sunnudagur, 1. desember 2013

Læk(k)unin: Það sem allir tala um

Ég kíkti á skýrslu nefndarinnar um Höfuðstólslækkun húsnæðislána. Merkileg og fróðlega skýrsla um margt.  Mér sýnist að fræðimönnum og sérfræðingum sýnist ýmislegt um þetta en það eru samt ekki nein stór átök ennþá.  Þetta kemur mörgum til góða, sem betur fer, en mér finnst ótrúlegt að þeir sem þurfa ekki á þessu að halda sem er ansi stór hópur,eyði ekki meira á næstunni þá þekki ég landann illa .  Hvað sem er um reynslu af 110 prósenta leiðinni sem nefndin höfðar til.  


Ég sé að Stefán Ólafssson prófessor, sem mér finnst hafa haldið best höfði í átökunum og umræðum um fasteignalánin,  er ánægður með þessa aðferð, ég hef grun um að hann fari fram úr sjálfum sér í í túlkun sinni.  Það verður að muna að niðurskurður ýmissa þátta núna í fjárlögum veldur óvinsældum hvað þá ef hann á að vera næstu 4 árin ef ekkert á að gera nema greiða upp lækkunina.   

Þessi tvö svör  við spurningum almennings kalla fram ansi margar spurningar um fjármögnun.  Eða hvað?  

Hvernig er leiðréttingin fjármögnuð?

Ríkissjóður mun afla sér aukinna tekna á næstu 4 árum til að standa straum af auknum ríkisútgjöldum af þessum aðgerðum. Aðgerðirnar verða þannig hvorki fjármagnaðar með auknum lántökum ríkissjóðs né með veitingu ríkisábyrgða.

Þetta er ansi brött fullyrðing, hjá stjórn sem treystir sér ekki að vera í eðlilegu sambandi við Seðlabanka landsins, svo ég set spurningamerki við þetta. 

Hver eru áhrifin á ríkissjóð...?


Mun ríkissjóður verða af skatttekjum?

Við það að lántakendur nýta fjármuni til skattlausrar höfuðstólslækkunar sem ella hefðu runnið í skattlagðan séreignalífeyrissparnað,  gefur ríkissjóður eftir skatttekjur í framtíðinni. Tapaðar tekjur ríkissjóðs nema um 40 milljörðum króna vegna þessa þáttar. Þau áhrif koma fram á næstu áratugum þegar annars hefði reynt á skattgreiðslu vegna úttektar séreignalífeyrissparnaðar.

Það verður spennandi hjá ríkisstjórn að afla skatttekna þegar öflugasti tekjuhópur landsins á að vera stikkfrí. 

Já, xB með Sigrúnu Magnúsdóttur er í hugsveiflu um þessar mundir.  Hvort sem hún blívur er annað mál.   











laugardagur, 30. nóvember 2013

Að sökkva RUV: Til hamingju Illugi

Dásamleg dagskrá:   Þáttur fellur niður, niður og niður, svo eru góðir róttækir þættir endurteknir, Róttæk hús í Reykjavík, Robert Wyatt.  Svona er ástandið á RUV1 þessa dagana.  Þeir hljóta að vera kampakátir keppinautarnir. Ha, keppinautar þeir voru ekki til..... Það hefur enginn viljað taka að sér menningardagskrá jafngóða og RUV1 heldur úti. Ekki hefur það verið hægt fyrir þennan pening, 7% af útgjöldum RUV.

Það eru góðir pistlar víða á Fésum: Samúel J. Samúelsson, Haukur Ingvarsson og Ingólfur Gíslason .  

Það er einn af hápunktum nýfrjálshyggjunnar að sökkva endanlega RÚV, ráðherrann hugumstóri, Illugi Gunnarsson hefur skráð sig inn í söguna, til hamingju Illugi.


Það er spurningin að rífa niður eða ekki. 
 


föstudagur, 29. nóvember 2013

RÚV: Upp í kok

Eftir atburði seinustu daga, þá er það eitt víst, það er kominn tími á annan útvarpsstjóra. Enginn vafi á því. 

Ég píndi mig til að horfa á Pál í Kastljósi.  Og sagði svo, ég er einföld sála, nú er komið nóg.  

Hann er sjálfum sér afar lítið samkvæmur, að sumu leyti sannaði hann sem Helgi Seljan hafði spurt hann um.  

Hann talar um menningarhlutverk úvarpsins og leggur niður menninguna.  Hann er hlýðinn durgur valdhafa sem útvarpsstjóri á aldrei að vera þótt hann segi annað.  Allir sem hlusta á útvarp og skilja fjölbreyttan rekstur sem RÚV verður að vera, það er enginn annar sem veitir slíka þjónustu, sjá að það er komið nóg.  Ef íhaldið velur harðan íhaldspótentáta þá verður stríð og barátta.  

Við erum of mörg búin að fá upp í kok. Við viljum ekki bara rúst.   

fimmtudagur, 28. nóvember 2013

RUV: Þeim var sagt upp

Þáttur á Rás 1 núna Bak við stjörnurnar, þegar ég sit við tölvuna, líklega sá seinasti, stjórnandinn rekinn.  Það hlustar enginn á klassíska músík.  Ég hef hlustað mjög oft á þennan þátt, ég er þessi enginn.  Oft ansi góð pianótónlist,og ýmislegt annað,  í seinustu viku var það Jonas Kaufmann sem söng, Íslandsvinurinn góði, diskurinn sem ég hef spilað seinustu mánuði, Verdi.  Í kvöld er það Britten en það er 100 ára minning hans núna.   Ég gleymi aldrei þegar ég heyrði Stríðssálumessu hans, ég var unglingur, keypti plöturnar í pötubúðinni dásamlegu á Hverfisgötu.  Ég man ekki lengur hvað hún hét, plötubúðin.  Þar keypti ég margar góðar plötur og þroskaðist. Núna verður Arndís Björk Ásgeirsdóttir ekki lengur á vaktinni, hún kynnir ekki oftar Sinfoníutónleika, það eru engir sem fara á Sinfó, bara 1500 -3000 manns,  henni var sagt upp í dag.

Karl kom til starfa í Kastljósi, hann var óþolandi svo Stöð 2 gat ekki notað hann, sannleikurinn var eitthvað sem hann tók alvarlega.  En hann yljaði okkur í nokkra mánuði, ræddi um alvarleg mál og óþægileg, ég horfði á hann í gærkvöldi ræða um síld og K0lgröf. Nú er hann ekki lengur, honum var sagt upp í morgun.  Það var enginn sem horfði og hlustaði á hann, eða hvað? 

Ein kona hefur haldið uppi Djassinum seinustu árin í útvarpinu.  Spilað Miles, Coltrane, Mingus,Mitchell,  Blue Note, Horace Silver, íslenska snillinga, Sunnu, Óskar, Ómar, Sigga Flosa og svo framvegis.  Nú spilar hún ekki oftar.  Lana Kolbrún Eddudóttir  var rekin. Ég hlusta oft á þáttinn hennar, ég er þessi enginn.   Einu sinni sá ég hana skríða um gólf í Smekkleysu þegar hún var neðarlega á Laugaveginum beint á móti Mál og Menningu hinum megin við götuna og skoða diska.  Hét hún þá Smekkleysa, búðin?  Þetta var konan semég hafði bara heyrt í útvarpinu.  Þekkti röddina. Mér þótti þetta stórmerkilegt.   En nú verður hún ekki meira.  Hún 

var rekin.

Tvær konur hafa í mörg ár haldið uppi barna- og unglingaþætti á RUV 1.  Önnur þeirra er gamall nemandi minn, skemmtileg og lifandi kona.  Nú er engin þörf fyrir barnaefni í útvarpinu.  Það er svo mikið um það á Bylgjunni! Og útvarp Saga.   Brynhildur Björnsdóttir er ekki lengur í dagskrárgerð. Henni var sagt upp.     


Það verður að reka fólk þegar það eru ekki  til peningar. Jafnvel þótt fólkið sem útdeilir peningunum vilji ekki fá peninga frá þeim sem eiga peninga.  Þeir sem  eiga peninga eiga að ávaxta peninga sína, eins og þeir vilja. Þeir eiga og mega eins og Hannes Smára sagði. Við eigum ekki að taka peninga frá þannig fólki. Við sem erum engin eigum að gera ekki  neitt.  Við erum engin. 


    


miðvikudagur, 27. nóvember 2013

RÚV: Ráðherra með breddu á lofti

Ráðherra með bredduna á lofti. Ekki benda á mig, segir hann eflaust og bendir á útvarpsstjórann.  En það er hann sem stjórnar, berst fyrir fjárlögum til stofnunarinnar. Setur henni lög og reglugerðir. Sýnir hversu honum er annt um þessa stofnun.  En hann sýnir sinn innri mann.  Þræll nýfrjálshyggjunnar. Þræll tómleikamenningarinnar, þar sem allt er metið til fjár.  

Það er sorgardagur hjá mörgum í dag, ekki bara þeim sem misstu vinnuna, fjölskyldum þeirra og vinum.  Heldur þeim löndum sem vita að með niðurskurði á RÚV er verið að vega að skoðanafrelsi okkar.  Það er tilgangurinn að koma í veg fyrir góða fréttamennsku, opna umræðu og skoðanaskipti.  Slík fréttamennska fer ekki fram á Bylgju eða öðrum svokölluðum frjálsum fjölmiðlum.  Eigandinn er þar alltaf á bak við starfsmennina og bankar í öxlina og veifar uppsagnarbréfinu.  Þannig ástand vill íhaldið hafa á ríkisfjölmiðlum. Starfsfólk með ótta í augum. 

Margir héldu þegar Vigdís tók að tala um niðurskurð á ríkisfjölmiðlunum á sinn heimskulega hátt  að það væru viturlegri samstarfsmenn við hliðina á henni, hófsamari og hæfari.  En auðvitað var það blekking.  

Þetta eru asnar, Guðjón, sagði skáldið.  

Þannig er það.  Níðstangirnar verða margar. Fý, segi ég. 
Arndís Björk Ásgeirsdóttir, Ingibjörg Eyþórsdóttir, Halla Steinunn Stefánsdóttir, Steinunn Harðardóttir, Linda Blöndal, Guðfinnur Sigurvinsson, Gunnar Stefánsson, Sigríður Pétursdóttir, Dagur Gunnarsson, Atli Freyr Steinþórsson, Brynhildur Björnsdóttir, Kristín Eva Þórhallsdóttir, Guðni Már Henningsson, Anna Sigríður Einarsdóttir, Ingi Þór Ingibergsson, Kristinn Evertsson, Þorsteinn Guðmundsson, Lana Kolbrún Eddudóttir.

Útvarp Reykjavík eru rústir einar.

þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Skömm Kaþólsku kirkjunnar

Mikil er skömm Kaþólsku kirkjunnar, hér, sem annars staðar.  Fyrir ekki löngu síðan kom „úrskurður" hennar útaf ofbeldi kynferðislegu, andlegu og líkamlegu. Á Mbl.is er frásögn eins þolandans, átakanleg og dæmigerð:  


Ég hef óskað eftir hjá lögfræðingi kirkjunnar að fá í hendur mat Fagráðs kaþólsku kirkjunnar á vitnisburði mínum og hvernig það kemst að þeirri niðurstöðu að ég eigi að fá 82.170 kr. í bætur.
Upphæðin er „afar skammarleg og fram úr hófi hneykslanleg,“ svo ég noti orðalag sem Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup notar í bréfi sem hann sendi mér þegar hann lýsti afstöðu sinni til brotanna. Það er líka mjög einkennilegt að í bréfinu sem lögmaður kirkjunnar sendi okkur er hvergi nein upphæð tilgreind.
Kaþólska kirkjan fær á hverju ári um 8.400 krónur frá íslenska ríkinu sem eru skráðir í kaþólsku kirkjuna, en safnaðarmeðlimir eru um 11 þúsund. Það gerir um 92 milljónir á ári sem kirkjan fær frá ríkinu í sóknargjöld. Kaþólska kirkjan safnar peningum í gegnum heimasíðu sína, en þar er fólk hvatt, á nokkrum tungumálum, til skrá sig í gegnum Þjóðskrá. Síðan er okkur, sem höfum mátt þola ofbeldi af hálfu starfsmanna hennar, boðið upp á þessar smánarbætur.

Allt er þetta í samræmi við framgöngu Kaþólsku kirkjunnar í öðrum löndum.  Það er engin iðrun, ekkert samband haft við þolendur, allt á sömu bókina lært, það er endanlegt svar sem sent er öllum, og 30 silfurpeningar eða minna fylgja. Kaþólska kirkjan ber ekki ábyrgð á sínu starfsfólki eða stofnunum. 
Í kjölfarið skipaði biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi s.k. fagráð til að meta bótarétt þolenda. Niðurstaða fagráðsins, sem tilkynnt var í síðustu viku, var sú að kirkjan teldist ekki skaðabótaskyld nema í einu máli af 17 sem komu inn á borð til þeirra. Sama dag tilkynntu stjórnendur Kaþólsku kirkjunnar að „endanlegt svar“ hefði verið sent til þessara 17 aðila.
Það er ekki furða þótt sorg sæki að mörgum á ferð um Landakot.  Það á enginn Jesús Kristur heima þar.  
Fréttatilkynning 15. nóvember 2013
Fagráð Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hefur tekið til greina 10 kröfugerðir vegna
kynferðislegrar misnotkunar (á árunum 1959 til 1984) gegn presti og kennslukonu,
en þau eru bæði látin. Einnig bárust fagráðinu 6 aðrar kröfugerðir gegn þeim vegna
andlegs eða annars ofbeldis. Ein kröfugerðin varðaði kynferðisleg samskipti tveggja
fullorðinna einstaklinga.
Allir sem sendu inn kröfugerðir hafa haft formlegt tækifæri frá árinu 2010 til að koma
máli sínu á framfæri við þær tvær óháðu nefndir sem Kaþólska kirkjan setti á stofn
og enn fremur við biskupinn. Þeim var lofað að þeim yrði sent endanlegt svar í
síðasta lagi 15. nóvember 2013. Í bréfi sínu til þeirra í gær segja stjórnendur
Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi að hugur þeirra leiti til fórnarlambanna persónulega og
til fjölskyldna þeirra. Eins og páfar og biskupinn hafa margítrekað gert, tjá yfirvöld
Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi viðkomandi dýpstu hluttekningu sína vegna þess sem
gert hefur verið á þeirra hlut og biðja fórnarlömbin fyrirgefningar á því.
Yfirstjórn Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hefur gert allar nauðsynlegar ráðstafanir
hvað snertir fortíð sem framtíð (sjá um forvarnarráðstafanir á www.catholica.is).
Þessar ráðstafanir eru í samræmi við sömu verklagsreglur og tíðkast hjá Kaþólsku
kirkjunni um allan heim, og eru í samræmi við íslensk lög. Þær niðurstöður sem
Fagráð Kaþólsku kirkjunnar hefur komist að hefur stjórn Kaþólsku kirkjunnar nú
með formlegum og ákveðnum hætti sent skriflega í gær sérhverjum þeim sem sendi
inn kröfugerð.
„Að áliti fagráðs er kaþólska kirkjan ekki bótaskyld“, í öllum tilvikum nema einu,
sem einnig er fyrnt eins og öll þessi tilvik. Enn fremur segir í niðurstöðukafla skýrslu
fagráðsins (í sérhverju máli): „Kæmi til greiðslu af hálfu kirkjunnar engu að síður væri
það að mati fagráðs umfram lagaskyldu.“
Reykjavíkurbiskupsdæmi hefur síðustu þrjú ár varið miklum tíma, vinnu og orku í
þessi mál og hefur af sjálfsdáðum lagt áherslu á að komast til botns í þessu erfiða
máli með hlutlægni og vandvirkni að leiðarljósi. Stjórnendur Kaþólsku kirkjunnar
hafa gert sitt besta til að leiða málið til lykta og veitt öllum aðilum; nefndum,
yfirvöldum og þolendum reglulega allar tiltækar upplýsingar um málið. Allar
ráðstafanir sem nú verða gerðar gerir Kaþólska kirkjan af fúsum og frjálsum vilja,
sem felur þó ekki í sér viðurkenningu á bótaskyldu samkvæmt íslenskum lagareglum,
hvorki beinni né óbeinni.
Eingöngu verður tekið á móti skriflegum fyrirspurnum vegna þessara mála á netfanginu tengilidir@catholica.is
Með þessum aðgerðum staðfesta kaþólsk kirkjuyfirvöld endanleg lok þessara erfiðu
mála. Á undanförnum árum hefur í forvarnarskyni allt verið gert sem í mannlegu valdi
stendur til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í framtíðinni. Kirkjan er
að auki ætíð reiðubúin að veita þjónustu og sálusorgun öllum þeim sem þess óska
enda er það hlutverk hennar.
Pétur Bürcher      Séra Patrick Breen     Séra Jakob Rolland
Reykjavíkurbiskup   staðgengill biskups        kanslari




mánudagur, 25. nóvember 2013

Sigmundur Davíð: Að gefa eftir tekjur eða ekki

Við lifum furðulega tíma.  Þar sem orðavaðall valdsmanna fá mann til að svelgjast á í morgunkaffi sunnudagsins. Þar verður
að segjast að fremstur í fylkingu er sjálfur Forsætisráðherrann, karlinn ungi sem hvatti alla til að slíðra sverðin og bera klæði á vopnin.  Nú er öldin önnur.  Ráðherrann flytur ræðu yfir flokksmönnum sínum þar sem alhæfingar ráða ríkjum og tölur eru ekki til hjá þessum ágæta dreng, ég birti frásögn Ríkisútvarpsins hér að neðan í heilu lagi annað er ekki hægt. Stríðsvilji þessa karls er óbugandi og rök ekki vinsæl.

Auðvitað er vandinn i dag ekki bara hér og nú, það vita allir, sem muna að halli ríkissjóðs árið 2009 var 200 milljarðar, munið það lesendur góðir 200 þúsund milljónir króna.  Við vorum með ríkisstjórn sem tóks að minnka þennan halla niður í nokkra milljarða króna.  Það voru ótal liðir sem þurfti að fjalla um ekki bara heilbrigðismál, við vitum það að of harkalega var gengið að heilbrigðiskerfinu, sérstaklega þegar ekki var komið að góðu búi eftir góðærið.  Við bjuggum við neyðarástand, og það ástand hafði orðið til við gegndarlausa frjálshyggu xD og xB á annan áratug.  Sem gerði það að verkum að eftirlit með rekstri og útblæstri einkareksturs var óvinsælt og fjármálamenn sérstaklega í bankakerfinu fóru langt fram úr sjálfum sér og ríkisvaldið var ekki í stokk búið að grípa til aðgerða heldur dansaði með fram að hausti 2008.  Þetta hafa hægristjórnmálamenn neitað að viðurkenna og voru þar fremstir í fylkingu Bjarni Benediktsson (með Davíð í baksætinu) og Sigmundur Davíð sem héldu margar æsingaræður þessi ár sem hamrað var á framkvæmdum sem ætti að fara í (sem enginn peningamaður hvori innlendur né erlendur vildi fara í) og hjá þeim var aldrei skortur á fé fyrir ríkissjóð.  

Og forsætisráðherran hugumstóri segir:  „Á ranga forgangsröðun á síðasta kjörtímabili og endalausan niðurskurð í grunnþjónustunni. Niðurskurð sem við erum núna að snúa við og vinda ofan af.“

Það er vinsælt að tala um grunnþjónustu, og oft er leikið með tölur og flokka þar, samt var minna skorið niður í heilbrigðis og velferðarmálum en öðrum flokkum. En málið var að núverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir því að hafa tækifæri til sóknar í þessum málaflokkum ef þeir hefðu getað siglt framhjá grundavallarhugmyndum nýfrjálshyggjunnar, það er lægri skatta á hátekjufólk og fyrirtæki og algjör kúvending í álögum á sjávarútveg. Það gerðu þeir ekki og sitja því með vafasaman grunn að byggja á í þessum málum sem skipta flesta máli.  Þeir hugsuðu meira um þá fáu heldur en þá mörgu. Það er hugmyndafræði sem stjórnar Fjárlögunum 2014. 

Þessi orð formannsins fær mig og marga aðra  til að svelgjast illilega á eftir að hafa skoðað og hugleitt fjárlögin í byrjun október:   „Það er til dæmis ekki verið að skera niður í heilbrigðisþjónustunni, þar er þegar að verða viðsnúningur, og það er raunar ekki heldur hægt að tala um að það sé verið að skera niður á sviðum þar sem við erum gagnrýnd fyrir að skera niður að undanförnu. Ég nefni sem dæmi rannsóknir, kvikmyndagerð, skapandi greinar.“


Svo mörg voru þau orð. En hérna að neðan er kjarni ræðu hans. Þeir sem eru tölufróðir ættu að skoða svar Fjármálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar frá 2012.  Þar er margur fróðleikur sem sýnir manni ýmislegt í öðru ljósi en barnslegur málflutningur Forsætisráðherra.  Eins og þessi: 
21,0%19,5%20,3%

Þetta er Hlutfallsleg skipting ríkisútgjalda í A-hluta ríkissjóðs eftir málaflokkum 2009–2011. 
Og þetta er heilbrigðisgeirinn. Hér er engin stórkostleg niðursveifla en færri krónur voru á milli handanna.  

 Svo rakst ég á ágæta grein Indriða Þorlákssonar 2 daga gamla á Eyjunni þar segir hann meðal annars:


Niðurskurður niðurskurðar vegna
Sá niðurskurður opinberrar þjónustu, sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu, er ekki byggður á haldbærum efnahagslegum forsendum en gengur þvert á þær. Hann er ekki heldur nauðsynlegur vegna stöðu ríkisfjármála. Svo virðist sem að tilgangur niðurskurðar nú sé hugmyndafræðilegur og hann sé til þess ætlaður að draga úr velferðarkerfinu þvert á þá stefnu sem víðtæk sátt hefur verið um í samfélaginu. Tímabundnar og yfirstíganlegar þrengingar í efnahagsmálum og ríkisfjármálum á ekki að nota til að knýja fram án umræðu róttækar breytingum á þjóðfélagsgerðinni. Niðurskurðurinn á ekki að vera niðurskurðarins vegna.  

Já þetta er ríkisstjórnin sem gefur ekki eftir tekjur. Góðar stundir, lesendur góðir.


Forsætisráðherra segir að vandinn sem við sé að stríða í heilbrigðiskerfinu sé afleiðing af gegndarlausum og blóðugum niðurskurði síðustu ríkisstjórnar. Hann segir að núverandi ríkisstjórn sé í raun að auka framlög til heilbrigðismála, rannsókna og skapandi greina.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem haldinn er á Selfossi um helgina að fyrstu mánuðir nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefðu einkennst af mikilli umræðu um heilbrigðismál.
Hann segir bága stöðu heilbrigðismála núna vera afleiðingar af frestunaraðgerðum síðustu ríkisstjórnar. Vandinn liggi ekki í fjárlögum ársins 2014, hann liggi í síðustu fjórum árum. „En við erum að snúa þeirri þróun við.“
Sigmundur Davíð segir að ranglega sé fjallað um erfiða stöðu í heilbrigðismálum eins og það sé sök núverandi ríkisstjórnar. „Hvað gerði síðasta ríkisstjórn? Hún lokaði heilum spítala. Það var varla sagt frá því í fréttum. Á meðan hér er hamrað á vandanum í heilbrigðiskerfinu og hann tengdur núverandi ríkisstjórn, í stað þess að setja hann þar sem hann á heima: Á ranga forgangsröðun á síðasta kjörtímabili og endalausan niðurskurð í grunnþjónustunni. Niðurskurð sem við erum núna að snúa við og vinda ofan af.“
Sigmundur Davíð segir að ríkisstjórnin hafi tekið þá ákvörðun strax í upphafi kjörtímabilsins að byrja á erfiðu málunum og vinda ofan af skuldasöfnun síðustu ríkisstjórnar og mistökum fortíðar. 
Merki þessa mætti sjá í frumvarpi nýrra fjárlaga. Engu að síður sé varla hægt að tala um niðurskurð í fjárlögum miðað við það sem búast hefði mátt við. „Það er til dæmis ekki verið að skera niður í heilbrigðisþjónustunni, þar er þegar að verða viðsnúningur, og það er raunar ekki heldur hægt að tala um að það sé verið að skera niður á sviðum þar sem við erum gagnrýnd fyrir að skera niður að undanförnu. Ég nefni sem dæmi rannsóknir, kvikmyndagerð, skapandi greinar.“
Upphæðin sé kannski heldur lægri en ef miðað væri við fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar sem Sigmundur segir að hafi í raun ekki verið áætlun, heldur kosningaplagg. „Ef við lítum á reynslu allra undanfarinna ára, 2012, 2011, 2010 og förum aftur fyrir efnahagshrunið, 2007, 2006, þá erum við að auka verulega framlög til þessara greina; til rannsókna, til skapandi greina, og að sjálfsögðu erum við að snúa þróuninni við hvað varðar undirstöðurnar.“
Sigmundur Davíð segir að umræðan um sjávarútvegsmál sé á villigötum og tiltók þar sérstaklega þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að afnema sérstaka veiðigjaldið, sem stjórnarandstaðan hafi gagnrýnt harkalega og talað um milljarða tap fyrir ríkissjóð. „Sjávarútvegurinn mun skila meiri tekjum núna í heildina heldur en nokkurn tíma í sögu landsins og samt leyfa menn sér að koma fram og halda því fram að þessi ríkisstjórn sé á einhvern hátt að gefa eftir tekjur.“ RUV 25.11.2013