laugardagur, 24. ágúst 2013

Auðlegðaskattur og ráðgjafaráð: Sama sagan

Ríkisstjórnin gerir það ekki endasleppt.  Nú er það fjármálaráðherrann sem leggur af um auðlegðarskattinn.  Frjálshyggjuhugmyndafræðin skiptir meira máli en fjárhagur ríkisins.  Í staðinn verða auðvitað þeir tekjulægstu sem verða fórnarlömbin, með verri þjónustu og niðurskurð.  Þeir tekjuhæstu geta auðvitað komið sér góðri þjónustu í skjóli peninga, í útlöndum eða meða breytingum á heilsugæslukerfinu.  Ætli það verði ekki næst á dagskránni????????? 

Svo höfum við fengið nýja nefnd ekki efnd, ráðgjafaráð hagfræðinga.  Með aðalráðgjafa LÍÚ í broddi fylkingar.  Ragnar Árnason.  Og ýmsa meðreiðarsveina.  Allir sanntrúaðir á bláu höndina.  Allt fer í rétta átt.   Fólkinu á að blæða. Ég er ekki sammála Gauta Eggertssyni um jákvæðu hliðarnar.  Þarna er verið að setja niður nýja nefnd til skera niður. Við þekkjum skoðanir Ragnars sem eflaust fá hlýjar móttökur hjá stjórninni......

Það er myrkt framundan í göngunum......

Reykjavík: Hátíð í bæ

Það er gaman þegar fólk getur sameinast um það að einn ákveðinn dagur sé hátíðardagur. Eins og 17. júní, 1. maí, Verzlunarmannafrídagurinn.  Fólkið sýnir það með því að mæta, taka þátt og njóta. Hafa gaman að. Þannig er með Menningarnótt.  Sem hefur orðið tvöföld hátíð með Reykjavíkurmaraþoni á sama degi.   Þetta er eitt skemmtilegast fyrirbrigði seinustu áratuga víða um heim.   Fjölskyldur, Hjón, börn skella sér í bæinn ráfa um, eru búin að ákveða vissa atburði, fá sér eitthvað að eta og drekka.  Svo eru stórtónleikar um kvöldið og flugeldasýning sem stundum er misheppnuð en ekki alltaf.  

Það viðrar ekki í dag vel til hlaups og útiveru.  Mikill úði og regn.  En það eru 14000 manns sem hafa skráð sig, ótrúleg tala. Enda var algjört kaos umhverfis Laugardalshöllina síðdegis í gær þegar afhent voru gögn.  Konan mín ætlar að hlaupa hálfmaraþon þannig að við vorum á ferli og enduðum með að fara bara í Nóatún að versla.  Svo hljóp kona mín og náði í dótið sitt.  Það tók engan tíma.  Það er ákveðin þversögn í því að fólk sem stundar holla útiveru og hreyfingu þarf að koma hvert á sínum bíl í Laugardalinn.  Það voru nokkur þúsund bílar þarna í gær.  Martröð.  

Ég hef tekið mismikinn þátt í þessari hátíð.  Bjó úti á landi í mörg ár, var ekki alltaf í bænum á þessum tíma.  En ég hef yfirleitt farið í Gallerí Fold þar eru yfirleitt nýjar áhugaverðar sýningar.  Nú eru þar Tryggvi Ólafs og Bragi Ásgeirs. Og Kristján Davíðs ef ég man rétt.  Svo hef hugað að því ef ættingjar koma við sögu, fólk mitt er í tónlist.  Svo er gott að fá eitthvað að borða þó erfitt sé að koma því við í tröðinni.  Ég hef aldrei verið svo fyrirhyggjusamur að panta borð á veitingastað. En svo hef ég bara verið heima um kvöldið og horft á flugeldana af svölunum.  Ég kann ekki vel við mig í kraðaðkinu hjá stórhljómsveitunum.  Ég sé að Sinfonían er með tvenna tónleika í Hörpunni þar væri gaman að vera, vöfflukaffin eru mörg þau koma til greina, Amnesty í Þingholtsstræi, Fjölskyldan í Ingólfsstræti bak við Aðventukirkjuna, Dagur Eggerts, Ólöf Arngríms.  

Svo lesendur góðir við hittumst kannski í dag, eða ekki.  Reynið að njóta dagsins, þótt sólin sé ekki í heiði.  Ekki fara í kerfi. Ráðist hvorki á ríkisstjórnina né borgarstjórn þau ráðu engu um þetta.  Kannski Davíð Oddsson!!!! Þetta er brandari.  

Gleðilega hátíð!!








Smásýning dagsins:  Skyssubæku Erlings .........

fimmtudagur, 22. ágúst 2013

Gunnar Bragi: Reynum að gleyma honum


Það er meira gaman að horfa á fallegar myndir úr Húnavatnssýslu og Borgarfirði en að hugsa um furðulegasta afsprengi íslenskra stjórnmála sem ég man eftir.  Þar á ég við utanríkisráðherra stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Í dag lét hann sér ekki nægja að tilkynna að nú yrði allt starf í sambandi við ESB umsókn lagt í rúst, heldur ætlar hann þar að auki að ganga fram hjá Alþingi í þeim vinnubrögðum.  Alþingi samþykkti þessa tilhögun mála og það er Alþingis að ljúka því ferli.  Það er ekki hlutverk vankunnandi karls að norðan að ákveða það.  Þess vegna vona ég að fólkið í hans kjördæmi sjái með tímanum hverju þeir hafa útungað inn á Alþingi og í ríkisstjórn.  Og iðrist.  Vinnubrögðin eru þvílík að manni verður orða vant og það þarf mikið til þess hjá mér.  

Svo lesendur góðir njótum fegurðar landsins umhverfisins á Norðvesturlandi og gleðjumst yfir því sem við sjáum.  Víða er augnayndi, víða er gott fólk, en við þurfum ekki þingmenn sem utanríkisráðherrann.  Megi hann hverfa sem fyrst af vettvangi stjórnmálanna.  Gleymum honum. Njótum lífsins.  











Sigurður Már Jónsson; Rödd meistarans.

Það er þröng sýn ýmissa fjármála- efnahagsskríbenta, þeir halda að við lifum einöngruð í okkar eigin heimi sem við getum stjórnað, við ein, að öllu leyti.  Gott dæmi er Sigurður Már Jónsson, han fer mikinn í pistli um misheppnun fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.  Hann segir :

Allt er þetta heldur grátlegt þegar horft er til þess að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2008 var reiknað með að Ísland gæti rétt tiltölulega fljótt úr kútnum, væri rétt að verki staðið. Talið var raunhæft að hagvöxtur yrði 4,5% árin 2011 og 2012 og um 4,2% á þessu ári. Ef reyndin er sú að við megum þakka fyrir 1% hagvöxt hlýtur það að teljast áfall fyrir efnahagsstefnu síðustu ríkisstjórnar og ráðgjöf og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú er búinn að pakka saman hér á landi. Er vonandi að fleiri þurfi ekki að pakka saman og hverfa af landi brott.

Ef þetta væri nú andans maður með víðan sjóndeildarhring myndi hann skoða þetta út frá ástandinu í hinum alþjóðlega fjármálaheimi um þessar mundir.  Hvað er að gerast þar og hvernig speglast það við íslenskan fjármálaheim. Hvernig gengur öðrum löndum í þessum fjármálakreppubarningi?  Ég benti á fyrir nokkrum dögum hvernig Hagvöxtur væri í nokkrum löndum nálægt okkur.  Og það kemur í ljós að jafnvel á Norðurlöndum er bullandi óáran, enda þeir sem sitja við völd ekki vinsælir hjá kjósendum. Hér eru seinustu spár um Hagvöxt fyrir 2012 og 2013 frá OECD: 


Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Þýskaland höfuðríki Vesturlanda á í bullandi erfiðleikum, vinaþjóðir okkar Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru í erfiðleikum með útflutning sinn og framleiðslu.   Svo á Ísland bara að vera í einhverjum öðrum heimi!!!!

Stofnanir okkar reyna að greina og skoða framtíðina það gengur á ýmsu eins og hjá Seðlabankanum, eins og Sigurður Már bendir á: 


Auk þess sögðu Seðlabankamenn að vöxtur efnahagslífsins 2012 hafi aðeins verði 2,2%, sem er 0,3 prósentustigum minna en þeir reiknuðu með síðast. Nú hálfu ári seinna blasir við að þetta voru rangar tölur. Á síðasta ári var hagvöxtur 1,6% og horfurnar daprar fyrir þetta ár eins og áður sagði. Þetta hljóta að vera þær tölur sem horft er til þegar kjarasamningaviðræður hefjast.



Við ættum að vita núorðið að Hagfræði er ekki mjög nákvæm né spádómsrík vísindagrein.  Seinustu ár ættu að hafa kennt okkur það.  Þrátt fyrir alla tölfræðitækni og tölvuútreikninga risastofnanana og banka.  Hvorki þjóðlegar né alþjóðlegar stofnanir skora hátt um þessar mundir að skyggnast fram í tímann.  

Já það er erfitt að sjá allt fyrir á þessum óróatímum.  En að fara að kenna seinustu ríkisstjórn um alla óáran í heiminum er fáránlegt ef ekki heimskulegt. Hún reyndi sitt bezta við erfiðar aðstæður og náði ótrúlegum árangri  að mörgu leyti.  Sigmundur Davíð og Bjarni héldu sínar ræður í gríð og erg á seinasta þingtímabili um það hve auðvelt væri að gera betur.  Nú gefst þeim tækifæri á að sýna það, byrjunin lofar ekki góðu.  Hvað sem Sigurður Már Jónsson segir.  Vonandi segir Sigmurður Már okkur raunsannar fréttir af þeim félögum næstu árin.  En ég efa það.  Hann hlustar of mikið á rödd Meistarans. Og Meistarinn er Frjálshyggja á hverfanda hveli.



  

þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Bjarni Benediktsson: Svei attan

Já, svona eru stjórnmál á Íslandi.  Bjarni Benediktsson: 

í kosningastefnuskrá :  

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan  Evrópusambandsins en innan-
þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu

í dag: 

Það er hins vegar mín skoðun, og ég ræddi það fyrir kosningar að það gæti farið vel á því að við efndum einhvern tímann á fyrri hluta kjörtímabils, eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum, til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálin.

Hugsið ykkur orðalagið „það gæti farið vel á því" og       „ eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum".  Svona talar hjartahreinn og einlægur foringi sema allir eiga að treysta.  Svei attan.




mánudagur, 19. ágúst 2013

Ríkisstjórn: Sólódans og padödö


Þetta er allt að verða svo skemmtilegt, dásamlegur
utanríkisráðherra sem heldur það að vera ráðherra sé að geta sagt ÉG, flokkur sem treystir á minnisleysi þjóðarinnar, flokkar sem talast ekki við, ráðherrunum finnst svo gaman að stjórna.  Þetta er að verða alvörustjórn.  Formennirnir þekkja ekki hvor annan í sjón !!!!!   Maður þarf bara að vitna í til að koma með prýðisgrein!!!!! En auðvitað kunna  allir landsmenn
stjórnarsáttmálann utanað.  Og ég skil ekki í þessum 3200 sem vilja að Vigdís H. segi af sér, þá yrði ekkert gaman á Alþingi.  

...... Einn heimildarmaður fréttastofu orðaði það þannig að utanríkisráðherrann væri að „fljúga sóló með ummælum sínum og óvíst hvernig sú flugferð endar." Stjórnarþingmaður sagði að stefna ríkisstjórnarinnar í málinu væri í raun „glundroðakennd.“ Þetta væri heimatilbúinn vandi sem ætti rætur að rekja til þess að stjórnarsáttmáli væri ekki skýr um þetta atriði. Það er athyglisvert að slík skoðun komi fram hjá stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar.

Það liggur fyrir núna að stefna ríkisstjórnarinnar í málinu er óviss þar sem hún hefur ekki verið mótuð. Alþingi mun vinna úttekt á stöðunni innan ESB og í kjölfarið verður tekin ákvörðun í ríkisstjórn um hvort eða hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin.



...... Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. (Stjórnarsáttmáli)

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan -
þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu


Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum 2013


Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins myndi ekki styðja þingsályktunartillögu um að slíta viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún vill að slík atkvæðagreiðsla fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor.


Kosningar 2013

Um 3.200 manns hafa nú skráð sig á undirskriftarlista þar sem skorað er á Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og formann fjárlaganefndar, að segja af sér formennsku í fjárlaganefnd Alþingis og víkja úr hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar

Þeir sem þekkja ekki padödö þurfa að lesa greinar Flosa heitins Ólafssonar en þar fjallar hann um fyrirbærið Padödö 

Hamingja

Ég var að hugsa um hamingju í gær.  Það er svo sjaldan að fólk gerir það svona yfirleitt.  Og flestir skammast sína að nefna slíkt á nafn opinberlega.  Ég var á gangi í Laugardalnum eins og oft áður, ég bý svo vel að búa við hliðina að þeim sælureit.  Þar sem gróður og mannlíf hefur stöðugt meira vaxið og þróast frá því að ég flutti í bæinn aftur fyrir 11 árum.  Ég var líka með eitt barnabarnið með mér en þau eru 7, varla er nokkurt meira verðmæti en þau.  Í fjarska drundi í áhorfendum á bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu. Það komu hávaðadrunur frá æstum og glöðum áhorfendum öðru hverju.  Ég hugsaði með sjálfum mér að voðaleg truflun þetta væri.  En svo fór ég á hug í dýpri hugsanir.

Þess vegna fór ég að hugsa um hamingju.  Hversu oft þarf lítið til að gleðjast í lífinu. Keppni tveggja liða veitir ómælda gleði og um leið jafnvel sársauka.  Að þramma út í garð í góðu veðri með barnabarni er sæla.  Á einhvern óljósan hátt sem erfitt er skilgreina nema með orði eins og hamingja.  Þetta er svo sem ekki djúp speki.  En þetta er nokkuð að hafa í huga þessa dagana. 

Það er vert að velta fyri sér hvað gefur lífinu gildi.  Eflaust hefur maður gert mistök í því.  Hver gerir það ekki? En hvað er það sem vekur slíkar kenndir í dag.  Þegar maður lítum um öxl.   Á maður að spyrja svona?   Hjá mér er það fjölskyldan, listir, tónlist og bókmenntir hafa alltaf haft djúpstæð áhrif á mig. Líka myndlist þótt ég hafi vanrækt oft að fylgjast með sem skyldi.  Seinustu dagar hafa verið sæludagar hjá mér.  Heimsmeistaramót í Frjálsum íþróttum hefur verið í gangi og ég hef setið rígnegldur yfir sjónvarpinu.  Algjör sæluhrollur oft í vikunni.  Hlaup, köst, stökk.  Litlar þjóðir geta orðið að stórveldum þar.  Eins og Jamaica. Ótrúlegt er hversu hreyfingar líkamans geta komið af stað spennu og róti á hugann.  

En það er margt sem veldur óró.  Hjá mér eru það oft og tíðum stjórnmál og opinber mál. Mér finnst ótrúlegt hvaða menn fólk kýs yfir sig. Hversu vanhæft fólk velst til þessara starfa.  Því þetta fólk  á að ráða skipan okkar samfélags um margra ára skeið.  En um leið er ég kominn á þá skoðun að maður eigi ekki að látta þetta setja líf manns úr skorðun. Lífið er of mikilvægt til þess.  Eitt er það sem skiptir líklega mestu máli, það er heilsa og heilbrigði.  Þegar fólk er komið á sama aldur og ég þá er það lykilatriði lífsins.  Það þarf ekki mikið að bregða út af til að kollvarpa lífi manns.  Í hverri fjölskyldu þarf fólk oft og mörgum sinnum að horfast í augum við sláttumanninn.  

Því er þýðingarmikið að halda jafnvægi og sjá það sem gefur lífinu mest gildi.  Ekki ný vísindi en þó sem alltaf er vert að skoða. Jafnvel í slæmu skyggni og við erfiðar aðstæður. Og auðvitað á ég ekki að vera að ræða þetta.  Maður gerir það ekki í bloggi.




Eða hvað?