sunnudagur, 21. ágúst 2016

Flóttamenn: Hinn blái litur yfirvalda

Lítil frétt í blaði.  Fólk safnast saman til málsverðar í bakhúsi á Klapparstíg.  Safna í máltíð úrgangi og afgöngum matarmenningar okkar.  Í litla húsinu fyrir framan hangir klukkan sem telur tímann þeirra á Íslandi eða klukkustundirnar þangað til verðir laganna fylgja þeim út í flugvél. Þannig er hlutskipti flóttamanna og þeir eiga þar margt sameiginlegt með fátæklingum á Íslandi.  Þeir eru á röngum slóðum sem halda að það séu kjör Flóttamanna sem hindra það að líf öreiga hjá okkur séu ömurleg.  Nei, það verður að leita til yfirstéttar og auðmanna til að finna skýringuna. 

Allt eins og vera ber, segja sumir,  við höfum lög og reglur, laganna verðir fara eftir því. Við höfum meira að segja ný lög frá því í júnímánuði.  Samt eru allt of mörg dæmi um skrítin og kæruleysisleg vinnubrögð Útlendingastofnunar og annarra yfirvalda.  Sem hafa ekkert að gera með lögin sem slík heldur einlitan  bláan lit lögmanna og lögreglu.  Kannski getur næsta ríkisstjórn skapað annan anda. Anda sem býður upp á manngæsku og vinarþel.   Það er of margt daupurlegt í dag. Við eigum að lifa betur.
 




föstudagur, 19. ágúst 2016

Eygló eina vonin?

Eygló sýndi tennurnar í gær.  Gaf Sjálfstæðinu putttann.  Enda voru þeri fúlir.  Kannski er Framsókn að átta sig á að þeirra eini sjens er að færa sig til vinstri.  Þá er Eygló eina von þeirra. En líklega hafa þeir ekki vit á því.  Sumir sjá ekkert nema spillingargaurinn. Þvið vitið um hvern ég er að tala. 

Bjarni spilar nýfrjálshyggjuleikinn, hann kann ýmislegt fyrir sér, en þar er ekki boðið upp á hækkun bóta og örorku.  Halda skal vörð um endalausa aukningu peningaausturs til þeirra sem eiga mest.  Þannig er hugmyndafræðin, með því eigum við að fá vöxt í okkar buddu.  Þetta er draumsýn íhaldsins.  En hlutirnir eru ekki þannig.  Svo lið er sent á Eygló að ata hana sauri, meira að segja Ragnheiður Rikk tekur þátt í því. Svei henni.  

Pítatarnir halda prófkjör og smala inn á lista.  Útkoman er misjöfn, sumt til skammar, annars staðar vandað fólk.  En þá er sagt, fólkið velur.  En pólitík er ekki svo einföld.  Það verður að taka tillit til landsbyggðar, karla kvenna, sjá bakgrunn þeirra sem bjóða sig fram.  Svo ekki standi sjóræningjarnri uppi með fáráða. 

Mikið var sorglegt að horfa á Þjóðfylkinguna á Austurvelli, gamalt fólk að láta hafa sig að leiksoppi, og svo eru sagnfræðingar að falsa myndir í anda Hitlers og Stalíns.  Og umræðan á Fésbók verri en maður gat ímyndað sér að ætti sér stað á Íslandi. 

Ekki viljum við fá áframhald á Bjarna og Sigmundi.  Eða hvað?  



fimmtudagur, 18. ágúst 2016

Sigmundur Davíð kemur úr skápnum

Nú eru það dauðateygjur spillingarstjórnarinnar.  Við fengum furðulegan trúðleik í RÚV þegar fyrrverandi forsætisráðherra birtist á skjá allra landsmanna.  Þar hafði hann ekki sést lengi taldi eðlilegt að ræða frekar við Útvarp Sögu.  Þar sem allir landsmenn sitja fyrir framan viðtækin. 

Formaður annars stjórnarflokksins vissi ekki hvað var framundan í verðtryggingarmálum stjórnarinnar.  Enginn hafði séð þörf á að ræða við hann.  Hann vissi ekkert hafði ekkert erindi annað en að ráðast á stjórnarandstöðu og níða niður lýðræðið.  Það var engin ástæða að ræða
við minnihlutann.  Hann átti að sitja kyrr og taka við þeim boðskap og tillögum sem hann vissi ekkert um. Það var ekki í hans anda að starfa málefnalega á Alþingi eins og gert var eftir að hann hvarf af sjónarsviðinu.  

Svo virðist allt benda til þess að Framsóknarflokkurinn vilji hafa þennan karl áfram sem formann. Sem laug að þjóðinni, faldi upplýsingar um fjármál fjölskyldu sinnar þar sem fé var falið í aflandsfélögum og fjölskyldan var í málferlum við íslenska banka.  Flokksforystan virðist vilja verða vitni að því þegar allir landsmenn snúa baki við xB.  Frami formannsins skiptir meira máli en framtíð flokksins. Það er erfitt að horfast í augu við það að tími sjálftöku úr eigum allra landsmanna er liðinn.  Flokkurinn sem var talsmaður bænda og dreifbýlis er fyrir bý.  Nú talar hann bara fyrir hönd kaupfélagsstjóra og útgerðarmanna.  Fari hann vel.  Snúi hann aldrei aftur.

sunnudagur, 7. ágúst 2016

Vinstriflokkar: CH Hermansson látinn 98 ára gamall




Einn merkasti fulltrúi vinstristefnu og sósíalisma á Norðurlöndum lést í lok júlímánaðar.  Það var CH Hermansson sem var formaður Kommúnistaflokks Sviþjóðar. Sveriges kommunistiska parti og síðan Vänsterpartiet Kommunisterna, VPK, sem í dag heitir Vänsterpartiet, Vinstriflokkurinn, og á ekkert skylt við Vinstriflokkinn í Danmörku.

CH eins og hann var alltaf kallaður fæddist 1917 og ólst upp í skugga Kreppu, Nazisma og heimsstyrjaldar.  Hann var leiðtogi kommúnista 1964 til 1975.  Á hans tíma urðu miklar breytingar í veröldinni.  Hann var viðstaddur útför Stalins, mótmælti innrásinni í Tékkóslóvakíu, og tók þátt í þeirri breytingu vinstri sósíalista yfir í umhverfis og jafnréttisflokk. En um leið átti hann erfitt að slíta böndin við Sovét algjörlega.  Samskipti við löndin austan Járntjaldsins voru oft ansi flókin. Austur-Þjóðverjar höfðu til dæmis langtum meiri samskipti við sósíaldemókrata en kommúnista. Þar sem hann sá fyrir breytingar í atvinnulífinu sem gerðu ríkisstarfsmenn að almennu launafólki.  Hann var stöðugt vakandi og lifandi og skrifaði um nýja strauma og stefnur langt fram á þessa öld.


Þegar ég bjó í Svíþjóð og fylgdist grannt með sænskri pólitík var alltaf gaman að sjá CH í fjölmiðlum snjall í sjónvarpsþáttum og sjarmerandi, þótt hann skákaði ekki Olaf Palme.  En það sem hans verður helst minnst eru skrif hans og rannsóknir um sænska auðvaldið hann var menntaður sem hagfræðingur og stjórnmálafræðingur  hjá Gunnar Myrdal og Herbert Tingsten .  Hann tók sér til og rannsakaði hverjir það væru sem ættu Svíþjóð.  Hvaða auðmenn voru í raun þeir sem stjórnuðu þessu landi.  Það voru 15 fjölskyldur sem hann nefndi.  Kaldhæðni var að hann var giftur inn í ríka fjölskyldu svo hann var auðugasti stjórnmálamaður í Svíþjóð vegna samsköttunar! En hann laug ekki til um eignir sínar!  

Hér er viðtal við hann frá 2009,  það lýsir honum vel! 

fimmtudagur, 4. ágúst 2016

Göngur: Grónar götur, liðnar stundir


Þessar myndir  voru  teknar  í  Breiðdal og í Papey fyrir nokkrum árum.  Þegar við vorum ung og gátum sprangað um fjöll og mela.  Svo er ekki um alla í þessum hópi nú, því miður.  En við nutum þess að hittast í nokkur skipti og njóta hinnar einstöku náttúru okkar lands. Það sakaði ekki að hafa fjölfróða einstaklinga í hópnum  sem gátu frætt hina.  Á Seyðisfirði, Héraði,  í Breiðdal, Berufirði og Papey.  Á Víkingavatni og í nágrenni Jökulsár á Fjöllum. Loks á Suðurlandi.  Allar skildu þessar ferðir mikið eftir í huga manns.  Þar sem allir dagar enduðu með umræðum, spjalli og stundum karpi, oftast endaði svo allt með söng og gítarspili.  Ég sakna þessara ferða.  Ég sakna þess að hitta ekki þessa góðu félaga.  













Myndir: Blogghöfundur 

þriðjudagur, 2. ágúst 2016

Snillingar: Ung og hrifnæm

Það er hversdagslegt að hitta uppáhaldsrithöfundana sína á götu í Reykjavík.  Þeir eru svo nálægt manni, maður sér þá á kaffihúsi, leikhúsi, tónleikum.  Svo eru þeir vinir manns á Fésinu.   

Í gamla daga þegar ég var ungur, var ég svo hrifnæmur.  Við áttum það sameiginlegt ég og kona mín Bergþóra. Bækur, leikrit, höfundar, við féllum í stafi.  Augun snerust í hringi. Lífið breyttist, ekkert varð eins. 

Við bjuggum í Uppsölum í Svíþjóð í 3 ár.  Uppsalir er gömul og gróin háskóla og menningarborg.  Samt vorum við ekki alltaf í útstáelsi.  Íslendingar héldu vel saman og gerðum ýmislegt.  Mikill tími fór í kunningjaheimsóknir og móttökur.  Svo voru börn og uppeldi.  Við hefðum eflaust getað fundið ýmislegt að hlusta á og sjá.  En það var bara ekki tími til þess eða peningar. 

En bækur lásum við, kynntumst öndvegissænskum rithöfundum.  Suma lesum við enn, flestir eru dánir.  Einn af þeim er Sven Delblanc (1931-1992).  Hann var lesinn upp til agna svo var Hedebyborna gífurlega vinsæl framhaldsmynd sem hann hafði skrifað sjálfur eftir bókaflokki sínum: Åminne (1970), Stenfågeln (1973)Vinteride (1974) och Stadsporten (1976).  Svo hann var heimilisvinur eins og maður segir, úr fjarlægð. 

Einu sinni sáum við hann á götu, um hásumar, hann hafði sest niður til að hvíla sig í hitanum, var með hökutopp og gleraugu( það minnir mig minnsta kosti!) . Við hvísluðum : Þetta er Sven !!! Þetta var hann.  Þegar ég skoða það núna eftir á var hann tæplega fimmtugur. Við vorum milli þrjátíu og fjörutíu.  Við þorðum samt ekki að tala við hann!  Þarna sat þessi snillingur og hvíldi sig og við horfðum á dolfallin. 

Ég sé á wikipedia að ég á eftir að lesa nokkrar af bókum hans, ég las fyrir fáum árum Livets ax, bernskuminningar hans sem kom út ári fyrir dauða hans. Seinustu bók hans Agnar þarf ég að lesa.  En þeir sem vilja lesa Delblanc geta fengið eitthvað af bókum hans í Norræna húsinu og Þjóðarbókhlöðunni. Rafbækur eru til á Bokus.com.  Hedebysögurnar og Bókaflokkurinn um Vesturferð fjölskyldu hans og ferð til baka til Svíþjóðar eru frábærar. Samúels bók var þýdd á íslensku, hinar 3 komu aldrei út furðulegt nokk.   Svo eru tvær bækur í sérstöku uppáhaldi hjá mér:  Åsnabrygga og Grottmannen.   Ég veit ekki af hverju. 

En lesendur góðir, við sáum Sven Delblanc á götu í sólarhitasvækju. Við lifum enn á því!!

sunnudagur, 31. júlí 2016

Gísli Björgvinsson: 3 stökur

Tengdafaðir minn sálugi, Gísli Björgvinsson sem bjó alla ævi sína í Breiðdal, var góður hagyrðingur, sérstaklega þótti honum gaman að fjalla um stjórnmál. Vísur sínar skrifaði hann oftast á pappírinn sem vafinn var utan um Þjóðviljann, með heimilisfangi  hans á:


Gísli Björgvinsson
Þrastarhlíð Breiðdal S-Múl.

760 Breiðdalsvík

Um daginn fann ég í dóti hjá mér þrjár stökur sem lýsa vel áhugamálum hans og vísnagerð:

„Heyrið lýðir heims um ból."
hljóðbært Alfreð gerði.
Hér fást magreynd manndrápstól
 á mjög svo góðu verði.

Þarna er auðsjáanlega verið að vitna í þegar Alfreð Þorsteinsson, Frammarinn og Framsóknarmaðurinn góði,  var forstjóri Sölunefndar Varnarliðseigna. 

Kalda stríðið og Atómvopn voru honum áhyggjuefni, en kaldhæðni hans var oftast til staðar. 

Atómvopna afli fyrst
allir sem að friði stefna.
Undarlegt það er með Krist
að aldrei skyldi hann þetta nefna.

Við hætta viljum bæði lýð og landi
lofsvert hve vor fórnarlund er rík.
En ekki verður Wasington að grandi
sú vetnissprengja er eyðir Keflavík.

Já lesendur góðir, þetta var tómstundariðja hans, að skrifa á bréfmiðja, smástöku.  Eflaust hafa þær margar týnst en töluverður fjöldi er til.  Enn, daginn í dag, skilur maður umfjöllunarefni hans.