miðvikudagur, 16. september 2015

Corbyn og Jaðarskoðanir

Það gleður okkur öfgavinstrimenn og kommúnista (eins og Hannes Hólmsteinn segir) að Jeremy Corbyn vann glæsilegan sigur til formanns breska Verkamannaflokksins.  

Það vantar ekki að andstæðingar hans utan og innan flokksins hafi hamast á honum og lýst honum sem einhverju fornaldarskrímsli  en svo kom merkileg útspil fjölda hagfræðinga í Bretlandi sem bentu á að stefna hans eigi mikið fylgi hjá vísindamönnum í efnahagsmálum!
Í ágætri úttekt í Stundinni er þetta rætt:

Andstæðingar Corbyns hafa lýst honum sem öfgafullum vinstrimanni sem tali fyrir óábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum. Það vakti talsverða athygli þegar fjöldi hagfræðinga sendi út yfirlýsingu á dögunum þar sem því er hafnað að andstaða Corbyns við aðhalds- og niðurskurðarstefnu sé jaðarskoðun og fullyrt að um sé að ræða viðurkennda meginstraumshagfræði.

Corbyn segir sjálfur:

„Vonin um breytingar og að hrinda háleitum hugmyndum í framkvæmd er loksins kominn aftur á dagskrá stjórnmálanna; að ráða niðurlögum aðhaldsstefnunnar, draga úr ójöfnuði og vinna í þágu friðar og félagslegs réttlætis bæði erlendis og heima fyrir. Það er einmitt þetta sem bjó að baki þegar Verkamannaflokkurinn var stofnaður fyrir meira en 100 árum,“ skrifar Corbyn sjálfur í The Guardian.

 Efnahagshrunið og afleiðingar þess hafa haft í för með sér viðamiklar breytingar víða í Evrópu.  Fyrst í stað voru það hægriöfgaflokkar sem áttu spilið en núna eru víða róttækir flokkar og fylkingar að hasla sér völl.  Við sjáum það hjá okkur, hinn ótrúlegi uppgangur
Pírata.  Í Noregi voru sveitastjórnarkosningar þar sem máttarstoðir ríkisstjórnarinna Hægri og Framfaraflokkurinn töpuðu.  Og Grænir (MDG) eru að koma þar sterkir inn.  Fimmfölduðu fylgi sitt í Osló og eru í oddaaðstöðu, þar sem hægrimenn hafa haft völdin í áratugi.  Þar er meira að segja fyrrum Íslendingur á lista, pönkarinn sem gladdi okkur í gamla daga í Dýrið gengur laust og Sogblettir, Jón Júlíus Sandal.  

Það er skrítið að horfa á vinstri sinnaða hagfræðinga hérlendis ræða ríkisfjármálin alltaf á forsendum nýfrjálshyggju.  Í uppgangi eins og virðist hér á ferð núna , þá er það ríkið sem á að draga saman seglin.  Hinn frjálsi markaður á að fá að gera það sem honum sýnist, og bankarnir moka fé í fáránlegar hugmyndir.  Bygging spítala á þá auðvitað að bíða meðan verktakar leika sér víða um völl þar til allt hrynur.  Þá verður að bíða með opinberar framkvæmdir vegna fjarskorts.  Þetta er skrítin hringrás.  Enn skrítnara að við hlustum á þetta án þess að glotta!

Svona er staðan yfir allt landið: 

http://www.nrk.no/valg2015/1.12499895 

Svona er staðan í Osló: 
 

þriðjudagur, 15. september 2015

Flóttamenn: Krafan er aðgerðir strax

Hin  samhenta ríkisstjórn að störfum. Ráðherrar útskýra stefnu stjórnarinnar hver á sinn hátt um móttöku flóttamanna. 
Þetta frá Eygló: 

Fram kemur á vef Velferðarráðuneytisins að Eygló hafi á fundi sínum með Flóttamannastofnuninni sagt að vilji íslenskra stjórnvalda stæði einkum til þess að taka á móti kvótaflóttafólki sem væri statt í flóttamannabúðum í Líbanon og öðrum nágrannaríkjum Sýrlands.
Þetta er nokkurn veginn í samræmi við stefnuræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem sagði að Ísland og önnur Evrópulönd ættu að gæta þess að senda ekki út „þau skilaboð að þau aðstoði fólk eingöngu ef það leitar á náðir glæpamanna og hættir lífi sínu til að komast til Evrópu.“

Svo kemur Gunnar Bragi með annað: 

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, vildi fyrir ríkisstjórnarfund ekki gefa upp hvenær nákvæmlega það kæmu svör frá stjórnvöldum  um hvernig landið ætli að bregðast við flóttamannavandanum. Niðurstaðan gæti legið fyrir eftir tvær til þrjár vikur.
Á vef ráðuneytisins segir jafnframt að íslensk stjórnvöld hefðu markað þá stefnu við móttöku flóttafólks að bjóða sérstaklega velkomna einstaklinga sem teljast til viðkvæmra hópa, samkvæmt skilgreiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Alþingismenn leggja áherslu á flýtimeðferð í þessum málaflokki. 
Ráðherranefnd hefur verið skipuð.  Hvað svo.  Eiga allir að vera að grauta í þessu?  Er ekki eðlilegra að fela þetta einum ráðherra sem vinnur að þessu með sínu fólki og þrautþjálfuðum stofnunum?  Hver er skýringin að endilega þurfi að taka úr flokki fólks hinum megin við

Miðjarðarhafið.  Er ekki hægt að taka tvo hópa einn frá nágrenni Sýrlands, annan frá fólki í neyð í Evrópu?  Eru engir viðkvæmir hópar sem ráfa um Balkanlöndin, oft heilu fjölskyldurnar. 

Krafan er aðgerðir strax! Beislum mannorku okkar til að hjálpa fólki í neyð.  Strax í dag.

mánudagur, 14. september 2015

Höfrungahlaup og Tortólaveiðar ......



það er margt merkilegt í upphafi hausts, margt sem er ekki eins og áður ....

geitungarnir eru farnir að láta sjá sig inni hjá mér, um miðjan september, flugur angra mig í morgunskímunni, ég hef haft frið fyrir þeim í sumar, hegðun fugla er ekki eins og áður, allt er seinna í ár ....


en eitt breytist ekki, það er upphaf stjórnmálakarps æðstu valdastofnunar okkar.....



formaður einnar æðstu stofnunar Alþingis telur það vera miklar framfarir ef hægt er að segja upp ríkisstarfsmönnum upp á stundinni eins og gert er á hinum almenna markaði (svo segir hún að sé), ekki hefði ég viljað vinna í blómabúðinni hennar .....


afla á fjár með því að selja eina bankann sem ríkið á, það segir fjármálaráðherra að hafi verið samþykkt í Ríkisstjórn, en forsætisráðherrann er ekki alveg viss ........


alltaf er rætt á merkilegum nótum um fjárlögin,er þensla er ekk þensla, hvað hefur verið að gerast hvaða áhrif hafa aðgerðir, skattahækkanir, lækkanir, kauphækkanir, lækkanir.  Oft er veruleikinn annar en upphrópanir stjórnmálamanna.


 Hagvöxtur síðustu sex mánaða mældist 5,2 prósent. Atvinnuleysi
minnkar hratt, verðbólga eykst og innflutningur erlends vinnuafls eykst einnig. Seðlabankinn hefur í tvígang
á árinu hækkað stýrivexti og ríkisstjórnin áformar að lækka skatta og afnema tolla á sérvöru. Ýmsir fræðingar hafa bent á að þenslumerki íhagkerfinu ættu að vera öllum sýnileg.


ekki benda á mig segir fjármálaráðherrann, hann ákvað að  vera stikkfrí af flestu sem varðar kaup og kjör, þetta var ekki hans mál.  Þið sömduð um þetta segir hann við Samtök Atvinnuveganna.  Ekki benda á mig. Svona tvisvar til að hljóma eins og Davíð. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur ríkissjóð ekki standa í
þensluhvetjandi aðgerðum og bendir á að höfrungahlaupið á vinnumarkaði sé ekki til bóta. „Launþegahreyfingin er týndi hlekkurinn á vinnumarkaði. Ríkissjóður er ekki að vinna
að mannaflsfrekum framkvæmdum í dag,“ segir Bjarni.


Svo mörg voru þau orð.  Höfrungahlaup, eitt nýyrðið í stéttabaráttunni.  Týndi hlekkurinn annað. Ríkissjóðurinn er að gera ýmislegt,  en spurningin er hvort það sé það rétta og góða.  Hvað skiptir mestu máli?  Hvað segir þjóðin?  Enn virðist Heilbrigðiskerfið ekki vera forgangsmálið, þar er þjóðin á allt annarri skoðun en Fjármálaráðherrann. 

Aðalatriðið er að byggja sem mest af hótel og viðskiptahúsnæði. Byggja sem mest  af því sem nýtist stjóriðju en eflaust getur ráðherrann sagt að það sé ekki Ríkissjóður það eru bara aðrar ríkisstofnanir.  Bjarni er eflaust hrifnaðri af Hvalveiðum vina sinna en höfrungahlaupi. Vinanna  sem safna milljörðum í útlöndum, kannski er Bjarni með í þeirri söfnun, þar eru hærri upphæðir en Flóttamannasafnanir: 


Íslendingar eiga um 32 milljarða króna á Tortóla


Í lok árs 2014, rúmum sex árum eftir bankahrun og setningu gjaldeyrishafta, áttu Íslendingar enn rúmlega eitt þúsund milljarða króna í erlendri fjármunaeign. Um er að ræða annað hvort eigið fé eða lánveitingar á milli aðila í sömu eigu. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um beina fjármunaeign íslenskra aðila erlendis sem birtar voru 9. september síðastliðinn.
Á meðal þes sem kemur fram þar er að íslenskir aðilar eigi 31,6 milljarða króna á Bresku Jómfrúareyjunum, nánar tiltekið á Tortóla-eyju klasans. Bein fjármunaeign Íslendinga þar hefur aukist mikið frá því fyrir hrun, en í árslok 2007 áttu Íslendingar 8,6 milljarða króna á eyjunum. Gengisfall krónunnar skýrir aukninguna að einhverju leyti.

Þetta er ekki í forgangi hjá Ríkisstjórninni ó nei.  Því er reynt að drepa því á dreif sem skiptir máli, það er ekki hægt að semja við þá sem eftir eru heldur þarf að þrasa í vikur eða mánuði.  Svo eru þeir steinhissa að fólkið vilji kjósa eitthvað annað!



9 af hverjum 10 vilja forgangsraða peningum til heilbrigðismála


Yfir 90% landsmanna vilja að Alþingi forgangsraði fjármunum til heilbrigðismála, samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Pírata.
Píratar létu gera könnunina í nóvember í fyrra og svo aftur í ágúst og til 11. september í ár.
Rúmlega 50 prósent vilja að þingið forgangsraði fjármunum í þágu mennta- og fræðslumála og 39 prósent í almannatryggingar og velferðarmál. 29 prósent vilja að húsnæðis-, skipulags- og hreinsunarmál fari í forgang og 27,5 prósent vilja forgangsraða til löggæslu og öryggismála.
Heilbrigðismál eru í afgerandi forgangi hjá landsmönnum óháð aldri, menntun, efnahag, búsetu, kyni og hvaða flokk fólk kýs.
  

föstudagur, 11. september 2015

Hógværasti forsætisráðherrann

Hann hefur talað, sá hógværasti. Mikið eigum við gott að hafa svona gáfaðan forsætisráðherra, af hverju ætli hann komi ekki þessum góðu hugmyndum sínum á framfæri innan Schengen samstarfsins?  Af hverju er hann ekki fenginn til að leysa stríðsátökin í Sýrlandi og Írak? 
Hann veit þetta allt betur en allir aðrir.   Maðurinn sem minnist ekki á stríðsátökin, ekki á þjáningar fjölskyldna, gamals fólks og barna.  Myndir af hörmungum á ekki að birta þær eiga ekki að hafa áhrif á okkur eða valdamenn okkar. .  Sigmundur virðist ekki skilja hvaða áhrif það hefur á fólk að hafa búið við stríðsástand í nokkur ár, misst allt sitt, geta engum treyst. Hann heldur að íbúar í Sýrlandi hoppi upp í flugvél á Damaskus eða Aleppo eða Homs. Hefur samt enn svo mikið sjálfsálit að það reynir að velja sinn stað í Evrópu. Lætur ekki skrá sig í Ungverjalandi eða Danmörku þar sem það getur verið sent til baka samkvæmt Dublinreglunni.  Það er sorglegt að hin nýja stjórn Danmerkur sé búin að skrá sig í þann flokk með Búdapest öfgastjórninni .  Sigmundur virðist langa í þann sama flokk.  Eða hvað?  




Nokkrir valdir bitar úr samtali á Bylgjunni:
„Já, mér sýnist það í raun og veru vera að gerast sjálfkrafa, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það eru alltaf að koma nýjar og nýjar fréttir af einhverjum stöðum þar sem menn eru að setja upp eftirlit á landamærum, og núna síðast verið að stoppa umferð milli Danmerkur og Þýskalands að miklu leyti. Þetta vekur mjög stórar spurningar um Schengen, þegar menn eru hættir svo mikið sem að skrá fólk inn á svæðið, þá er það í rauninni hugmyndin sem það gekk út á, þessi ytri mörk. Þá er hún fallin,“ segir Sigmundur. 


 Það er spurning hvort það er eðlilegt fyrirkomulag, hvort það sé búið til eitthvað endamark, eins og Þýskaland, þar sem er tekið á móti fólki eins og það sé að vinna í einhverri keppni, en á sama tíma leyfa þessi lönd, Þýskaland og fleiri lönd, fólki ekki að koma með eðlilegum hætti. Ekki að fljúga til Þýskalands með flugvél. Ekki að stoppa á flugvellinum. Ekki að koma að landamærunum á ytra svæðinu, ytri mörkum Schengen, nema í raun með ólöglegum hætti. Þannig að skilaboðin eru þessi: Þið verðið að leita á náðir glæpasamtaka og reyna að láta smygla ykkur inn með lífshættulegum hætti. Ef ykkur tekst það, þá er tekið á móti ykkur og klappað þegar þið komið í land. En ef menn fara ekki í slíka hættuför, þá eru menn bara stoppaðir og sendir aftur. Þetta eru mjög hættuleg skilaboð,“ segir Sigmundur Davíð. 

Einhvern veginn kom Georg Orwell upp í kollinn á mér, af hverju ætli það sé?

miðvikudagur, 9. september 2015

Sigmundur krýpur fyrir Forseta .....

Sigmundur Davíð biður forseta afsökunar, auðvitað er þetta rétt sem hann segir.  Ólafur Ragnar hefur alltaf rétt fyrir sér, hann er guðfaðir ríkisstjórnarinnar: 

„Því hefur aldrei verið slegið föstu að atkvæðagreiðslan yrði haldin samhliða forsetakosningum, einungis ef vinnunni hefði miðað vel, og það hefur verið lögð áhersla á þann fyrirvara, að vinnan gengi vel og það væri samstaða um breytingarnar að þá væri þetta möguleiki,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Það hefur auðvitað aldrei hvarflað að honum hvað Forsetinn sé að skipta sér af eða taka afstöðu til þessara mála.  Er ekki eðlilegt að ef Forsetinn ætlar að hætta þá láti hann okkur vita.  Svo þeir geti farið að velta fyrir sér málinu af alvöru sem eru spenntir fyrir embættinu.  Við viljum fá alvöruforseta sem við þurfum ekki að skammast okkar fyrir á alþjóðavettvangi eða innanlands.  

Stjórnarskráin segir okkur um vald forseta eða valdaleysi. Ekki í skýru máli en þó vitum við það að það er lýðveldi með þingbundinni stjórn á Íslandi. Ekki forsetaveldi. Forsetinn fylgist með í hæfilegri fjarlægð.  Hann á ekki að taka þátt í stjórn ríkisins og á ekki að koma inn í spilið nema í forsetakosningum, í framboði,  og við myndun stjórnar og eftirlit lagasetninga og stjórnarerinda. 

Aðalatriðið er traustið og eftirlitið, ekki flumbrugangur og stjórnun.   Menntaður og viðsýnn forseti.  





 

þriðjudagur, 8. september 2015

Þingbyrjun: Sirkusinn heldur áfram

Þetta byrjaði vel í dag, Forsetinn áfram eins og véfrétt, forsætisráðherrann á efstastigi eins og venjulega, Hanna Birna snýr aftur, formaður utanríkisnefndar, Birgi sparkað til hliðar.  RÚV áfram út í kuldanum þrátt fyrir gnægð fjármagns ríkisins. . Frjálsir fjölmiðlar eru alltaf
hættulegir. Ríkisstjórnin sameinast að sjálfsögðu um nýjan knattspyrnuvöll.  Kirkjan fær sitt, líklega til að hlúa að flóttamönnum og vara við Islamtrú.  

Við lifum í hinum besta heimi.  Ræktum garðinn okkar. „Vinnum án þess að brjóta heilann, það eitt gerir lífið bærilegt.“Dönsum, dönsum




http://www.visir.is/framlog-til-ruv-laekka-um-173-milljonir-krona/article/2015150908887



                                           Erling stoppar upp í holu íslenskra fræða

föstudagur, 4. september 2015

Meistari Kristinn Sigmundsson

Ég og forsetinn og 1700 aðrir nutu snilldar Kristins Sigmundssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gærkvöldi,siðan voru aðrir tónleikar í kvöld þar sem öll þjóðin gat fylgst með. Það eru ekki margir sem hafa tærnar þar sem Kristinn hefur hælana, að vera söngvameistari og um leið listamaður sem nær til allra að vera þjóðargersemi. Hann hafði allan salinn í krumlum sér.

Mikið erum við lánsöm að eiga svona snilling. Aríurnar hljómuðu í kolli mínum langt fram á nótt. Vonandi megum við eiga hann sem lengst. Njóta hans og gleðjast. Lífið er dásamlegt.