Það rigndi hressilega þegar við ókum upp í Borgarnes í
morgun. Við vorum viðstödd jarðarför
Snorra Þorsteinssonar frá Hvassafelli í Norðurárdal. Með honum er horfinn einn
mestir skólafrömuður héraðsins, hann var kennari á Bifröst og fræðslustjóri á
Vesturlandi um árabil. Gegndi ótrúlegum fjölda trúnaðarstarfa í sínu héraði og
líka í Framsóknarflokknum þegar hann var landsbyggðarflokkur sem hægt var að
taka mark á.
Ég var svo heppinn að kynnast Snorra þegar kona mín vann hjá
honum sem sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Vesturlands frá
1986-1996. Ég var líka í stjórn og
stjórnarformaður Kennarasambands Vesturlands þegar ég kenndi í Borgarnesi og
þurfti oft að hafa samband við hann út af ýmsum málum. Aldrei fór maður bónleiður til búðar.
Það var skemmtilegt að koma á fræðsluskrifstofuna á þeim
árum. Þar vann samhentur hópur, kennara, sálfræðinga og annarra starfsmanna.
Það var mikið hlegið og tekist á um hinar ýmsu hliðar skóla og
menningarstarfs. Þó sjaldan þannig að
menn færu ósáttir heim á leið.
Snorri var ekki þannig að hann gini yfir öllu, hann var
rólegur og hógvær. En hann vissi hvað
hann vildi og hvaða mál skiptu mestu máli.
Hann fór sér hægt en hann stjórnaði sínu skipi. Maður sá þegar maður sótti hann heim að þar
var maður á ferð sem alltaf var að, umsetinn bókum og gögnum. Ræður sem hann flutti á kennaraþingum vor vel
ígrundaðar. Hann var sannkallaður vinnuþjarkur.
Svo var hann fjölskyldumaður og bóndi. Það er ótrúlegt hvað hann gerði og komst yfir.
Eftir að ríkið lagði frá sér grunnskólakerfið og
sveitastjórnir tóku yfir riðlaðist þetta kerfi, starfsmenn hurfu í ýmsar
áttir. En alltaf hittist sá hópur sem
hafði unnið þarna, við makarnir fengum að vera með, það voru skemmtilegar
stundir. Það verður tómlegt án hans, en hann skilaði góðu verki og
andi hans mun svífa yfir vötnunum. Við minnumst hans, andans maður sem gat líka
haft spotskan húmor.
Á leiðinni heim í samfelldri rigningu til höfuðborgarinnar ræddum við hjónin um það hvað það væri skemmtilegt að koma í jarðarfarir þar sem maður sér ótal gamla vini og kunningja, þar sem maður er líka að kveðja mann eins og Snorra sem skilaði dagsverki sem margir fengu að njóta af, kunnu að meta. Það sást af mannfjöldanum í jarðarförinni í dag. Það er engin skömm að nota orðið skemmtilegt í þessu sambandi. Snorri naut þess að vera innan um fólk í félagsskap margra. Hann naut lífsins.
(18.7. 2014)