Már Guðmundsson fær stöðuna. Um tíma. Annað hefði verið fáránlegt. Yflirlýsingin hans ansi mögnuð. Hefði getað verið skrifuð á Bessastöðum. Þeir eru oft líkir Már og Ólafur Ragnar. Enda fékk Már uppeldi hjá Ólafi. Í
fjármálaráðuneytinu, ekki ónýtur skóli það. Fjármálaráðherra treysti sér ekki í harðar deilur. Hafði ekki Framsókn með sér og að baki alls er skuggi Forsetans á Bessastöðum. Enn sýnir sig hve erfið staða Sjálfstæðisflokksins er. Þrátt fyrir hinn undirfurðulega forsætisráðherra Framsóknar. Sem alltaf kemur manni á óvart. Sem alltaf trompar sjálfan sig með frábærum yfirlýsingum. Þær fara að vera efni í heila bók.
Svo er spurningin um Seðlabankastjórann. Hættir hann við að hætta eins og Ólafur Ragnar? Þeir eru líkir um margt vinirnir.
Hér er hið skemmtilega og heillandi bréf Más, stjórnmál á Íslandi eru svo skemmtileg:
„Fjármála- og efnahagsráðherra hefur í dag skipað mig í stöðu seðlabankastjóra til fimm ára. Í skipunarbréfi sínu vekur ráðherrann athygli á því að hafin er vinna við heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands. Eins og áður hefur komið fram tel ég fulla þörf á þeirri endurskoðun. Seðlabanki Íslands hefur lagt því verkefni það lið sem hann getur og eftir hefur verið leitað. Endurskoðunin mun að mínu mati kalla á einhverjar breytingar varðandi stjórnskipun bankans. Þar eru mismunandi kostir í boði og ég get ekki spáð fyrir um hver endanleg ákvörðun Alþingis verður í þeim efnum. Hitt er mér ljóst að þær breytingar gætu haft í för með sér að endurráðið yrði í yfirstjórn bankans.Ég tel í þessu sambandi rétt að upplýsa að ég hef í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis áður en aldursmörk hamla um of. Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum.
Ég vil þakka ráðherranum traustið. Nú liggur fyrir að snúa sér að fullum krafti að þeim miklu verkefnum sem við blasa varðandi það að losa fjármagnshöft, varðveita verðstöðugleika, styrkja umgjörð um fjármálastöðugleika og efla Seðlabanka Íslands enn frekar sem stofnun sem glímir við stærri verkefni en oftast áður í sögu sinni.
Að lokum vil ég þakka starfsfólki Seðlabanka Íslands mikla og góða vinnu á því skipunartímabili mínu sem nú er að ljúka. Árangur Seðlabankans veltur að miklu leyti á því góða og hæfa starfsliði sem þar starfar."
Nr. 25/2014
15. ágúst 2014
15. ágúst 2014