miðvikudagur, 14. september 2016

Formaðurinn og Skíthælarnir

Enn er hann á ferð sá sem ekkert hefur gert af sér. Tortola þekki hann ekki, Kröfur þekkir hann ekki.  Við þurfum ekki að nefna nafn hans, allir þekkja það. Skíthælarnir umkringja hann vilja honum allt illt.  Að hans mati.  Ef lífið væri svona einfalt, Ég og Skíhælarnir. 

 „Ég mun aldrei gefast upp fyrir skíthælunum sem hafa þráð að drepa mig“
Úr kjördæmi hans

„Ætli þetta sé ekki þrjóska. Ég mun aldrei gefast upp fyrir skíthælunum sem hafa þráð að drepa mig frá því ég byrjaði í pólitík. Ef þeim tekst ætlunarverk sitt verður það aðeins með því að þeim takist að fá framsóknarmenn sjálfa, fólkið sem ég hef verið að vinna fyrir, til að sjá um aftökuna.“




 En auðvitað höfum við áhyggjur af honum, hvert sálartetrið er að bera hann. Enginn vill þeim illt sem virðist eiga svo erfitt.  Því væri gott ef það væri einhver sem gæti sagt við hann: Þetta er búið. 
Það gerir ekki þessi samstarfsmaður hans: 
Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, kveðst íhuga varaformannsframboð í Framsóknarflokknum. Frá þessu greinir hann í viðtali við Fréttablaðið. Þar segir hann að þessa dagana séu flokksmenn að reyna að átta sig á því hver ætli að leiða flokkinn. Sjálfur er hann sannfærður um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gegni formannsembættinu áfram.

„Ég mun aldrei gefast upp fyrir skíthælunum sem hafa þráð að drepa mig“
„Ætli þetta sé ekki þrjóska. Ég mun aldrei gefast upp fyrir skíthælunum sem hafa þráð að drepa mig frá því ég byrjaði í pólitík. Ef þeim tekst ætlunarverk sitt verður það aðeins með því að þeim takist að fá framsóknarmenn sjálfa, fólkið sem ég hef verið að vinna fyrir, til að sjá um aftökuna.“

Halló þjóð er einhver heima?


mánudagur, 12. september 2016

Á að rústa Framsóknarflokknum?

Það er margt furðulegt á kreiki í Framsóknarflokknum.  Svo skrítið að maður getur varla fylgst með. 
Miðstjórnarfundur er haldinn á Akureyri.  Formaðurinn heldur Dómsdagsræðu.  Um þann
Verður græni liturinn áfram grænn?
eina flokk í heiminum sem hefur staðið upp gegn auðvaldinu, Kröfuhafar lyppuðust niður, líklega eiginkonan líka.  .  


Varaformaðurinn og forsætisráðherra ríkisstjórnar landsins þarf að taka til máls í almennum umræðum!  Og lætur formanninn hafa það óþvegið.  Framboð er lagt fram gegn formanni. 

 „Sigmundur lofaði okkur að fara um landið og berja í þessa bresti en það hefur ekki tekist. Þannig að það traust og trúnaður sem að minnsta kosti hluti okkar Framsóknarmanna hafði á okkar ágæta formanni er farið. Við teljum alveg nauðsynlegt fyrir flokkinn og Sigmund að hann standi upp af stallinum í svolítinn tíma. Smá iðrun hefði kannski verið notaleg.“ Segir mótframbjóðandinn.  Góður og gegn Samvinnumaður. 

Gunnar Bragi stígur enn fram sem talsmaður Formanns.  Ekkert kemur í veg fyrir áframhaldandi setu hans.  Ónei.  Engin málamiðlun er í spilunum.  Það á að kljúfa flokkinn svo að Formaðurinn einn megi ríkja.  Sá sem aldrei hefur gert neitt rangt.  Sá sem er fullkominn.  

Svo spurningin er á að rústa flokknum fyrir Ego manns sem maður veit ekki hvort  sé heill.  Við bíðum og sjáum hvað setur.  Ég skil að það er óró í mörgum flokksmanninum í flokknum þar sem Genin eru hvað sterkust.  Hin einu og sönnu Framsóknargen.  

miðvikudagur, 7. september 2016

Söngleikurinn Djöflaeyjan, Bland í poka

Nú eru leikár leikhúsnna að hefjast.  Sitt sýnist hverjum um val vetrarins og fyrstu frumsýninguna: Djöflaeyjuna.  Og alltaf byrjar söngurinn um hvað allt sé ómögulegt í Þjóðleikhúsinu.  Hópur leikhúsfræðinga virðist vera þar fremstur í flokki.  Allt er ómögulegt eftir að Ari Matthíasson varð leikhússtjóri.  Innifólkið sem stjórnar fjölmiðlaumræðu á sterkari að sem tengjast. Borgarleikhúsinu. Þar er allt svo gott.
Það er ómgulegt að spila Shakesperare (sem öll góð leikhús eiga að gera einu sinni á ári).  Söngleikir eiga ekki að vera í Þjóðleikhúsinu.  Ekki nóg af kvenleikstjórum. Allt of mörg skáldsöguleikhúsverk.  Og svo framvegis.  Mér sem venjulegum leikhúsgesti finnst þetta ganga of langt. Aðalatriðið á að vera blandað prógram með nokkrum góðum sýningum og einhverjum sem mistakast hrapallega.  Í báðum leikhúsunum.  Sem betur fer tekst það oftast. Íslensk leikhús eru góð í dag.  Standast samanburð við það besta annars staðar. 

  Djöflaeyjan var í mínum augum og eyrum:  Bland í poka.  Svolítið köflótt sýning.  
Það góða var:  frábær tónlist og tónlistarflutningur, mikið virðast ungir leikarar fá góða söngkennslu í námi sínu,  sviðsmyndin skemmtileg þótt braggahugmyndin verði of yfirgengileg, sömuleikis lýsing, nokkrir leikarar ansi góðir;  Eggert var bestur, féll ekki í gryfju ofleiks sem yngra fólkið gerði, Arnmundur Bachman, líka. einlægur og sannur, Guðjón Davíð (Gói) stelur sínum atriðum, tvö söngatriði dásamleg, húmor og tækni.  Dollí ansi góð, þó hætti henni að vera of oft á háu nótunum (ekki í söngnum heldur leiknum, hún er frábær söngvari).  Gunnar Jónsson bjó til allt öðruvísi fyllibyttu en tíðkast hefur með þetta hlutverk.  

Það slæma var:  Og óljós heildarmynd og hugmynd um verk Einars Kárasonar.  Sem skrifast mest á Atla Ragn og Melkorku.  Of tilviljunarkennt hvað er tekið hvað ekki.  Til dæmis hvað Karólína verður þunnur þrettándi, Guðrún fær of lítið að moða úr, Baddi allt of fyrirferðarmikill, ég er ekki eins hrifinn og margir af Þóri Sæmundssyni, allt of mikið var gert úr Ameríkaniseringunni, maður var orðinn hundleiður á enskufrösunum, þetta var bara tilgerðarlegt. Lokasenurnar náðu ekki til mín, þetta var ansi tilgerðarlegt drama,  jarðaförin, kirkjugarðsfyllerísórarnir hans Danna voru væl,  og ganga hans burtu með Tom Waits í farteskinu ekki fyrir minn smekk. Það vantaði meiri leikstjórn, meiri aga. 

Svo lesendur góðir:  Það er gaman að fara í leikhús, allar sýningar eru ekki fullkomnar, það er ýmislegt gert og reynt í Djöflaeyjunni, fyrri sýningin í bragganum í gamladaga var góð, tímamótasýning að færa leikhúsið úr leikhúsinu.  Nýja uppfærslan er söngleikur, sú hlið tekst vel, ansi er tæknihliðin orðin góð, ekkert klikk í hljóðblöndun og flutningi.  En það verður ekki tími til að sinna leiklistarhliðinni.  Svo hún fær 3 af 5.  Farið í leikhús og deilið við vini og kunningja.  Þannig er lifandi leikhús.  Djöflaeyjan

 mynd: Þjóðleikhúsið

föstudagur, 26. ágúst 2016

Talandi um spillingu og ýmislegt fleira

Það er ýmislegt að gerast í verkleysinu.  Stjórnin sem ætlar að gera svo mikið, svo er ekkert sem gerist.  Svo stjórnarandstaðan þvælist ekki fyrir sagði flokkslausi formaðurinn.  En .....

Við fáum eflaust nýjan formann í Framsókn, ég er nokkuð viss um að hann heitir Sigurður, sumir vinir mínir tala illa um hann, en miðað við Framsóknarmann þá er hann viðkunnanlegur.  Svo hann kemur inn á sjónarsviðið á næstu vikum.  Sannið til. Spillingargaurinn Sigmundur á ekki sjens. Sannið til.  Hvað ég?  Gerði ég eitthvað?

Talandi um spillingu, hún er svo víða, ætla Sjálfstæðismenn að dansa áfram með Bjarna Ben í fararbroddi í farteskinu?  Eru allir xDarar ánægðir með hann og hans fjölskyldu og tengsl? Er spilling allt í lagi? Einu sinni sá ég Bjarna í Hagkaup í Skeifunni. Hann var að bíða eftir 2 konum sem voru að versla. Hann horfði illilega á mig, ætli hann lesi bloggið mitt hugsað ég í hroka mínum og yfirlæti?

Viðreisn fær eðalfrjálshyggjugaura til sín í hrönnum. Er stór munur á Viðreisn og xD?  Fyrir utan afstöðuna til ESB.  Stefnan ekki fullmótuð. En viðmótið samt hlýlega en hjá xD.

Píratar eiga í vandræðum með kosningfyrirkomulega sitt mikið rætt um úrslit á Norðvesturlandi , framagosar víða á ferð eins og við mátti búast, en gaman var að sjá gömlu nágrannakonu mína hana Vigdísi á lista! Það er elíta hjá Pírötum eins og í öðrum stjórnmálaöflum ætli annað sé hægt?  Verst er þegar fólk afneitar því að valdaapíramídi sé til staðar. Þá er engin leið til baka. Spillingin ein mun ríkja!


miðvikudagur, 24. ágúst 2016

Gísli Björgvinsson: Staka um flugnamorðingja

Ég birti 3 stökur eftir tengdaföður minn Gísla Björgvinsson fyrir nokkrum dögum.  Það sem einkenndi Gísla var að blanda saman húmor, kerskni og ádeilu.  Sem er einkenni góðra vísnasmiða.  Ég fann í tiltektum mínum eina í viðbót sem tengist mér sjálfum, þessi vísa er líklega frá 1983 en þá var ég virkur í Herstöðvaandstæðingum sat þá í Miðnefnd samtakanna.  

Við vorum fyrir austan og gistum í Þrastahlíð hjá Gísla og Sigurbjörgu.  Það var gott veður og mikið flugnager.  Út um allt, líka inni í stofu, þetta fór í taugarnar á mér svo ég náði í ryksuguna og saug flugurnar upp.  Gísli fylgdist með þessu og sagði fátt.  Hann skipti sér ekki af því hvað aðrir voru að gera en lagði stundum orð í belg. 

Þegar ég hafði lokið þessu mikilsverða starfi fórum við eitthvað út.  Þegar við komum til baka þá sat Gísli með Þjóðviljapappírinn sem vafinn var utanum blaðið. Búinn að setja saman eina stöku og rétti mér.  Hún var um flugnamorðin mín: 

Hann fólkinu boðar friðarorð
fégræðgi og kúgun ristir níð. 
en fremur daglega fleiri morð 
en foringinn Hitler á sinni tíð.


6 myndarlegir Formenn Miðnefndar Herstöðvar (Hernaðar) andstæðinga. Mynd tekin í Friðarhúsinu.
Frá vinstri: Greinarhöfundur, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sveinn Rúnar Hauksson, Árni Hjartarson, Auður Lilja Erlingsdóttir ( dóttir greinarhöfundar), Stefán Pálsson (sonur Ingibjargar)!


sunnudagur, 21. ágúst 2016

Flóttamenn: Hinn blái litur yfirvalda

Lítil frétt í blaði.  Fólk safnast saman til málsverðar í bakhúsi á Klapparstíg.  Safna í máltíð úrgangi og afgöngum matarmenningar okkar.  Í litla húsinu fyrir framan hangir klukkan sem telur tímann þeirra á Íslandi eða klukkustundirnar þangað til verðir laganna fylgja þeim út í flugvél. Þannig er hlutskipti flóttamanna og þeir eiga þar margt sameiginlegt með fátæklingum á Íslandi.  Þeir eru á röngum slóðum sem halda að það séu kjör Flóttamanna sem hindra það að líf öreiga hjá okkur séu ömurleg.  Nei, það verður að leita til yfirstéttar og auðmanna til að finna skýringuna. 

Allt eins og vera ber, segja sumir,  við höfum lög og reglur, laganna verðir fara eftir því. Við höfum meira að segja ný lög frá því í júnímánuði.  Samt eru allt of mörg dæmi um skrítin og kæruleysisleg vinnubrögð Útlendingastofnunar og annarra yfirvalda.  Sem hafa ekkert að gera með lögin sem slík heldur einlitan  bláan lit lögmanna og lögreglu.  Kannski getur næsta ríkisstjórn skapað annan anda. Anda sem býður upp á manngæsku og vinarþel.   Það er of margt daupurlegt í dag. Við eigum að lifa betur.
 




föstudagur, 19. ágúst 2016

Eygló eina vonin?

Eygló sýndi tennurnar í gær.  Gaf Sjálfstæðinu putttann.  Enda voru þeri fúlir.  Kannski er Framsókn að átta sig á að þeirra eini sjens er að færa sig til vinstri.  Þá er Eygló eina von þeirra. En líklega hafa þeir ekki vit á því.  Sumir sjá ekkert nema spillingargaurinn. Þvið vitið um hvern ég er að tala. 

Bjarni spilar nýfrjálshyggjuleikinn, hann kann ýmislegt fyrir sér, en þar er ekki boðið upp á hækkun bóta og örorku.  Halda skal vörð um endalausa aukningu peningaausturs til þeirra sem eiga mest.  Þannig er hugmyndafræðin, með því eigum við að fá vöxt í okkar buddu.  Þetta er draumsýn íhaldsins.  En hlutirnir eru ekki þannig.  Svo lið er sent á Eygló að ata hana sauri, meira að segja Ragnheiður Rikk tekur þátt í því. Svei henni.  

Pítatarnir halda prófkjör og smala inn á lista.  Útkoman er misjöfn, sumt til skammar, annars staðar vandað fólk.  En þá er sagt, fólkið velur.  En pólitík er ekki svo einföld.  Það verður að taka tillit til landsbyggðar, karla kvenna, sjá bakgrunn þeirra sem bjóða sig fram.  Svo ekki standi sjóræningjarnri uppi með fáráða. 

Mikið var sorglegt að horfa á Þjóðfylkinguna á Austurvelli, gamalt fólk að láta hafa sig að leiksoppi, og svo eru sagnfræðingar að falsa myndir í anda Hitlers og Stalíns.  Og umræðan á Fésbók verri en maður gat ímyndað sér að ætti sér stað á Íslandi. 

Ekki viljum við fá áframhald á Bjarna og Sigmundi.  Eða hvað?