miðvikudagur, 15. júní 2016

Katrín í Lýsi og Neikvæðnin

Ég játa ég er neikvæður, ég stunda neikvæða orðræðu gagnvart atvinnulífi og forystumönnum þess. 
Ég veit ekki hvað hefur komið yfir mig seinustu árin, það er eins og þyrmi yfir mig, neikvætt andrúmsloft þyrlast að mér, ég er umlukinn neikvæðri þoku.  Hvað á ég að gera, hvað get ég gert.  Get ég bætt mig?  

Þetta varð mér til umhugsunar þegar ég sá grein Katrínar Pétursdóttur forstjóra Lýsis þessarar konu sem dælir lýsi og Omegasýrum yfir okkar sem gerir okkur svo hraust og glaðlynd að hennar sögn, seinast sem ég hafði séð til þessarar konu fyrir nokkrum mánuðum þá lagði hún sinn skerf fram til að þyrla upp jákvæðni. Hún mætti út í Straumsvík til skipa út áli, hún situr nefnilega í stjórn Rio Tinto Alcan á Íslandi.  Þess fyrirtækis sem harðast hefur barist
gegn launafólki sínu seinustu árin.  Seinustu árin virðast hafa verið Katrínu góð, en hún fór eins og fleiri fram úr sjálfri sér í Góðærinu   sem endaði með gjaldþroti Hnotskurnar, fyrirtækis hennar og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, en það virðist ekki hafa háð henni að hafa svona skell á bakinu. Hún stendur keik með bros á vör og gefur okkur hinum góð heilræði.  Hefur meiri viðskiptavild en flestir.    

En hvers vegna er þessi neikvæðni sem hún talar um, á hún einhvern þátt í að hann er til staðar?  Detttur nokkrum það í hug? Ætli sé nokkur andleg kreppa í hennar sálarlífi.  Hún sem sat í stjórn Glitnis, FL Group, Bakkavör, Viðskiptaráði Íslands,  nánustu samstarfsmenn hennar hafa verið á fullu í Sjálfstæðisflokknum, aðrir tengjast sterkustu hlekkjum útvegsmafíunnar og Morgunblaðsins ( Gunnlaugur Sævar og Sigurbjörn Magnússon). Enda hefur hún komið sterk til baka.  Hefur púlsinn á þjóðlífinu, við eigum að meta atvinnulífið eins og við metum í íþróttir og afreksfólk.   

Já, andlega kreppan okkar hinna?  Hvernig stendur á henni?  Hvað er það sem við viljum sem veldur?  Ætli það sé ekki að losna við þennan græðgissvip atvinnumafíunnar.  Við viljum atvinnulíf sem tekur þátt í uppbyggingu mennta, heilbrigðis og velferðarþjóðfélags, sem finnst ekki eðlilegt að fela peninga sína í aflandsfélögum.  Sem finnst ekki eðlilegt að hér búi tvær þjóðir.  Önnur sem getur gert allt sem henni sýnist í valdi fjármagnsins, hin þar sem stór hluti verður að telja krónurnar á hverjum degi svo nóg sé til fyrir mat og skæði.  

Þegar Katrín hefur áttað sig á því þá er hægt að ræða við hana um neikvæða og jákvæða orðræðu.  Ekki fyrr.  


Úr viðtali í Viðskiptablaðinu:

„Já, það er einmitt svona auglýsing sem ég myndi vilja fyrir atvinnulífið. Einhverja jákvæða og góða tengingu. Við eigum að vera stolt yfir því sem við höfum. Við vorum einu sinni öll stolt yfir því að vera Íslendingar og við vorum öll stolt yfir okkur, okkar atvinnulífi, okkar fyrirtækjum og okkar afreksfólki. Við eigum að halda áfram að vera svolítið stolt.“ 
Viltu meina að það vanti þjóðarstolt í Íslendinga?
„Það er nefnilega spurningin. Það virðist ekki vanta þegar kemur að afreksfólki, þá erum við öll jafn stolt en þegar kemur að atvinnulífinu þá mættum við vera stolt þar líka. Við eigum það fyllilega skilið að hreykja okkur af íslensku atvinnulífi sem er framúrskarandi og það má líka alveg tala meira um þann árangur sem hefur náðst hér síð- an efnahagshrunið dundi yfir. Má ekki segja bara að íslendingar hafi verið duglegir? Kreppan er búin og komið góðæri en eftir situr andlega kreppan. Það má því vel segja að þessi auglýsing hafi ákveðinn undirtón.“


Neikvætt andrúmsloft gagnvart atvinnulífinu
Þrátt fyrir mikinn uppgang í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu um þessar mundir segir Katrín neikvæða orð- ræðu gagnvart íslensku atvinnulífi fara mikið fyrir brjóstið á sér og hafa lengi gert. „Það er alltaf verið að tala niður og kasta rýrð á atvinnulífið. Það er tortryggt í hvívetna og það á sama tíma og við erum að horfa til þess að íslenskt atvinnulíf er að standa sig alveg gríðarlega vel. Það má til dæmis nefna sjávarútveginn þar sem erum við með fyrirtæki á heimsmælikvarða. Íslendingar eru að standa sig helmingi betur en nágrannaþjóðir sínar í umhirðu og fullnýtingu sjávarafurða. Við erum að nýta 75-78% af aukaafurðum samanborið við til dæmi 25-30% í Noregi.
Það er verið að gera svo vel svo víða í íslensku atvinnulífi og mér finnst það hreinlega ekki njóta sannmælis. Almennt finnst mér að það þurfi að koma til meiri hvatningar og viðurkenningar á því sem vel er gert á þessu sviði. Atvinnulífið er algjörlega órjúfanlegur hlutur frá heimilum, almenningi og byggð í þessu landi og mér finnst oft skorta skilning á þeirri tengingu.“ Aðspurð segir Katrín að henni finnist orð- ræðan vissulega hafa versnað í kjölfarið á efnahagshruninu árið 2008. „Það hreiðraði um sig einhvers konar tortryggni og neikvæðni í garð atvinnulífsins. Ég held að ég sé ekki ein á þessari skoðun.“

sunnudagur, 12. júní 2016

Útlendingastofnun léttir okkur lífið

Alltaf læriR maður eitthvað nýtt í mannvonsku. Ég vona að það verði eitt af forgangsmálum nýrrar ríkisstjórnar húmaniskra afla að fÆra manngæsku inn í þessa stofnun. Ég veit ekki í hvers umboði lög og reglur eru túlkaðar hjá Kristínu Völundar og kó.


Sjálfboðaliðum bannað að
heimsækja hælisleitendur:
„Stendur ekki til boða“

Íslenskir sjálfboðaliðar víðsvegar að úr samfélaginu hafa um árabil veitt hælisleitendum á Íslandi félagslegan jafnt sem andlegan stuðning. Útlendingastofnun hefur nú lagt blátt bann við heimsóknum sjálfboðaliða á heimili hælisleitenda. Starfsmaður stofnunarinnar segir ekki standa til boða að létta hælisleitendum lífið inni á þessum stöðum.

miðvikudagur, 8. júní 2016

Forseti: Tími hræsnarans er liðinn

Það eru Forsetakosningar framundan, lesendur mínir hafa eflaust heyrt minnst á það. 
Margt skrítið sem skráð verður í sögubækurnar hefur þegar gerst.  
Forsetinn sjálfur dregur sig til baka þegar hann sér Ritstjórann birtast á sviðinu. 
Ritstjórinn býður sig fram enginn veit af hverju.  Að eigin sögn vegna þess hversu ómissandi hann er íslenskri þjóð.  Hann er í leyfi frá störfum á Morgunblaðinu en virðist reka það með dagskipunum þar sem gömlu trixin eru reynd.  Þessi sem dugðu í hinni pólitíkinni, útúrsnúningar, vandlætingarsvipur, lygar.  Karlinn sem vill ímynda sér að hann hafi

sómatilfinningu.  Eða hvað, hvar er hún? Við þekkjum hvernig svipur hans myrkvast, þegar einhver vogar sér að standa upp gegn honum.  Það voru margir sem misstu starf og æru af návistum við hann.  Hann þrútnar nú af vandlætingu yfir ummælum Guðna.  Einu sinni dugði að hafa uppi svona málflutning, ekki lengur.  Tími hræsnarans er liðinn.  


Af hverju?  Við lifum aðra tíma,  gáttir spillingar opnuðust í Hruninu, og Panamaaflandið bætti um betur.  Við höfum séð samspil stjórnmálaafla og fjárbraskara.  Við viljum ekki slíkt aftur.  Sigmundur Davíð getur reynt að lengja í snörunni en hans tími er liðinn, hann notar alveg sömu trixin og Davíð, útúrsnúningar og lygar.  Hann varð að athlægi um allan heim, heldur hann að hann geti birst sem ráðherra á ný?   Það verður brandari aldarinnar. Nei lesendur góðir, Gömlu brellurnar gömlu siðir valdamafínunnar sem telur að hún eigi okkur öll .  Þess vegna duga klækirnir ekki.  

Þjóðin vill annað, Þess vegna er Æðsti presturinn trúður mánaðarins. Og þeir sem vilja svipta fólk rétti að verða forseti út af trúarskoðunum dæma sig líka úr leik.  Það er enginn fulltrúi í framboði fullkominn og óskeikull, það vitum við öll.  Það er vandræðalegt stundum, að horfa á frambjóðendur "selja sig", segja frá hugmyndum sínum, framtíðarsýnum, lýsa sjálfum sér.  Eflaust flest með imyndarsérfræðinga á bak við sig.  Mér var oft hugsað til þess þegar ég horfði á Guðna í gærkvöldi, það var ekki allt gott hjá honum, manneskjan varð stundum að víkja fyrir ímyndinni, en svona erum við öll.  En sem fræðimaður, fyrirlesari, skýrandi fræða og atburða fyrir alþjóð, sérfræðingur á mörgum sviðum. fjölskyldumaður sem kemur hreinn og beinn til dyra þá virðist hann snerta við eitthvað hjá mörgum. Ef skoðanakannanir birta álit okkar rétt.  

Það eru fleiri afburðamenn að mínu mati, Andri Snær, ég þekki hann sem rithöfund og umhverfisboðbera, nú er það notað gegn honum sem eitthvað neikvætt.  Pabbi hans var með mér í bekk í barna og gagnfræðaskóla, fjölskylda hans bjó í Teigagerði 1 ef ég man rétt, prýðisfólk. Enn hefur hann ekki náð flugi hjá þjóðinni.  Kannski situr í fólki áróður framsóknar gegn listamannalaunum.  Fólk sem ég met mikils hefur ekkert nema gott um hann að segja.  

Halla Tómasdóttir er eflaust góður fulltrúi íshaldsafla íslenskra, en ferill hennar fyrir Hrun gerir hana ómarktæka hjá mér.  Sturla Jónsson kemur ágætleg fyrir í mínum augum en hann vantar þá breidd sem forseti verður að hafa.  Guðrún og Hildur eru konur hugmynda sem eru fjarri mér, sambland af, gömlum hugmyndum um gæsku og hindurvitni.  

Elísabet Jökulsdóttir eru kafli fyrir sig.  Ólíkindatól sem hefur tekist að setja mark sitt á framboðsfundi.  Fundirnir verða mannlegri og hlýlegri með húmor hennar og skáldlega sýn.  En líklega verður hún aldrei forseti.

Frekar ern Ástþór.   

Myndir: Greinarhöfundur í samráði við köttinn  Sergei Flóka
Kosningar eru merkilegt fyrirbrigði.  Alltaf gerist eitthvað óvænt.  Enginn getur ábyrgst úrslit.  Sumir hafa rætt, fyrir þessar kosningar, um að fólk eigi að kjósa eftir sannfæringu, ekki stunda reikningskúnstir til að fá rétt úrslit. Aðrir verðir þungir í skapi þegar þeirra maður virðist ekki ætla að ná því sem skyldi.  En ..... þetta er lýðræðið, við höfum öll eitt atkvæði, bara eitt, og það er 
okkar að ráðstafa því, þú mætir einn(ein) inn í kjörklefann, sem betur fer.  Aðrir geta reynt að hafa áhrif á þig, í okkar heimshluta erum við ein um að kasta í kassann seðlinum, eða í tölvuna:  Þar verður til þetta merkilega fyrirbrigði, meirhlutinn , lýðræðið. Sem við sem einstaklingar erum oft svo sár og svekkt út í.  En sem við getum ekki komist hjá.   





sunnudagur, 5. júní 2016

Pistill um Forseta, Formann og Framsóknarmaddömur

Lesendur mínir hafa eflaust tekið eftir því að pistlar mínir hafa ekki sést seinustu vikunar.  Undirritaður fór að kynna sér Heilbrigðiskerfið af eigin reynslu til að geta tekið virkari þátt í umræðunni um hana á næstunni.  Meira um það seinna. 

Fátt hefur verið fréttnæmt á landinu fyrir utan þessar blessaðar forsetakosningar.  Rúmlega mánaðar kosningabarátta verður svolítið leiðigjörn.  Og spurning hvort menn eigi ekki að hafa hreint mannorðsvottorð.  Auk þess sem fólk þarf að geta tjáð sig í fjölmiðlum, en það virðist
vera töluverður misbrestur á því.  Ég hlustaði á eina konuna í vikunni í viðtali við Óðin, hann þurfti eiginlega að draga hvert orð upp úr henni. Fólk fer ekki á Bessastaði  til að reka Þagnarbúðir (það er nú ansi góð hugmynd), og enn síður að halda fyrirlestra um Heimsástandið á furðulegum forsendum svo maður svitnar.  

Stórfrétt vikunnar var auðvitað enn einn endurkoma Sigmundar Davíðs í mannheima.  Hvar sem hann nú var þá virðist hann ekki hafa hugleitt mál sín seinustu mánuði og ár.  Það var ekki bara verið að tala um einn bankareikning hjá honum, það var svo margt annað sem hann braut af sér sem forsætisráðherra getur ekki gert eða hegaða sér.  Þögn yfir stöðu sem hann á ekki að vera í.  Vera í kröfuaðgerðum og samningum við ríkið þar sem hann æðsti ráðamaður.  Það er sorglegt ef Framsóknarflokkurinn ætlar að gleypa þessa hugmyndir hans um ofsóknir, brjálæði og sakleysi. Það kæmi manni ekki svo sem á óvart.  Nóg eru kjósendur ánægðir með Aflandskarlinn Bjarna Ben og allt hans lið.  Klígjan kom upp í hálsinn þegar fundarmenn stóðu upp til að lýsa yfir samstöðu við Formanninn.  

Sjaldan hef ég séð neitt vandræðalegra þegar Sigmundur reyndi að faðma nokkrar Framsóknarmaddömur líklega gegn vilja sumar þeirra.  Væntanleg kemur formaðurinn tvíefldur í haust með nýja stórmeistaraáætlun að sigra næstu kosningar.  


Myndir: Greinarhöfundur

sunnudagur, 29. maí 2016

Stóru málin: Hver eru þau?

Mönnum er tíðrætt um stóru málin, sem ríkisstjórnin þurfi að ljúka við.  Öllum okkur til dýrðar, þjóðinni. Til bóta öllum þeim sem mættu niður á Austurvelli fyrir nokkrum vikum og sögðu burt, burt!  

Nú eigum við að vera búin að gleyma að mati ráðgjafa ráðherranna, Gleyma forsætisráðherra sem laug að okkur hikstalaust skipti eftir skipti, sat báðum megin við borðið í samningum, hann var og er hrægammur og samdi við hrægamma.  Hafði kannski áhrif á niðurstöðu, verri samninga en ella.  Nú kemur hann til baka galvaskur og byrjar að rífa kjaft sáir í kringum sig andrúmslofti, það var ekki ég sem var þrjóturinn það voru blaðamennirnir, fjölmiðlamennirnir eru bófar. Afland er gott land.  

Svo nú á að halda sér í valdstólana með hrægammaklónum, ég heyri fyrir mér rispuhljóðin.  Meðan ástæðan fyrir kröfum á kosningar er það að við treystum því ekki að eitthvað sem xB gerir sé annað en framlenging á spillingu.  Spillingu með stórum staf.  Því er til lítils að ræða við eða um Ásmund Einar og kó.  Þeir eiga að fara burt.  Þjóðin treystir þeim ekki. 

Við höfum söguna:  ´Halldór Ásgrimsson, Finnur Ingólfsson, Björn Ingi, Ólafur Ólafsson, Búnaðarbankinn, Kaupþing og svo framvegis.  Og svo framvegis. 

Svo kemur Davíð í framboð, ímyndið ykkur forsetaframboð.  Það setur að manni hroll.  Og byrja gamla stjórnmálaleikinn, við vitum í hvaða flokki þú ert, vinur minn.  Þegar okkur er bara alveg sama.  En við munum verkin hans Davíðs, framkomu við manneskjur sem voru ekki hlýðnar.  Við munum leikflétturnar, við munum helmingaskiptin, við munum svo margt.  

Svo stóru málin eru ekki gæluverkerfni xB og xD.  Stóru málin er útrýming spillingar, ný stjórnarskrá sem gefur fólkinu aðgang beint að ákvarðanatöku.   Stóru málin er mál okkar allra.Ekki einkavæðing og úthlutun til réttra vina og kunningja. Stóru málin er betra samfélag og réttlátara.  Stóru málin er virðing fyrir öllum.  Hvaðan sem þeir koma. 









Mynd með færslu









Eins og kemur fram í leiðbeiningum kærunefndar útlendingamála í úrskurðinum taldi nefndin líklegt að frestur til að framkvæma ákvörðun á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar væri liðinn. Hinn 19. maí sl. óskaði talsmaður hælisleitandans eftir því við Útlendingastofnun að málið yrði tekið til efnismeðferðar hjá stofnuninni. Hinn 20. maí svaraði Útlendingastofnun erindi talsmanns þar sem útskýrt var að ekki væru forsendur til þess, enda hefði úrskurður kærunefndar ekki kveðið á um slíkt. Þá var talsmanni einnig greint frá því að vegna háttsemi umbjóðanda hennar, sem leiddi til þess að ekki var unnt að framkvæma ákvörðunina, hefði frestur til framkvæmdar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar framlengst í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Mátti talsmanni umsækjanda því vera fullljóst hvernig málinu var háttað.

föstudagur, 27. maí 2016

Retro Stefson; Eyrarbakki: Lofsöngur til Bakkans

Gaman að sjá þá leika sér á bernskuslóðum mínum, Retro Stefson félagana, ég var tvö sumur hjá ömmu minni í Stígprýði á Eyrarbakka. Þetta er óður til þessa einstaka umhverfis, þessi dásamlegu hús sem hafa fengið nýja ævidaga, líta mörg út betur núna heldur en þá.  Það voru öðruvísi hreyfingar heldur en hjá Unnsteini og Haraldi í denn , fótbolti á túninu við hliðina á Litlahrauni þar sem Gunnar Huseby æfði kúlu hinum megin við girðinguna, fjaran var alltaf endalaus uppspretta hugmynda og leikja, bátarnir í slippnum, njólarnir voru sverð.  Þeir félagar dansa fyrir austan húsið mitt ! Svo var alvara lífsins ná í kýrnar hans Manga frænda, kartöfluupptekja í 2 mánuði oft ansi erfitt, heyskapur úti á engjum.  Já, þetta voru aðrir tímar, Veröld sem var. Sæt í minningunni.  


https://youtu.be/ZaUM-yG8IAA


 

fimmtudagur, 26. maí 2016

Útlendingastofnun: Þar sem Jesús er ekki til

Enn eitt mál, enn ein hörmung, karl sem búinn er að vera í 41/2 ár, á Íslandi. 

Ákallaði Jesús er hann var snúinn niður í Leifsstöð

en ætli það sé ekki bara í lagi, Dyflinnar reglan blívur, hvað ætli Dublin búar hugsi um það?  Vera kenndur við níðingslegar aðferðir víða um lönd. 

Hvað gerir Mannréttindastofa Reykjavíkurborgar í svona málum? Hvað gerir Amnesty ?  Er Kærunefnd útlendingamála einhver dula sem enginn þarf að taka tillit til? Varðar þetta nokkur Þjóðkirkju Íslands?

Okafor búinn að vera í fjögur og hálft ár.  Það væri auðvitað fáránlegt að stofnanir í Svíþjóð og á Íslandi ræddu málið, væri það  málsmeðferð Svía að senda alla samsvarandi til síns heimalands. Þar sem ekki eru beint friðsælt.  Eða kæmi í ljós að hann gæti átt framtíðardvöl í Svíþjóð og þá væri hægt að hliðra til manni sem búinn er að vera þennan tíma á Íslandi að fá vera áfram?  Þetta eru auðvitað fáránlegar hugmyndir að lögfræðingar í tveim löndum ræddu málin saman? 

Er ekki komnn tími til að skipa rannsóknarnefnd til að skoða þessi vinnubrögð.  Stofnun sem fékk nýlega erlenda aðila að segja hve hún ynni vel.  En sem vekur almennan viðbjóð hér á landi.  Eða fá umboðsmann Alþingis til að skoða meðferð Útlendingastofnunar á lögum Alþingis.  Er þetta lagameðferð sem er okkur til sóma?