þriðjudagur, 1. september 2015

Friðhelgi: Rótleysi og Siðferði

Hvað er rótleysi?  Að fara á milli flokka eða hreyfinga getur þýtt ýmislegt, staðfestu, ekki láta bjóða sér hvað sem er. Tímar rótleysis þýða breytingar, er það best að sitja á sama stólnum og kalla það staðfestu? 

Ég nefni sem dæmi að Birgitta sást fyrst á þingi þegar hún var, að ég hygg, starfsmaður fyrir Vinstri græna. Svo fór hún í Borgarahreyfinguna og komast þannig á þing en sá flokkur lifði ekki lengi og þá fór hún að starfa með Hreyfingunni. Svo bauð hún fram fyrir Pírata. Til þess að stýra landinu af einhverri
 stefnufestu þarf auðvitað einhverja kjölfestu. Stóra spurningin sem menn standa frammi fyrir með nýja flokka eins og Pírata er, fyrir hvað standa þeir? Er einhver kjölfesta í þeim? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað.


Rótleysi í einkalífi, það er mikið rætt um þessar mundir.  Hjón að leika sér á netinu. Einn Pírati hefur skrifað góðan greinarstúf, hann kann að skrifa á blað.  En ekki get ég verið sammála honum um stöðu Fjármálaráðherra sem um er að ræða.  Hann kemur sér í þá stöðu sem er ansi skrítin af manni sem hefur kosið að vera í sviðsljósinu.  Hann veit hvað það þýðir, það er fylgst með honum.  Þarna lék netið með hann, hann festist í netinu, og notar svo lygar og aftur lygar til að rífa sig út úr því.  Formaður flokks sem vill á yfirborðinu alltaf láta kenna sig við trú og góða siði.  En í reynd misnotar hann sér stöðu sína, hvað gerði hann 2008, man einhver það, var það ekki í febrúaramánuði?   Hvað hefur hann gert í sambandi við stöðu sína sem ráðherra Landsbankans?   Svo að bera stöðu Bjarna við stöðu Tony Omos er í besta falli kjánaskapur. Maður verður að skoða hlutina í samhengi.   Svo flokkur með Bjarna sem formann og Hönnu Birnu sem varaformann er ansi aumkunarverður. Það væri sorglegt ef Píratar mynduðu bandalag með Sjálfstæðisflokknum:  Bandalag hins rótlausa siðferðis. 

Bjarni er til dæmis klárlega ekki valdameiri aðilinn við hliðina á hökkurunum sem sviptu hann og ótalmarga aðra friðhelgi einkalífs. Í þeim heimi hafa þeir völdin og Bjarni er sem valdalaust peð í þeirra höndum. Þeir ákváðu hvað gera átti vð gögnin. Þeir hefðu til dæmis getað kosið að nota þau til að fjárkúga fólk. Í upplýsingum felast jú völd. Það var ekkert sjálfgefið að hakkararnir kysu að færa þessi völd í hendur alls almennings Jarðarinnar. Þeim tilvikum þar sem hakkarar gera það ekki heyrum við sjaldan af, eðli málsins samkvæmt.

Nei lesendur góðir, varla kemur til þess.  Eða hvað?  


mánudagur, 31. ágúst 2015

Ríkisisstjórn: Í ríkisstjórnarfréttum var þetta helst.

Sigmundur æðir af stað ef eitthvað gerist í kjördæmi hans, og kemur við í bústað sínum austur á Fjörðum.  Hann lætur ekki sjá sig vestur á Ströndum, það er ekki í kjördæminu hans. 

Hann tekur völdin úr höndum frú Eyglóar í flóttamannamálum, kannski getur hann fengið
dúsu þar. Og þó sjáum hvað setur.  Þjóðin er stundum ansi fljót á sér, allt getur verið breytt eftir sex mánuði. Það er eðli Framsóknar að eltast við fólkið í landinu. 

Fjármálaráðherra er upptekinn að leika sér í ástaleikjum á netinu, Hann hefur ekki efni á að bæta kjör öryrkja og lífeyrisþega því sím-tölvureikningurinn er svo hár. 

Fréttir af umhverfis- eða heilbrigðisráðherra eru litlar. Menntamálaráðherra kennir börnum læsi.  Ragnheiður Elín skipuleggur stjóriðju í kjördæmi sínu.  Sigurður Ingi þaulhugsar tolla á erlendum matvörum.  

Ólöf heldur tylliræður og leysir vanda okkar: „Nú sjáum við fram á bjartari tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá reynir á þolgæði okkar. Að hafa úthald til að bíða efir því að kornið safnist í hlöðurnar. Það skiptir öllu máli fyrir okkur Íslendinga á þessum tímapunkti að rasa ekki um ráð fram, heldur ljúka við að reisa efnahagslífið við eftir þær ágjafir sem við urðum fyrir í bankakreppunni. Að hafa þolinmæði og staðfestu til að taka á málum, standa gegn þenslu og auknum ríkisgjöldum en verja þess í stað þeim fjármunum sem til skiptanna eru til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og búa í haginn fyrir uppbyggingu komandi ára.“

Gunnar Bragi glímir við Pútín, mörgum verður hált á því.  Samt fær hann 1. einkunn í þetta skiptið, hjá mér.  Sá eini ráðherranna. 

Já lesendur góðir í ríkisstjórnarfréttum var þetta helst. 


laugardagur, 29. ágúst 2015

Hátíð í bæ: Heimsmeistaramótið í Peking

Það er hátíð í bæ hjá mér.  Heimsmeistarakeppnin í frjálsum íþróttum í Peking.  Svo hef ég tæifæri að horfa á þessa hátíð í beinni sem vinnandi fólk hefur ekki tækifæri til (alla vega flest).  Það var að vísu leitt að sjá að 2 keppendur okkar náðu ekki langt.  Anita gerði þó sitt besta var nálægt því að komast í undanúrslit.  Ég vona að næsta ár verði árið sem hún sýnir hvað í henni

býr.  Það var ótrúlegt að sjá hversu margir nýir og áður óþekktir meistarar voru krýndir.  Það var líka merkilegt að upplifa stórveldin tvö bíða alvarlega hnekki.  Bandaríkin og Rússland sem hafa verið stórveldin í þessu líka í áratugi.  Þar verða heilabrot á næstunni. 

En það eru nokkrir kóngar og drottningar, Bolt, Felix, Farah, Keníamenn sem ég man aldrei nöfnin á, Frace-Pri. En það var svo ótal margt sem gladdi mig, langstökk og þrístökk, nærri því heimsmet í 20 ára met Jonatan Edwards, Keníamaður gull í spjótkasti. 

Ásdís nær sér ekki á strik á stórmótum, þýðir ekki að koma og kasta 56 metrum og gera allt annað ógilt.   Það er mikil samkeppni ótrúlega margir gera sitt besta, slá landsmet eða álfumet.   Sigurvegarar þessa móts eru Jamaicamenn (smaþjóð innan um þau stóru) Keníamenn koma sterkir. 


Vonandi koma ekki upp ótal dópmál, til að eyðileggja ánægu manns.  Víða er pottur brotinn í þessu. Seinasti dagur á morgun eða í nótt ef ég vaki, þetta er gleðitíð.  Það er gott að geta glaðst, lífið er ekki bara bömmer.
Ég er farinn að hlakka til Ólympíuleikanna á næsta ári.  

föstudagur, 28. ágúst 2015

Haustkvíði: Valdamenn lesa og skrifa

Sumarið senn á enda, víða merki um haust, haustkvíða. 
Við prufuðum að taka upp fyrstu kartöflugrösin, alltaf verður maður jafnhissa að það skuli koma upp nokkrar fallegar kartöflur.  Eftir bara 2 mánuði.  En samt læðist að manni kvíði, Haustkvíði. 

Stjórnmálalífið fer í gang, kannski fylgist ég of vel með því.  Fyrstu yfirlýsingar  ráðamanna
sem virðast aldrei læra neitt þrátt fyrir margra ára setu á Alþingi. 

Vigdís Hauksdóttir skakkmynnist um Öryrkja. Allt er rekið ofan í hana.  En hún á örugglega ekki eftir að hætta að bulla.  Eflaust blótar hún þessu viðrini sem ég er.  Notar einhvern málshátt svo snilldarlega sem hún ein getur:  Sjaldan launar kálfur ofbeldi.   

Sigmundur Davíð ætlar að taka yfir skipulagsmál í Reykjavík.  Hann hefur sagt ýmislegt viturlegt á því sviði, meira en á flestum öðrum.  En þarna er hann á sama róli og flokksfélagi hans seinasta vetur. Hans er valdið. 

Bjarni Benediktsson ætlar að umbylta stofnanaveldi ríkisins.  Það setur að mér hroll.  Þetta hefur gerst áður.  Sjálfstæðisflokkurinn vill ráða rétta menn á rétta staði. Framsókn er alltaf reiðubúin að vera með í skiptingunni.  Og Píratar sem hafa meira fylgi en xD og xB til samans í skoðanakönnunum það getur enginn treyst þeim, nema þjóðin:  „Er einhver kjölfesta í þeim [Pírötum]? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað.“ Já, það hlýtur að vera erfitt að hafa kjölfestu í sjóræningjaskipi og ætlast svo til að allir séu læsir og skrifandi um borð!  Hvað ætli Illugi segi um það eða Rósa Eggerts? 

Núverandi stjórn er um margt stórmerkileg, hverjum nema þeim getur dottið í hug að þeir tekjulægstu, ellilífeyrisþega og öryrkjar þurfi ekki að tekjuhækkun að halda fyrr en um næstu áramót?  Í 8 mánuði fá þeir ekki sömu hækkun og launþegar. Því þeir hafa engan samningsrétt.  Það eru ekki til peningar fyrr en um áramótin sagði Fjármálaráðherrann. Svo gáfulegt sem það er.  

Já lesendur góðir, þessi vetur verður mörgum erfiður.  Ekki þeim sem flatmaga á Flórída, ekki þeim sem læðast úr landi öðru hverju til að hvíla sig.  Heldur þeim sem fara í hundraðasta skipti í gegnum bókhaldið til að athuga hvort ekki sé einhvers staðar króna sem ekki hafi verið notuð um seinustu mánaðarmót.  

    


miðvikudagur, 26. ágúst 2015

Bakki: Grátbrosleg Íslensk spilling

Íslensk spilling er alltaf grátbrosleg og fyrirsjáanleg, eins og dæmin sanna.  Nú er eitt gott sýnishorn fyrir augunum á okkur.  Sveitarstjóri vinnur í mörg ár að stóriðjuverkefni þar sem þó nokkur fyrirtæki koma til sögunnar.  Síðar er það kísilmálmfyrirtæki sem vinnur, sveitastjórinn er glaður, frekar óþrifalegur iðnaður, hann berst fyrir stað sem sérfræðingar vara eindregið við vegna jarðskjálftahættu, skuldbindur sveitarfélagði fyrir stórframkvæmdum í undirbúning verksmiðjunnar. Og ræður sig loks hjá viðkomandi þýsku fyrirtæki.  Hipp hipp húrra, þarna er auðvitað ekkert samband á milli eins eða neins.  Bergur Elías er prýðisdrengur, það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu, vinnuaflið í verksmiðjuna verður varla af þessu svæði.  (5. Rekstur og viðhald verksmiðjunnar Fólk með reynslu úr málmiðnaði verður ráðið til vinnu í kísilverinu og þjálfað sérstaklega fyrir þessa sérhæfðu framleiðslu. Þegar kísilverið er komið í fullan gang er áætlað að 127 manns starfi í verinu. Stjórnendur kísilversins verða valdir úr hópi alþjóðlegra sérfræðinga með mikla þekkingu á kísilmálmframleiðslu.)  Hvaða fyrirtæki byggja og koma upp verksmiðjunni?  Ætli þau verði af svæðinu, ætli þau komi með vinnuafl með sér? 



Ráðning fyrrverandi sveitarstjóra til PCC:


Um þetta var rætt í Draumalandinu, mynd Andra Snæs í viðtali við John Perkins: 

„Ein besta aðferðin er að finna opinberan starfsmann, bæjarstjóra eða eitthvað svoleiðis, sem hjálpar þér. Þú lætur hann vita að þegar hans tíð í embættinu ljúki munir þú ráða hann og greiða honum mjög há laun með miklum fríðindum,“ segir Perkins.



 In 2013, the Icelandic parliament passed several laws allowing the industrial development of the Bakki site where the plant is to be located. One of these laws was specifically drafted to support our silicon metal project, with provision of both financial assistance for the initial investment and long-term tax concessions. 

 The total investment outlay of approximately US$ 300 million (around EUR 265 million) is largely being covered by a loan from KfW IPEX Bank based in Frankfurt am Main. Approximately a further quarter is being provided by Icelandic pension funds and the Icelandic bank Islandsbanki. 

Minnisblað frá atvinnuvegaráðuneyti.
Skýrsla um umhverfisáhrif eru mikil að vöxtum. Viðaukar fylgja.

laugardagur, 22. ágúst 2015

Lestur: Það er leikur að læra

Það er leikur að læra, nú er það lesturinn, hvernig lærum við að lesa, er það einhverjum að kenna ef maður lærir ekki að lesa?   Ég var ekkert fljótur að læra að lesa.  Ég var hjá henni Ásu í Heiðagerðinu og lærði lítið 6 ára og ég var ekki fluglæs fyrr en 8 ára.

Ég veit ekki hvaða aðferð var notuð í þá daga,  og þó ég veit það.  Ég veit líka að það er hægt að læra að lesa með mörgum aðferðum, en það er eflaust gott að hafa kerfi til að kenna þeim sem eiga að hafa það að lífsstarfi að kenna öðrum lestur.  Sem er ekki lítið og ómerkilegt hlutverk.  Hægt væri að fá sterkari hóp í kennaranám með því að borga hærri laun virða það starf meira. Eftir að hafa starfað við kennslu í 30 ár þá er það merkilega að upplifa hversu fjölbreytni kennslunnar var mikil, það er ekki hægt að gefa neina eina rétta aðferð.  

Ég fékk aftur á móti með tímanum mér það hlutverk að kenna unglingum móðurmálið. Reyndi að fá þá til að lesa meira, skrifa meira, virða okkar mál meira.  Oft gekk það vel.  Mér þótti það oft skemmtilegt.  Þeim þótti oft skemmtilegt í tímum hjá mér.  Ekki alltaf. Málfræðin var strembin, Íslendingasögurnar þurftu ákveðna kúnst manns að koma þeim á áfangastað hjá nemandanum.   Það var ansi skemmtilegt að sjá viðbrögð nemandans við því sem honum leiddist. Einu sinni sá ég einn vin minn í sveitaskólanum sem ég kenndi við vera að krota eitthvað í stílabókina, hann átti að vera að leysa málfræðiverkefni.  Ég læddist að honum og hvíslaði hvað hann væri að gera.  Jú, þá var hann að skrifa niður öll fyrirtæki landbúnaðarvéla sem hann mundi, það var skemmtilegra en málfræðin!   

Ef lesturinn á að ganga vel, ef áhugi á lestri á að vera mikill, þá þarf fjölbreytni, gaman og gleði.  Það þarf líka starfsanda kennaranna í skólanum sem byggist á þátttöku allra í
kennslustarfinu.  Nú er ætlast til allt of mikillar undirgefni kennara gagnvart yfirvaldi.  Kennsla verður aldrei vélrænt tilberasmjör þar sem yfirmenn telja taktinn og undirmenn dansa með.   Við þurfum skapandi starf með fjölbreytni og lífi.  Þá læra margir vel að lesa, við þurfum líka að finna leiðir að nota hina nýju tækni sem er alls staðar í kringum okkur.  Skólinn má aldrei staðna. 

föstudagur, 14. ágúst 2015

Það er enginn hlutlaus nema hóran ....

Nú eru allir reiðir, Gunnar Bragi átti að vita allt, og gera meira.  
Við áttum að vera stikkfrí, við erum svo litlir, litlir eiga að fá frí, enginn tekur mark á þeim. 
Og allir eru öskuillir, sumir vilja senda Forsetann strax af stað.  Aðrir hóta af flýja land.
 Líklega fengi maður ekki að sækja um það að vera pólitískur flóttamaður frá Íslandi. Við höfum það of gott, þótt við gætum búið við erfiðleika um sinn. 

Kunnur maður sagði eitt sinn þetta:  „Það að láta sig dreyma um að við íslendingar getum alltaf verið stikk-frí í heiminum, það er alger ímyndun. Þetta þýðir það aðeins að maður afsalar sér réttinum til að taka afstöðu. Það er enginn hlutlaus nema hóran. Og eins og ástand heimsmálanna er í dag væri algert glapræði að fara að segja sig úr NATO."

Margir eru sammála honum um þetta, en ekki ég, Eflaust er erfitt að vera hlutlaus, ég hef aldrei verið hlutlaus.  Og ég veit ekki hvað það hefur að gera með hóruna.  Þetta er skrítin líking.  Ég held að hóran sé sjaldan hlutlaus.  Hún/HANN  sér þessi afstyrmi fyrir framan sig sem vilja kaupa blíðu.  Þeir geta barið hana/hann  ef þeim sýnist, þeir geta dælt í hana/hann  peningum ef þeir vilja.  Margar eru myrtar, þær eru í þessu sambandi oftast í lokuðu herbergi.  Þiggja pening sem oftast hórumangari hirðir mest af.  Það hefur lítið að gera með hlutleysi. 

Það skiptir svo sem ekki máli hvernig við tókum þessa afstöðu með ESB/NATO, hvað á að gera þegar hinn stóri ætlar að níðast á þeim minni?  Eigum við að horfa á, er ekki eðlilegt að safnast saman og segja nei?  Það var gert í þetta skiptið, það verður margt erfiðara, nú bitnar það á okkur.  Það sýnir okkur ef til vill að viðskipti snúast um meira en vörur og fjármagn, þau snúast meira um að drottna.  Lærdómurinn er að við þessir litlu eigum að halda saman, reyna að styrkja hvert annað, eðli hinna stóru er að gleypa.