Geir H. Haarde: Englaásjónan gufar upp, geislabaugurinn hverfur, aðalatriði er að mynda ríkisstjórn og halda völdum, aukaatriði er hrun og fall íslenska ríkisins, svona eru stjórnmál, engin ábyrgð, jafnvel Hagfræðingur hættir að reikna krónurnar.... :
Geir H. Haarde, sem var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 2003 til 2007, sagði að sú ríkisstjórn hefði ekki verið mynduð ef ekki hefði verið samið um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs. Hann viðurkenndi að þær breytingar hefðu verið hrein mistök.
Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð skilaði af sér skýrslu á þriðjudag. Sú skýrsla er ansi svört, Íbúðalánasjóður hefur tapað um 270 milljörðum á árunum 1999 til 2012. Þar vegur langþyngst tap vegna uppgreiðslna lána, eða allt að 130 milljörðum króna.
Rannsóknarnefnd Alþingis um efnahagshrunið skoðaði ekki starfsemi Íbúðalánasjóðs sérstaklega í sinni skýrslu. Þær breytingar sem gerðar voru á sjóðnum 2004 og áhrif þeirra á íslenskt efnahagslíf eru þó ræddar.
Þórarinn G. Pétursson, núverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um efnahagshrunið að þessar breytingar hafi verið ein alvarlegustu mistökin í hagstjórn hér á landi.
Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, viðurkenndi við skýrslutöku að hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs og lækkun vaxta hjá sjóðnum hafi verið hrein mistök. „... því miður verður maður að viðurkenna hreinskilnislega að um þetta hafði maður [...] miklar efasemdir, en um þetta var samið við ríkisstjórnarmyndunina 2003 og ef það hefði ekki verið gert þá hefði sú ríkisstjórn ekki verið mynduð. Þetta er nú bara [...] hluti af veruleika stjórnmálamannsins að stundum þarf að taka tillit til þessa atriðis.“
Rannsóknarnefndin dregur þá ályktun að ákvörðunin um að rýmka kröfur sem gerðar voru fyrir lánveitingum Íbúðalánasjóðs á einhverjum mestu þenslutímum Íslandssögunnar hafi verið tekin við stjórnarmyndun 2003, þrátt fyrir skoðun fjármálaráðherra að slíkt væri verulega varasamt. „Hann hafi metið það svo að væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um efnahagshrunið sem kom út 2010.