnudagur, 10. september 2017

Hlægileg sorgleg ríkisstjórn

Áður fyrr þurfti skemmtikrafta til að gera grín að pólitíkusum; til þess höfðum við Ómar Ragnarsson eða Jóhannes Kristjánsson, oft voru línurnar stuttar á milli hvað var gaman eða alvara, stundum urðu stjórnmálamennirnir að grínistum dæmi Guðni Ágústsson, eða grínistarnir urðu pólitíkusar dæmi Ómar eða ..... Davíð Oddsson.

Nú er öldin önnur, við höfum ríkisstjórn sem veldur hláturgusum, þegar trúðslætin eru sem mest,  þau vita ekki hvað þau eru fyndin, þótt flyssið breytist oft í andvarp eða örvæntingaróp. Þetta eru þrátt fyrir allt okkar æðstu stjórnvöld.

Fjármálaráðherra vor byrjaði samningaviðræður við launþega með því að boða til fjölmiðla fundar í vikunni.  Og segja um hvað ætti að semja! Ég hélt að þetta væru samningaviðræður.Að semja.  Og öllum finnst þetta vera í lagi.  BHM fagnar þessu. Allir eru ánægðir með þetta. Benedikt hlýtur að vera glaður.

Nema Bjarni Ben júníor. Hann vill hafa þetta allt í rólegheitum. Stjórnarflokkarnir eiga ná saman.Ástandið er svo gott alls staðar nóg af gulli.  Svo það er best að flokkarnir þrír nái saman um stefnu xD.  Ekki nota peningana í sjúkrahús, heilsugæslu, ellilíeyrisþega og öryrkja.  Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt, eins og þeir segja.

Frú Andersen dómsmálaráðherra heldur áfram vélbyssuorða skothríð sinni á landsmenn.  Meðan ráðherrabílllinn bíður.  Hún virðist aldrei hafa heyrt um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna enda eru þau samtök með öllu óþörf samkvæmt lögmálum Nýfrjálshyggjunnar.  Börn eiga að fara til landa sem þau hafa aldri komið til og kunna jafnvel ekki tungumálið.  Fólk virðist ekki vera annað en tölur eða tákn í hennar augum.  Dublinarreglugerðin er heilög.  Og ber að fara eftir. Ég hugsa að Írar yrðu miður sín ef þeir fréttu hvernig nafn höfuðborgar þeirra er misnotað  á skerinu í norðri.  Tveir stjórnarþingmenn eru óánægðir en hvað þýðir það. Gera þeir eitthvað?    

Óttar heldur áfram að vekja ótta í hugum landa sinna og veldur heilsuleysi.  Hann setur nefndir og ætlar að hugleiða ýmislegt meðan einkavæðingin skellur yfir okkur eins og Irma. Og rústar flokki sínum um leið. Og virðist finna það notalegt.

Já, það haustar á Íslandi.  Laufin falla til jarðar.  Draumarnir eru dapurlegir.






sunnudagur, 3. september 2017

Kísilverksmiðjur: Erum við rugluð?

Gleði og stórhugur. Alltaf sama mikilmennskubrjálæðið. Hverjum gat dottið í hug að reisa 2 sílikon verksmiðjur og eitt álver örstutt frá fjölmennri byggð? Aldrei hef ég séð fjallað um reynslu annarra þjóða af sílikon verksmiðjum í íslenskum fjölmiðlum. Áttu kannski reglur um heilbrigðisvernd og umhverfis að vera svo lakari hjá okkur? Vonandi verður ekki sama sagan fyrir norðan, á Bakka. Eitt Bakkabræðraævintýrið enn.

Verði stærsta kísilverksmiðja í heimi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók þátt í athöfninni. „Þetta er auðvitað mjög gleðilegur dagur því hér er verið að taka skóflustungu að verksmiðju sem stefnt er að því að verði sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Þetta er líka fyrsti áfanginn í mjög mikilli uppbyggingu um allt land þannig að þetta er mjög gleðilegur dagur.
Ragnheiður Elín Árnadóttir Iðnaðarráðherra segir að þetta sé stór dagur fyrir Suðurnesjamenn og Íslendinga alla. „Þetta er fyrsta stórverkefnið af þessu tagi eftir hrun. Við erum vonandi að sjá þetta sem táknmynd þess að hjólin eru farin að snúast aftur í rétta átt.“ 
RÚV 27.8. 2014




laugardagur, 22. júlí 2017

Ólafur H. Torfason nokkur orð



1.   
leiðsla
Inn á milli trjánna dökkra
haustsvartra ljós að baki
útlínur húss dimmblás kvöld
himinn sól undir hafsbrún

inn á milli trjánna myrkra
göngum við með ljós leiðarljós
sem leiða okkur lýsa um lauf-
slóð lífsslóð framundan ferð
á enda
                            leiðarenda
            2.
                        Ég kipptist við þegar ég las dánarfregn Ólafs H. Torfasonar, ekki hafði ég fylgst   með sjúkdómasögu hans, hvað þá að hann hefði barist í mörg ár við marga djöfla.
                        Ég hafði verið málkunnugur honum forðum, vegna áhuga á kvikmyndum og listum.   Við heilsuðumst þegar við hittumst á götu, þetta var viðkunnanlegur drengur.
                        En enginn má sköpum renna.  Hann var farinn að lýjast margir sjúkdómar herjuðu á honum, eins og svo margir kunningjar manns seinasta árið.  Átti erfið ár.

2.       
Ég á skemmtilega sögu.  Þegar ég og Vigfús heitinn Geirdal vinur minn fórum í heimsókn til Sveins Rúnars Haukssonar á níunda áratugnum .  Upp  á lofti hjá honum bjó Ólafur H. Torfason.
Það var eflaust margt spjallað þegar við heimsóttum Svein, sjaldan þögn.  En þegar við erum búnir að sitja og spjalla.  Þá sagði Sveinn:  Jæja, eigum við ekki að taka nokkur lög fyrir Óla og settist við píanóið,
lútherska sálma fyrir Ólaf kaþólikkan, við sungum með tilfinningu, þótt við hefðum ekki hugmynd um hvort hann væri heima, jú við heyrðum eitthvað brölt uppi.  Eflaust var þetta hollt fyrir hann, hvort sem hann heyrði eða ekki.  Kristilegu kærleiksblómin hafa ratað til hans.

3.       
Svo merkilegt var að seinasta mánuðinn hef ég verið að (endur)lesa ævisögur Péturs Gunnarsson þar svífur andi Ólafs víða yfir.  Þeir voru miklir vinir og heimili fjölskyldu Ólafs félagsheimili fyrir vini á skóláárum heima á Íslandi.  Þar er merkileg saga þegar Pétur, sem þá bjó í Frakklandi, sendi handrit að fyrstu ljóðabók sinni til Ólafs í Kaupmannahöfn,   og fékk umsögn til baka upp á næstum 200 síður í nokkrum bútum til baka.  Þetta var menntafólk sem tók sig alvarlega og hátíðlega.  Ég held að flestir vinir hans hafi búist við að Ólafur yrði rithöfundur með stórum staf en kvikmyndirnar áttu hans huga með tímanum.  Hann var einn af okkar bestu gagnrýnendum fyrir venjulegt fólk. 
Svona voru ungir andans menn í þá daga.  Og eru kannski enn. 

4.      Þótt maður sé orðinn sjötugur finnst manni að enn eigi maður mikið eftir.  En lífið  segir okkur annað.  Á seinustu mánuðum hafi margir farið yfir móðuna mikla, fólk sem maður ímyndaði sér að ætti mörg góð ár eftir.
Við stjórnum ekki lífinu með góðum hugsunum, það er erfitt að sjá að baki góðu fólki.  Og ég sendi kveðjur til ættingja og vina Ólafs H. Torfasonar. 



5. 
 

Tíminn
tíminn er naumur naumhyggja mín
tíminn og vatnið og vegurinn og leiðin
regnský kemur utan af vatni
inn á veginn yfir holtið fölt ræfilslegt
slóðinn yfir í næsta bæ grænkar
fyrst eins og oft áður
tíminn ég verð á undan honum naumlega en
sigra aldrei  tíminn er naumur nauðhyggja mín
ég tek sprett en sigra aldrei ekkert valfrelsi
ég er
tímalaus vísarnir horfnir tíminn skammtaður
tímabundinn tímareyrður þetta er mín
                                                          naumhyggja