þriðjudagur, 27. ágúst 2013

Jón Gnarr: Hrekkjavakan nálgast.....

Jón Gnarr ber af, hann gerir það ekki endasleppt. Hann ætlar að láta okkur vita á Hrekkjavökunni hvað hann ætlar að gera
með sinn pólitíska frama.  Við bíðum spennt, þegar hann stígur fram í sviðsljósið íklæddur alvöru Hrekkjavökubúningi:  Kufl og gríman fræga.  Eins og í góðri hryllingsmynd.   Við bíðum spennt þetta verður uppákoma Haustsins.  Og auðvitað vill hann gleðja okkur áfram.
 „Ég er alvarlega að íhuga málið," sagði Jón í samtali við fréttastofu í dag.
Og borgarbúar munu fagna eins og vera ber. Þeim finnst gott að hafa borgarstjóra sem hugsar alvarlega um málin, ekkert grín.  Og þeir verðlauna með sjóheitum atkvæðum. Vonandi verða örlög hans ekki eins og margra persóna í góðum Hrekkjavökumyndum.  Hann á það nú ekki skilið.   

Við hlökkum til Hrekkjavökunnar.  Við bíðum spennt eftir úrskurði Jóns, eins og skáldið sagði: Each player must accept the cards life deals him or her: but once they are in hand, he or she alone must decide how to play the cards in order to win the game. 

Hver þátttakandi verður að sætta sig við spilin sem lífið veitir honum; en þegar hann hefur þau á hendi þá er það hans að ákveða hvernig hann spilar úr þeim til að vinna.



 


mánudagur, 26. ágúst 2013

Utanríkisráðherra: Vindmyllur og kattarleikir


Það eru skrítnar heilaselluferðir utanríkisráðherra.   Hann hefur aldrei hugsað sér að leggja ekki fyrir Alþingi tillögu um frestun á umsókn en þá er spurningin af hverju þurfti hann lögfræðiálit til að tjá sig um.  
Þetta segir hann í dag:  
Ég hef aldrei mótmælt því að þingið þurfi að taka endanlega ákvörðun. Það sem ég hef hins vegar sagt er að það megi lesa það út úr álitinu að þess þurfi ekki. Ég hef líka sagt að ég muni ekki eiga frumkvæði að því að leggja það til að svo verði gert. Við Bjarni erum algjörlega að tala í takt varðandi þetta mál.
Það að leysa upp samningahópa eða nefndir, þýðir ekki slit á aðildarviðræðum. Það hefur einnig komið fram í máli ESB. Tal um annað er í raun útúrsnúningur.
Gunnar Bragi hefur einnig látið hafa það eftir sér að til stæði að leysa upp samninganefnd Íslands.

Þetta sagði hann í seinustu viku: 
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að taka til skoðunar að leysa upp samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu.
Hann kynnti á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun lögfræðiálit vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á viðræðunum. Í álitinu komi fram að þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri lagaheilmild eða stjórnarskrá, bindi ekki stjórnvöld umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir. Ríkisstjórnin sé því ekki talin bundin af fyrri ályktun þingsins um að sækja um aðild að ESB. (RUV)


Hér er bréf ráðherra til utanríkismálanefndar:
  
http://www.mbl.is/media/77/6677.pdf

Það er sjaldgæft að ráðherra fái tiltal bæði frá formanni sínum, forsætisráðherra, og formanni meðflokks í stjórn.  Ég held að það sé mjög einstakt, helst að eini samanburður sé Jón Bjarnason.  Ráðherratíð Skagfirðingsins hugumstóra byrjar ekki vel.  Eins og skáldið sagði sem skrifaði um bardaga við vindmyllur: Þeir sem leika við ketti geta fengið skrámu .....




sunnudagur, 25. ágúst 2013

Sameining vinstri flokka: Vonlaus?

Enn á ný hefst umræða um sameiningu vinstri flokkanna tveggja.  Sem gátu ekki farið í eitt fyrir, hvað voru það tólf árum síðan.  Breyttir tímar krefjast breyttra áherslna. Og aðrir eru nú við stjórnvölinn.  

Árni Þór þingmaður VG lætur hafa eftir sér:

Það sé miklu meira sem þeir eiga sameiginlegt í svona grundvallarsýn á uppbyggingu samfélagsins og að þeir hagsmunir eigi að vera ríkjandi og hinir að víkja,“ segir Árni.


Hann telur möguleika á kosningabandalögum víða í stærri sveitarfélögum og jafnvel sameiginlegum framboðum. „Ég tel sömuleiðis möguleika á að vinna að slíku í stærri sveitarfélögum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar um land.“

Hvað er það sem hefur komið í veg fyrir náið samstarf ?  Í upphafi voru það ólíkar áherslur í sambandi við þætti svo sem :  ESB, NATO, þjóðfrelsi, Frjálshyggju; svo hefur eflaust örlað á valdabaráttu einstaklinga sumir voru hræddir um sín vé.  

En hins vegar getur maður hugsað sér að hið nána samstarf flokkanna í ríkisstjórn hafi fært mörgum sanninn um það væri ekki svo margt sem aðskildi og að andstæðingurinn væri svo hatrammur að hætta væri á þjóðarhruni ef auðhyggjustefna hans eigi að ráða ríkjum næstu árin, ef hann fengi að böðlast áfram óáreittur eins og hann gerir núna. 


Ég er einn af þeim sem töldu að sameingin allra vinstri manna ætti að vera möguleg í upphafi, hafði ekki svo ákveðna afstöðu um ESB, vildi bíða eftir að sjá samning til að geta myndað mér endanlega skoðun, þó að í grunninn sé ég Evrópusinni, þar eru okkar hugmyndarætur og markaðir; helst var ég andstæður SF út frá friðarmálum, en vissi samt að NATO hafði aldrei verið bitbein stjórnarmyndunar á lýðveldistímanum; og Hrunið hefur fært flesta vinstrimenn saman í sambandi við efnahagsmál og Frjálshyggju.  Svo hefur þjóðrembustefna framsóknarmanna sýnt hversu slík stefna er vafasöm og ekki hefur umhverfisbarbarismi þeirra hjálpað til.  Svo núna er töluvert meiri grundvöllur fyrir samvinnu og jafnvel sameiningu. Þótt eflaust séu til menn í báðum flokkum sem sjá rautt við þá tilhugsun.   

Svo vonandi verður þetta rætt í rólegheitum í haust því í húfi er þjóðarhagur er í veði að láta ekki xD og xB taka yfir sveitarstjórnarmálin í kosningunum næsta vor.   Ég tel sameiningu ekki vera vonlausa undir stjórn vinsæls leiðtoga Katrínar Jakobsdóttur með Katrínu Júl eða Guðbjart sér við hlið. 

EF vinstri menn bera þá gæfu þá er öruggt að það er land framundan. 

 


laugardagur, 24. ágúst 2013

Auðlegðaskattur og ráðgjafaráð: Sama sagan

Ríkisstjórnin gerir það ekki endasleppt.  Nú er það fjármálaráðherrann sem leggur af um auðlegðarskattinn.  Frjálshyggjuhugmyndafræðin skiptir meira máli en fjárhagur ríkisins.  Í staðinn verða auðvitað þeir tekjulægstu sem verða fórnarlömbin, með verri þjónustu og niðurskurð.  Þeir tekjuhæstu geta auðvitað komið sér góðri þjónustu í skjóli peninga, í útlöndum eða meða breytingum á heilsugæslukerfinu.  Ætli það verði ekki næst á dagskránni????????? 

Svo höfum við fengið nýja nefnd ekki efnd, ráðgjafaráð hagfræðinga.  Með aðalráðgjafa LÍÚ í broddi fylkingar.  Ragnar Árnason.  Og ýmsa meðreiðarsveina.  Allir sanntrúaðir á bláu höndina.  Allt fer í rétta átt.   Fólkinu á að blæða. Ég er ekki sammála Gauta Eggertssyni um jákvæðu hliðarnar.  Þarna er verið að setja niður nýja nefnd til skera niður. Við þekkjum skoðanir Ragnars sem eflaust fá hlýjar móttökur hjá stjórninni......

Það er myrkt framundan í göngunum......

Reykjavík: Hátíð í bæ

Það er gaman þegar fólk getur sameinast um það að einn ákveðinn dagur sé hátíðardagur. Eins og 17. júní, 1. maí, Verzlunarmannafrídagurinn.  Fólkið sýnir það með því að mæta, taka þátt og njóta. Hafa gaman að. Þannig er með Menningarnótt.  Sem hefur orðið tvöföld hátíð með Reykjavíkurmaraþoni á sama degi.   Þetta er eitt skemmtilegast fyrirbrigði seinustu áratuga víða um heim.   Fjölskyldur, Hjón, börn skella sér í bæinn ráfa um, eru búin að ákveða vissa atburði, fá sér eitthvað að eta og drekka.  Svo eru stórtónleikar um kvöldið og flugeldasýning sem stundum er misheppnuð en ekki alltaf.  

Það viðrar ekki í dag vel til hlaups og útiveru.  Mikill úði og regn.  En það eru 14000 manns sem hafa skráð sig, ótrúleg tala. Enda var algjört kaos umhverfis Laugardalshöllina síðdegis í gær þegar afhent voru gögn.  Konan mín ætlar að hlaupa hálfmaraþon þannig að við vorum á ferli og enduðum með að fara bara í Nóatún að versla.  Svo hljóp kona mín og náði í dótið sitt.  Það tók engan tíma.  Það er ákveðin þversögn í því að fólk sem stundar holla útiveru og hreyfingu þarf að koma hvert á sínum bíl í Laugardalinn.  Það voru nokkur þúsund bílar þarna í gær.  Martröð.  

Ég hef tekið mismikinn þátt í þessari hátíð.  Bjó úti á landi í mörg ár, var ekki alltaf í bænum á þessum tíma.  En ég hef yfirleitt farið í Gallerí Fold þar eru yfirleitt nýjar áhugaverðar sýningar.  Nú eru þar Tryggvi Ólafs og Bragi Ásgeirs. Og Kristján Davíðs ef ég man rétt.  Svo hef hugað að því ef ættingjar koma við sögu, fólk mitt er í tónlist.  Svo er gott að fá eitthvað að borða þó erfitt sé að koma því við í tröðinni.  Ég hef aldrei verið svo fyrirhyggjusamur að panta borð á veitingastað. En svo hef ég bara verið heima um kvöldið og horft á flugeldana af svölunum.  Ég kann ekki vel við mig í kraðaðkinu hjá stórhljómsveitunum.  Ég sé að Sinfonían er með tvenna tónleika í Hörpunni þar væri gaman að vera, vöfflukaffin eru mörg þau koma til greina, Amnesty í Þingholtsstræi, Fjölskyldan í Ingólfsstræti bak við Aðventukirkjuna, Dagur Eggerts, Ólöf Arngríms.  

Svo lesendur góðir við hittumst kannski í dag, eða ekki.  Reynið að njóta dagsins, þótt sólin sé ekki í heiði.  Ekki fara í kerfi. Ráðist hvorki á ríkisstjórnina né borgarstjórn þau ráðu engu um þetta.  Kannski Davíð Oddsson!!!! Þetta er brandari.  

Gleðilega hátíð!!








Smásýning dagsins:  Skyssubæku Erlings .........

fimmtudagur, 22. ágúst 2013

Gunnar Bragi: Reynum að gleyma honum


Það er meira gaman að horfa á fallegar myndir úr Húnavatnssýslu og Borgarfirði en að hugsa um furðulegasta afsprengi íslenskra stjórnmála sem ég man eftir.  Þar á ég við utanríkisráðherra stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Í dag lét hann sér ekki nægja að tilkynna að nú yrði allt starf í sambandi við ESB umsókn lagt í rúst, heldur ætlar hann þar að auki að ganga fram hjá Alþingi í þeim vinnubrögðum.  Alþingi samþykkti þessa tilhögun mála og það er Alþingis að ljúka því ferli.  Það er ekki hlutverk vankunnandi karls að norðan að ákveða það.  Þess vegna vona ég að fólkið í hans kjördæmi sjái með tímanum hverju þeir hafa útungað inn á Alþingi og í ríkisstjórn.  Og iðrist.  Vinnubrögðin eru þvílík að manni verður orða vant og það þarf mikið til þess hjá mér.  

Svo lesendur góðir njótum fegurðar landsins umhverfisins á Norðvesturlandi og gleðjumst yfir því sem við sjáum.  Víða er augnayndi, víða er gott fólk, en við þurfum ekki þingmenn sem utanríkisráðherrann.  Megi hann hverfa sem fyrst af vettvangi stjórnmálanna.  Gleymum honum. Njótum lífsins.  











Sigurður Már Jónsson; Rödd meistarans.

Það er þröng sýn ýmissa fjármála- efnahagsskríbenta, þeir halda að við lifum einöngruð í okkar eigin heimi sem við getum stjórnað, við ein, að öllu leyti.  Gott dæmi er Sigurður Már Jónsson, han fer mikinn í pistli um misheppnun fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.  Hann segir :

Allt er þetta heldur grátlegt þegar horft er til þess að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2008 var reiknað með að Ísland gæti rétt tiltölulega fljótt úr kútnum, væri rétt að verki staðið. Talið var raunhæft að hagvöxtur yrði 4,5% árin 2011 og 2012 og um 4,2% á þessu ári. Ef reyndin er sú að við megum þakka fyrir 1% hagvöxt hlýtur það að teljast áfall fyrir efnahagsstefnu síðustu ríkisstjórnar og ráðgjöf og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú er búinn að pakka saman hér á landi. Er vonandi að fleiri þurfi ekki að pakka saman og hverfa af landi brott.

Ef þetta væri nú andans maður með víðan sjóndeildarhring myndi hann skoða þetta út frá ástandinu í hinum alþjóðlega fjármálaheimi um þessar mundir.  Hvað er að gerast þar og hvernig speglast það við íslenskan fjármálaheim. Hvernig gengur öðrum löndum í þessum fjármálakreppubarningi?  Ég benti á fyrir nokkrum dögum hvernig Hagvöxtur væri í nokkrum löndum nálægt okkur.  Og það kemur í ljós að jafnvel á Norðurlöndum er bullandi óáran, enda þeir sem sitja við völd ekki vinsælir hjá kjósendum. Hér eru seinustu spár um Hagvöxt fyrir 2012 og 2013 frá OECD: 


Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Þýskaland höfuðríki Vesturlanda á í bullandi erfiðleikum, vinaþjóðir okkar Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru í erfiðleikum með útflutning sinn og framleiðslu.   Svo á Ísland bara að vera í einhverjum öðrum heimi!!!!

Stofnanir okkar reyna að greina og skoða framtíðina það gengur á ýmsu eins og hjá Seðlabankanum, eins og Sigurður Már bendir á: 


Auk þess sögðu Seðlabankamenn að vöxtur efnahagslífsins 2012 hafi aðeins verði 2,2%, sem er 0,3 prósentustigum minna en þeir reiknuðu með síðast. Nú hálfu ári seinna blasir við að þetta voru rangar tölur. Á síðasta ári var hagvöxtur 1,6% og horfurnar daprar fyrir þetta ár eins og áður sagði. Þetta hljóta að vera þær tölur sem horft er til þegar kjarasamningaviðræður hefjast.



Við ættum að vita núorðið að Hagfræði er ekki mjög nákvæm né spádómsrík vísindagrein.  Seinustu ár ættu að hafa kennt okkur það.  Þrátt fyrir alla tölfræðitækni og tölvuútreikninga risastofnanana og banka.  Hvorki þjóðlegar né alþjóðlegar stofnanir skora hátt um þessar mundir að skyggnast fram í tímann.  

Já það er erfitt að sjá allt fyrir á þessum óróatímum.  En að fara að kenna seinustu ríkisstjórn um alla óáran í heiminum er fáránlegt ef ekki heimskulegt. Hún reyndi sitt bezta við erfiðar aðstæður og náði ótrúlegum árangri  að mörgu leyti.  Sigmundur Davíð og Bjarni héldu sínar ræður í gríð og erg á seinasta þingtímabili um það hve auðvelt væri að gera betur.  Nú gefst þeim tækifæri á að sýna það, byrjunin lofar ekki góðu.  Hvað sem Sigurður Már Jónsson segir.  Vonandi segir Sigmurður Már okkur raunsannar fréttir af þeim félögum næstu árin.  En ég efa það.  Hann hlustar of mikið á rödd Meistarans. Og Meistarinn er Frjálshyggja á hverfanda hveli.