þriðjudagur, 12. nóvember 2013

Aulahrollur: Stjórnmál og Sómatilfinning

Ég held að það sé kominn tími til að kveðja, íslensk pólitík, bless, adieu, au revoir .  Það er ótrúlegt hve óhugnanlegar mannvitsbrekkur hafa komist á þing.   Hefur þessi þjóð enga sómatilfinningu.  Eru þetta fulltrúar okkar. Hver kaus þá?

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti á Alþingi furðu sinni á því að meðaldagvinnulaun kvenna í Sinfóníuhljómsveit Íslands væru 111 þúsund krónum hærri á mánuði en meðaldagvinnulaun kvenna í lögreglunni. meðan voru meðaldagvinnulaun kvenna í Sinfóníuhljómsveit Íslands á sama tíma 416.960, eða 111 þúsund krónum hærri á mánuði. Ég held að það væri heiður að spila í einni flottustu sinfóníu heims og það væri dýrmætt fyrir frekari frama í tónlistinni. Einnig held ég að það væri dýrmætt að fá öflugar konur til að sinna löggæslustörfum, leggja sig í lífshættu, vinna dag og nótt undir álagi og erfiðum aðstæðum."

Ímyndið ykkur konur í sinfoníunni og konur í lögreglunni!!!!  Þessi piltur virðist aldrei hafa heyrt um samræmda launataxta karla og kvenna ( þótt i reynd sé þar víða pottur brotinn með aukagreiðslum). Hugsið ykkur konurnar þurfa full laun, það hvarflar ekki að honum að á bak við árangur sinfoníunnar okkar liggur áratuga nám og vinna allra, bæði karla og kvenna. 
Fara þarf yfir forgangsröðun ríkisins, sagði Vilhjálmur. „Menning og listir eru nauðsynleg en við höfum bara ekkert með það að gera meðan við tryggjum ekki öryggi okkar og heilsu."

Er þetta ekki sama ríkisstjórnin sem byrjaði á því að minnka tekjur ríkisins um nokkra milljarða svo útgerðarmenn hefðu meiri vasapeninga, að taka úr rekstrinum nokkur hundruð milljónir til að leika sér með, eða halda uppi Morgunblaðinu í stað þess að borga skatta og gjöld.  
Og karlinn sem studdi fyrrverandi stjórn í hádeginu og greiddi atkvæði gegn henn um kvöldmatarleytið orðinn hægri hönd Forsætisráðherra.  Auðvitað kauplaust.  Hann hefur svo mikinn áhuga að pranga upp á okkur hugmyndum sínum um betra mannlíf. 

Já, marga setur hljóða, aulahrollur, skrifaði  virtur tónlistarmaður okkar.  Aulahrollur,  það setur að manni vetrarkvíða.  Sem enginn veit hvenær mun enda.   

fimmtudagur, 7. nóvember 2013

Sigmundur Davíð: að skulda afsökun

Forsætisráðherrann upggötvar að að það eru ekki allir sem vilja lána okkur, við þurfum raunverulegan olíudraum til þess.Það er best að segja frá þessum austur á landi.  Lítið fer nú fyrir ræðunum þar sem fyrrum ríkisstjórn var kennt um allt, hún vildi ekki framkvæmdir hún vildi ekki lán.  Allt af mannvonsku og skepnuskap.  Nú hefur hann uppgötvað að veruleikinn er nær veruleika Jóhönnu og Steingríms. Það er gott.  En hvar er afsökunin fyrir öllu gasprinu seinustu árin. Er ekki kominn tími til að biðja afsökunar. Helst á hnjánum á miðju Alþingissalsgólfi ????? 

Svo heyrði ég í hádegisfréttum að við höfum fengið skýrslu, frá Forsætisráðherranum um skuldamálin okkar og verðtryggingarmálin, mikla skýrslu, um 10 starfshópa, ég sagði 10.  Þeir sem þurftu enga starfshópa, engar nefndir, þeir sem vissu nákvæmlega hvernig allt átti að gera, nú þurfa þeir nefndir og ráð. Svo 10 starfshópar eiga að skila miklu, langtum meira en 1 eða 2.  Eða hvað?   En ég hlakka til að fá niðurgreiðslur á lánum mínum.  Ég á lán sem ég borgaði 50 og eitthvað þúsund í upphafi nú greiði ég 113 þúsund.  Svo ég er einn af þeim sem bíð, líf mitt mun ekki gjörbreytast þótt ekkert verði að þessum breytingum.  Til þess hef ég aldrei treyst Sigmundi Davíð eða Bjarna Benediktssyni, þeir koma úr öðrum heimi en ég, þar sem þeir hafa fengið allt upp í hendurnar. Ég hef líka of oft heyrt þá segja ekki satt.
  
 

miðvikudagur, 6. nóvember 2013

Kaupþing og Krösus: Siðspilling


Verður flökurt að fylgjast með þessu siðlausa liði.  Margur verður af aurum api  á vel um þessar mannvitsbrekkur. Gott að hafa í huga sögurnar um Krösus.  Hvað er það sem veitir mesta hamingju? Ríkidæmi eða annað?  Nei, ég held maður vorkenni þeim.  

ruv.is

Fimm milljarða mútugreiðsla til Al Thanis


Óskaði ekki eftir láni


Kynntist Al Thani á skotveiðum


Fór til Katar til að hitta Al Thani

mbl.is


Lánið „mútugreiðsla" til Al Thani


Fengu ekki skýringar á láni






sunnudagur, 3. nóvember 2013

Gröndal og Kjarval : Álftanes og Bessastaðir

Álftanes, hefur aldeilis verið í fréttunum upp á síðkastið. Örnefnið Gálgahraun skartar nú táknrænni merkingu nútímans, baráttan við innantóma tæknihyggju prúðbúinna pólitíkusa og embættismanna.  Þar sem lífið er strik á korti og pappírsbleðlum.  Engin saga, engar minningar, engin fortíð.  Þeir virðast eiga í vök að verjast um þessar mundir þrátt fyrir gorgeir og útúrsnúninga.

Það er fróðlegt og skrítin reynsla að lesa lýsingu Benedikts Gröndal í Dægradvöl á lífi fólks og barna á Álftanesi fyrir tæplega 200 árum.  Bæði er það að skrásetjari var furðulega samsettur maður,  dómar um fólk eru oft á tíðum harkalegir og neikvæðir, lífið var líka ekki auðvelt, allir þurftu að táka þátt í því að draga björg í bú; svo er hitt að næmi hans sem skálds og náttúruunnanda gefur manni sýn á ótal margt í lífi 19. aldar fólks.  

Hann lýsir staðháttum og umhverfi í byrjun bókarinnar í þessum einstöku orðum þar sem stílsnilld og náttúrutilfinning ríkja:
„Garðahraun er partur af hinum stórkostlegu Reykjaneshraunum og eykur það landsfegurðina eigi lítið á sumrin, þar sem silfurgrár gamburmosi klæðir hvervetna hraunklettana, sumstaðar eins og stórir flákar, en sumstaðar í dældum og djúpsignum lautum, en í gjótunum vaxa ýms grös og jurtir og verða hávaxnar og sællegar, þar sem þær eru í skjóli fyrir öllum vindum og geta notið sólarinnar í næði: stórar brekkur með fagurgrænum laufaskurði bærast upi yfir fjólubláu lyfjagrasi og heiðgulum dvergasóleyjum; sumstaðar hallast einstaka jarðarber upp við grænan kúluvaxinn kodda, alvaxinn lífrauðu lambagrasi, en geldingahnapparnir eða gulltopparnir lúta fram yfir gjótubarmana, þar sem kóngulóin hefur dregið sínn smágjörva vef.  Sumstaðar mæna undarlega vaxnir hraundrangar upp úr grastóm og mosabingjum; á forntroðnum götustígum minna máðar steinbárur á eldvelluna, sem hefur áður verið rennandi og gljúp - sólskríkjur, steindeplar og maríuerlur fljúga til og frá og tísta við og við, annars heyrist hér ekkert hljóð, nema niðurinn frá Hraunholtslæk, þar sem hann fellur út í Arnarnessvog."  

Hér er hann auðvitað að lýsa hrauninu sem Hraunvinir hafa reynt að verja fyrir þrælum kerfis og auðmanna.  Rúmum hundrað árum seinna átti annar listamaður oft leið um þennan stað.  Hann hafði einnig þetta auga, þessa sýn.  Að sjá fegurðina, formin, litina  í hrjóstrugu landslaginu.  Hann átti stóran þátt í því að móta sýn okkar á fegurð landsins. Að skynja hið dásamlega í hinu grófa og fráhrindandi.  Það var Jóhannes Kjarval, við vorum minnt á þetta um daginn þegar verk hans af Gálgahrauni var selt á uppboði í baráttuvikunni.

Mikið var frjótt og menningarlegt mannlífið umhverfis Bessastaði á þessum tíma. þrátt fyrir fátækt og misjöfn kjör fólks.  Þarna varð til íslenskan eins og við þekkjum hana, þarna var upphaf að flestum fræðigreinum og listum.  Það var ótrúlegt hvað ungir karlar lögðu á sig til að læra tungumál og ýmis önnur fræði án skipulegrar menntunar.  Þess væri óskandi að svona mannlíf væri þarna enn til staðar.  Nú er sérgæzkan og eiginhagsmunir ríkjandi.  Valdahroki og græðgi ráða ríkjum, því er fátt sem hægt er að varðveita fyrir slíkum kújónum. 

Því miður. 




föstudagur, 1. nóvember 2013

LOU REED: Götuskáldið góða

Seint í gærkvöldi fletti ég rásunum á sjónvarpinu og kom inn á tónleika frá 2011 þar sem Lou Reed var enn á ferð einhvers staðar í Frakklandi, á útítónleikum. Ætli þetta hafi verið síðasta ferð hans til Evrópu?  Þetta var þreyttur maður á sviðinu, en hann vann sig upp úr þreytunni, var með gott ungt band, frábæran fiðluleikara og gítarleikara. Hann endaði á Cold Blue Eyes og túlkaði sjálfan sig þar guðdómlega.  Hann átti enn mikið til.  Ég táraðist. 

Ég veit ekki hvernig hann var í umgengni.  Margir áttu erfitt með hann.  Egóið var stórt. John Cale, félagi hans úr Velvet Underground, annar snillingur,  var í ástarhaturssambandi við hann.  Þeir komu saman aftur og gerðu minningarplötuna um  Andy Warhol: Songs for Drella ferðuðust um heiminn. Svo var það búið.  En svo fóru þau í lokatónleika uppúr 90 minnir mig.  

Lou var götuskáld, ansi margar eru sögur hans af fólki á mörkum, útgangsfólk, dópistar, samkynhneigðir, .  Lífinu í stórborginni, ungu fólki á villigötum, ekki má gleyma ástinni, hún var víða, þrátt fyrir allt. Harður hljómurinn í undirleiknum á fyrstu plötunum var í andstöðu við viðkvæmnislegar sögurnar af götunum.  En hann átti marga strengi. Við eigum eftir að koma til hans aftur og aftur. Berlín og Loaded voru mínar uppáhaldsplötur.  Svo voru einstök lög Sweet Jane, Rock n Roll music, Perfect day, Walk on the wild side. Og svo framvegis.  

Hann var lengi í sambúð með Laurie Anderson tónlistarkonu og fjöllistamanni og hún sendi út stutt minningarorð: 

To our neighbors:
What a beautiful fall! Everything shimmering and golden and all that incredible soft light. Water surrounding us.
Lou and I have spent a lot of time here in the past few years, and even though we’re city people this is our spiritual home.
Last week I promised Lou to get him out of the hospital and come home to Springs. And we made it!
Lou was a tai chi master and spent his last days here being happy and dazzled by the beauty and power and softness of nature. He died on Sunday morning looking at the trees and doing the famous 21 form of tai chi with just his musician hands moving through the air.
Lou was a prince and a fighter and I know his songs of the pain and beauty in the world will fill many people with the incredible joy he felt for life. Long live the beauty that comes down and through and onto all of us.
— Laurie Anderson
his loving wife and eternal friend  





fimmtudagur, 31. október 2013

Forsetinn og undirsátarnir í Stjórnarráðinu

Utanríkisráðherra enn á ferð.  Forsetinn enn á ferð. Það er sárt að horfa upp á þegar Forseti er farinn að unga út B-júklingum.  Sem hafa engar forsendur, hvorki menntun né yfirsýn að meta svo stórar og þýðingamiklar spurningar fyrir þjóðirnar.  Sem hafa í skjóli atgervisleysis síns afhent Forseta landsins mótun utanríkisstefnu sem honum er algjörlega óheimilt samkvæmt stjórnarskrá. 

Þar sem mótuð er stefna sem er langt utan nokkurs samhengis við hagsmuni okkar um þessar mundir.  Þar sem það lítur út fyrir að Kína eiga að taka við hlutverki Evrópusambandsins sem okkar aðalviðskiptaaðili.  Það er Norðurslóðastefna sem á að ríkja í anda forsetans sem er seinni tíma verkefni.  Halda á atkvæðagreiðslu um inngöngu í ESB án þess að klára samninga eða leyfa þjóðinni að skoða samning.  Hunsa á vilja Alþingis um viðræðurnar og tilbúinn samning.

  Utanríkisráðherann böðlast áfram, hlustar lítið á starfsmenn sína,  virðist tölvustýrður frá Bessastöðum.  Maður kannast við stýrivinnubrögð Forsetans frá fyrri tíð.  Það eru margir sem hafa komið nálægt honum í pólitísku sambandi en það stóða sjaldan lengi.  Hann er oft búinn að skipta um lið.  

Enginn frýr honum vits en valdagræðgin eykst með aldrinum.  Það er gott fyrir hann að hafa þjóna í utanríkis- og forsætisráðuneyti.  Það hefur hann aldrei haft áður.  Hann nýtir sér það til ítrasta.  

Hvað segja Sjálfstæðismenn um þetta.  Eru þeir ánægðir.  Er þetta í þeirra anda að Bessastaðir séu orðnir raunverulegt stjórnsetur landsins?   Er ekki Davíð kampakátur yfir ofurvaldi fjandvinar síns?   ORG búinn að ná völdum sem Davíð hafði aldrei.    


Gunnar Bragi: „Ég vona að Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið“ – Horfir til Kína

Ég vona að Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið. Það er ómögulegt að segja til um hvað gerist næstu 10 eða 20 ár, en að mínu viti er ESB að færast í þá átt að það verður sífellt óæskilegra fyrir Ísland að gerast aðili. Miðstýringin er að aukast, valdið er að færast frá fullvalda ríkjum til ókjörinna embættismanna.

Fríverslunarsamningurinn við Kína er okkur mjög mikilvægur. Kínverjar hafa áhuga á Íslandi og norðurslóðum og auðvitað á Ísland að notfæra sér þennan áhuga, rétt eins og Ísland notfærir sér áhuga annarra þjóða. Vonandi munu tengslin við Kína styrkjast. Það mun auðvitað gerast á okkar forsendum.

Of mikið gert úr hlutverki forsetans á sæstrengsráðstefnu í London

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að of mikið hafi verið gert úr ætluðu hlutverki forseta Íslands á ráðstefnu um sæstreng á milli Íslands og Bretlands sem haldin verður í London á morgun.

Norðurlönd: Glæsileiki og niðurskurður

Það var merkilegt að sjá ráðherra okkar spegla sig í glæsileik Norrænnar menningar, lista og umhverfismála á miðvikudagskvöld.  Þarna sátu þau prúðbúin og máluð og upplifðu rjóma atvinnustarfsemi sem verður ekki til án menntunar, vinnu og hæfileika. Munum um leið að þetta valdafólk okkar vill samkvæmt fjárlögum eyðileggja margt sem byggt hefur verið upp seinustu árin í þeim málaflokkum.  

Þessi norræni heimur er ansi merkilegt fyrirbrigði og þeir sem hafa aldrei og vilja aldrei horfa út fyrir hinn engilsaxneska fjölmenningarheim missa af miklu.  Það hefur verið tilhneiging seinustu árin að skera niður fjármuni til þessa samstarfs sem er slæmt mál. 

Ráðherrar okkar og þingmenn taka þátt í þessu samstarfi á okkar kostnað.  Það er dýrt.  En það getur skilað miklu,  stór hópur Íslendinga hefur menntað sig þar, stundað atvinnu og leitað til þegar á hefur bjátað heima hjá okkur. En um leið er þessi heimur fjarlægur mörgum okkar,  flestir Íslendingar vita lítið um dægurlagaheim Norðurlanda svo við tökum dæmi.  En þetta er um leið heimur sem við eigum að vera mest tengd við.  Þar sem mestu er eytt til félagsmála, menntamála og menningarmála í heiminum.  En það er samt ekki okkar vilji að toppfígúrur okkar  spegli sig í þessum glæsiheimi á meðan þær ætla að skera niður grunn menningar og lista í landinu. Og rústa umhverfismálum en umhverfisverðlaunin voru líka veitt í kvöld.  


Koma þau heim með breytta sýn, varla.  Oft hefur það verið tilgangur nýrra ríkisstjórna xD og xB að eyðileggja það sem vinstri menn hafa gert á þessum sviðum.  Einhvern veginn elst þetta fólk upp við menningarfjandsamlegan heim.  

Því miður.