laugardagur, 10. ágúst 2013

Úthlíð. Á slóðum forfeðranna

Naut þess að vera boðinn 2 nætur í fallegum sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu.  Gaman fyrir mig að líta á  sveitir forfeðra minna. Ég er ekki vel að mér í ættfræði en einhver hefur sagt mér að forfeður mínir hafi búið í Miðdal, Ysta-Dal og á  Álfsstöðum.  Og ég ók fram hjá þessum býlum.  Maður sér það að þeir sem hafa farið í sumarhúsavinnuna að útbúa bústaði leigja þá út hljóta vera vel efnaðir vonandi greiða þeir skatt í samræmi við það.  Það er ekki fátækt ef marka má sumarhús hér og í Borgarfirði.  

En það að eiga bústað og geta skropppið úr amstri borganna og bæjanna hlýtur að vera ómetanlegt.  Samheldni fjölskyldnanna eykst allt verður betra, þetta er ekkert að vanmeta. En um leið sýnir það að við búum í vel efnuðu þjóðfélagi.  Þar sem fólk getur leyft sér ýmsilegt.  Ekki alveg í samræmi við ramakvein um fátækt og eymd eins og við heyrum of oft.  

Við vorum tvær nætur í góðum bústað, grilluðum, vinkona mín sýndi á sér nýjar hliðar, hún er meistaragrillari. Við ræddum málin í gríð og erg og höfðum það bara ansi gott. Fengum okkur rauðvín og bjór.  Horfðum á eina glæpamynd. Og sofnuðum örþreytt. 

Keyrðum um sveitirnar, vorum í Úthlíð, fórum fyrst í smágöngu í skóginum í Haukadal.  Alls staðar hefur skógurinn tekið völdin, kannski of mikil.   Þarna voru fallegar ár og lækir, verkamenn í vinnu þetta var fimmtudagur,  fengum ábendingar frá þeim um gönguleiðir, gengum góðan hring, ég er ekki góður í hægri fæti um þessar mundir svo ég fer ekki svo langt.  Síðan skoðuðum við ný húsakynni við Geysi , gríðarleg húsakynni til að taka á móti ferðamönnum, matur ekki svo dýr miðað við annar staðar sem ég hef komið í sumar.   En annsi ósmekklegt að mínu mati, en það er bara mitt mat.  

Daginn eftir fórum við í ansi góða ferð fyrst niður í Reykholt, þar er alls staðar ótrúleg uppbygging.  Vinkona okkar hafði heyrt um tómataræktunarstað sem bauð upp á frábæta súpa að sjálfsögðu úr túmötum. Og það voru orð að sönnu, frábær súpa með dásamlegu brauði í tómatræktunarumhverfi. Þarna var hópur útlendinga á ferð sem borðaði um leið og við.  Þarna var allt svo hreinlegt og snyrtilegt.  Ef þið eigið leið um á miðjum degi þá eru hádegissúpa þarna frá 12 - 2 á Friðheimum í Reykholt.  Þið verðið ekki svikin.
Svo fórum við niður í Hreppa, ókum í gegnum Flúðir sem höfðu ansi breyst frá því við vorum þar seinast. Alls staðar er uppbygging.  En við ókum niður að Hreppshólum að kirkjunni þar, lítil og falleg krikja skoðuðum hana og kirkjugarðinn alltaf merkilegt að skoða kirkjugarða virða fyrir sér örlög fólks á ýmsum aldri, Spænsku veikina, bílslys, tíma þegar ekki var sjálfsagt að komast á legg, barnasjúkdómar, taugaveiki, berklar.   


Síðan ókum við í áttina að Hreppshólum, þar sem vinnsla fer fram á stuðlabergi þetta er skemmtilegur staður að koma á, Hrepphólarnir eru skemmtilegir og maður sér upp með Stóru-Laxá. Það er hægt að keyra þetta eða ganga létt ganga meira að segja fyrir fótafúa eins og mig. 





Loks lá leið okkar að Hrunakirkju sem er þekkt fyrir merkan atburð þegar prestur og söfnuður gátti ekki hætt að dansa á jólakvöldi þar til kirkjan sökk. Þarn er flott 19. aldarkirkja, gaman að koma í svo vönduð hús.  Svo hafði vinkona okkar frétt af Fjárbaði skammt frá, við fórum þangað þar voru margir útlendingar sem ætluðu í bað, einhvers staðar hlýtur að vera mælt með þessu í ferðabók.  Þarna rennur heitt vatn niður hlíðina og bændur byggðu hús til að baða féð áður fyrr á sóttartímum.  Þarna er gaman að koma.  


Mikið var gaman að ferðast um þessar slóðir ekki svo langt frá Reykjavík og við vorum vel heppin með veður.  Það rigndi mest á kvöldi og nóttum.  En þá sátum við og minntumst ljúfra tíma og nutum lífsins.  Á meðan grillað lambakjöt og bleikja rann ljúffeng niður með góðum veigum. Lífið er ekki svo dapurlegt. 

miðvikudagur, 7. ágúst 2013

Kjaramál: Rekum trúnaðarmennina .....

Ekki í fyrsta sinn sem þetta er gert í miðri kjaradeilu, trúnaðarmaður er rekinn, auðvitað hefur það ekkert að gera með kjaradeiluna.  Einhvern tíma var þetta gert í Straumsvík ef ég man rétt. Nú er það hjá Landspítalanum.  Staðan er bara lögð núna.  Óskyld mál.  Auðvitað er trúnaðarmanni ekki boðin staða sem er laus um leið.   

Hvað er stjórn BHM að gera? Tekur hún undir svona vinnubrögð?  Áður fyrr heyrði maður að þetta væri ólöglegt.   Að trúnaðarmann mætti ekki snerta.  Þetta segir á vef BHM

Opinberir starfsmenn 

Trúnaðarmenn sem starfa hjá opinberum aðilum njóta ákveðinna réttinda og verndar skv. 28.-30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
  • Hann skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa.
  • Ekki má flytja  trúnaðarmann í lægri launflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
  • Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu.
  • Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma.
  • Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
  • Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans.

Nánar um vernd trúnaðarmanna 
Vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu atvinnurekanda er hornsteinn þeirra  reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Verndin er til að tryggja það að trúnaðarmaður  geti sinnt skyldum sínum án þess að eiga á hættu að vera sagt upp störfum vegna  þeirra. Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast  trúnaðarmannsstarfinu en ekki daglegra starfa hans. Brjóti trúnaðarmaður alvarlega af sér í starfi má væntanlega víkja honum úr starfi og það er ekki tilgangur laganna að halda hlífiskildi yfir starfsmönnum vegna  alvarlegra brota í starfi. Það er ljóst samkvæmt þessu að vernd trúnaðarmanns í starfi er ekki alger og að  trúnaðarmaður getur þurft að hlíta uppsögn fyrir misfellur í starfi eða brot á þeim  starfsreglum á vinnustað, sem starfsmönnum er almennt skylt að hlíta.
Félagsdómur hefur fjallað um  vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og  þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.


Þessar reglur virðast vera orðnar ansi sveigjanlegar. Að leggja niður stöðuna.  Hvar er verkalýðshreyfingin?  Er þetta eitthvað til að líta framhjá. Svo eru valdamenn hissa þótt illa gangi að semja.    
  

þriðjudagur, 6. ágúst 2013

Guðinn Græðgi

Enn birtast fréttir af  Hrunjöfrum, gamalkunnum nöfnum, enn er Gift i fréttum, sem sýnir hið óhugnalega samspil Framsóknarflokksins og spillingarafla.   Seinustu leifar 30 milljarða almannafjár sem hópur manna stal og notaði til að koma sér til áhrifa í fjármálalífi þjóðarinnar.  Og enn eru þeir margir að, við getum minnst þess þegar við þurfum að eiga viðskipti, þar sem við getum, það er ekki alltaf mögulegt en stundum.  Sumir sluppu furðuvel þótt allir viti að þeir hefðu átt að birtast fyrir dómurum.

En þeir eiga víða fasteignir og fyrirtæki,  og enn tengjast þeir stjórnmálaflokkum.  Enn setur að mann klígju yfir framferði þeirra.  Þegar ákveðin fyrirtæki eru nefnd.  Ákveðin nöfn.   Sumir bjuggu í útlöndum aðrir voru í háum opinberum stöðum.

Skuldabréfin voru með veði í þessum fasteignum Góms. Skuldabréfakaupin voru fjármögnuð með bankaláni samkvæmt fundargerð stjórnar Giftar frá 20. júní 2007 sem DV hefur undir höndum, líklega frá Kaupþingi, viðskiptabanka Giftar. Líkt og DV greindi frá fyrr á árinu átti félag sem var að hluta til í eigu Finns Ingólfssonar, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, hlut í Gómi í gegnum félagið Hólmaslóð ehf. og því var Gift að fjármagna félag sem Finnur átti að hluta. Finnur var jafnframt einn af stjórnendum Giftar í gegnum fulltrúaráð þess. http://www.dv.is/frettir/2013/8/3/arion-tok-fasteignir-giftar-FRP8FJ/ 

Athygli vekur að heimilisfang Feier ehf. er það sama og heimilisfang flutningafyrirtækisins Samskipa, sem Ólafur Ólafsson er kenndur við: Kjalarvogur 7 til 15. Hjörleifur Jakobsson er stjórnarformaður Samskipa og situr í stjórnum fjölda félaga sem Ólafur Ólafsson á, meðal annars í fjárfestingarfélaginu Kjalari. Þá er Hjörleifur skráður eigandi eignarhaldsfélagsins Bingo sem er eigandi iðnfyrirtækisins Límtré Vírnets í Borgarnesi, heimabæ Ólafs Ólafsonar. Þessi umsvif Hjörleifs Jakobssonar í atvinnulífinu eftir hrun eru nokkuð athyglisverð þar sem hann hefur verið samverkamaður Ólafs Ólafssonar til margra ára en ekki komið fram sem sjálfstæður fjárfestir í verðmætum fyrirtækjum eins og Hampiðjunni og Límtré Vírneti. Þá vekja þær fjárhæðir sem Feier hefur komið til landsins mikla athygli – nærri rúmlega 600 milljónir króna – en ekki hefur verið vitað til þess hingað til að Hjörleifur ætti slíka fjármuni. Í viðtali við Viðskiptablaðið í fyrra sagði Hjörleifur hins vegar að hann einbeitti sér að eigin fjárfestingum þessi árin.

http://www.dv.is/frettir/2013/8/2/hjorleifur-flutti-inn-600-milljonir/

Þeir Ármann og Kjartan eru ekki að ganga saman í fyrsta sinn með kaupum á hlutabréfum í Auði Capital en sem kunnugt er keyptu þeir ásamt fleirum hlut í Tryggingamiðstöðinni (TM) nýverið í gegnum fjárfestingafélagið Jöká. Þá gerðust þeir Ármann og Kjartan sömuleiðis hluthafar í BF-útgáfu sem rekur útgáfufélögin Bókafélagið og Almenna bókafélagið. Fyrirtækin hafa gefið út bækur af ýmsum toga, s.s. Undirstöðuna eftir Ayn Rand, Íslenskir kommúnistar eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og bókina um Lága kolvetnis lífsstílinn. http://www.vb.is/frettir/85018/

Já, það er gott að fara á hausinn, það virðist ekki hafa mikið að segja fyrir suma: 


Ármann Þorvaldsson ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar á þessu ári. Skuldaði félagið um 5,5 milljarða króna í lok árs 2009. Var eigið fé félagsins neikvætt um 5.350 milljónir króna. Var félagið skráð til heimilis hjá foreldrum Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í London og voru þau bæði skráð í stjórn þess.
Lögmannsstofan Logos stofnaði félagið fyrir Ármann í upphafi árs 2007 en það hélt utan um hlutabréfaeign hans í Kaupþingi. Skiptafundur var haldinn hjá þrotabúinu í lok júní á þessu ári en þó hefur ekki enn verið gengið frá skiptalokum. Því liggur ekki ljóst fyrir hversu háar endanlegar kröfur verða né hversu mikið fæst upp í þær.
DV sagði frá því fyrir stuttu að Ármann hefði gert kaupmála við eiginkonu sína. „Ég er ekki að flýja neinar skuldir eða eitthvað svoleiðis. Er ekki að fara frá neinum persónulegum skuldum. Ég held ég tjái mig þó ekki að öðru leyti um þetta,“ sagði Ármann aðspurður um umræddan kaupmála í samtali við DV.
Lítið hefur hins vegar verið fjallað um umrætt einkahlutafélag Ármanns. Þegar nafni hans er flett upp í fyrirtækjaskrá kemur fram að hann tengist engum félögum. Það virðist hins vegar ekki vera rétt. Sama dag og Ármann og Þórdís Edwald, eiginkona hans, gerðu með sér kaupmála var glæsihýsi þeirra að Dyngjuvegi 2 fært yfir á Þórdísi.
Þrátt fyrir gjaldþrot Ármanns Þorvaldssonar ehf. virðist Ármann sjálfur hafa það gott í London. Þegar DV hafði samband við hann í byrjun ágúst á þessu ári vildi hann ekki upplýsa við hvað hann starfi í dag. Maður sem þekkir vel til í fjármálaheiminum fullyrti hins vegar að Ármann sinni í dag ráðgjafarstörfum fyrir skilanefndir föllnu íslensku bankanna í London. http://www.dv.is/frettir/2011/9/2/armann-thorvaldsson-ehf-gjaldthrota/


http://www.dv.is/frettir/201
1/9/2/armann-thorvaldsson-ehf-gjaldthrota/



sunnudagur, 4. ágúst 2013

Stjórnmál: Lognið fyrir storminn

Forsetinn okkar sýnir sig í Þýskalandi ásamt frúvu sinni alls staðar slá þau í gegn. Eins og sannt forsetapar, þau eiga að vekja athygli á landinu með frjálslegum athöfnum í heimsóknum víða um heim.  Nú er það íslenski hesturinn sem á leik í stórveldi Evrópu, Þýskalandi.  Og þau eru okkar stórfulltrúar. Ekki heyrast neinar fréttir af leyniviðtölum við valdamenn, sem betur fer.  

Hinum megin hafsins sýnir Forsætisráðherra sig með frúvu sinni á slóðum Vestur-Íslendinga,  sýnir í verki þjóðrækni sína sem sumir eru svo ósvífnir að kalla þjóðrembu.  Það er gott að sýna Selvmade Man  í Ameríku, þar eiga þeir heima.  Ekki er það honum að kenna þótt konan eigi Pening, ekki er það honum að kenna þótt Pabbi hans hafi dansað um í Góðærinu í kringum Gullkálfinn og ekki glutrað öllu úr höndunum.   Var Sigmundur Davíð nokkuð með honum í því?   

Hvað Bjarni er að gera veit ég ekki, ætli engar  fréttir séu slæmar fréttir eða góðar?  Ætli hann sitji á skrífstofunni með reiknistokkinn og afgreiði fjárlög í gríð og erg? Kannski ætlar hann bara að láta Vígdísi H. og Ásmund E.D. sjá um þau?   

Ætli það nú lesendur góðir, þetta er lognið á undan storminum, það eru margir sem bíða með óþreyju hvað gerist í haust, kemur Sigmundur Davíð með kanínu úr hattinum, eða verða komnar einhverjar góðar afsakanir þegar froðan og nályktin berast að vitum landans?   Mun forsetinn endalaust þola þessa aðgerðalausu ríkisstjórn, hvenær finnst honum komið nóg.  Meira að segja trúður trúðanna Ingi Hrafn er farinn að efast um afkvæmi sitt: 


 Núna finnst mér Bjarni og Sigmundur eins og snákaolíusölumenn. Snákaolíusölumenn í Ameríku fóru um vestrið, flott klæddir, og stóðu á torgum og predikuðu um það hvað snákaolía væri góð. Hana keyptu sérstaklega konur af því að hún átti að vera allra meina bót en var bara litlaus vökvi. Það er oft sagt þegar menn hafa lofað einhverju: Hann er bara snákaolíusölumaður. Ég spyr: Eru þessir strákar snákaolíusölumenn?

sagði hann á viðtali.  Þetta finnst mér nú ósanngjarnt, er þetta ekki of langt gengið.  Þeir þurfa nú að hvíla sig og hreinsa tunguna eftir fjögur seinustu ár.  En lesendur góðir, þetta er auðvitað lognið á undan storminum, það er haustið sem verður opinberun okkar.  Þegar ríkisstjórn auðkýfinganna sýnir sitt rétta andlit.  Verum viðbúin. 

laugardagur, 3. ágúst 2013

Bítlarnir : Og heimurinn stöðvaðist

Var að lesa grein um byrjunina á Bítlaæðinu í Bretlandi.  Furðulegir tímar.  Önnur veröld.  Gaman að rifja þá upp svona í tilefni af  Verzlunarmannahátíðinni.  Sem örfáum árum seinna varð heimkynni íslensks bítlaæðis. Þegar Þórsmörk og Húsafell urðu svallstaðir íslensks bítlaæðis.  Hljómar, Tempó, Dátar, Trúbrot, Óðmenn, bara að nefna það. 

Þessi furðulegi tími, þegar þessir strákar, fyrst í Bítlunum, síðan Rolling Stones, Small Faces, Dave Clark Five, Kinks, Gerry and the Pacemakers, The Searchers, til að nefna nokkra, urðu draumapiltar stúlknaæðis sem öskruðu og veinuðu meðan strákarnir veltu fyrir sér hvernig þeir ættu að eignast gítar, læra hljóma og stofna hljómsveit. Þetta var kynskipt veröld.  

Bítlarnir voru að ferðast um Norðvesturhluta Englands, spiluðu og spiluðu 400 tónleika 1962, urðu góðir með því að spila og spila, það var trú Brians Epsteins umba þeirra.  Svo fóru þeir að semja lög í rútunum endalaust, Lennon og McCartney fyrst svo bættist Harrison við með einn og einn góðan smell.  Þeir ferðuðust um með Ameríkönum sem voru auðvitað aðalnúmerið, fyrst voru það Tommy Roe sem átti þá smell með Sheila, ég man það lag og raula það í huganum, og Chris Montes sem átti marga smelli, ég man að góð vinkona mína var með æði fyrir The more I see you, maður fékk alveg nóg af því. Lennon hellti yfir Montes bjórkönnu þegar Bítlarnir voru að halda upp á útkomu Please Please Me, það varð fjandskapur lengi á eftir.   Seinna var aðalnúmerið Roy Orbinson sem varð furðu lostinn yfir þessum öskrum sem fóru stigmagnandi þennan vetur og vor 1963.   En hann hélt sínu striki söng sín dramatísku lög, Only the lonely, Crying og auðvitað Pretty Woman. Á meðan þessu jókst alltaf æðið, strákarnir þurftu alltaf meir að einangra sig og verja sig fyrir æðinu. En enn í lok 63 voru ekki allir tilbúnir að viðurkenna að þetta væri eitthvað til að keppa við Presley.    

Á Íslandi varð hægt og hægt breyting í okkar íhaldssama þjóðfélagi, hlutirnir voru lengur að breiðast og ferðast á milli landa,  ég man að bróðir minn keypti  tvær plötur 1964, safnplötu með ýmsum breskum grúppum sem urðu til á því ári, ótrúleg flóra, strákar í hverfinu sem voru að mynda band voru mjög spenntir yfir henni fengu hana lánaða til að pikka upp lög, sérstaklega Maybelline, Chuck Berry lagið, sem einhver bresk hljómsveit hafði tekið í hraðri útsetningu.   

Og vorið 1964 var Bítlastemmningin í algleymingi, ég man að árgangur minn fór í ferð til Akureyrar og þá var ekkert spilað nema Bítlar, I saw her standing there og PS I love you.  Og ætli það hafi ekki verið það vor sem Tónabíó og Laugarásbíó spiluðu Bítla, Rolling Stones og Dave Clark Five sem aukamyndir í bíó.  Margir fjölmenntu þarna dag eftir dag til að læra stælana og herma eftir fatatískunniog greiðslunni. Þeir sem upplifðu ekki þennan tíma vilja stundum láta eins og þetta hafi verið frekar ómerkilegt, en merkilegt er að fylgjast með þróun þessara ungu manna og stökki þeirra úr eftirhermum yfir í nýsköpuði.   Heimurinn var aldrei samur.  

Eins atburðar minnist ég frá þessum tíma, ég snaraði fyrir mörgum árum saman ljóði um hann: 


Bítlarnir

Var það á Hrísateigi eða í Rauðagerði?
Fólk kom úr Naustinu. Loftið á Naustinu var staður
fólks sem þessa, ungt, lífsglatt, róttækt.  Húsráðendur og
gestir, þetta heitir víst partí. Við unglingar vorum
barnapíur,  börnin sváfu svo vært, við höfðum
hlustað á Túskildingsóperuna og Kvöld í Moskvu.
Svo fylltist allt gleði, pískur, fjör, tveir voru nýkomnir
frá London. Menn fóru 
líka 
til London í þá daga
og þeir veifuðu plötu..... þið vitið plötu, svona hljómskífu.
Ætli þetta hafi ekki verið sextíu og tvö eða þrjú?
Þeir drógu upp smáskífu, íslenskufræðingurinn
og ritstjórinn,smáskífu Bítlanna.
 Þetta er toppurinn hvísluðu þeir með aðdáun og undrun:
Allir hlusta á þetta allir.  
Og við hlustuðum á Please Please me  eins og            


heimurinn hefði stöðvast. Þeir dilluðu sér á
miðju gólfi, fræðingurinn og stjórinn.
Enda stöðvaðist veröldin  um skeið.
þeir voru óstöðvandi, þeir voru
ómennskir, þeir gátu allt, lifðu allt, náttúrukraftar,
 þangað til annað kom í ljós.  Byssukúla og krabbaæxli,
sannfærðu okkur um annað, þeir voru líka mennskir.
Og þeir hristu sig,  
Lundúnafararnir, skóku sig á
gólfinu með sælusvip:
Allir hlusta á þetta, allir.











föstudagur, 2. ágúst 2013

Norður-Atlantshafsríkjabandalag: Er ekki kominn tími????

Skrítin staða hjá Færeyingum, þeir eru í ESB og þó ekki.  Nú fá þeir refsivist hjá bandalaginu sem þeir eru hluti af. Skrítið.  

Er ekki kominn tími til að ræða stofnun NABandalagsins, Færeyja, Grænlands og Íslands af fullri alvöru. Þessari hugmynd hefur verið hampað af mér og fleirum.  Sterkt bandalag smáþjóða með öflugri landhelgi og auðlindum.  Þar sem 3 fylki verða með sjálfræði og veldi eins og þarf. Þar sem náttúra og umhverfisvernd verða í hávegum.     

Ræðum þetta í alvöru.  

Eða hvað?
 

Gúlagið: Vera Hertsch og stórvirki Jóns Ólafssonar

Lauk við að lesa bók Jóns Ólafssonar, Appelsínur frá Abkasíu,  uppi á Húsafelli í mesta hitadegi  sumarsins.   Sannarlega er þetta ein áhrifamesta bók á íslensku sem ég hef lesið upp á síðkastið.  Þar fer saman firna áhrifarík örlagasaga einnar konu, þar sem hún speglar örlög milljóna; svo eru ansi góð vísindaleg vinnubrögð .  Miðað við erlendar bækur sem ég hef kynnt mér eru hér á ferðinni mjög gott yfirlit yfir Hreinsanirnar miklu á fjórða áratugnum.  Inn í þær er fléttuð harmsaga  Veru Hertzsch og samband hennar við Íslendinga; Benjamín Eiríksson, Halldór Laxness og Eymund Magnússon.  Í bakgrunninum eru síðan ýmsir sem koma minna beint við sögu; Þóroddur Guðmundsson, Eyjólfur Árnason, Eggert Þorbjarnarson, Stefán Pjetursson og fleiri.  Auk fjölskyldu Benjamíns Eiríkssonar sem reyndi að fá upplýsingar um örlög Veru Hertzsch og dóttur hennar. 

Hver einstaklingur sem hefur áhuga á sósíalisma, vinstri stefnu og sögu 20. aldarinnar hefur velt fyrir sér þessum furðulega sorgarleik sem saga Sovétríkjanna varð, en um leið átti þessi saga eftir að móta nær alla öldina.  Fyrst var fjallað um þessa sögu út frá þeim aðstæðum sem urðu með tilkomu nasismans, Kreppunnar miklu og Kalda stríðsins.  En síðan hefur athyglin beinst að innviðum og hugmyndafræði þessa samfélags og einstaklingum sem risu til valda.  Þá fyrst og fremst heljartökum Félaga Stalíns sem átti ekki fáa aðdáendur um allan heim lengi fram eftir öldinni.  Einnig á Íslandi. 

Það sem veldur stórtíðindum hjá okkur eru hugleiðingar Jóns um stöðu Halldórs Laxness, hvað hann gerði og hvað hann hefði getað gert.  Mér finnst það vera hugsanir sem eiga rétt á sér.  Þær breyta eflaust ekki heildarstöðu Halldórs sem höfuðrithöfundar þjóðarinnar og heldur ekki sem manneskju.  Alla vegana hafði ég ímyndað mér fyrir langa löngu leiðslukerfi skáldsins í heilahvelinu.   Ég hef alltaf ímyndað mér að hann væri manneskja sem væri enginn guð, heldur maður sem var snillingur á sínu sviði en hafði mannlega breyskleika og veikleika.   Stundum var hann hrokagikkur, barnslegur og tækifærissinni. Á öðrum tímum var hann þetta einstaka fyrirbrigði sem mun halda nafni hans á lofti lengur en flestra annarra samtímamanna hans. Og hann skrifaði svo Skáldatíma þar sem hann gerði Veru ódauðlega í heimi minninganna. Án þess er spurning hvort hún væri yfirleitt til nema í huga nokkurra ættingja og vina.   

Ég hnaut um skrif Jóns um Árna Bergmann á tímum kalda stríðsins,  mér finnst Árni ekki vera dæmigerður fulltrúi Sovétvina sem vissulega voru margir til á eftirstríðsárunum. Hann skrifaði eflaust nokkrar greinar eins og Jón tekur sem dæmi um framfarir í Austur-Þýskalandi sem voru ansi algengar á þessum tíma, ansi barnalegar nú á tímum.  Hann skrifaði líka margar gagnrýnar greinar um ástandið Austantjalds.  Stóru þáttaskilin verða með 68 kynslóðinni, hjá fólki á þeim aldri verða Sovétríkin aldrei neitt draumaland, þar er umræðan um lýðræði, jöfnuð og sósíalisma sem er aðalatriðið. Svo alhæfingar um afstöðuna til Sovét og skrif vinstri manna þurfa meiri og ítarlegri rannsókn heldur en nokkrar síður í bókinni.  

Svo lesendur góðir, þetta er erfið bók að lesa að mörgu leyti, efnisins vegna, en hún er vel skrifuð og vel upp byggð.  Svo mér fannst hún ansi góð.  Á eflaust eftir að lesa hana aftur.  Svo er heimildaskráin ansi girnileg fyrir þá sem vilja afla sér fróðleiks, ég er með bók Önnu Applebaum nú við höndina um Gúlagið: Gulag A History of the Soviet Camps. Svo eru bækur Solsenitsyns auðvitað skyldulesning öðru hverju. Og netið .....