fimmtudagur, 30. júlí 2015

Kúrdar: Tökum málstað þeirra!

Enn lenda Kúrdar í því, Erdogan notfærir sér ástandið umhverfis Tyrkland og spilar með NATO, það kæmi ekki á óvart að hann efndi til kosninga þegar ástandið væri heppilega órólegt fyrir hann. Kúrdar virðast skipta minna máli en flugvellir í Tyrklandi fyrir Bandaríkjamenn . Þrátt  fyrir framlag þeirra í stríðinu gegn ISIS.  Eftir hrun í kosningum í vor, þarf hann einhverja brellu og klæki til að ná fram markmiðum sínum um alræði. NATO lætur leika með sig. Skagfirðingurinn knái bugtar sig og beygir. Hann rís ekki upp eins og Jón Baldvin og segir nei takk. 

Það var Íslendingur sem sagði okkur frá Kúrdum fyrir nokkrum áratugum, Erlendur Haraldsson, í bókinni Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan. Kúrdar eru smáþjóð sem hafa átt erfitt uppdráttar, það er kominn tími að einhver taki málstað þeirra. 

miðvikudagur, 29. júlí 2015

Spámenn: Jón Baldvin leysir málin

Spámaðurinn mikli ryðst fram á sjónarsviðið.  Jón Baldvin Hannibalsson.  Núbúinn að uppgötva Útgönguskatt frá Asíu, kreppu í Evrópusambandinu, sjúkt hagkerfi á heimsvísu. Allt ný speki sem enginn hefur rætt um hér eða erlendis.  

Allir búnir að gleyma hlutdeild hans í hugmyndum um einkavæðingu og ljúfu sambandi við Davíð Oddsson.  Og ofurskammti af Siðblindu. Og sumir Vinstrimenn hrósa honum í hástert, þótt aðrir bendi á grunnhyglina í skoðunum hans (Lilja Mósesdóttir).  Ekki ætla ég að kvarta
yfir aldri Jóns, hann er hress og kátur miðað við aldur og fólk á öllum aldri á að tjá sig um hina ýmsu þætti þjóðlífs.
Sumt gerði han vel sem ráðherra, sem fær nafn hans til að lifa.  

Eru Vinstri menn búnir að gleyma grunninum?   Eflaust er nokkuð til í því.  Flestir kjósendur þeirra eru millistéttarfólk, þjóðfélagið er allt öðru vísi uppbyggt en var fyrstu áratugina eftir stríð.  Fjölmiðlaeigendur eru með tengsl inn í auðvaldsflokkana leynt og ljóst.  Hamrað er á ríkisfjölmiðlum ef þeir voga sér að hafa gagnrýna hugsun. Svo er líka um smáblöð.  Eigendur útgerðar og stórfyrirtækja verða æ sterkari.  Það er erfitt í augnablikinu að sjá hvernig á að berjast við þá. Sá flokkur sem nýtur mestrar hylli í skoðanakönnunum hefur enga heildstæða hugmyndafræði um þessi mál, þótt hann eigi góða talsmenn vitrænnar umræðu á Alþingi.   Umhverfismál og framtíð mannkyns er æ sterkari þáttur í hugmyndum róttækra.  Meðan valdamenn loka augum og ímynda sér að lausnin sé stóriðnaður og lægri skattar.   

Það er gott að Jón Baldvin á nokkrar mínútur í fjölmiðli, það er skárra en að hlusta á utanríkisráðherrann rugla um hvalveiðar, flokkssystur hans að ráðast á húsnæðisráðherra sem fær öll mál sín stöðvuð af Sjálfstæðismönnum.  Meðan við bíðum eftir allsherjarhruni Heilbrigðiskerfisins.  Jón Baldvin leysti ekki þau mál í viðtalinu!    

mánudagur, 27. júlí 2015

Teva: Ísraelskur lyfjarisi á Íslandi

Viðskiptafrétt dagsins að ísraelski lyfjarisinn  Teva hafi keypt samheitahluta Allergan sem einu sinni var íslenskt fyrirtæki, Atavis.  Viðskiptaheimurinn er flókinn.  Þarna er meira að segja Íslendingur með í spilinu, yfir samheitadeild Teva, fyrrum forstjóri Actavis :

Teva er fyrir kaupin stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi, og í fréttatilkynningu segir að það verði eftir kaupin eitt af tíu stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Yfirmaður samheitalyfjastarfsemi Teva er Sigurður Óli Ólafsson. Hann var um tíma forstjóri Actavis, meðan höfuðstöðvar þess voru enn á Íslandi. Enn er óljóst hvaða áhrif þessar nýjustu sviptingar hafa á starfsemina á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Allergan á Íslandi.(Feitletrun mín)

Eins og við er að búast þá hefur Terva verið mikið rætt í sambandi við einokun ísraelskra lyfjafyrirtækja á markaðnum í Palestínu.  Sem stærsta lyfjaframleiðslufyrirtæki Ísraels og vinsælt fyrirtæki á hlutafélagsmarkaði um allan heim, meira að segja Soros er stór hluthafi.  Það  er kaldhæðnislegt að þessi ísraelsku lyfjafyrirtæki  skuli vera með einokun á markaði sem þarf á lyfjavörum að halda eftir yfirgengilega árás ísraelska ríkisins í fyrra. 

http://5pillarsuk.com/2014/07/31/uk-pharmacies-boycott-israeli-pharmaceutical-company-teva/

http://www.whoprofits.org/company/teva-pharmaceutical-industries

https://electronicintifada.net/blogs/asa-winstanley/israeli-companies-profiting-gaza-siege

Svo það er spurningin hvort Apótek á Íslandi séu reiðubúin að þjóna okkur sem kaupum ekki vörur í eigu ísraelskra fyrirtækja. 




sunnudagur, 26. júlí 2015

Fjölmiðlavöld: Hrægammar og stjórnmálarefir

Sorgleg tíðindi, fínt og gagnrýnið héraðsblað fær ekki að vinna áfram, lítið Reykavíkursvæðisblað fær ekki að starfa.  Bæði blöðin hafa verið gagnrýnin á ýmsa valdhafa. Það er ekki gott.  Björn Pingja kemur á staðinn með seðlabunka frá vinum sínum.  

Hrægammar eru þeir og bak við eru hinir saklausu stjórnmálarefir sem koma aldrei nálægt neinu samanborið DV. Klígjan kemur upp í hálsinn.  


fimmtudagur, 23. júlí 2015

Ríkisstjórnin: Hvað er að frétta?

Já, hvað er að frétta.  Undirritaður vill fræða ykkur um það lesendur góðir. Forsætisráðherra er á móti nýrri byggingu Landsbankans. Það er gott að láta okkur vita.  En áður höfum við fengið að vita hverju hann er á móti, en ..... þetta fræga en.  Forsætisráðherra er æðsti ráðamaður þjóðarinnar (eða næst æðsti, þið vitið um hvern ég er að tala!). Svo hann ætti að
geta gert eitthvað.  Talað við fjármálaráðherra, sem hefur einhver áhrif í  Bankasýslunni, þótt hann hanfi ekki enn getað lagt hana niður.  Það er ekki svo að ég sé ósammála Forsætisráðherranum, langt frá því.  Þessi múr af stórhýsum sem fyrir hugaður er í suður frá Hörpunni er fáránlegur út frá fagurfræðilegu sjónarmiði og svo nýja Hótelið í Lækjargötu.  Smekkleysan ríður varla við einteyming.  Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru máttlaus og ræfilsleg svo ekki sé meira sagt.  Hjörleifur Stefánsson kom með gott innlegg í þá umræðu.


Svo er það heilbrigðisráðherrann, hann getur lítið gert, eins og fyrri daginn. En hann vonar að gerðardómur geri ýmislegt, þótt það sé vafasamt að hann gefi út yfirlýsingar sem þessar.  Á ekki gerðardómur að vera sjálfstæður að öðru en því sem sagt er í lögum sem Alþingi samþykkti? Og gerðardómnum eru ansi þröngar skorður settar, svo enn eru meiri líkindi en minni að við missum hundruðir hjúkrunarfræðinga og ýmsa aðra starfsmenn úr heilbrigðisgeiranum.  Að baki búa ruglingskenndar hugmyndir xD um að einkavæða allt, hvort sem kjósendur vilja það eða ekki. 

Þriðji ráðherrann sem hefur verið í fréttum (ætli aðrir séu ekki einhvers staðar í sumarhúsi eða á sólarströnd) er Eygló Harðardóttir, hún skrifaði pistil sem fór fyrir brjóstið á mörgum.  Um stöðu ungs fólks í dag, sem hún virtist hafa lítinn skilning á, hún er ekki ein um það.  Sumir þurftu að hrópa Vei vei og vildu helst að hún hypjaði sig úr ráðherrastólnum hið fyrsta.  En
hún hefur um leið unnið ágætt starf í sambandi við móttöku á flóttamönnum frá hinum stríðshrjáðu svæðum heimsin og er það vel.  Svo frá mér séð má hún enn sitja ef hún vinnur það vel.  Ef hún gæti svo komð húsnæðisfrumvörpum sínum í gegnum múr íhaldsins.  Það er oft ekki auðvelt.  

Ég gleymdi utanríkisráðherranum, hann vill minnka hvalveiðar.  Líklega hefur hann fengið ábendingu frá Bessastöðum.  Það er ansi ömurlegt, hversu við útilokum okkur frá umræðum um umhverfismál. Bandaríkin bjóða okkur ekki á ráðstefnur og umræðufundi.  Það finnst Forsetanum okkar ekki í lagi.  Arctic Circle gæti liðið fyrir þessa afstöðu stjórnvalda sem er úr takti við nútíma hugsun.  

Svo hvað er að frétta, spurði ég í upphafi.  Enn er ríkisstjórnin á róli sem fáir vita hvert leiðir.  Ennþá er það eins og vanti Skipstjóra í brúnni.  Þetta er allt út og suður.  Svo við eigum von á pínlegum uppákomum í hverri viku.  Lesendur tóku sumir eftir að ég sleppti Ragnheiði Elínu, í augnablikinu er hún too much fyrir mig.  Svo ég læt hana í friði. 

mánudagur, 20. júlí 2015

Sigríður Andersen: Vampýra nýrfjálshyggjunnar


Það er gott þegar þær stíga fram vampýrur nýfrjálshyggjunnar og vilja sjúga blóðið úr landanum.  Svo heldur Sigríður Andersen að þetta sé gott innlegg í lausn á hræðilegum vanda heilbrigðiskerfis sem ráðherra hennar Bjarni Benediktsson hefur skapað.  Svo kaupa þau
hlutabréf í félögum vina sinna sem bíða með glyrnurnar galopnar af græðgi yfir skyndigróðanum eins og dæmin sanna. 

Þingkona Sjálfstæðisflokksins segir aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu lausn í kjaradeilu



 Það gerir enginn nema heilbrigðisstéttirnar sjálfar sem best þekkja spurnina eftir nauðsynlegri heilbrigðis- þjónustu. Með aukinni þátttöku heilbrigðisstarfsfólks utan ríkiskerfisins fær ríkið líka þá samkeppni og aðhald sem nauðsynleg er til þess að geta staðið undir starfsemi þar sem flestir eru ánægðir, sjúklingar og starfsmenn.

Segir þingmaðurinn, Já það er auðvelt að koma með skyndilausnir, Vampýrurnar lifa mest á skyndibitum það er fæðið sem flestir deyja fljótt af.  Þá streyma flestir í gegnum ódýra frjálsa hagkerfi Íhaldsins. Þar sem menn geta jafnvel fengið hjarta og heilaaðgerðir á svörtum markaði. 
Þá er gott að lifa. 


laugardagur, 18. júlí 2015

Gúrkutíð: Eru örvörður ógeð

Gúrka um gúrku frá gúrku til gúrku.  Já, lesendur góðir, það er gúrkutíðin hin meiri.  Umræðuefnið mannaskítur úti í hrauni piss og örvörður.  Ég stoppaði við þetta orð, örvörður, hafði aldrei séð það áður. Nú er ekki leyfilegt að hlaða smáminnisvarða örfáa steina, líklega af því að það eru útlendingar.  En valdastéttin á Íslandi fékk í friði og ró að koma sér upp
sumarhúsum á þjóðgarðinum á Þingvöllum þó það sé liðin tíð. Við sem höfum yndi af því að ganga um landið höfum hingað til fengið að setja í vörður eða hlaða nýjar án þess að það sé lagt blátt bann við því.  Skemmtileg hjátrú og hindurvitni fylgdi vörðum sem stuðlaði að þessari þróun.  En ætli það verði ekki bannað,  líklega er þetta einn liðurinn í því að allt verði leyfilegt ef maður borgar inn. 

Leiðsögumenn eru kriftmikilir í yfirlýsingum um þessar mundir: „Þetta er hryllingur og þetta á að fjarlægja alls staðar,“ segir Vilborg Anna Björnsdóttir, formaður Félags leiðsögumanna. Unnið hefur verið að því síðustu daga að fjarlægja örvörður nálægt Þingvöllum og girða fyrir svæðið.

„Þetta er þannig að fólk fer í ferðalag og því finnst það þurfa að skilja eitthvað eftir sig til að segja „ég var hér“. Þetta skemmir náttúruna hvar sem það er. Ég þekki engan sem er meðmæltur þessu ógeði,“ bætir Vilborg við.

Og leiðsögumenn koma víða við ef marka má yfirlýsingar starfsfólks í Þjóðgarðinum
Ýmsir leiðsögumenn hafa einnig hvatt gesti sína til að greiða ekki fyrir salerni og skammast í starfsfólki þjóðgarðsins fyrir að sinna vinnu sinni.

Listamaðurinn sem enginn vil hafa með sér í félagi hefur skoðun á þessu að sjálfsögðu: „Er þetta ekki bara sjálfsagður hlutur. Þegar það koma útlendingar þá þurfa þeir að kúka og þetta er eins og að kúka, ákveðin tjáning með frumstæðum hætti. Augljóslega er þetta ekki skemmdarverk. Það er fólk sem kemur hingað og skapar einhverjar fallegar vörður fyrir Íslendinga að njóta. Það er fáránlegt að kalla þetta skemmdarverk.“

Það er huggulegt að ræða um eitthvað sem skiptir engu máli, meðan stóru málin voma yfir okkur, hundruðir starfsmanna heilsuþjónustu sem ætla að hverfa frá störfum meðan Fjármálaráðherra sendir þeim tóninn og finnst það eflaust lítið mál að ráða fólk frá einkareknum fyrirtækjum vina sinna.  Meðan draumar valdamanna um stóriðju og virkjanir eru úthugsaðir og skipulagðir í stofnunum okkar þar sem skipulögð er framtíð barna okkar í heimi sem fær okkur til að vakna upp við martraðir og óhugnað. 





















Björk Guðmundsdóttir selur sumarhús sitt á Þingvöllum

fimmtudagur, 16. júlí 2015

Jónas, Einar og Murnau: Verjum helga jörð.

Ég sá í fréttum að hauskúpa eins merkasta kvikmyndaleikstjóra sögunnar hefði horfið úr fjölskyldugrafreit hans í útjaðri Berlínarborgar.  Leikstjórinn er Friedrich Wilhelm Murnau en hann dó í bílslysi fyrir aldur fram í bílslysi árið 1931.  Eftir hann liggja mörg stórvirki kvikmyndasögunnar eins og Nosferatu, Sunrise, Der Letzte Mann og Faust.  Þessar myndir voru sýndar fyrir nokkrum áratugum í Kvikmyndaklúbbi Framhaldsskólanna og eru allar ansi minnisstæðar enn þann dag í dag hjá mér.  Lögreglan í Þýskalandi halda að þarna geti verið á ferðinni eitthvað okkult á ferðinni vegna þess að Murnau gerði áhrifamestu hryllingsmynd sögunnar Nosferatu. 

Á sama tíma berast ógnvænlegar fréttir af atferli útlendinga við leiði helstu höfuðskálda þjóðarinnar á Heiðursgrafreit ríkisins á Þingvöllum.  Sem fullnægja dýrslegustu hvötum sínum á grafreitum Einars Benediktssonar og Jónasar Hallgrímssonar.  Skilja eftir sig saur og þvag og gefa sér ekki tíma að leita uppi hina mörgu Kamra Þingvallanefndar.  Vonandi fara þeir ekki að feta í fótspor grafræningja í Þýskalandi, að birtast með skóflur og haka og fara að ræna okkar ágætu listamenn.  Frakki Einars Benediktssonar  eða hauskúpa Jónasar yrðu fyrir bí.  Það gæti meira að segja komið í ljós að Frakkinn var ekki úr merkilegu efni og að það sannaðist að Jónas væri ekki Jónas eftir allt saman, grafræningjarnir gætu haft áhuga á DNA rannsóknum og þá gæti ýmislegt gerst, við fengum hina einu sönnu vitneskju um Jónas.  Eins og marga grunar.  Lesendur mínir vita auðvitað af ágreiningnum um flutning beina Jónasar frá Kaupmannahöfn til Þingvalla.  Sem Halldór Laxness gerði ódauðlegan í Atómstöðinni.  

Ég vil leggja til að Þingvallanefnd setji vörð um þennan helga stað þjóðar okkar.  Eða setji rafmagnsgirðingu umhverfis hann.  Svo legg ég til að DNA sýni verði tekin af öllum túristum sem koma til landsins svo við getum sektað hvern þann saurista og pissista sem svívirða heilaga jörð vora. 

miðvikudagur, 15. júlí 2015

Grikkland: Bankar skipta meira máli en fólk.

Mér er hugleikin þessa dagana, niðurstaða samninganna við Grikkland (sem eru kannski ekki enn frágengnir). 

Hnefahöggið sem Þjóðverjar veittu smáþjóð í Suður Evrópu á eftir að hafa í för með sér breyttar áherslur margra gagnvart ESB.  Nú kemur í ljós að það eru hinir stóru og sterku
peningaþursar sem ráða förinni og ætla að gera það.  Bankar skipta meira máli en fólk. 

 Hér eru tvær greinar, ólíkar um margt, önnur analýsa frá Stratfor Global Intelligence.  Hin skoðun frá Guardian um viðbrögð vinstri manna sem vildu aðrar áherslur en ráðamenn í Berlín og Brussel.  

Það var augljóst þegar fátækar þjóðir voru teknar inn í ESB að ýmislegt gæti gerst. Við höfum séð fátt af því hér heima á Íslandi í fréttum.   Mikil barátta hefur víða farið fram gegn spillingu og enn lifir spillingin víða.  En með Grikklandssamningunum hefur ýmislegt komið í ljós sem var okkur hulið.

Svo ýmislegt verður endurskoðað og hugsað upp á nýtt. 


þriðjudagur, 14. júlí 2015

Ísland og Grikkland : Tröll og dvergar

Nú höfum við horft á endalok Grikklandsævintýrisisins mikla.  Þar sem risarnir bjástruðu við litlabróður og skelltu honum sannkallaðri bræðrabyltu í forina. Með góðri aðstoð vina okkar Finna sem nú eru orðnir sannheilagir enda komnir með nýja ríkisstjórn þar sem Sannir Finnar
halda fast um pyngju og landamæri. Sænski Evrópusambandsþingmaðurinn Marita Ulvskog koma af stað stormi í vatnsglasi með þessum ummælum á Twitter um fjármálaráðherra Finna: 

Tja, det var killar som Alexander Stubb som mobbade min handikappade syster på skolgården. Eurokrisen avslöjar politik o politiker.
12:44 AM - 14 Jul 2015

Mér sýnist að samningarnir sem undirritaðair voru geri nú varla annað en að fá grísk yfirvöld til að hugsa sín mál. Svo yfirgengilegir eru skilmálarnir.  Og pressan sem sett var á Tsipras forsætisráðherra var ómanneskjuleg, þeir sem ímynda sér að það hefði verið einfalt fyrir grísku þjóðina að ganga út úr ESB vita lítið um fjármál og stjórnmál.  Economist orðaði það svona: 

That it seemed plausible for Mr Tsipras to have pulled a personal Grexit sheds light on the extraordinary pressure the prime minister faced during the all-night talks. At 6am, locked in discussions over a controversial privatisation fund with Angela Merkel, Germany’s chancellor, and François Hollande, the French president, Mr Tsipras did indeed come close to walking out. But spurred by pressure from Donald Tusk, the chair of the summit, the three eventually managed to forge a deal that could form the basis of a multi-billion-euro bail-out, Greece’s third in five years.

Það er ótrúlegt að horfa á þessar tölur sem verið er að ræða um Meira en 80 billjónir Evra, áttatíu þúsund milljarðar!  Hver er talan í íslenskum krónum?  Tólfmilljón milljarðar króna. Og Grikkir eru svipaðir af íbúafjölda og Svíar.  Skilaboðin virðast eiga að vera, fólk á að borga sínar skuldir.  Sem sumum virðist skiljanlegt en þá gleymist að það var ekki alþýðan í landinu sem tók þessi land, heldur kókainbrjálaðir bankamenn með æðisglampa í augum.  Og allir bankar stórveldanna voru nú aldeilis tilbúnir í tuskið. Við vorum líka til í lánaleikinn í Gullæðið, þessir venjulegu Jónar. Og stjórnmálamenn spiluðu með, allt varð brjálað á Íslandi þegar nokkrir stjórnmálamenn áttu að bera sína ábyrgð, og það eru ekki margar Evrópuþjóðir sem hafa dæmt sína bankamenn.  

En hvað kennir þetta okkur?  Íbúunum hér í norðri?  Við verðum að fylgjast með póltíkusum og fjármálamönnum.  Það er aldrei að vita hvenær þeir fara út fyrir rammann.  Gullið blindar margan manninn.  Margur verður af aurum api. Grikkir eru
litlir í þessum leik og þeir eiga að vera víti til varnaðar.  Það hefði aldrei verið ráðist á hina stærri.  Þeir litlu  eru teknir fyrir, það átti að taka okkur fyrir en sambland af heppni og ríkisstjórn  sem gat bitið frá sér þá tókst okkur að halda haus.  Enn eru margir sem verða að gjalda fyrir það sem rangt var gert, þar var erfitt að fóta sig við aðstæður sem aldrei höfðu gerst áður, þeir sem misstu húseignir sínar, hafa minni lífeyri og bætur.  

Það er enginn sem sér um að hugsa fyrir okkur, sú tíð hefur aldrei verið til.  Lýðræði felst í því að taka þátt og vera með.  Annars fáum við yfir okkur kreppur og hrun á nokkurra ára fresti. 

föstudagur, 10. júlí 2015

Glæpagengi Samfylkingarinnar

Nú hafa Íslendingar fundið nýtt fórnarlamb.  Samfylkingin er glæpamaður.  Og Guðfaðir klíkunnar er auðvitað prestssonur af Mýrum. Svo eru það Kratastelpa úr Kópavogi og stjórnmálfræðingur af Nesinu.  Það má ekki gleyma frænda mínum af Vesturgötunni.  Allt er þetta glæpahyski sem enginn vill kjósa á Alþingi.  


Já, lesendur góðir, pólitík er skrítin tík, aldrei að vita á hvern hún geltir né bítur.  Hún hróflar ekki við Ráðherranum sem seldi hlutabréfin sín árið 2008 þegar hann vissi meira en flestir.  Henni er alveg sama um Ráðherra sem úthlutar eiturverksmiðjum til vina sinna og ákveður hvenær rafmagn er til eða ekki.  Hún veit ekkert af Ráðherra sem heldur að allt verði betra í mennta og menningarmálum ef því er handstýrt af þeim sem hafa aldrei komið að slíkum málum. 

Já, lesendur góðir, tíkin atast í Ráðherrum smá sem elska gamalt og gott vasabókhald og sms. En sá Ráðherra virðist ekkert  taka eftir því fyrr en eftir næstu kosningar. Margir samráðherrar hans virðast eiga það sameiginlegt að brjóta niður lagaumhverfi og samþykktir Alþingis og verða alltaf jafn hissa þegar andstæðingar á Alþingi reyna að hindra það.

Já þetta er allt andskotans Samfylkingunni að kenna.  Þeir eyðilögðu Stjórnarskrána (hefði hún einhvern tíma komist í gegn?)  þeir ætluðu auðvitað að koma þjóðinni á vonarvöl af mannvonsku sinni.  Jóhanna Sigurðardóttir var ein versta kona sem alið hefur manninn á Íslandi.  Og með taglhnýtinginn Steingrím á hælum sér.  Sem gerðu allt rangt sem hægt er að hugsa sér.  Stóðu meira að segja fyrir því að fá Hagvöxt sem Sigmundur og Bjarni hafa hrósað sér af!  Ekki er hægt að hugsa sér ógeðlegra. 

Svo í næstu kosningum verðum við öll Píratar með hatt, sverð og lepp fyrir öðru auganu.  Þá verður allt breytt. Ætli við vinnum ekki í næstu ríkisstjórn með þessum glæpamönnum, eins og í Borgarstjórninni í Reykjavík. Ég hlakka svo til. Lífið verður dásamlegt.     





þriðjudagur, 7. júlí 2015

Tsipras, öflugur foringi á ólgutímum

Alexis Tsipras hefur sýnt sig að vera öflugur stjórnmálamaður og foringi.  Hann grípur til óvæntra bragða eins og þjóðaratkvæðagreiðslan var. Slær á ákveðinn hátt vopnin úr höndum ráðamanna í stóru ríkjum Evrópusambandsins.  Fær þjóðina að baki sér.  Engin líkindi að
honum verði sparkað. 

Úrelt hugmyndafræði hagfræðinga og ráðgjafa ríkisstjórna Frakka og Þjóðverja vekur furðu með Breta í fylgd sér, íhaldssömustu ríkisstjórnar Vestur-Evrópu.  Framfarasinnaðir hagfræðingar gefa þeim langt nef, Piketty, Krugman, Amartya Sen.  

Ekki sé ég ástæðu til að bera saman skuldir í lok Fyrri eða Seinni heimsstyrjaldar við ástandið í dag; það eru allt aðrar aðstæður.  En Grikkir eru ásamt mörgum öðrum fórnarlömb kolrangrar fjármálastefnu sem skapaði Hrunið mikla.  Við vorum þar líka, okkur tókst að reisa okkur við með harðri stjórn Jóhönnu og Steingríms, margir vilja ekki skilja hversu það var ótrúlegt starf.  Grikkir og ESB hafa eytt mörgum árum í endalaust þras og karp.  Ríkisstjórnin reisti okkur upp með aðgerðum sem oft voru óvinsælar, sumar rangar en það gerist oft á ólgutímum sem þessum.  En stjórnin kom okkur í hagvöxt sem var meiri en stóru þjóðirnar í Evrópu skáka sér af. 

Því er komin ástæða til að semja og fá hjólin til að rúlla á ný í Evrópu.  Til þess þarf framfarasinnaða hagstefnu og nýja ráðgjafa. 

fimmtudagur, 2. júlí 2015

Guðlast: Spegilmyndin af okkur

Jæja, nú getur maður farið að blóta guði. Ótrúlegasta ákvæði laga hjá okkur, ótrúlegt að einhver skuli hafa verð dæmdur á seinni hluta 20. Aldar og settur í fjárhagslegt tjón fyrir hárfínt og grimmdarlegt Guðlast.

Enn furðulegra að nokkrir Þingmenn skuli ekki hafa getað samþykkt að þurrka út þennan smánarblett  á mannréttindum á Íslandi.   Þetta er ein besta Siðbót seinni ára. Svo getur maður bætt um betur og lesið þetta öndvegisrit Úlfars Þormóðssonar sem tókst oft að vera ægifyndinn með samstarfsmanni sínum, Hjörleifi Sveinbjörnssyni ásamt fjölda leynipenna.

Svo lesendur góðir, þið sem eruð miður ykkar yfir sumarleyfi Alþingis, takið gleði ykkar á ný og lesið Spegilinn 2. Tbl og njótið frétta af stjórnmálamönnum, fermingarbörnum og klerkum, ekki svo slæm blanda, eins og dæmin sanna! Lífið er nú bara ansi gott.