laugardagur, 26. desember 2015

Björn Bjarnason: Varðberg lifir góðu lífi

Enn eru til samtökin Varðberg samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál.  Þau starfa undir styrkri handleiðslu Björns Bjarnasonar, reka meira að segja fréttastofu.  Aðalháherslan í dag virðist vera að kynda undir hatur og óróleika á fólki frá Miðausturlöndum Islan trúar og ýta
undir stríðsæsingar með fréttum sem þeim finnst líklega að RÚV hafi ekki fjalla nógusamlega um.  Björn Bjarnason er iðinn við kolann það er gott að sjá hve hann er enn frískur og frár í baráttunni gegn liðleskjunum á RUV og öðrum kommúnistum.  


Hryðjuverkaforingi laumaðist til Bretlands í aðdraganda árásar í París

 Rússnesk yfirvöld hefja nýjan málarekstur gegn Bill Browder

 Þýskaland: Leitað að flóttamönnum með fölsuð vegabréf

 Fyrsti dróni NATO sendur á loft

fimmtudagur, 24. desember 2015

Jólakveðja frá einlægum bloggara

Jólakveðjur til lesenda minna og ég tala nú ekki þá sem hafa fengið mér efni í hendurnar til að spinna og prjóna á bloggið mitt. Þetta ár hefur verið gjöfult. Ráðamenn hafa veitt okkur ótakmarkaðan aðgang að flónsku sem ég vanmet ekki. En ég sendi þeim og öðrum löndum kærar Jólakveðjur með ósk um sama áframhald.




miðvikudagur, 23. desember 2015

Jólakveðjur ráðamanna: Og bræður munu berjast

Já, þá eru þeir komnir í hár saman á jólunum!   

Þessar elskur, ekki ætla ég að gelta á þá á þessum hátíðarstundum.  

Ólafur veit alltaf hvað hann er að gera. Tilgangurinn helgar meðalið. 

Og eflaust kemur þetta sér  líka vel fyrir Bjarna í sínum kreds (á góðri íslensku). 

Það þóti gott hérna öðru hverju að baula á Ólaf Ragnar. 


Ég segi eins og kona mín:  Þetta er eins og í einhverri Dickens sögu. 

Það vantar bara fleiri í púkkið.  En ætli forsætisráðherrann hafi ekki vit að því að segja ekki neitt. Og þó.

Svo allt í einu fara menn að ræða um Rússaviðskiptin okkar.  Sem enginn minntist á á aðalfundi útgerðaraðalsins.  Þá kom í ljós að allt var í besta gengi þrátt fyrir viðskiptabannið. 

En lesendur góðir, allt í einu eru til peningar til að senda til útgerðarinnar milljarða. 

Sem voru ekki til í Landspítalann og heilsugæsluna. 

Já, fjármálapólitík er skrítin á Íslandi. 

Enn og aftur gleðileg jól.   !!!!!

þriðjudagur, 22. desember 2015

Jólakveðjur: Bjarni Benediktsson snýr út úr

Ég ætlaði nú ekki að skrifa meira um kjör öryrkja og aldraðra í bili en ummæli Bjarna Benediktssonar í útvarpinu gera það að verkum að ég minni á þau, þau eru ótrúleg.

„Við vitum það að það eru hópar í þessu samfélagi sem að eru í vandræðum með að láta enda ná saman í lok mánaðar, og því miður hefur það alltaf verið þannig. Okkar verkefni er að gera betur með því að halda áfram að skapa verðmæti og þá getum við smám saman lyft undir með öllum, og eins
og ég segi staða þeirra sem að byggja afkomu sína meðal annars með stuðningi almannatrygginga verður þó sú besta sem hún hefur verið í sögunni í upphafi næsta árs,“ segir Bjarni.

Bæði hann og Sigmundur Davíð virðast ekki geta svarað þvi af hverju þessi hópur þarf að bíða lengst og fá minnst miðað við launafólk.  Það er ótrúlegur útúrsnúningur þegar þeir eru að svara. Ætli þeir séu jólakveðjur þeirra til láglaunafólks í ár?

Höfum í huga orð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur í viðtali við Óðin Jónsson í morgun á RUV 1.


„Fyrir ári hækkuðu lífeyristekjur um 3%. Þá er ég að tala um frá almannatryggingum. En árið á undan var launaþróun upp á 6%. Þannig að ár eftir ár upplifir þetta fólk þessa miklu skerðingu. Árið þar á undan hækkaði um 3,6% en launaþróun var 5,8%. Þannig að það er þessi upplifun, okkar, kjaranefnda og annarra, á því að það vanti alltaf upp á.“
Þið dragist sem sagt alltaf meira og meira aftur úr?
„Að okkar mati gerum við það. Og við höfum verið í viðræðum við ráðuneytin í haust um hvernig nákvæmlega þetta er allt reiknað út. Vegna þess að 69. grein almennatryggingalaga segir að líta skuli til launaþróunar. Og menn takast meira að segja á um það orð.“
En nú benda ráðamenn á að þetta sé veruleg krónutöluhækkun sem þessi hópur er að fá.
„Það er það. En enn og aftur, þá er verið að tala um prósentur og krónur. Til dæmis ef við horfum til pars sem býr saman og er að fá um 193 þúsund á mánuði, þá er það fólk að fá innan við 20 þúsund krónur í hækkun. Hinir sem búa einir eru að fá kannski 22 þúsund króna hækkun. Þetta á ekkert skylt við það sem var að gerast á almenna vinnumarkaðnum.“
Þórunn segist hafa miklar áhyggjur af stórum hópi eldri borgara.
„Til okkar kemur fólk sem á ekki fyrir jólagjöfum fyrir barnabörnin sín, og verður að spara við sig í mat og öðru. Og það er líka hópur fólks sem fær pening í vasann frá börnunum sínum. Og það er ekki það samfélag sem við héldum að við værum í.“
Sýnist þér að afkoma ríkissjóðs sé þannig að hægt sé að gera betur?
„Það er engin spurning. Og þegar við fórum á fund fjárlaganefndar drógum við þetta fram. Og við drógum það líka fram að veikasti hlekkurinn er sá sem fær sérstaka uppbót. Og við lögðum það á borðið fyrir fjárlaganefnd. Og margt af því sem við sögðum virtist koma þeim á óvart. Og Vigdís Hauksdóttir tekur það upp í fréttum í gær og vill gera eitthvað betur,“ segir Þórunn.

Þessar hugmyndir ráðherra okkar eru út í hött en passa inn í hugmyndafræði þeirra um forgang fyrir hina ríku, útgerðarauðvaldið sem á okkur, hinir sjö stóru.

Svo býð ég aftur lesendum mínum Gleðileg Jól.  


mánudagur, 21. desember 2015

Samfélag Ójafnaðar og vísitölur

Það eru að koma jól.  Þau verða samt ærið misjöfn, eftir því hvar þú ert í stétt. 
Það verða veisluhöld, hó hopp og hí hjá mörgum.  Þeir sem hafa það gott, hafa getað safnað í sjóði. En sumir verða að telja aurana í Bónus, sumir leita til matargjafastofnana. Ef þeir hafa getu til þess og skap. 
Öryrkjar og gamalmenni sem ekki geta lagt fyrir og þurfa að nota langtum meira í lyf.  Og hafa ekki fengið bætur sínar hækkaðarmánuðum saman og fá svo minna en allir aðrir jafnvel þegar þeir fá hækkun um áramótin.  Einhvers staðar sá ég að laun hefðu hækkað að meðaltali um 14 prósent við samninga í vor. Öryrkjar og gamalmenni eiga að fá 9 prósent nú um áramótin, þeir hafa þurft að bíða meirihlutann á árinu, þeir geta auðvitað lifað af minna en aðrir þeir eiga ekki að hreyfa sig svo mikið. Eða hvað? Hvar ætli þeir séu á þessari vísitölu Hagstofunnar hér að neðan?

Ég var að lesa fréttatilkynningu um þróun Human Development index sem Sameiðu þjóðirnar birta á hverju ári til að sjá hvaða þróun hefur orðið hjá mannfólkinu á árinu á jörðinni.  Ég hef ekkert séð fjallað um þetta í fjölmiðlum seinustu daga.  Ég sé nú ekki allt þar. Þar erum við á niðurleið í góðærinu um 3 sæti og mælist engin hækkun á milli ára í þessu mælitæki. Það er til umhugsunar fyrir stjórnvöld. 

En lesendur góðir, því miður gæti margt verið gert betur hjá okkur.  Ef vilji væri fyrir hendi og ef úrelt hugmyndafræði Nýfrjálshyggjunnar væri ekki ráðandi. Þar sem hinir ríkustu eiga alltaf að fá mest og hinir lægst settu minnst.  Sorgleg staðreynd en sönn.

Ég óska ykkur svo gleðilegra jóla.



laugardagur, 19. desember 2015

Kvennahandboltinn er skemmtilegri .....

Mikið er gaman að kvennahandboltanum í dag. Það er unun og spenna að horfa á konurnar á Heimsmeistaramótinu.  Ekki er ánægjan minni að við eigum hlut að máli. Þórir Hergeirsson okkar maður í Noregi er magnaður sem þjálfari á sinn rólega hátt.

Ég er búinn að sjá Norðmenn, Dani, Rúmena, Serba, Rússa, Svartfellinga og  Svía á þessu móti. Það eru svo mörg góð lið.  Rúmenar hafa verið einstakir á þessu móti, nýtt stórlið. Leikur þeirra í gær við Norðmenn var magnaður.  Harkan er stundum of mikil, eins og í leik Norðmanna og Svartfellinga.

Kvennahandboltinn mun skemmtilegri en karla...... ég sver það.

fimmtudagur, 17. desember 2015

Holan: Táknið um veruleikafirringuna

Ég gekk fram hjá holunni um daginn, átti erindi í Þjóarbókhlöðuna. 
Holan ér á sínum stað umkringd girðingu, sem flestir fullfærir geta klifrað yfir, það er því furða að enginn skuli hafa látið lífið þarna í holu ríkisstjórnarinnar. 

Það er merkilegt þegar þeir sem vilja hampa íslenskri menningu á tyllidögum og vitna í Jón Sigurðsson Jónas Hallgrímsson og kó.  

Fulltrúar þessarar fámennu þjóðar hafa líka unnið ótrúleg afrek, t.d. á sviði lista, vísinda og fræða. Jafnvel í stærstu keppnisíþróttum heims hafa fulltrúar okkar unnið frækna sigra og glatt íslensk hjörtu.
Við eigum að vera stolt af þessum árangri okkar Íslendinga og gleðjast yfir honum, ekki til að setja
okkur á háan hest á kostnað annarra eða státa okkur af því sem við höfum áorkað og ímynda okkur að það sé sjálfsagður hlutur. Nei við eigum að vera stolt af því sem við og fyrri kynslóðir höfum áorkað vegna þess að það minnir okkur á að við getum gert enn betur. (SDG í Áramótaávarpi 2014)

 Það er merkilegt hversu þessir valdamenn okkar sem stjórna um þessar mundir eru áhugalitlir um menningu og listir.  Það er gott og hollt að hafa áhuga á fótbolta.  En það þýðir ekki að vanrækja undirstöðu okkar sem Íslendinga.  Það er tungan, bókmenntirnar, listirnar.  Ég sé ekki fyrir mér að ráðherrar okkar myndu bruna á milli landhluta til að vera viðstaddur menningarverðlaun (undantekningin er Illugi sem ólst upp á heimili vinstrimanna)! Það er liðin sú tíð þegar Framsóknarflokkurinn byggði upp menningarstofnanir víða um land.  Nú hafa frjálhyggjugimpi tekið þar völd. Innan Sjálfstæðisflokksins eru til menntafólk, en því fækkar stöðugt, fulltrúar þess sitja í það minnsta ekki á Alþingi.  Þar ríkir Ísöld mennta og lista.

Það er furðulegt að eyða milljörðum að setja upp stofnun sem engin þörf er fyrir, á meðan beðið er eftir fjármagni til að byggja húsnæði undir fræðin sem einkennir okkur frá öðrum þjóðum.  

Það er enn furðulegra að heyra hugmyndir Viðskiptaráðs að fækka stofnunum landsins  um 2/3 sem Vigdís Hauksdóttir tekur undir.  Er þetta ekki sama og að fækka einkafyrirtækjum, 1 fyrir innflutning, eitt fyrir útflutning, og eitt fyrir framleiðslu útflutningsvara. Við erum svo fámenn, það þarf ekki fleiri fyrirtæki. 

Ég held að Frjálshyggjan sé að ganga af göflunum.  Þetta líkist röfli hóps manna sem hafa misst öll tengsl við veruleikann.  Mikið verður gaman þegar við höfum losað okkur við þessa dekurdrengi og stúlkur í næstu kosningum!  Þá verður víða skálað!


 



Fimmtudagur 17.12.2015 - 12:00 - Ummæli (2)

Viðskiptaráð vill fækka ríkisstofnunum um 118 – Vigdís Hauksdóttir styður tillögurnar