Ég hef aldrei komið til Sýrlands aldrei til Mið-Austurlanda. Þar hefur ansi margt gerst seinustu árin. Ágætir kunningjar mínir fóru fyrir nokkrum árum til Sýrlands með henni Jóhönnu Kristjóns. Það var merkileg ferð sögðu þau. Nú eru ekki margir ferðamenn þar. Landið hefur verið lagt í rústir einar. Sem sér ekki fyrir endann á. Nú hafa stórveldin samþykkt að ekki eigi að vera efnavopn þar. Það má nota hvað sem er annað. Mig skortir þekkingu að telja upp þau vopn sem þar eru notuð til að drepa fólkið í landinu og einn og einn sjálfboðaliða sem hefur tekið þá afstöðu að berjast með öðrum hvorum stríðsaðilanum. Það sem ég hef fengið að vita með því að reyna að fylgjast með gangi stríðsins er:
á annað hundrað þúsund manns hafa verið drepnir her landsins bombarderar landa sína með stórskotaliði og flugvélum allir sem geta dæla vopnum í stríðsaðila stríðið hefur skapað gífurlegt flóttamannavandamál fyrir löndin í kring verið er að leggja allar stoðir þessa samfélags í tætlur, afmá menningu, fornleifar, byggingar, vegi og borgir. börn og ungmenn missa af menntun sinni og uppeldi allt snýst um stríðsrekstur
Á meðan horfum við á, sameiginleg stofnun okkar Sameinuðu þjóðirnar er lömuð vegna átaka stór- og heimsvelda. Svo á herinn að afhenda efnavopn sín, hvað sem á svo að gera við þau, það er erfitt að eyða efnavopnum. En svo á að halda áfram að drepa, drepa og drepa. En bara ekki með eiturvopnum. Öllu öðru. Þetta er sárara en orð geta tjáð.
þetta getur leitt til átaka í fleiri löndum vanhæfir harðstjórar þar og annars staðar halda áfram að ríghalda í völd sín þetta lengir valdatíma þeirra við höldum áfram að fá olíu frá þessum heimshluta
Við getum með sanni sagt að það er Vetur á Sýrlandi ekki sumar. Orðið FRIÐUR er sjaldan notað. Það er Vetur á Sýrlandi, vetur í hugsunum okkar.
Var að fletta fjölmiðlum helgarinnar sem ég hef aðgang að. Það var ekki jákvæð reynsla. Yfirgengileg yfirhelling auglýsinga og áróðurs, aðallega á svið heilsuiðnaðar og tísku. Satt að segja hefur maður á tilfinningunni að það sé verið að kæfa mann í drasli. Fréttablaðið reynir að flagga einhverju um helgarnar, pistlahöfundarnir eru ekki fjölbreytt flóra, Steini Páls er stundum með forvitnilega pistla, er líklega fordómalausasti hægrimaður landsins. En það vantar alla breidd í pistlana. Sá eini sem mér finnst verulega skemmtilegur er Pavel, maður þarf ekki alltaf að vera sammála til að njóta hugleiftra hans. Eina fréttin bitastæð var um sölur Orkuveitu Reykjavíkur, þar kemur mér svo sem ekki á óvart hversu erfitt er að selja stór fyrirtæki og eignir, fjármagn er erfitt að fá alls staðar, þetta sagði seinasta ríkisstjórn landsmönnum en þeir trúðu þessu aldrei og urðu því auðvelt fórnarlamb óábyrgra stjórnmálaafla xB og xD. En minnumst á það sem er gott, það var einstaklega skemmtilegt viðtal við heimsfrægan íslenskan arkitekt sem ég hef aldrei heyrt minnst á, Jórunni Ragnarsdóttur, það var svona hlýlegt og náttúrulegt. Fréttatíminn virðist sérhæfa sig sem kvennamiðill ég taldi 8 heilsíðuviðtöld og greinar þar sem 7 voru um konur og 1 um kall, ef ég man rétt. Gunnar Smári er stundum með skemmtilega pistla. En gagnrýnin blaðamennska? Nei það var ekki mikið af henni. Það verður vera meiri fjölbreytni svo ég fletti þessu blaði og lesi. Gunnar Hersveinn var með smápistil góðan Annað var heilsa, mataræði, prjón og hekl, ennþá vantar helgarblað fyrir fólk sem vill fylgjast með fréttum, menningu, listum á gagnrýninn hátt. Það getur maður keypt á netinu frá útlöndum, svo hugurinn leitar æ meira þangað um helgar, En það er RÚV, sjónvarpið á sunnudagskvöldum sem ber af fjölmiðlunum um þessa helgi, í gærkvöldi var það skemmtilegt við Ragnhildar Steinunnar við Kára Helgason, doktorsnema í Ameríku, gaman líka að sjá gamalt kunningjafólk úr Borgarnesi, foreldra hans; og þáttur Víkings Heiðars, Höllu Oddnýjar og Viðars Víkings um klassíska tónlist. Loks norska framhaldsmyndin Halvbroren, hún hefur gripið mig, og sjónvarpið er meira að segja farið að auglýsa sérstaklega norræna þætti og myndir sem eitthvað sérstakt, það er nýtt. Svona á dagskrá að vera, ég missti að vísu af myndinni um fyrri heimsstyrjöldina seinustu tvo sunnudaga eftir sögu Sebastians Faulks. Svo er Broen II að koma ég bíð spenntur. Já lesendur góðir það haustar, stormurinn æðir um landið, það er eins og allt gerist fyrr núna, ég man þegar ég bjó í Borgarnesi þá tók maður upp kartöflurnar í byrjun október. En morgnarnir eru nú fallegir. Þessir myndir eru teknar um sexleytið að morgni í seinustu viku.
Arnaldur er okkar maður, við gleðjumst með sigrum hans. Nú eru það spænsk verðlaun fyrir ótútgefna bók. Og hann sigrar. Við ljómum, við glitrum af gleði. Bókin heitir Skuggasund , mbl.is ýsir söguþráæðinum: „Skuggasund gerist í stríðinu. Árið 1944 finnst stúlka kyrkt á bak við Þjóðleikhúsið sem þá var birgðastöð fyrir herinn. Sagan gerist síðan í samtímanum þar sem lögreglumaður sem kominn er á eftirlaun kannast við þetta gamla mál og byrjar að garfa í því þar sem það virðist aldrei hafa verið leyst.“ Það verður gaman að lesa bókina. Allar bækur hans hafa ekki verið góðar, en margar. Heilsteiptur stíll, persónur sem maður lærir að meta. Sem lifa með manni. Mýrin var góð á filmu, ég hef séð hana á íslensku, þýskur og frönsku. Döbbingin á þýsku var mjög góð. Samt er Ingvar ekki minn Erlendur, maður býr sér til ímynd af persónunni, og Ingvar er ekki hún hjá mér. Samt er hann góður. Enn er enginn sem hefur leikið Wallander minn Wallander. Svona starfar hugurinn. Arnaldur er líka eini höfundur okkar sem er víðfrægur. Maður sér það í Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi, alls staðar er hann áberandi. Við gleðjumst með okkar manni. Við lesum hann, hann hefur tekið við Alistair Mc Lean sem ótrúlegur fjöldið las á jólanóttina fyrir nokkrum áratugum. Það er gott að hafa svona höfund til að halda forlagi gangandi. Svo er hann svo íslenskur, genin hans eru mynduð úr mold, grjóti og grasi. Svo auðvitað elskum við hann öll . Ef einhver segir eitthvað annað þá er hann að ljúga. Ég er viss um að Sigmundur Davíð og Vigdís Hauks hafa stafla af bókum hans á náttborðinu.
Stúdentar HÍ höfðu sigur gegn ráðherranum sem með óbilgirni streittist við. En sá svo að hann var á röngum nótum. Og bakkaði. Ég veit heldur ekki hvort þessi endalausa endurtekning hans um stöðuna á Norðurlöndum stenst, sérstaklega þar sem töluverður hluti fjárveitingar þar er hreinn og beinn styrkur. En meira um það seinna. Stjórn Stúdentaráðs situr upp með pálmann í höndunum gagnvart umbjóðendum sínum. Gott að Vaka er farin að feta í fótspor Röskvu og Verðandi sem létu ekki tæta yfir sig. Sem gamall stúdentaráðsfulltrúi gleðst maður. Til hamingju, kötturinn minn gleðst líka.
Á ég að hafa áhyggjur og áhuga á kynlegum klögumálum Gylfa Ægis. Nei, hann burt. Á ég að hafa áhuga á kjánaskap JBH þegar hann vill minna okkur á mannvitsbresti sína nótt og nýtan dag. Þegar bæði hann og hluti fjölskyldu hans virðist ekki geta sætt sig við að fjölskyldufaðirinn er ekki allur sem hann er séður? Nei, hann burt úr hugskoti mínu. Mér finnst merkilegur þessi stóri hópur valdamanna sem taka afstöðu með honum. Út frá lögfræðilegum forsendum þegar siðferðilegar og mannúðlegar forsendur ættu að ráða afstöðu manns. Á ég að hafa áhuga á yfirlýsingum forráðamanna stjórnmálaflokkanna í ríkisstjórn hversu ofsafengnar þær eru: þar sem heimsyfirráð og hófsamar launakröfur fara saman. Minna einna helst á drauma íslenskra fótboltaáhugamanna. Líklega verð ég að fylgjast með því. Kyrrt í huga mínum. Á ég að hafa áhyggjur yfir seinustu þáttum í atburðarás Sýrlandssorgarleiksins? Þar sem heimsveldið og samkeppnisaðilar þess setja Sameinuðu Þjóðirnar til hliðar með ósvífnum brelluleikjum sínum? Já ég hef áhyggjur. Manni rennur til rifja meðferðin á aumingja fólkinu sem býr þar. Maður á erfitt að setja sig i þeirra spor. Það er sárt að sjá heilu samfélagi vera sundrað af valdagráðugum valdsmönnum.
Svona eru hugleiðingar mínar á þessum fimmtudagsmorgni. Það sækir óró að mér. Lífið er of erfitt hjá mörgum. Ég minnist atburða dagsins í gær fyrir 12 árum, ég minnist atburðanna í Chile fyrir 40 árum. Við mannfólkið virðumst oft hreyfast lítið úr stað. Ég hlusta á Davy Graham spila túlkun sína á þjóðlögum á kassagítar á meistaralegan hátt og pæli. Þetta er prédikanir okkar í dag.
Það er engin furða þótt gamli snillingurinn John le Carré eigi fábreytt orð um stjórnmál nútímans: “I do think we live in most extraordinary period of history,” he says now. “The fact that we feel becalmed is the element that is most terrifying, the second-rate quality of leadership, the third-rate quality of parliamentary behaviour.” Ég held að við lifum stórfurðulega tíma. Staðreyndin að við lifum þá í rólegheitum er sá þáttur sem er mest ógnvekjandi, annars flokks stjórnun leiðtoganna, þriða flokks frammistaða þingliðs. Hann bætti því að vísu við að hann hefði orðið smástoltur yfir þingi heimalands síns að segja nei við enn einni aðildinni að stríði sem taglhnýtingur Bandaríkjamanna. En allt framferði stórvelda nútímans sannar þessi ummæli rithöfundarins, þessa meistara kaldhæðnu kaldastríðssögunnar. Það er ótrúlegt að Öryggisráðið sé notað til þess að við getum orðið vitni að útþurrkun heils ríkis og dauða hundraða þúsunda, sköpun eins stærsta flóttamannavandamáls seinni tíma. Og svo endar þetta í eiturefnahanastélsboði. Þar sem enginn vill kannast við að hafa efnt til veislunnar. Á meðan karpa stórveldin og senda hvert öðru glósur alla daga. Og það skiptir höfuðmáli hvort Forsetinn hafai sjálfur fyrirskipað notkun eiturefnanna. Eins og hann beri ekki ábyrgð á gjörðum herja sinna??? Nema hann sitji valdalaus í einhverju neðanjarðarbyrgi og bíða örlaga sinna.
Nú álpaði utanríkisráðherra Stórveldisins í vestri út úr sér þrugli um að Sýrlandsher eyði eiturefnabirgðum sínum svona óvart.Og Rússar tóku hann á orðinu, líklega af illgirni. En líklega verður þetta til þess að Bandaríkjaforsetinn friðsami sleppi úr heitingum sínum um loftárásir til að knýja fram samingaviðræður. Sýrlandsher skilar eiturefnum sínum. Svo eigum við bara að halda áfram að horfa á þetta ríki lagt í rúst. Þar sem flugher landsins heldur uppi endalaustum árásum á landa sína. Stórskotalið lætur sprengjum rigna yfir borgir. Vopnasalar allra landa lifa í vellystingum sem aldrei fyrr. Og tugir þúsunda munu halda áfram að flýja til landanna í kring. Eins og þau eigi ekki nóg með sig sjálf. Líbanon sem varð að lifa 15 ára borgarastyrjöld. Írak sem er í tætlum eftir innrás okkar Vesturlanda þar sem þetta fyrrum velstæða ríka er rústir einar. Tyrkland sem hefur verið á barmi borgarastyrjaldar. Það er grátlegt að horfa upp á niðurlægingu Sameinuðu þjóðanna það er engin furða þótt maður hugsi um örlög Þjóðabandalagsins á seinustu öld. Og stórveldin halda áfram að lítiilækka þetta fjöregg okkar að grafa undan því endalaust. Svo þau geti haldið áfram að deila og drottna sjálfum sér til hagsbóta. Fólkinu í heiminum til ógagns meðan við bíðum eftir áhrifum umhverfis- ógnvalda sem enginn vill minnast á. Hvorki úti í hinum stóra heimi eða í henni litlu Reykjavík þar sem allt fer í bál og brand út af landsvæði sem líklega verður komið undir sjó eftir 100 ár.