sunnudagur, 28. september 2014

Bænastund: Fyrir hverja????

Nú er setið í Hörpunni og beðið, og sungið og dansað fyrir Drottni.
  „Biðjum fyrir ófæddum börnum og komandi kynslóðum. Biðjum um breytt viðhorf til fóstureyðinga, hugarfarsbreytingu og endurnýjaða ábyrgðartilfinningu.“   
 Er það furða þótt Silja Bára hrökkvi í kút yfir bænum sem
þessum.Sem hefur staðið framarlega i baráttu um konan ráði sjálf yfir sínum líkama.

Svona texti var í Stórbænahátíðinni í Hörpu. "Endurnýjaða ábyrgðartilfinningu".   Ísmeygilegur texti, eiga ekki allir að bera ábyrgð á gjörðum sínum?   
Hér er á ferðinni nýkristnihreyfingin í Bandaríkjunum sem er farin að læðast hægt og sígandi til annarra landa, oft á tíðum svipar henni til öfgahreyfinga annarra trúarbragða.  Hreyfing sem er hápólitísk tengd teboðinu og peningaplokkstrúarbrögðum.  Er það tilviljun að Geir Haarde er boðið þarna sem fyrirlesara????? Og tengingu við Bandaríkin er harðneitað þetta bænahald kemur frá Þýskalandi og Sviss :

Sömu og stóðu að Hátíð vonar

Hugmyndin að Kristsdegi er sú að kristnir einstaklingar úr sem flestum kirkjudeildum og sem víðast af landinu sameinist í bæn fyrir landi og þjóð. Það var Friðrikskapellusamfélagið sem stóð fyrir deginum en sömu aðilar stóðu að Hátíð vonar, sem haldin var í september í fyrra. Aðalræðumaður þeirrar hátíðar var Franklin Graham, sem er yfirlýstur andstæðingur hjónabands samkynhneigðra. Meðal þeirra sem fluttu ávarp á Kristsdegi í dag var Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Agnes M. Sigurðardóttir biskup. DV.


Og allir eiga að vera með, við erum svo umburðarlynd, svo sakar ekki að bæta inn "smá" þjóðernishroka að venju Forseta vors.  Eða hvert er það siðferði sem hefur skapað okkur Íslendingum sérstöðu?   Það væri gaman að vita það.  Kannski að gleyma sem mestu af því liðna eins og Forsetinn stundar, aldrei að biðjast afsökunar?  Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var; eins og Jesaja spámaður sagði.  Nú hef ég nýtt fyrir stafni það fer að votta fyrir því, sjáið þér það ekki?


"Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar við horfum því miður á öfgahópa annarra trúarbragða víða um veröldina efna til ófriðar og jafnvel aftöku á fólki að gleyma ekki að það umburðarlyndi, sá skilningur, það siðferði, sem hefur skapað Íslendingum sérstöðu, á allar sínar rætur, á allar sínar rætur í þeim boðskap og þeim styrk og þeirri bæn sem kristnin hefur fært þessari þjóð um aldir.


Það má segja það að bænaefnið sem vakið hefur töluvert umtal er sú furðulegasta samsuða sem ég hef upplifað.  Maður verður miður sín að glugga í þessu.  En um leið ef þú lest textann nákvæmlega styður hann við íhaldssöm öfl samfélagsins. Okkur er færður boðskapur að ofan,  við erum full af synd og iðrun og eigum að falla fram.  Ég vona að fólkið sem tekur þátt í þessu verði uppnumið og sælt.

En varla sameinar það þjóð vora.    










laugardagur, 27. september 2014

Framsókn: Hatur á hinu opinbera

Merkilegt að fylgjast með fólkinu sem hefur tekið völdin í Framsóknarflokknum.  

Framsóknarflokkurinn var hér á árum áður hinn dæmigerði bændamiðflokkur sem studdi við bakið á sínu fólki í sveitum landsins.  Svona flokkar voru til um alla lýðræðis-Evrópu og jafnvel
líka í SovétEvrópu.  Framsóknarflokkurinn var til dæmis með töluverð samskipti við bændaflokka í Austur-Evrópu sem var deild í Kommúnistaflokkum.   Fóru í boðsferðir í austur alveg eins og sósíalistar í Sósíalistaflókknum og Alþýðubandalagi. Tíma- Tóti skrifaði ferðasögur úr austrinu í Tímann. 

En síðan fékk Framsókn samkeppni frá Vinstri sósíalistum um fylgin í sveitunum og stuðning við landbúnaðarkerfið, meðan forysta Framsóknar sótti inn í útgerðaraðalinn.  Samanborið hagsmuni Halldórs Ásgrímssonar þar.  Loks tók forystan fullan þátt í uppbyggingu Nýfrjálshyggjunnar með helmingaskiptum við Sjálfstæðisflokkinn.  Þar sem Finnur Ingólfsson og Þórólfur á Sauðárkróki og Gunnlaugur Sigmundsson eru dæmigerðir fulltrúar.  

Umræðan um MS seinustu viku sýnir þörfina á uppstokkun á þessu samtryggingarkerfi sem allir flokkar nema Samfylkingin hafa leikið hlutverk, xB xV xD, ekki gleyma hlutverki Sjálfstæðismanna þessari uppbyggingu.  Ég heyrði Steingrím Jóhann ræða þetta í útvarpinu, með tilliti til stöðu Vinstri Grænna,  þetta var allt svo flókið, það finnst mér vera dæmi um að ekkert eigi að gera.  

Svo er ný kynslóð komin til sögunnar í Framsókn, sem hefur sýnt sig smátt og smátt sem fulltrúa nýfasisma, gegn útlendingum, sjúklegt hatur á hinu opinbera, nema þegar hægt er að nota það sjálfum sér til framdráttar. Sér aldrei neitt nema eigin hagsmuni.  Það er óhugnanlegt að hlusta á yfirlýsingar forystunnar.  Í hverri viku kemur eitthvað nýtt frá elítunni, hvort sem hún er edrú eða ekki.   

Það er sorglegt að sjá þegar fólk kann ekki fótum sínum forráð á opinberum vettvangi,  skandalíserar og sýnir sínar furðulegustu hliðar.  Sem í öðrum löndum þýddi afsögn og ærusviptingu. Eins og Lekamálið sýnir okkur.  Í Framsóknarflokknum finnst mönnum svona vinnubrögð töff.  

 

fimmtudagur, 25. september 2014

Fjármálaráðherra: Bjart framundan

Já svo sannarlega, þjóðin komin í eyðslugírinn að nýju, lúxusíbúðir og Stjórjeppar renna út. Aldrei fleiri ferðir.  Við
erum hamingjusöm þjóð.  

Og útflutningur á niðurleið,  sjávarútvegur dalar, álverð ekki í hæstum hæðum.  

Meira að segja ferðaiðnaðurinn hefur ekkert að segja til að bæta ástandið. 

Fjármálaráðherrann, Prófessor Altúnga,  er í hæstu hæðum.  Allt bjart framundan.  Engin ástæða fyrir hærri sköttum.  Engin ástæða fyrir hærri ríkistekjum.  Við höfum það svo gott.  Svo fáum við kosningavíxilinn frá SDG. Útgerðarmenn dansa um demantagólf.   

Allt er á sínum stað samkvæmt náttúrunnar lögmáli, Il faut cultiver notre jardin !!!!  Það er ekki amalegt að hafa
ríkisstjórn þar sem úrvalið hefur aldrei verið meira.  
Gullauga, Rauðar, Helga og Gular hlið við hlið. Já, lesendur góðir lífið er dásamlegt. Ekki kvarta ég.

Íslendingar eyða meiri gjaldeyri til að fjármagna einkaneyslu en sem nemur tekjum af framleiðslu og útflutningi. Þetta má lesa úr nýjustu tölum Hagstofunnar um þjóðarhag.
Þar kemur meðal annars fram að á milli fyrri hluta áranna 2013 og 2014 hafi landsframleiðsla aukist um 0,6 prósent, en þjóðarútgjöld um 2,8 prósent.
Útflutningur jókst um 3,7 prósent, en innflutningur rúmlega tvöfalt meira, eða um 9 prósent. Einkaneysla jókst líka meira en útflutningur, um 4 prósent.
Björn Valur Gíslason vekur athygli á þessum tölum í grein í Herðubreið, en Arion banki lýsir líka „vonbrigðum“ sínum:
„Bæði einkaneyslan og innflutningur eru umfram væntingar en á sama tíma virðist vera að hægja á framleiðslu í hagkerfinu þar sem fjárfesting og útflutningur eru undir væntingum.“
Björn Valur bendir á að þessar tölur þýði að forsendur fjárlaga séu brostnar og bætir við:
„Það versta sem stjórnvöld geta gert í slíkum aðstæðum er að auka neyslu og innflutning á kostnað verðmætasköpunar. En það er því miður nákvæmlega það sem snillingarnir í stjórnarflokkunum eru að gera með því að lækka skatta, slaka á fjármálum ríkisins og moka gríðarlegum upphæðum úr ríkissjóði inn á verðtryggð útlán fjármálastofnana sem þeir kalla „leiðréttingu.“ Allt hefur þetta verið gert áður eins og lesa má um í skýrslu RNA fyrir þá sem hafa áhuga á að læra af fortíðinni.“
Árni Páll Árnason vakti athygli á þessari þróun á alþingi í morgun og spurði fjármálaráðherra hvort ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af forsendum fjárlaga, mikilli einkaneyslu og lítilli fjárfestingu. Ráðherrann taldi svo ekki vera og bjarta tíma framundan. Ritstjóri Herðubreiðar 25/09/2014


þriðjudagur, 23. september 2014

Hrafn Gunnlaugs er bara ansi góður !!!

Hrafn snýr aftur lof og dýrð sé honum.  Hann vitkast með aldrinum.  Snýr baki við Davíð og sparifatadrengjunum hans.  Sem halda að allt sé hægt að mæla í krónum og aurum.  Það er skritið að fara að byggja upp nýtt framhaldsskólakerfi sem að mörgu leyti hefur reynst vel.  Þótt að það sé ýmislegt sem megi betur fara ef ég er spurður.  En það geta allir stytt námsdvöl sína sem vilja.  Ef þeir vilja flýta sér út á hið dásamlega atvinnuhaf.  

En Hrafn skrifaði þetta í dag : 

Stytting stúdentsaldurs

Til hvers að fækka hinum fáu áhyggjulitlu æskuárum? - verðum við ekki þrælar atvinnulífsins og bankanna nógu snemma samt? - fólk er ekki framleiðslueiningar - ég myndi þvert á móti vilja hækka stúdentsaldurinn um eitt ár og leyfa fólki að vera ungt lengur, draga úr atvinnuleysi - lífið er stöðugt að lengjast í vitlausan enda.
Ég hafði vit á því að falla í 3 bekk MR og lengdi menntaskóladvölina um eitt ár, - fékk mikið út úr Herranótt og félagslífinu og sumarvinnunni sem var bónus ofan á allt  - ári fyrr stúdent hefði ég ekki vitað neitt hvað ég í raun vildi. Til hvers að gera fólk ári fyrr ellilífeyrisþega? Þessi rembingur við að stytta hin glöðu stúdentsár er partur af útrásarkapítalismanum sem reiknar allt til peninga og hefur gleymt því sem heitir lífsnautnin frjóa.

Í guðanna bænum spörum þar sem hægt er að spara, eins og með því að gera ungu fólki grein fyrir að þarna hefur það valkosti sjálft.  Það þarf ekki alltaf að stjórna öllum.  Unglingar geta ákveðið hvað þeir vilja gera.  Sumir vilja sitja yfir bókunum aðrir vilja stunda listir og menningu, lesa góðar bækur,  taka þátt í kóra og leikhússtarfi. Horfa á undursamlegar kvikmyndir.  Það er gott að hugsa, hafa drauma,  jafnvel að stunda byltingarstarf og ulla framan í fullorðna fólkið.  Sem oft er svo leiðinlegt.  Ekkert er betra en góðir dagdraumar.   Ég lofa og prísa Hrafn!!!

mánudagur, 22. september 2014

Ráðist á dómsvaldið: Milestone, Máttur og SjóváAlmennar

Það er óhugnanlegt á Íslandi hvernig viðskipti og stjórnmál blandast saman. 

Starfsmaður sérstaks saksóknara er ákærður fyrir skrítin vinnubrögð sem tengjast rannsókn á hendur Milestone einu stærsta svikamáli íslensks viðskiptalífs, inn í þau mál eru innblönduð  fjárfestingafélagið Máttur ehf og Sjóvá Almennar.

Sami starfsmaður, doktor í afbrotafræði, kærir starfsfólk sérstaks saksóknara að hafa farið gáleysisleg með hleranir í rannsókn ákærumála og ekki gætt trúnaðar.Líklega til að gera dómsmál gegn sér tortryggilegt.

Dómsmála/forsætisráðherra vill rannsókn á þessum vinnubrögðum sérstaks, finnur leið til að skipta sér af dómsvaldinu. 

Fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson tengdist þessu Milestone máli á ýmsan hátt, einnig föðurbróðir hans.

Faðir Dómsmála/forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugsonar tengdist Milestone/Mætti á ýmsan hátt.  

Hver er vanhæfur og hver ekki ???????????? 

____________________________________________________

Gamlar fréttir :

Máttur kominn í þrot

• Fjárfestingafélagið var umsvifamikið í fjárfestingum á árunum fram að hruni • Stór hluthafi í Icelandair og BNT



Bjarni gegndi lykilhlutverki í að koma viðskiptunum í gegn. Það gerði hann sem stjórnarmaður í BNT. Hann skrifaði upp á umboð sem veitti honum sjálfum heimild til að veðsetja hultabréf félagsins í eignarhaldsfélaginu Vafningi 8. febrúar 2008. Það reyndist vera mikilvægur hlekkur í umfangsmiklum viðskiptum sem höfðu þann tilgang að gera Milestone og ættingjum Bjarna kleift að borga Morgan Stanley 45 milljarða. Öðrum kosti hefði Milestone væntanlega farið á hliðina, með mögulegri keðjuverkun fyrir tengd félög.
Bjarni var einn þriggja stjórnarmanna frá eignarhaldsfélaginu BNT sem skrifaði upp á umboðið sem veitti honum sjálfum heimild til að veðsetja hlutabréfin í Vafningi, sem hélt utan um fasteignaviðskipti með lúxusíbúðir í Makaó suður af Kína. Hinir tveir mennirnir voru stjórnarmennirnir Jón Benediktsson og Gunnlaugur Sigmundsson, sem er þekktur athafnamaður og meðal annars faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.“

Saga Fjárfestingafélagsins Máttar ehf. líður senn undir lok, en nýverið var tilkynnt að bú þess hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur.

Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is
Saga Fjárfestingafélagsins Máttar ehf. líður senn undir lok, en nýverið var tilkynnt að bú þess hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur. Félagið var að stórum hluta í eigu þeirra Karls og Steingríms Wenerssona í gegnum Milestone-fyrirtækjasamstæðuna. Starfsemi félagsins fólst í fjárfestingum í skráðum og óskráðum hlutabréfum. Í árslok 2007 voru heildarskuldir Milestone við íslenska banka tæpir 43 milljarðar króna. Máttur var eitt gríðarmargra félaga sem tengdust Milestone eignatengslum, miðað við 20% eignarhlut síðarnefnda félagsins. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að áhættuskuldbindingar Glitnis, það er að segja lánveitingar, til Máttar hafi numið 14,5 milljörðum króna hinn 30. september árið 2008. Hinir bankarnir mátu Milestone og Mátt ekki tengda aðila, þrátt fyrir eignatengslin.

Hlutir í BNT og Icelandair

Eigendahópur Máttar breyttist nokkuð með tímanum. Á meðal annarra eigenda voru Sjóvá, sem var í eigu Milestone, í gegnum eignarhaldsfélag. Aðrir eigendur voru Einar Sveinsson, sem jafnframt gegndi stjórnarformennsku, og Gunnlaugur Sigmundsson, fyrrverandi alþingismaður, sem gegndi jafnframt stöðu framkvæmdastjóra. Ein stærsta fjárfesting Máttar var hlutur félagsins í Icelandair, en Einar Sveinsson var jafnframt stjórnarmaður í Icelandair þegar viðskiptin áttu sér stað, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Auk tæplega fjórðungshlutar í Icelandair, sem Íslandsbanki leysti til sín í fyrra, er hlutur Máttar í BNT, eignarhaldsfélagi N1, á meðal stærstu fjárfestinga.

sunnudagur, 21. september 2014

Upplausn í Framsókn

Upplausn í Framsókn, allt á öðrum endanum!!!

Vigdís ræðst á Sigurð Inga. Engar 3 milljónir á mann frá henni. 

Karl og Frosti hissa á laxveiðiVSK.  Skrítið!!!


Formaðurinn er búinn að gleyma kjördæminu sínu.  Hvar er stuðningurinn við Fiskistofu?  Hvar er stuðningurinn við stóriðju á þeim slóðum?

Ung fólkið skrifar öðru hverju hlýðnisgreinar í blöðin í von um að halda sætunum á listum. 

Utanríkisráðherra vill halda utanum allt.  Vill sölsa til sín  Þróunarsamvinnustofnun og fær gagnrýni frá ómarktækum Samfylkingarmanni, auðvitað er aldrei að marka slíkt fólk, þótt það sé með ótal gráður í stjórnsýslufræðum. Gunnar Bragi hefur aldrei heyrt um
stefnumótun, framkvæmd og eftirlit.Það var aldrei til hjá Kaupfélaginu í Skagafirði.

„Ráðherrann þessi er að boða mikla miðstýringu með þessu sem og ógegnsæi í stjórnsýslu, sem er ekki í anda nútímalegra stjórnarhátta og alls ekki í anda stefnu samstarfsflokksins,“ segir Sigurbjörg. „Þannig að maður stendur bara orðlaus og hugsar hvert er verið að fara?“

Húsnæðisráðherrann fær ekkert sveitarfélag að sækja um fjármagn sem til er í leiguhúsnæði.

Bestu vinur forsetans kominn á bak við lás og slá austur í Kína. 

Já, er þetta nokkuð upplausn lesandi góður? Ég hef áhyggjur, svei mér þá!!!


fimmtudagur, 18. september 2014

Fiskistofa: Virðing í orði og verki???

Það er undirfurðulegt þetta Fiskistofumál. 

Það er í lagi að tæma heila stofnun sérmenntaðs atvinnufólks.


Stofan á að fara norður, ekki talað við nokkurn mann áður.


Fólk á maka, börn, fjölskyldur, vill haga lífinu á sinn hátt. 

Ok, segja ráðamenn þá ráðum við bara aðra. Við ráðum.   

Hverja aðra?  Skiptir engu máli:  Fagmennska, menntun, reynsla, þekking???? 

Það var búið að nota þessa leið fyrir nokkrum árum á annarri stofnun.

Hvernig fór það?????   Á enn að ráða valdahroki og óðagot? Á kannski að einkavæða?

Og fólk á mínum aldri, það á að greiða atkvæði hvort það megi vera í Reykjavík !!!

Ætli það verði ekki næst, að koma í veg fyrir að fólkið fái aðra vinnu?

Þannig gera menn í Hvíta-Rússlandi,  fólk sem tók þátt í áhugaleikhússtarfsemi, það var rekið úr dagvinnunni  og fékk enga vinnu. Það var gagnrýnið. Það er ekki gott.

Þetta er á vefsíðu Fiskistofu: 


Störf í boði

Öll framtíðarstörf hjá stofnuninni eru auglýst á Starfatorgi og vef Fiskistofu. Engin framtíðarstörf eru laus til  umsóknar núna.

Jæja, ætli verði breyting????  

Hlutverk og Gildi og framtíðarsýn stofunnar .......  þar sem allt kemur fram sem yfirmaður stofunnar gerir ekki, ég á við ráðherrann. Ég á við 
traust, trúnað, umbótastarf, og þessar efnisgreinar:
  • Sýnum frumkvæði og styðjum við menntun, framþróun og nýsköpun í starfi. 
  • Jákvætt viðhorf, heiðarleiki og sanngjörn samskipti.
  • Sýnum hvert öðru virðingu – í orði og í verki.

Já, lesendur góðir, þetta er merkilegt, eins og margt annað um þessar mundir.  

Hlutverk, gildi og framtíðarsýn

Hlutverk

Fiskistofa annast framkvæmd laga og reglna um stjórn fiskveiða í sjó og fersku vatni og stuðlar þannig að ábyrgri og sjálfbærri nýtingu fiskistofna. 

Fiskistofa annast einnig stjórnsýslu og eftirlit á sviði fiskeldis, og safnar og miðlar upplýsingum um sjávarútveg, fiskeldi, lax- og silungsveiðar og hvalveiðar.

Gildi

Traust
  • Eftirlit og þjónusta, unnin af fagmennsku með jafnræði að leiðarljósi.
  • Sýnum hvert öðru trúnað og traust. Tökum ábyrgð á verkefnum –  veitum stuðning og leiðsögn við að fylgja þeim eftir.

Framsækni
  • Stöðugt umbótastarf. Tækni og þekking nýtt til að ná góðum árangri.
  • Sýnum frumkvæði og styðjum við menntun, framþróun og nýsköpun í starfi.

Virðing

  • Jákvætt viðhorf, heiðarleiki og sanngjörn samskipti.
  • Sýnum hvert öðru virðingu – í orði og í verki.

Framtíðarsýn

  • Öflug stjórnsýsla, eftirlit og góð þjónusta, sem miðar að bættri leiðbeiningu og auknum forvörnum.
  • Framsækin og vönduð vinnubrögð byggð á þekkingu, reynslu og menntun starfsfólks.
  • Upplýsingatækni í fremstu röð.

Leki: Samsæri ræstingafólksins

Dapurlegt, sorglegt, ógnvænlegt.  Að ákærður skuli stunda þennan leik, og eflaust tveir aðrir sem vita örugglega hvað hefur gerst.  En það á að halda áfram, það er ekkert sem heitir samviska. Ekki hjá þessu fólki.  Aðalatriði er að þyrla upp moldviðri, ösku og eimyrju. Panta
vænt eldgos svo allir gleymi.   

Auðvitað er þarna á ferðinni samsæri skúringafólksins.  Það er að hefna sín á 900.000 króna launafólkinu, láglaunafólk svífst einskis.  Einu sinni höfðu aðstoðarmenn ráðherra pínulítið meira en kennarar i laun.  Það er liðin tíð.  

Nú eru það hinar stóru mótvægisaðgerðir. Aðvitað eru það eðlilegar mótvægisaðgerðir að sekir verði sýkn saka,  þeir sem ætla að komast áfram í stjórnmálum verði að herða sig og járna, í stjórnmálum á Íslandi er allt leyfilegt.  Allar hurðir ráðuneyta eru galopnar, mig hefur alltaf grunað þetta.   Lifi spillingin.  Hún er okkar einkenni.   

Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, gagnrýnir lögreglu og ákæruvaldið fyrir að hafa ekki rannsakað ferðir ræstingafólks, öryggisvarða og annarra þegar lögreglurannsókn á trúnaðarbrestinum gagnvart hælisleitendunum Evelyn Glory Joseph og Tony Omos fór fram. „Ekki er útilokað að þeir starfsmenn IRR sem útbjuggu samantektina hafi skilið eftir útprentað eintak á skrifborðum sínum. Í þessu sambandi liggja ekki fyrir upplýsingar um ferðir ræstingafólks, öryggisvarða og eftir atvikum annarra,“ segir í greinargerð Gísla Freys, undirritaðri af lögmanni hans Ólafi Garðarssyni, sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar heldur ákærði því fram að afstaða rannsakenda í sinn garð hafi verið fyrirframmótuð og hlutlægnisskyldan ekki verið virt við meðferð málsins.(DV. 17.9. 2014)


þriðjudagur, 16. september 2014

Lekinn: Ekki benda á mig

Þau ætla ekki að gefast upp, ætla ekki að skammast sín, ætla áfram að halda því fram að bréfið hafi lifað sínu sjálfstæða lífi, geri allt sjálft, dreifi sér, skríði til næsta fjölmiðils.  En ráðherrann og aðstoðarmenn hennar gerðu ekkert.  Það eru einhverjir aðrir, í ráðuneytinu, í innsta hring. Varla hefur þetta leynibréf farið víða?  Það er gott að muna það að það er til fólk sem ætla að
vera fulltrúar okkar, vinna fyrir okkur, á góðum launum, gera hvað sem því sýnist, vera kosið á trúnaðarstöður.  Það hefur brenglaða siðferðiskennd.  Það er eitthvað fyrir aðra að hafa slíkt. Bréfið kom ekki frá neinum, einhver skildi það eftir inni á neti ráðuneytisins, enginn skrifaði það, samt er það til. Enginn kannaðist við það frá fyrsta degi. 

Greinargerð Gísla Más er söguleg........Ætli þetta sé sami lögfræðingurinn og hjá Hönnu Birnu?  Besta vörnin er sókn!!!  Samantektin sem enginn þekkti er allt í einu þekkt og til.  Og þessi frægi enginn dreifði því.  Dapurlegt.

Fullyrt er að ákæruvaldið hafi ekki hugmynd um hvernig samantekt ráðuneytisins rataði í hendur fjölmiðla og þá kemur fram að skjalið sem allt snýst um hafi verið skoðað af ókunnugum í skjóli nætur. Það hafi hins vegar ekki verið rannsakað.


Og Gísli Már (eða enginn) skrifar
Til að bíta höfuðið af skömminni hefur ákæran heldur ekki að geyma lýsingu á ætlaðri verknaðaraðferð. Í stað þess að útlista hvernig ákærði á að hafa veitt upplýsingar úr samantektinni, t.d. með afhendingu útprentaðs eða handritaðs eintaks, upplestri, fjarskiptum, mors-sendingum eða reykmerkjum er í ákæru notast við hina mjög svo almennu athöfn „að láta e-m e-ð í té“.
Það er greinilegt að ákæruvaldið hefur ekki hugmynd um það hvernig upplýsingarnar sem fram komu í samantektinni rötuðu í hendur fjölmiðla þrátt fyrir margra mánaða ítarlega rannsókn. Ákærði getur af þessum sökum með engu móti áttað sig á því hver sú háttsemi er sem honum er gefið að sök.
 og skrifar
Svo virðist sem rannsókn málsins hafi, án vitundar ákærða, haldið áfram eftir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi málið til ríkissaksóknara þann 20. júní 2014. Ný gögn bættust við, er ríkissaksóknari sendi málið til héraðsdóms, sem ákærða var ekki gefinn kostur á að kynna sér á rannsóknarstigi. Í þeim gögnum var að finna veigamiklar upplýsingar sem leiða í ljós eða benda a.m.k. eindregið til íhlutunar annarra en þeirra sem samantektin var ætluð. Þá er bent á að samantektin hafi síðast verið skoðuð inni á opnu drifi í tölvukerfi IRR klukkan 05:39 aðfaranótt 20. nóvember 2013. Staðfestir þetta að samantektin var augljóslega á vitorði fleiri en þeirra sem að henni unnu eða fengu hana senda. Enda fullkomlega órökrétt fyrir hlutaðeigendur að skoða skjalið inni á opnu drifi, hvað þá í skjóli nætur.

mánudagur, 15. september 2014

Hvalveiðar: Við látum ekki kúga okkur!!!

Merkileg frétt.  Hvað gerir ríkisstjórn okkar núna?  Varla fer sjávarútvegsráðherran að láta beygja sig!!  Við hljótum að standa teinrétt og verja rétt Kristjáns Loftssonar og útgerðaraðalsins. Þeir eiga landið og miðin!   Fram fram aldrei að víkja.  

35 ríki mótmæla hvalveiðum Íslendinga

hvalurFulltrúar Evrópusambandsins og fjögurra annarra ríkja afhentu í morgun íslenskum stjórnvöldum yfirlýsingu þar sem hvalveiðum Íslendinga er harðlega mótmælt.
Yfirlýsinguna undirrita öll 28 aðildarríki ESB, auk Bandaríkjanna, Ástralíu, Brasilíu, Mexíkó, Ísraels, Mónakó og Nýja-Sjálands. Það var Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi, sem afhenti íslenskum stjórnvöldum yfirlýsinguna ásamt fulltrúum Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands og Bretlands.
Í yfirlýsingunni er sú ákvörðun að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni, einkum á langreyð, harðlega gagnrýnd og veiðarnar sagðar í trássi við alþjóðalög. Er skorað á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína, en gefinn hefur verið út kvóti á veiðum á allt að 770 langreyðum næstu fimm árin.
Þá er viðskiptum Íslendinga með hvalaafurðir mótmælt og bent á að bæði langreyði og hrefnu sé að finna á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

sunnudagur, 14. september 2014

Matarskattarnir og dugleysi nýfrjálshyggjunnar

Mikið hefði verið gaman að sjá einhvert hugrekki og dug í breytingum á svokölluðum matarsköttum sem Stefán Ólafsson fer vel yfir í blogggrein, eða í öðrum álagningum, ekki bara sama gamla nýfrjálshyggjudekrið.  

Það er eins með það og barnagjöld sem BB og xD finnst svo mikið upp á 11 milljarða. En skerðingar byrja við 200.000 krónur !!!  Er það
ekki sama og minnkað var hjá útgerðaraðilnum í fyrra?  Og aulegðarskattur og háskattaþrep, hverju myndi það skila?   Þarf alltaf að hygla vinum sínum?  Fara vinirnir í meiri fjárfestingar, hvað bendir til þess? 

Sama er að segja um xB þeir ætla að bíða og sjá hvort ekki verði nýjar Austurvallaróeirðir, annars greiða þeir atkvæði í rólegheitum með skerðingum á láglaunafólkinu. Getur það ekki bara hypjað sig til Noregs??? 

Svo er gott að láta þessa rannsóknarstofnanir hætta þessu vafstri.  Dómstólarnir eru komnir í réttan gír. Óþarfi að dæma.  Jón Steinar er með þetta á hreinu, rökfastur og árásargjarn, eins og Hanna Birna.

Einföldun er fín, úr tveimur þrepum í tvö.  Flott rökfesta.  Og á tölvuöld er erfitt að reikna þetta út, en kannski eru allar tölvurnar bilaðar og ekki fjárfesting fyrir nýjum!!! 

Já, lífið hefur sinn gang, á Spill-Íslandi.  Eins og það hefur alltaf verið.   Fyrirlitning á þeim sem minna mega sín hygling vina og ættingja.  já, eins og alltaf.



                            tafla úr: http://blog.pressan.is/stefano/files/2014/09/Matarskattur-2014.jpg
 




laugardagur, 13. september 2014

Tónlist; Sinfonían, Þorvaldur Gylfason og ný ljóðabók

Jæja, þá er tónlistarárið byrjað, hver velur sér sitt eftir smekk, ég er byrjaður að sækja sinfoníutónleika, svo skrapp ég suður í Sal í Kópavogi og hlustaði á lög eftir Þorvald Gylfason og Kristján Hreinsson.  Satt að segja byrjar tónlistarárið ansi vel. 

Tveinnir sinfoníutónleikar eru gengnir um garð.  Báðir ansi góðir.  Fyrri buðu upp á Richard Strauss og Beethoven,7. sinfoníuna, sem fyrir mína parta er hápunkturinn ennþá í vetur.  Þessi
síflutta og vinsæla sinfonía hafði svo mikinn ferskleika  og hreif mig algjörlega, Andrew Litton, hljómsveitarstjórinn er ekkert slor. Þó voru Strauss, Eulenspiegel og 6 Brentano Söngvar ekkert til að kvarta yfir. Og Suður-Afríska söngkonan Golda Schultz fín. 

Á seinni tónleikunum var boðið upp á ástmögur okkar Víking Heiðar Ólafsson og sérfræðingur minn í píanóleik sagði að hann væri alltaf að verða betri og betri og ég trúi henni vel.   Hann spilaði 1. píanókonsert Beethovens og gerði það glannavel, að vísu var kadensan ein af 4 sem Beethoven samdi, ansi löng og of mikil fyrir konsertinn, það er nú bara minn smekkur, en hægi kaflinn var yndislegur og svo voru læti og hamagangur í 3. kaflanum eins og vera ber.  Svo fengum við tvö dásemdar aukalög. Chopin og Schumann-Lizt.  Meira er ekki hægt að biðja um. Á undan konsertinum var flutt Largo Mistico efit Pál Pamplicher Pálsson, prýðisverk við fyrstu hlustun. Svo var Prókofieff eftir hlé, sinfónia númer 6, vel flutt en höfðaði ekkert sérstaklega til mín þetta kvöldið.  Stundum er maður misjafnlega upplagður.  Eins og ég hef gaman að Prókofieff.  Það var ekkert yfir neinu að kvarta, fínn stjórnandi, einn af þessum fjöldamörgu sem Finnar unga út.  Pietari Inkinen.  Á þessum tónleikum hefur sýnt sig hversu hljómsveit okkar er góð.  Á þessum tónleikum var ég oft að hugsa um tréblástursleikarana, þeir eru svo góðir.  

Svo var Þorvaldur Gylfason frumkvöðull að tónleikum í Salnum.  Þorvaldur er eins og pabbi hans, Gylfi Þ. Gíslason, var, tónelskur maður, líklega hefur hann samið töluvert af lögum í gegnum tíðina.  En nú fékk hann Kristján Hreinsson til að semja ljóð þar sem grunnþemað eru fuglar og náttúra. Þetta eru ansi rómantískir textar fyrir minn smekk.  Þorvaldur samdi síðan lögin og fékk Þóri Baldursson til að útsetja. Og Jónas Ingimundarson, Bryndísi Höllu Gylfadóttur til að spila (á píanó og knéfiðlu).  Svo var Kristinn okkar Sigmundsson sem söng.  Húsfyllir var og boðið er upp á aðra tónleika á morgun (sunnudag).  

Ég dáist að fólki eins og Þorvaldi sem lætur drauma sína rætast.  Ég vildi að ég væri svona hugrakkur!!!  Margar fallegar laglínur streymdu út í salinn og Kristján útskýrði textana (sem kannski var óþarfi) en salurinn kunni vel að meta söngvana, sérfræðingur minn í útsetningum sagði að þær hefðu mátt vera fjölbreyttari (ég hafði líka hugsað það!) en mikið var klappað og hóað í lokin, eitt lagið endurflutt og allir fóru ánægðir heim.  Missið ekki af seinni tónleikunum á morgun!

Ég vil vekja athygli á nýútkominni ljóðabók eftir gamlan vin minn, Sigurð Jón Ólafsson,
bókavörð í Borgarbókasafninu.  Sigurður hefur alltaf ort töluvert, óhefðbundið, og nún hefur hann safnað saman 
ljóðum sínum í bók Slitinn þráður úr köngulóarvef, sem er í 4 köflum, 44 ljóð. Þarna eru náttúrustemningar og minni úr lífi okkar og hvunndagsleika, oft kryddað með angurværð og húmor. Hér eru tvö dæmi: 

Dauðvona fluga

Um það bil er presturinn var að biðja fyrir söfnuðinum
tók ég eftir flugu sem reikaði stefnulaust um kirkjugólfið.
Hún virtist of máttfarin til að hefja sig til flugs.
Sennilega beið hennar ekkert nema hægt andlát
nema því aðeins að presturinn eða kórstjórinn eða 
jafnvel einhver úr kórnum stigi óvart oná hana. 
Áreiðanlega hefur engin fluga fengið að njóta jafn fagurs söngs 
né jafn ákafrar bænar svona skömmu fyrir andlátið.

Í Hafnarvogi

Þegar við göngum þröngar götur Hafnarvogs  
eru fáir á ferli enda 
kvöldmatur og bókasafnið að loka. 

Gæfur gulbröndóttur köttur 
fylgir okkur að húsi skáldsins 
- George Mackay Brown
bjó hér 1968-1996 - 

Handan vogsins blasir Háey við 
þar sem öldungurinn stendur vörð. 

Í þröngri götu þorpsins 
er hugsun skáldsins víð eingsog 
vegurinn blái.





föstudagur, 12. september 2014

Endalokin? Pólitískur harmleikur

Jarðaði Sigmundur Davíð endanlega stjórnmálaferil Hönnu Birnu í Kastljósi í gærkvöldi? 

Getur hún gert nokkuð annað en yfirgefa sviðið?  Ráðgjafi hennar lögfræðilega er ekki upp á marga fiska. Það er skrítið ef það er fyrrverandi Hæstaréttardómari ........ 

Hann hefði ekki gert það sama og hún, ekki talað við
lögreglustjórann..... sagði Forsætisráðherrann
En samt vildi hann ekki tjá sig, hann væri nú ráðherra dómsmála........ 
Var þetta sameiginlegt útspil SDG og Bjarna formanns? 

Þessi málatilbúnaður verður æ meiri harmleikurinn.  En tíkin sú arna pólitíkin er oft grimm og bitin stundum banvæn.

                                                                                                                     Mynd: Höfundur

fimmtudagur, 11. september 2014

Sigmundur Davíð: Að vera jákvæður og uppbyggilegur

Hægt og sígandi klifrum við upp úr gjárbotni Hrunsins mikla.  Hamförum af völdum mannsskepnunnar sem skullu yfir okkur vegna óaðgætni og fífldirfsku fjáraflamanna okkar og stjórnmálamanna.  Það er oft barnalegt að fylgjast með orrahríð stjórnar og stjórnarandstöðu í
þessu eilífðarþrasi.  Hver sé jákvæður eða neikvæður, hver hafi unnið og náð bestum árangri. Ég tala nú ekki að kenna útlendingum um þetta.  Er ekki eðlilegt að aðrar þjóðir berjist fyrir hagsmunum þegna sinna þegar óráðsíubankar ætla að stela þúsundum milljarða af sparnaði launafólks?

Staðreyndin er að fyrrverandi ríkisstjórn náði ótrúlegum árangri við ömurlegar aðstæður en tókst þó að ná upp hagvexti sem fáir gerðu í Evrópu á þeim tíma.  Orð Sigmundar Davíðs hér að neðan um árangur sem tekið er eftir á alþjóðavettvangi eru orðrétt sem Jóhanna og Steingrímur gerðu á sínum tíma !!!!   Þetta mjakast hjá okkur, við höfum verið heppin með Ferðamannaiðnaðinn sem hefur komið svo sterkur til leiks.  Við fengum líka makrílinn á silfurfati sem hefur skilað góðu í þjóðarbúið. Og íslenskt launafólk hefur verið ákaflega þolinmótt gagnavart stjórnvöldum að mörgu tilliti.  Við erum með langtum verri lífskjör en hin Norðurlöndin, hvað sem hver segir.  

Því er sorglegt að núverandi ríkisstjórn láti leiða sig yfir í úreltar frjálshyggjuhugmyndir um lækkun skatta á þeim tekjuhæstu, um mýtuna um flókið skattakerfið sem þurfi að einfalda, þetta á auðvitað að gera á kostnað þeirra tekjulægstu.  Að framsóknarmenn láti Bjarna Ben teygja sig áfram.  Við eigum að sýna meiri stórhug til að ná því sem Sigmundur talar um í stóra feitletraða kaflanum hér að neðan.  Við tökum undir þessi sjónarmið hans þar.  En þá þarf að vinna að því,  nota auðlegðarskatt, hátekjuskatt, sanngjarnan virðisaukaskatt sem eitthvað vit er í.  Taka sanngjörn gjöld af útgerðarmönnum og stóriðnaði. Vera í samstarfi við aðrar þjóðir á viðskiptasviði.  Lokka okkur ekki af norður í Ballarhafi.  Þar sem allt á að vera mest og best. 

Við gerum það ekki með sjálfsgrobbi og ranghugmyndum um okkur Íslendinga.  Við erum lítil þjóð sem þurfum að vinna fyrir okkar brauði, oft við erfiðar aðstæður vegna harðbýllar náttúru, sem er Forsætisráðherranum svo kær.  Við þurfum að hafa heildstæða sýna á hugmyndum okkar, um laun, gjöld og tekjur, um jafnrétti, mannréttindi og frið.  Þetta getum við gert langtum meir í sameiningu. 

Nokkur  atriði úr ræðunni: 


Hvort sem litið er til jarðnæðis, vatns, hreinleika eða möguleika til matvælaframleiðslu eru fáar þjóðir í heiminum sem búa við jafn rík tækifæri frá náttúrunnar hendi og við.

Sé litið til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í efsta sæti við mat á öryggi og friði og jafnrétti kynjanna. Raunar hefur það sýnt sig að í alþjóðlegum samanburði á þeim kostum sem lönd búa yfir er Ísland gjarnan í hópi þeirra efstu, hvort sem spurt er hvar best sé að búa í heiminum, um stöðu lýðræðis, um réttindi ólíkra hópa, frelsi fjölmiðla, árangur af heilbrigðisstefnu eða um stöðugustu ríki heims. Slíkur samanburður er ekki algildur en veitir þó mikilvæga vísbendingu um það hversu góð lífsskilyrði við búum við.

Sú staðreynd hverfur því miður allt of oft í umræðuhefð sem sífellt beinir sjónum sínum að því neikvæða. Það er ákaflega mikilvægt að við gleymum því ekki að við búum í samfélagi sem flestir aðrir í heiminum gætu öfundað okkur af þar sem sterkir innviðir, miklar auðlindir og ríkulegur mannauður gera okkur kleift að byggja upp enn betra samfélag til framtíðar.

Markvissar aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsstjórn hafa skilað árangri sem nú er tekið eftir á alþjóðavettvangi. Hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland sem gefin var út í sumar spáir nærri 3% hagvexti í ár og heldur meiri vexti árið 2015. Seðlabanki Íslands spáir enn meiri hagvexti, eða rúmlega 3% í ár og tæplega 4% árið 2015. Þetta er árangur sem fáar ef nokkrar Evrópuþjóðir geta státað af um þessar mundir og þótt víðar væri leitað.
Með sameiginlegu átaki ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins hefur tekist að auka kaupmátt og koma verðbólgu niður fyrir markmið Seðlabankans og hefur verðbólgan nú mælst undir verðbólgumarkmiði bankans í sjö mánuði samfellt. Slíkur árangur hefur ekki náðst í meira en tíu ár, en líta þarf til áranna 2002 og 2003 til að finna samsvarandi verðlagsstöðugleika.

Á Íslandi eiga fjölskyldurnar að ná endum saman um mánaðamót. Öryrkjar eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og eldri borgarar eiga að fá notið afraksturs ævistarfsins. Á Íslandi eiga allir að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Allir eiga að hafa jafna möguleika á menntun og starfsframa og langtíma atvinnuleysi á ekki að líðast. Ungt fólk á að geta fengið vinnu við hæfi í framhaldi af námi og líta á Ísland sem vænlegan framtíðarstað, finna að hér er gott að búa og að hér er gott að stofna fjölskyldur og ala upp börn. Íslendingar þurfa sjálfir að trúa á framtíð landsins til að við getum byggt á grunni þeirra styrkleika sem samfélagið býr nú þegar yfir. Við viljum að á Íslandi séu allir metnir að verðleikum án tillits til þess sem gerir okkur ólík og að allir séu jafnir fyrir lögum. Við viljum að samfélagið virði frelsi og drifkraft einstaklingsins til að móta eigið líf, en að einnig sé þess gætt að enginn sé skilinn eftir. Stjórnvöld eiga að leggja höfuðáherslu á að skapa þetta jákvæða og heilbrigða umhverfi svo að einstaklingarnir og fjölskyldurnar geti betur uppfyllt drauma sína og vonir.

miðvikudagur, 10. september 2014

Stjórnmál: Fótboltinn bjargar geðinu !!!

Mikið var nú gott að landsleikurinn við Tyrki skyldi vera sama kvöld og setning Alþingis.  Svo góð frammistaða okkar manna (Tyrkjaránsins hefnt eins og kallin myndi hafa sagt) kom í veg fyrir skjóta innlögn eftir að hafa hlustað á Forsetann bulla (ansi veruleikafirrtur í ár) og ekki tók betur við að
hlusta að kynningu á nýjum Fjárlögum. Það á ýmislegt eftir að gerast á Alþingi áður en Bjarnabuna kemst í gegn.

Fótboltinn var dásamlegur, falleg og skemmtileg mörk, leikmenn Íslands voru að gera sitt besta  undir stjórn leiðtogans Gylfa, enda uppskáru þeir í samræmi við það, það er ekki hægt að segja það sama um valdamenn okkar í Alþingishúsinu og fjölmiðlunum.      





Mynd: Höfundur Frá Þingeyrum

mánudagur, 8. september 2014

Sigurður G Guðjóns og DV- endalokin

Jæja, nú er það komið í ljós. Maðurinn sem vissi ekki neitt þegar hann komí viðtal í RUV, og skrifaði bara pappíra fyrir kunningja sína, er auðvitað innsti koppurinn í yfirtökuá  DV.  Traustvekjandi maður sem kemur í sjónvarpið og segir alltaf satt. 

Öllum finnst það allt í lagi, ágætur fréttamaður ræðst til hans sem ritstjóri, annar ágætismaður sagði nei.  Eflaust fleiri. En stóra spurningin er, á þessi maður að eiga fjölmiðil?  Hver er tilgangurinn með því? Hverra hagsmuna er hann að gæta.  Hvað er það sem átti að skrifa um sem mátti ekki sjá dagsins ljós????  

Þetta ætlar nýja stjórnin að gera: 

„Í fyrsta lagi verður farið yfir rekstur og fjármál félagsins og í öðru lagi mun fara fram skoðun á faglegum þáttum í ljósi ábendinga sem fram hafa komið. Óháðir aðilar verða fengnir til að vinna þessar úttektir fyrir stjórn félagsins.“

Óháðir aðilar, mjög traustvekjandi.....

og nýi (gamli) formaður hefur áhyggjur af:

Á hinn bóginn hef ég um skeið haft áhyggjur af því að tiltekin öfl hafi óeðlileg áhrif á ritstjórnarstefnu blaðsins. Orðrómur þess efnis hefur magnast upp á síðkastið og hefur nú leitt til þess að ásakanir hafa verið settar fram á opinberum vettvangi af Sigurði G. Guðjónssyni hrl og Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. 

hér eru 2 seinustu yfirlýsingar Mannsins sem veit ekki neitt: 

18.13: Upplýst er á fundinum að Sigurður G. eigi Tart ehf. Það er félagið sem Lilja Skaftadóttir framseldi 13,07% hlut sínum í DV ehf. til. Sigurður afhenti umboð fyrir félagið á servíettu og sagði hana vera ódýrasta pappírinn á svæðinu.

Á hann sem sagt eitthvað???

 síðan sendi hann þingmanni kveðju á Facebook:

„Kannski er Reynir einn af þessum mönnum sem þú vilt að geti ráðist að æru þeirrra og mannorði sem honum er illa við með fé annarra, sem hann fær að láni og hirðir ekki um að greiða. Svona bull um aðför að tjáningarfrelsi er dæmigert fyrrir þingmenn sem standa ekki fyrir neitt og verða aldrei annað en pólitískir bullukollar.“

Þetta er maðurinn sem á að halda vörð um tjáningafrelsi á landinu........

Ég þekki Reyni ekki neitt, ég gerðist áskrifandi, þegar ég sá að undir stjórn hans fengu blaðamenn að sýna fram á spillingarherfu íslensku auðstéttarinnar.  Það hefur komið í ljós að margir vilja stoppa það.

sunnudagur, 7. september 2014

2014 eða 1914: Allt sem við viljum....

Skrítið: 2014 ekki 1914. Samt margt svo svipað, þessi bjartsýni manns um líf okkar á jörðinni oft svo haldlítil. Karlar taka sprett til að taka þátt í styrjöldum.  Spurning um að lenda í Paradís eða Helvíti. Spurning um að vera Rússi og tilheyra Rússlandi.  Vera tilbúinn að drepa
og myrða til þess.  Nágranni þinn er allt í einu fjandmaður. 

Það er merkilegt að lesa vinstri menn og byltingarsinna tala hátignarlega um að framið hafi verið valdarán í Úkraínu, aðrir tala um réttkjörinn forseta í Sýrlandi!!! Þau eru skrítin kattaraugun.  
Meðan aðrir tala um Kaldastríðið nýja.  Og valdamenn tala um beytingu kjarnorkuvopna. 

Breytingarnar streyma yfir okkur, við fylgjumst varla með, arabíska vorið breyttist í arabískan frostavetur.  Trúarníðingar safna sjálfboðaliðum víða um heim til að taka þátt í réttláta stríðinu. Við sjáum hausana fjúka í beinni.  Appelsínugula byltingin breyttist í spillingarherfu.  Svo fólkið fékk nóg, safnaðist saman á torgi, við ættum að kannast við það, við söfnuðumst saman á torgi.  Loks sá forsetinn sitt óvænna og lét sig hverfa af sviðinu, skildi eftir minnismerki um enn einn spillingargossann.  Húsakynni og lúxus í þessu fátæka landi.  Eins og Gaddafi.  Og ótal valdamenn á undan þeim, og eftir. 

Já 2014 ekki 1914.  Valdamenn auka stóryrðaflauminn, í alvöru eða ekki, við vitum það ekki. 

Oft endar það með því að þeir verða að standa við stóru orðin.  Þá er ekki snúið til baka.  Þannig var það 1914.  Verður það eins í dag? 

Það eru fáir sem tala um frið.  Stuðningur við NATO aldrei meiri, fáir mótmæltu
valdamönnunum í Wales.  Og forsætisráðherrann okkar var ábúðarfullur á svipinn, nýbúinn að bjarga þjóðinni undan nauðungaruppboðshamrinum, eða hvað?  

Allt sem við viljum ............... 

 


Myndir: Höfundur
 

miðvikudagur, 3. september 2014

Björn Bjarnason og Hanna Birna

Björn Bjarnason skrifar blogg í gær, þar sem hann ræðir um „heiftina" í garð Hönnu Birnu og skrítið að xD bæti við sig í skoðankönnunum.  Síðan þyrlar hann upp gamalli frétt sem allir þekkja sem fylgjast með stjórnmálum.  Sem sagt ekkifrétt. 

Ef þetta væri svo einfalt þá hefðu Lygar Hönnu Birnu verið óþarfar með öllu. Björn eins og margir Sjálfstæðismenn neita að horfast í augu við: 

 Hanna Birna hefur orðið missaga og margsaga frá upphafi þessa máls.
Enginn annar en hún hún og aðstoðarmenn hennar hafa getað komið nálægt þessu máli. 
Hvað sem að baki bjó hjá þeim er erfitt að ímynda sér, helst virðist vera rasismi á ferðinni.
Seinna bréf umboðsmanns Alþingis sýnir í eitt skipti fyrir öll hin óeðlilegu vinnubrögð Hönnu Birnu.
Enginn ráðherra hefur nokkurn tíma beitt jafn miklu falsi, við Alþingi og þjóðina. 


 En að fyrrverandi dómsmálaráðherra skuli verja flækjuvef Innanríkisráðherra.  Þegar búið er að rekja sorglegan feril hennar á mörgum stöðum, bæði í fjölmiðlum og bloggi.  

Ég vil nú samt taka undir það með Birni hve dapurlegt það er að svo stór hluti íslensku þjóðarinnar loki augunum fyrir svikabralli ráðherra og aðstoðarmanna hennar.  En gleymum því ekki að mikill meirihluti þjóðarinnar vill að hún segi af sér. 

Hér er blogg Björns Bjarnasonar: 

Miðað við heiftina í umræðunum um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, hafa vafalaust ýmsir talið víst að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi í ágúst. Í ríkisútvarpinu var í kvöld upplýst að hið gagnstæða hefði gerst. Fylgi flokksins hefði þvert á móti aukist lítillega, það er um 0,5 stig í 28%.
Í umræðunum um lekamálið hefur markvisst verið unnið að því að draga fjöður yfir tilefnið sem að baki því býr. Til að rifja það upp má meðal annars benda á þessa frétt í ríkisútvarpinu frá 20. nóvember 2013: http://www.ruv.is/frett/haelisleitandi-grunadur-um-mansal. Hún hefst á þessum orðum:

„Lögreglan leitar enn hælisleitanda sem senda átti úr landi í gær. Útlendingastofnun synjaði manninum um hæli en hann hefur dvalist hér á landi í um tvö ár. Maðurinn er grunaður um aðild að mansali.
Lögmaður mannsins fullyrðir að umbjóðandi sinni, Tony Omos eigi von á barni með nígerískri konu hér á landi og því ætti ekki að stía þeim í sundur. Konan er ein af níu nígerískum konum sem hingað komu fyrir um einu og hálfu ári. Nokkrar þeirra voru vanfærar og 7 þeirra dvöldust í Kristínarhúsi, athvarfi fyrir fórnarlömb mansals og fæddust þar þrjú börn.“

mánudagur, 1. september 2014

Stefán Eiríksson:Góður drengur

Stefán Eiríksson færir sig um set, við sem fylgjumst með fréttum, stjórnmálum og þjóðmálum, vitum af hverju.   Hann tekur við starfi hjá Reykjavíkurborg og mér skilst að vel hafi verið tekið á móti honum í morgun.  

Ég hafði sjálfur alltaf blendnar tilfinningar til Lögreglustjórans fyrrverandi, kannski út af fordómum í garð lögreglu, vinstri menn fengu oft að kenna á hægri slagsíðu lögreglunnar á tímum Víetnammótmæla, Keflavíkurgangna og Kaldastríðs. Svo var auglýsingakeimur af honum eftir að hann tók þar til starfa. Þessi lágvaxni maður sem þóttist vera eitthvað úti á götum borgarinnnar!!!

En nú kveð ég Stefán mjög sáttur úr lögreglunni.  Hann sýndi einstaka hetjulund, frekar að láta sig hverfa af vettvangi lögreglunnar en að láta siðspilltan ráðherra og þingmann beita sig ofríki sem yfirmaður. 

Hann sýndi sig sem góðan dreng.  Sem var hið mesta hrós í Íslendingasögum okkar.  Gangi honum vel í nýja starfinu.