mánudagur, 21. október 2013

Kannanir og Landspítali: Þjóðin er fífl

Það lítur illa út, ætli þeir hafi talast við í gær?    SDG og BB, rætt skoðanakannanir?  Kannski þurfa þeir það ekki.  Þeir eru að gera rétt, þjóðin er fífl.  Allt er á réttri leið, norður og niður. Þangað ætlum við.  Með viðkomu í Flórída. Eða hvað? 

Víkjum yfir til Landspítalans. Læknar láta í sér heyra í Fréttablaðinu.  Margir stórir og valdamiklir. Þrjátíu og eitthvað, hvað er merkilegt við þennan lista hér að neðan?  Ótrúlegt árið 2013.  Verðlaun fyrir rétt svar.  Nóg um það.  En hvað á að gera, á bara að bíða?  Eftir hverju?  Er ekki kominn tími til að setja nokkra milljarða í fjáraukalög? Panta græjur og tölvur.  Sýna kraft og dug.  Sem lítið hefur farið fyrir, nema þegar útgerðarmenn eiga í hlut. Sem betur fer getur ríkið tekið lán núna erlendis.  Þökk sé seinustu ríkisstjórn sem þjóðin mat lítils.  Er ekki kominn tími til að tengja??????  

Svo er það listinn hér að neðan. Er virkilega engin kona yfirlæknir prófessor á Landsspítalanum.  Finnst karlyfirlæknum engin ástæða að hafa samstarf við annað starfsfólk.  Er óþarfi að hafa valdamikla hjúkrunarfræðinga með?   Eða aðra starfsmenn, eðlisfræðinga, matvælafræðinga, sálfræðinga, hagfræðinga og svo framvegis. Þarna sýnist mér sé líka kominn tími til að tengja.  Eða hvað?   


■ Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir
og prófessor í skurðlækningum,
formaður prófessoraráðs Landspítala
■ Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir
og prófessor í geðlækningum,
varaformaður prófessoraráðs
■ Arthur Löve, yfirlæknir og prófessor
í veirufræði
■ Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir
og prófessor í barnalækningum
■ Bjarni A. Agnarsson, yfirlæknir
og prófessor í meinafræði
■ Björn Guðbjörnsson, yfirlæknir
og prófessor í gigtarrannsóknum
■ Björn R. Lúðvíksson, yfirlæknir
og prófessor í ónæmisfræði
■ Einar Stefánsson, yfirlæknir og
prófessor í augnlækningum
■ Einar Stefán Björnsson, yfirlæknir
og prófessor í meltingarlækningum
■ Elías Ólafsson, yfirlæknir og
prófessor í taugalækningum
■ Eyþór H. Björnsson, lungnalæknir
og klínískur prófessor
■ Friðbert Jónasson, yfirlæknir
og prófessor í augnlækningum
■ Gísli H. Sigurðsson, yfirlæknir
og prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum
■ Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir
og prófessor í lyflækningum
■ Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir
og prófessor í lyfjafræði
■ Helgi Jónsson, gigtarlæknir og
prófessor í gigtarlækningum
■ Helgi Sigurðsson, yfirlæknir og
prófessor í krabbameinslækningum
■ Karl G. Kristinsson, yfirlæknir
og prófessor í sýklafræði
■ Jóhann Heiðar Jóhannsson,
meinafræðingur, klínískur prófessor
■ Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir
og prófessor í meinafræði
■ Jón Jóhannes Jónsson, yfirlæknir
og prófessor í lífefnafræði
■ Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir
og prófessor í smitsjúkdómum
■ Magnús Karl Magnússon, prófessor
í lyfjafræði og forseti
læknadeildar HÍ
■ Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir og
prófessor í öldrunarlækningum
■ Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir
og prófessor í blóðsjúkdómum
■ Rafn Benediktsson, yfirlæknir
og prófessor í innkirtlalækningum
■ Ragnar G. Bjarnason, yfirlæknir
og prófessor í barnalækningum
■ Reynir T. Geirsson, yfirlæknir
og prófessor í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum
■ Sigurður Guðmundsson, yfirlæknir
og prófessor í lyflækningum
■ Sigurður Yngvi Kristinsson,
blóðmeinafræðingur og prófessor
í blóðsjúkdómum
■ Þórarinn Gíslason, yfirlæknir og
prófessor í lungnalækningum


sunnudagur, 20. október 2013

Skálholt: Tilgátukirkja í tilgátuheimi

Nú fá kirkjunnar menn eitthvað til að slást um.  Þeir geta ekki unað sér á friðarstóli. Svo tilgátukirkjan kemur í góðar þarfir.  Nauðsynlegt er að koma upp þessari nýgömlu kirkju til að sýna hve voldugir Íslendingar voru og eru. Við vorum mestir og bestir.  Og erum það
enn eins og Forsætisráðherrann okkar segir þar sem hann veltir sér um  í heitum friðarsandinum á Flórída.

Skólaráð staðarins er ekki hrifið, (ég man nú ekki hvort það mótmælti kofa Árna Johnsens fyrir skömmu síðan).
 „Í okkar huga er þetta fyrst og fremst helgistaður sem vissulega býður túrista velkomna en frumhlutverk þessa staðar er að vera helgi- og sögu- og menningarstaður en ekki bara einhvers konar túristastaður. Það hlutverk er víkjandi en ekki ríkjandi.“  

Og Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir taka sterkara til orða:  
Gullkálfur á helgum stað
Torvelt er að sjá að „miðaldadómkirkja“ í Skálholti reist á öndverðri 21. öld geti þjónað öðrum tilgangi en að vera sölubúð. Það er ekki annað að sjá en að það sé einmitt hugmyndin. Því virðist fyrst og fremst um gullkálf að ræða, svo vísað sé til forns dæmis sem kirkjan ætti að varast.
Bregðist þjóðkirkjan því trausti sem henni var sýnt með afhendingu Skálholts er mikill skaði skeður. Gjöfin verður vissulega ekki aftur tekin. Verði Skálholt „afhelgað“ er kirkjunni og kolkrabbanum á hinn bóginn vorkunnarlaust að reka staðinn af þeim tekjum sem gullkálfurinn og dansinn í kringum hann kunna að skapa. Árleg meðgjöf þjóðarinnar með Skálholti ætti þá að falla niður. Það er óþarft að þjóðin leggi fé í þá hít.


Já, lesendur góðir, væri ekki gott að þessir sterku fjárhirðar létu fé sitt drjúpa í Ríkisspítalann í staðinn fyrir að prjála austur í Skálholti en eflaust verða það handhafar tilgátuguðs sem sigra þeir sömu sem krupu fyrir ameríska fjármagnsguðinum í Laugardalshöll fyrir nokkrum vikum. Þannig er tilgátulíf okkar í dag.  






fimmtudagur, 17. október 2013

Hross í oss: Benedikt bregst okkur

ekki, hann gerir það aldrei, þessi öðlingur. 

Benediktsvika hins heilaga, í fyrrakvöld var það Jeppi á Fjalli, í kvöld sáum við Hross í oss, eina af allra bestu myndum íslenskum fyrr og síðar. 

Mynd fyrir framsóknarmenn og okkur hin.   Hefur allt sem slík mynd hefur upp á að bjóða: 

Ástir, hesta, landslag, groddaskap, greddu, losta, jeppa, dráttarvélar, gaddavír, sjónauka,jarðafarir, brennivín,vodka og svaðilfarir. 

Myndatakan er ótrúleg, hef sjaldan upplifað annað eins. Bergsteinn hefur oft gert vel en varla eins og þetta. 

Leikararnir til sóma, Charlotte þó best, hestarnir þó betro, oft á maður bágt með að skilja samsetningu atriðanna. Þvílíkt listfengi á ferð. Hugmyndaauðgi, listfengi.  

Lofgjörð um lífsneistann, ástina, mannlíf og hestalíf í öllum sínum ófullkomleika.  

Meira bið ég ekki um.  Drífið ykkur í bíó, tökum okkur á, höngum ekki heima.

 

    

Jeppí á Fjalli: Hvers vegna drekkur hann???

Mikið er nú brennivínið gott.  Mikill bölvaldur er nú brennivínið.  Ótrúlegt hversu margir verða að þjást vegna brennivínsins. Hvers vegna drekkur Jeppi???? 

Við fórum í gærkvöldi og sáum Jeppa á Fjalli, þvílík unun þvílík dásemd. Það er margt sem gerir þessa sýningu svo dásamlega.  

Leikstjórn Benedikts og svið Grétars, búningar Agnieszka Baranowska

Leikur: Að hafa svona stórleikara eins og Ingvar Sigurðarson, sem hefur allt á valdi sínu, látbragð, líkamsburði,tjáningu,  söng, tengsl við áhorfendur, Allir að skila sínu með honum Ilmur, Bergþór (af hverju er hann ekki nefndur í skránni), Bergur og Arnmundur Ernst (dýrlegir skemmtanastjórar andskotans), Arnar Dan, Hljómsveitin öll, þar sem sveiflast er á milli hljóðfæra eins og að drekka mysu, og þau bregða sér í leikhlutverk eins og smér.Stefán, Björn og Unnur Birna. 

Þýðing, tónlist, textar:  Texti sýningarinnar er óborganlegur, fyndinn, dónalegur, algjör skepnuskapur!  Lögin og flutningurinn falla saman eins og flís við rass.  Það er óborganlegt að hafa Bergþór í söngnum. Drykkjusöngur Ingvar með harmoníkuna er ógleymanlegur svo og sorgarsöngur Ilmar.  Útsetningarnar fjölbreytilegar og hæfa í hvert sinn. Bragi Valdimar og Magnús Þór liðast saman eins DNA.  

Leikhústöfrar voru til staðar í Nýja salnum í Borgarleikhúsinu. Við gengum út með gleði í hjarta þótt ekki blasti lífið við Jeppa og Nillu í regnbogalitum í lokin. Mikið eigum við gott leikhúsfólk.  Við eigum svo gott. Framundan ótal góðar sýningar. 

miðvikudagur, 16. október 2013

Heimur Hrotta: Hvað getum við gert?

Það er sorglegt að sjá unga drengi eða karla sem sóa sínu lífi á unga aldri og eiga að öllum líkindum aldrei afturkvæmt í heim okkar hinna.  Sem hafa brenglað svo siðferðisvitund sína, líklega með dópi og víni, að þeir halda að allt sé leyfilegt til að ná fram hefndum eða til að fá útrás fyrir girndir sínar og hvatir. 

Allir eiga þessir menn fjölskyldur og kunningja sem eiga erfitt meða að horfa upp á þessa þróun.  Þegar ekki er hægt að eiga samskipti við þá sem í hlut eiga.  Þegar ekki er hægt að treysta neinu sem sagt er.   Þetta er óhugnanlega erfitt fyrir alla umhverfis þessa menn að fylgjast með þessum umskiptum.

Er það nema vona að hvarfli að manni hvað hafi gerst?  Hvernig getur 15 ára unglingur ákveðið að heimur glæpa og ofbeldis sé sá heimur sem hann vilji lifa í?  Er þetta eitthvað sem samfélagið getur lagað?  Til að koma í veg fyrir að horfa upp á endalausar ferðir í og úr Steininum.  Í heimi þar sem ofbeldi og kúgun virðast vera ríkjandi lögmál. Engin iðrun og eftirsjá.  

Hvað getum við gert gegn siðblindu og ranghugmyndum?  Myndin í blöðunum af ungum hrottum sem hafa ekkert að fela.  Þeir þurfa ekki að byrgja andlitin, þessir fjórir. Þeir segja; hér erum við  So What?  Svo erfitt, svo dapurlegt. Það eina sem við getum gert er að senda hlýjar hugsanir til aðstandenda og fórnarlamba, sem verða aldrei söm. 

Gagnvart þessum heimi erum við orðlaus: 

„Meintur brotaþoli í málinu, A, hafi lýst atvikum þannig að hann hafi verið að skemmta sér helgina 28.–30. júní ásamt ákærða. Að kvöldi sunnudagsins hafi hann svo tjáð ákærða, er þeir hafi verið staddir í gleðskap að [...] í Reykjavík, að B hefði átt í kynferðislegu sambandi með [...] ákærða. Við þær fréttir hafi ákærði reiðst mikið og ráðist að A með því að slá hann hnefahögg í andlitið. Því næst hafi A verið neyddur upp í bifreið og ekið með hann að [...] í Grafarvogi, þar sem ákærði hafi aftur tekið á móti honum með hnefahöggum og neytt hann upp í aðra bifreið sem hafi ekið með hann til baka að [...]. Á meðan á akstrinum hafi staðið segir hann ákærða hafa stungið hann nokkrum sinnum með eggvopni. Er hann hafi svo komið aftur í íbúðina að [...] segir hann ofbeldið hafa stigmagnast og að það hafi verið ákærði og meðákærði Y sem hafi haft sig mest í frammi. Hafi hann lýst því að hann hafi verið kýldur í andlitið nokkrum sinnum, laminn í hnéskeljar og handarbök líklega með hafnaboltakylfu. Þá hafi hann verið laminn með minni kylfu í andlitið, og telji sig hafa kinnbeinsbrotnað við það. Þá hafi þeir notað skæri og heimatilbúinn hníf eða rakvélablað til að stinga hann í höfuðið og klippa í eyrun á honum. Þá segi hann meðákærða Y hafa stungið sig 3-4 sinnum með notaðri sprautunál, á meðan ákærði hafi haldið honum niðri. Loks hafi ákærði skipað honum að fara í sturtu til að þrífa af sér blóð og í kjölfarið hafi hann farið með hópnum að [...] í Hafnarfirði. Það hafi svo verið mánudagsmorguninn sem hann hafi yfirgefið vettvang og leitað skjóls hjá vini sínum uns lögregla hafi haft samband við hann.“



sunnudagur, 13. október 2013

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ég

Ég get nú ekki sagt að samband mitt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé náið.  En mér brá þegar ég heyrði hádegisfréttirnar í dag.  Það blasti við að nú hafði AGS komist í blogg mín seinustu árin.  Ekki nóg með það heldur voru nýju tillögur þeirra aldeilis stolnar, en það sama hvaðan gott kemur:

„Þar er skuldugum ríkjum ráðlagt að auka skattheimtu af hátekjufólki og alþjóðlegum stórfyrirtækjum enda hafi skattbyrði þessara aðila lést umtalsvert undanfarna þrjá áratugi. Í skýrslunni segir að hærri skattar á tekjuhæstu þjóðfélagshópana myndu auka jöfnuð í samfélögum og gera þorra almennings auðveldara að sætta sig við aðhald í ríkisfjármálum. AGS telur að ef skattheimta á hátekjufólki yrði færð í það horf sem hún var á níunda áratugnum myndu skatttekjurnar aukast um sem nemur 0,25 prósentum af landsframleiðslu iðnríkjanna."

Já, lesendur góðir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur aldeilis leitað ráða hjá mér og er það nú bara gott, ég er ekki alveg viss um að forsendurnar í huga okkar séu alltaf þær sömu, en það er annað mál.  En það er öruggt að samband okkar virðist eiga eftir að verða nánara í framtíðinni.  Svo er spurningin hvort dökkbláa ríkisstjórnin okkar vilji koma inn í það nána samband. Við sjáum til með það.  Hvort hún taki meira mark á Indefence eða AGS.
  

föstudagur, 11. október 2013

Bréf Sigurjóns: Borgum hærri skatta !!!

Þetta er merkilegt bréf, ég held að það sé kominn tími fyrir okkur öll að skammast okkar, og segja þetta er nóg, Allir hafa verð blindir, ef við þurfum að fá lánað til að reka sjúkrahús, þá gerum við það.  Þessi hugmyndafræði niðurskurðar er röng.  Við segjum nú er komið nóg, við viljum frábært heilbrigðiskerfi og engar refjar.  Við viljum líka frábært skólakerfi.  Við viljum frábært velferðarkerfi.  

Við viljum flest borga meiri skatt.  Eigum við ekki að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um skattheimtu???  Það er eina ráðið í augnablikinu, engir vilja fjárfesta hjá fólki sem hegðar sér eins og við. Horfumst i augu við það.   Við sjálf verðum að borga. 


Hr heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson

Í vor féll ég af baki hests og hlaut af því brot og brák á rifjum nokkrum. Læknakandidat sem leit á mig asnaðist til að hlusta mig í kjölfar fallsins. Það sem hann heyrði var eigi fagurt og vísaði hann mér hið snarasta til hjartalæknis á Akureyri (Jón Þór Sverrisson(.

Ekki höfðu hjartaóhljóð gullhjartans minnkað. Var ég því sendur í þræðingu á Landsspítalann (LSH) og grunur hans staðfestur um sjúkdóm í hjarta.

Hvort sem það er vegna pizzu-, pítu- eða pulsuofáts þá var mér tjáð að ég yrði að koma í hjáveituaðgerð eins fljótt og mögulegt væri.

Tók ég þessum tíðindum karlmannlega eins og mín var von. Félagar mínir í Tromsö voru gáttaðir á að svona gott gullhjarta væri að slá feil. En svona var það.

Fyrir rétt rúmri viku síðan fékk ég svo boð um að mæta mánudaginn 23. september 2013 til undirbúnings og skráningar vegna aðgerðar miðvikudaginn 25.september. Biðin var því löng, rúmir tveir mánuðir. Þar sem hér væri um stóra opna hjartaaðgerð að ræða, væri ég frá vinnu í allt að 3 mánuði. Tilkynnti ég vinnuveitenda mínum og samstarfsfólki við háskólann hvernig mál stæðu og olli það nokkrum kvíða og vandræðum.

Ekki var um það að fást og mætti ég á tilsettum tíma mánudaginn 23. september. Margt afbragðsstarfsfólk tók á móti mér á hinum ýmsu sviðum og var hið ljúfasta. Dugnaðarforkar sem komu sínu vel til skila. Undirbúningur þessi tók hátt í 6 tíma með öllu.

Morguninn 25. þvoði ég mér með opinberri sápu frá spítalanum og var mættur kl 07:00. Afklæddist ég og naut þess að klæða mig í opinberar nærbuxur og öfugan slopp auk opinberra sokka. Eftir rakstur ofan og neðan og allt um kring var mér rennt í rúmi til lokaundirbúnings. Setja átti upp nál og gefa mér eitthvað kæruleysandi. Rétt í þann mund er sprautunálin hitti hörund mitt var kallað “stop, stopp sendið unga manninn (mig!) tilbaka”. Mér var tjáð að aðgerð frestaðist. Klukkan 9:40 var aðgerðin blásin af. Gjörgæsla full. Ég fór úr hinum opinberu nærklæðum og yfirgaf spítalann, nestaður meiri sápu frá hinu opinbera. Skyldi koma daginn eftir, fimmtudag.

Allt var eins fimmtudaginn, nema að það var ekki fyrr en klukkan tíu að aðgerð var blásin af. Gjörgæslan ennþá meira full. Ég rétt náði að afþakka kæruleysissprautuna og verkjastillandi. Læknir minn kom og ræddi við mig. Var raunar miður sín og tilkynnti mér að hann hefði ekki hugmynd um hvenær yrði af aðgerð. Gjörgæslurýmin væru full og hann gæti ekkert við því gert.

Enn minna gat ég nú gert. Á nærbuxum hins opinbera með lokaðar kransæðar verður maður ósköp smár og rífur ekki kjaft svo glatt. En ég sagði honum og hjúkrunarfólkinu að ég liti svo á að kerfið á spítalanum væri hrunið. Ég hefði lesið um vandræði spítalans en aldrei hefði mér dottið í hug að heilbrigðisþjónustan væri í raun hrunin. Þegar eina lausnin á vandræðum spítalans, til að stytta bið og auka rými, væri ótímabært fráfall sjúklinga - þá væri heilbrigðiskerfið hrunið.

Nú er ég kominn að kjarna málsins.

Hvernig stendur á því að flöskuháls í meðferð sjúklinga LSH er gjörgæsla. Atriði sem í raun er einfalt að bæta úr.

Á sama tíma og ég mætti engu öðru en fagmennsku og ljúfmennsku hjá starfsfólki spítalans rann upp fyrir mér að einhverjir hafa tekið ákvarðanir sem hafa leitt af sér hrun eins besta heilbrigðiskerfis í Evrópu. Þessir einhverjir eru stjórnmálamenn og skriffinnar ráðuneytanna.

Vesalings starfsfólkið skammast sín fyrir ástandið. Vilja allt gera til að bæta úr og gera allt sem er þeim mögulegt til að hlutirnir gangi. En það bara dugar ekki. Kerfið ER hrunið.

Það er óásættanlegt að ein besta deild þessa sjúkrahúss, hjartaskurðdeildin, sé svo máttlaus að hún standi auð, STANDI AUÐ, vegna þess að deildin kemur ekki sjúklingum frá sér. Það er hneyksli og heimska. Hvaða „sparnaður“ er í því fólginn að hafa fjölda fólks á launaskrá, sem getur ekki, vegna aðstöðuleysis, unnið sína vinnu. Hvað kostar það sjúklingana, atvinnulífið, þjóðfélagið?

Hver vill vinna á svona vinnustað þar sem heimskan öskrar á mann? Þrátt fyrir alla kunnáttuna, færnina, reynsluna og kostnaðinn, þá er deildin óstarfhæf vegna heimsku. Stjórnunarheimsku. Ímyndaður sparnaður. Færustu læknar standa á göngum og eru að reyna afsaka aumingjahátt og heimsku í skipulaginu, afsaka rangan niðurskurð og misskilinn sparnað, í stað þess að sinna sínu starfi eins og þeir vilja auðvitað helst.

Við erum að ræða um deild á LSH sem er í fremsta flokki í heiminum hvað varðar árangur eftir aðgerðir. Í fremsta flokki í heiminum.

Stjórnendur spítalans eða ráðuneytisfólk veit greinilega ekkert hvað fer fram INNAN VEGGJA hans. Því síður býður þeim í grun að einangrun INN Í VEGGJUM gamla spítalans sé korkur frá 1926, korkur, haugblautur af leka, vegna vonlauss og vitlauss viðhalds. Aldnir veggir spítalans gráta sveppasýktum tárum yfir heimsku mannanna, inn í vistarverum starfsfólks og sjúklinga.

Færustu sérfræðingum spítalans er boðið upp á myglað og heilsuspillandi húsnæði. Aðeins boðið upp á rangindi stjórnenda og svik stjórnmálamanna. Hver getur ætlast til að færir fagmenn vinni við slíkar aðstæður? Eyðileggi heilsu sína og orðspor? Endi með því að vera sjálfir hjálparþurfi, en gætu við eðlilegar aðstæður og vitrænar ákvarðanir aukið lífsgæði, bjargað lífi, eflt okkar dáð.

Vel getur verið að ofangreint sé öllum ljóst. En það dugar bara ekki. Skiptir ekki máli. Eins getur vel verið að mér verði nuddað uppúr því að þetta brenni á mínu eigin skinni. Sé þess vegna svo mikilvægt. Það skiptir heldur ekki máli. Um peninga getum við líka rætt. Þeir skipta raunar ekki máli. Aðalatriðið er að starfsemi Landsspítalans Háskólasjúkrahúss er hrunin.

Og hvað ætlar þú að gera í því?
Það skiptir máli.
Þinn vinur og félagi
Sigurjón Benediktsson tannlæknir MS
Tromsö,Noregi (já og norðmenn hefðu borgað fyrir aðgerðina!)