föstudagur, 7. mars 2014

Stefán Thors: Engin spilling á Íslandi???????

Það er engin spilling á Íslandi :  Lesið þessa grein og hugleiðið í hvers konar þjóðfélagi við lifum. 
Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari en guð minn góður hvers konar lið hefur fólk valið yfir okkur. 


Íhugaði að hætta eftir að áminningin var ógilt

Stefáni Thors boðið að hætta í umhverfisráðuneytinu. Fékk ekki skýringar á uppsögn.
Sigurður Ingi Jóhannsson dró til baka áminninguna sem Hrafnhildur Ásta fékk í óþökk Stefáns Thors.
Dró áminninguna til baka Sigurður Ingi Jóhannsson dró til baka áminninguna sem Hrafnhildur Ásta fékk í óþökk Stefáns Thors.
„Hann tilkynnti mér að hann myndi gera það og gerði það svo. Ég var mjög ósáttur við það,“ segir Stefán Thors, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, aðspurður um ástæður þess að áminning sem hann veitti Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur skrifstofustjóra hafi verið dregin til baka af umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. „Ég hugsaði minn gang eftir þetta, hvort ég ætti að hætta og fara að gera eitthvað annað, en ég ákvað að halda áfram þarna.“ Áminningin sem Stefán Thors hafði veitt Hrafnhildi Ástu í starfi var vegna samstarfsörðugleika við annan starfsmann.
Hrafnhildur Ásta, sem er náfrænka Davíðs Oddssonar, var svo ráðin sem forstjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna í lok árs í fyrra. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra og fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs, skipaði Hrafnhildi Ástu í starfið þrátt fyrir að stjórn Lánasjóðsins hefði metið annan umsækjanda hæfari. Hrafnhildur Ásta var einn af þremur umsækjendum sem stjórnin mat hæfasta. Lokaákvörðunin um hvern skyldi ráða var hins vegar hjá Illuga Gunnarssyni og fylgdi hann ekki mati stjórnarinnar.
Ljóst er að Hrafnhildur hefði ekki getað fengið starfið hjá LÍN með áminningu fyrir brot í starfi á bakinu. Í viðtali við DV í lok árs í fyrra sagði Illugi Gunnarsson að hann liti ekki svo á að Hrafnhildur Ásta hefði fengið áminningu í starfi þar sem áminningin var dregin til baka.
„Ég áminnti hana vegna samstarfsörðugleika“

Boðin sérverkefni

Stefán Thors lét af störfum í umhverfisráðuneytinu síðastliðinn föstudag eftir að Sigurður Ingi tilkynnti honum að heppilegast væri að hann hyrfi til annarra starfa á vegum hins opinbera. Að sögn Stefáns kallaði Sigurður Ingi hann á sinn fund eftir að hann kom nýverið aftur til landsins frá Japan og spurði hann hvort hann vildi stíga til hliðar sem ráðuneytisstjóri. „Hann spurði mig hvort ég vildi stíga til hliðar sem ráðuneytisstjóri og fara í sérverkefni. Ég hafnaði því. Ef það var hans vilji að ég myndi stíga til hliðar þá vildi ég frekar fara í námsleyfi því það var greinilega hans vilji að ég myndi hætta.“
Þegar Stefán er spurður hvaða skýringar Sigurður Ingi hafi gefið fyrir því að hann vildi að hann færi í sérverkefni segir hann að engar skýringar hafi verið gefnar sem sneru að honum sjálfum persónulega. „Ég spurði hann að þessu og hann gaf engar skýringar aðrar en að hann væri ekki sáttur við vinnubrögðin í ráðuneytinu. Hann sagði jafnframt að þetta væri ekki mér að kenna.“
Stefán segist því ekki vita af hverju hafi átt að setja hann í sérverkefni.

Rannsókn vinnusálfræðings

Þegar Stefán tók við störfum í ráðuneytinu í apríl í fyrra var hafin rannsókn á máli Hrafnhildar Ástu sem vinnusálfræðingur sá um og ræddi hann meðal annars við fjölmarga starfsmenn ráðuneytisins. Rannsóknin byggði á kvörtun frá starfsmanni samkvæmt heimildum DV. Hrafnhildi Ástu var boðið að hætta í ráðuneytinu eftir að niðurstaða lá fyrir í rannsókninni en hún þáði ekki það boð.
Stefán Thors segist ekki geta rætt um rannsóknina en að hann geti staðfest að hann áminnti Hrafnhildi Ástu í kjölfar hennar. „Það sem ég get staðfest er að já, ég áminnti hana vegna samstarfsörðugleika. Meira get ég ekki sagt.“ Stefán segir að áminningin hafi átt rétt á sér.
Í kjölfar áminningarinnar reyndi Hrafnhildur Ásta að fá hana dregna til baka. Við það naut hún aðstoðar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara. Stefán tók hins vegar ekki gildar athugasemdir Jóns Steinars og Hrafnhildar Ástu. Þegar Stefán lét sér ekki segjast þá var leitað til Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra sem dró áminninguna til baka. Ráðuneytisstjórinn var ósáttur við þá ákvörðun, líkt og áður segir.

Refsing?

Sjaldgæft er að áminningar sem veittar eru af ráðherra eða ráðuneytisstjóra séu dregnar til baka. Katrín Jakobsdóttir dró til baka áminningu sem tiltekinn skólameistari hafði fengið árið 2010 en sú ákvörðun byggði á úrskurði umboðsmanns Alþingis sem taldi að áminningin hefði ekki átt að rétt á sér. Í því tilfelli var afturköllunin því byggð á úrskurði eftirlitsaðila. Einnig er sjaldgæft að ráðuneytisstjórar láti af störfum með svo skömmum fyrirvara og á sambærilegum forsendum.
Þegar Stefán er spurður að því hvort hann telji að verið sé að refsa honum, og hvort sá möguleiki sé ekki fyrir hendi að fyrst hægt sé að fá áminningu í ráðuneyti afturkallaða þá sé einnig hægt að hafa áhrif á mannval í þessu sama ráðuneyti, segir hann: „Ég veit það ekki […] Þetta eru þín orð en það má alveg spyrja.“
Stefán fer nú í námsleyfi í eitt ár. Hann segist ekki íhuga að leita réttar síns í málinu. „Ég er ekki fæddur í gær þannig að ég lifi þetta alveg af.“
DV hafði samband við umhverfisráðuneytið til að spyrjast fyrir um ástæður starfsloka Stefáns Thors í ráðuneytinu. Í svari frá upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur, kemur fram að Stefán hafi óskað eftir námsleyfi sem ráðherra hafi veitt honum: „Ástæðan er sú að Stefán óskaði eftir námsleyfi sem ráðherra veitti honum.“
Miðað við orð Stefáns sjálfs voru ástæður starfsloka hans hins vegar aðeins flóknari en svo.

Tónlist: Sinfonía, Tench, Cash og Old and in the Way.

Gamlar lummur hljóma vel, glæsilegir tónleikar í kvöld, Mendelson, Tjækvoský og Kentis. Fullt af fólki, fólkinu leiðist ekki að streyma í Hörpu.  Eitt af fallegust tónlistarhúsum heimsins segja útlendingar, en það er ekkert að marka þá!   Japanska stirnið Midori var glæsileg svo mild og blíð
 í fiðlukonsert Mendelsons svo spilaði hún Bach sem aukalag fyrir glaða og æsta áhorfendur. 4.
 sinfonía hins tilfinningaríka Rússa var mögnuð, hljómsveitin upp á sitt besta, lúðrar og horn á efsta stigi.   Oliver Kentis var líka skemmtilegur, flott litbrigði og æsingur, ný lumma ansi góð.  Svo allir fór glaðir heim.  Það voru engir ráðherrar, held ég, á staðnum svo Sinfonía fær ekki gefins 5 milljónir!!!  

Ég er alæta á músík svo ég er núna að hlusta á margt: Benmont Tench hljómborðsleikarinn hjá hefur gefið út fyrstu sólóplötu sína á gamals aldri,You should be so lucky,  hann er þekktur sem meðspilari Tom Petty og nýi diskurinn er stórfínn mörg ný lög frá honum ásamt nokkrum klassíkerum frá Dylan; Corinna,Corrina; Duquesne Whistle. Hljóðfæraleikurinn frábær, Don Was, Tom Petty, Gilian Welch, David Rawlings, Ethan Johns (sonur Glyn Johns, stórframleiðandans) Jeremy Stacey og meira að segja Ringo Starr í einu lagi!  Góð plata fyrir gamlingja, ljúf og lagræn með frábærri spilamennsku. 

Annar diskur sem ég spila mikið er Rosanne Cash (dóttir Johns Cash)  The River and the Thread, ótrúlega mjúkur og ljúfur og djúpur, sannkallað meistaraverk, hún semur allt með John Leventahl manni sínum.   

 Sá þriðju er með blúegrass sveitinni Old and in the Way, diskur með tónleikum frá 1973, aldrei áður gefið út, Live at the Boarding House, það eru engir smámeistarar á þessum disk, Jerry 
Garcia, Pete Rowan, Vassar Clements, David Grisman,  og John Kahn.  allir meistarar á sín hljóðfæri. Spilamennska frá himnum.  

Það er gaman að kunna að njóta tónlistar, það er líka gaman að hafa fjölbreytni.  Það eru líka 2 jazzdiskar sem rata á spilarann núna Kind of Blue með Miles David og Like Minds  með nokkrum meisturum, Burton, Corea, Metheny, Haynes og Holland.   

Svona er lífið í Álfheimunum.  Góðar stundir !!


!

fimmtudagur, 6. mars 2014

Engin fréttaþurrð: Ráðherrar, Höfðaborg, Úkraína og snjór.

Það er ýmislegt fréttnæmt þessa vikuna. Ráðherrar okkar standa sig vel, halda þjóðinni í spennu og blús !!!! 
Vinir mínir á Fésinu í áfalli.  Við þurfum ekki að óttast fréttaþurrð. 

Merkileg frásögn í Kiljunni af lífinu í Höfðaborg og Laugarnesskóla. 

Ég vann eitt sinn sem unglingur með manni sem bjóð með fjölskyldu sinni í Höfðaborg,  sem lofaði mér dóttur sinni í gjaforð.  Ég gleymdi svo að heimta kvonfangið.  Ætli það sé ekki sorgarsaga lífs míns?  Þetta er alveg satt. 

En að öllu gamni slepptu, þá var merkilegt að sjá konuna segja frá lífi sínu, lífð var oft ansi hart og miskunnarlaust í þá daga. Ég kynntist því líka í Bústaðahverfinu. Það er merkilegt með þessi tabú sem dregin eru fram á þessari öld, sem lágu í þagnargildi þótt ótal margir vissu um óhæfu, vonsku og gírugheit mannskepnunnar. Það var margt gruggugt undir sléttu og felldu yfirborðinu. Góðborgararnir lifðu góðborgaralífi of samtryggingin var algjör.  

Í Úkraínu skelfur allt og titrar.  Eins og oft áður er Sannleikurinn oftast  fyrsta fórnarlamb stríðs og átaka.  Það er sorglegt að sjá netvini mína tapa sér í óígrunduðum skoðunum áður en þeir hafa kynnt sér málin.  Eins og  að hinn afsetti forseti hafi átt að ríkja áfram af því hann var kosinn.  Og gleyma spillingunni, nepótismanum, stuldunum úr ríkiskassanum, einræðinu og harneskjunni til að halda völdum.  

Já, lesendur góðir það er engin fréttaþurrð þessa vikuna, svo er farið að snjóa í Reykjavík, við horfum á hvíta veröld, vonandi fáum við ekki aftur klakabrynju eins og legið hefur yfir öllu í vetur. 





þriðjudagur, 4. mars 2014

Ráðherrar: málleysingjar og mannleysur

Maður er orðinn þreyttur á þessum fátæklegu íslenskumönnum sem húka
á valdastólum mállausir og mærðarfullir, snúa tungunni í ótal hringi.

Ómöguleiki framfylgjanlegur og svo framvegis. Ég minnist ekki á Vigdísi H.  

Svo eru vandræðin endalausu, að gefa loforð og ætla að svíkja þau, þeir sem gera slíkt eru mannleysur. 

Þeir vildu fá þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þeim hentaði en nú hentar það þeim ekki. Forsetinn á að leiða þá úr gildrunni. 

En auðvitað blasir við eina leiðin, 50.000 manns vilja þjóðaratkvæðagreiðslu.  Því á hún að fara fram. 

Ef meirihluti þjóðarinnar vill áframhaldandi viðræður þá er að sjálfsögðu auðséð hvað á að gerast. 

Efna á til nýrra kosninga.  Þá kemur í ljós hvað þjóðin vill, krystaltært og skýrt. 


mánudagur, 3. mars 2014

Heimsósómapistill á 67 ára afmælisdegi mínum

það er skrítið að lifa tíma sem gætu leitt til gjöreyðingarstríðs en enginn talar um það í alvöru

enn eru það stríðsherrar sem pungfrekjast og senda tindáta sína af stað á meðan aðrir stríðsherrar hneykslast á því eins og þeir hafi aldrei sjálfir gert slíkt 

allt út af skaga í Svartahafinu þar sem íslenskir stjórnmálamenn fóru í heilsu og sjúkraleyfi í boði 
sovéskrar alþýðu fyrir nokkrum áratugum 

við lifum furðulega tíma Pútín sem mér finnst ansi ógeðfelldur maður telur sig geta gelt og geðvonskast á kostnað nágranna sinna (líklega með stuðningi Kínverja sem vilja líka geta gelt í (Ó)friði á nágranna sína) 

Við boðberar friðar eigum ekki sæla daga SÞ sem áttu að vera talsmenn slíkra hugmynda verða aldrei nema handbendi stórvelda, við þurfum ekki annað en að hugsa til Sýrlands sem eru rústir einar í dag meðan heimurinn hefur allutr fylgst með sjónarspilinu 

svo ég hugsa bara um eigin sársauka í hnjám og baki á afmælisdaginn minn þegar ég er tekinn í tölu aldraðra

nú er ég búinn að bíða í 5 mánuði eftir að komast í hnjáliðaaðgerð og þarf líklega að bíða í 5 mánuði í viðbót 

þannig virkar heilbrigðiskerfi í velferðarríkinu Íslandi

smám saman minnkar hreyfigeta mína sterk verkjalyf gera ekki gagn, allir vinir og kunningjar spyrja um heilsuna og ég reyni að svara kurteislega, ég veit það eru margir sem hafa það verra en ég en einhvernveginn hugsar maður mest um sjálfan sig þegar maður skakklappast um íbúðina og einstaka sinnum í bæ eða út í búð 

á meðan valdamenn brugga göróttar eiturblöndur sem þeir hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif þær geta haft á jörðina og enn eina ferðina er fólkið sem lifir á þessari jörð fórnarlömb lygamarða og svikapunga

og við, ræflarnir, bíðum og sjáum hvað setur, við getum lítið annað gert, stiginn hjá mér upp á þriðju hæð verður alltaf erfiðari og það tekur á taugar að hlusta á valdamenn þessa lands 

Þetta er heimsósómapistill minn á 67. afmælisdaginn

sunnudagur, 2. mars 2014

Austurvöllur: Þjóðhátíðarstemmning í bænum

Það var þjóðhátíðarstemmning í miðbænum í gær. 

Veðrið var svo gott, sólin blindaði, og þjóðin hafði lagt leið sína í bæinn til að lýsa því yfir að það væri hún sem hefði endanlegt ákvarðanavald. 

Sem ýmsir stjórnmálamenn gleyma um  leið og þeir eru komnir til valda. 

Kannski sátu þeir inn á einhverjum hástéttarbörum og horfðu óttslegnir út á milli rimlagardína. Ég veit það ekki. 

Stjórnmálamenn sem dettur í hug að þeir geti lofað svona til vonar og vara ef þeir lenda í samingaviðræðum við ákveðna flokka, þeir skilja ekki eðli og innihald lýðræðis.  

Þess vegna er nauðsynlegt fyrir fólkið til að láta vita af sér. 

Það var gert í gær á Austurvelli.  Það var bjart yfir öllum og allir sögðu: Hér er ég. 

Heilsuðu upp á vini og kunningja.  Kaffihúsið urðu yfirfull eftir fundinn.  

Svo er að sjá hvað gerist.  Maður býst ekki við miklu af þessum herrum.  

Það er ekki víst að við séu að upplifa vor, vor þjóðarinnar.

En í gær var þjóðhátíðarstemmning í bænum!!

laugardagur, 1. mars 2014

Kjarni málsins: Það á ekki að ljúga að fólki

Stundum eigum við Íslendingar erfitt með finna kjarna málsins. 

Var að hlusta á mektarfólk ræða málin á RÚV 1, það komur þar margir punktar til umhugsunar. Í upphafi þáttarins leyfði Hallgrímur Thorsetinsson okkur að heyra öll fræg og alræmd ummæli vikunnar. 

En mér þótti vanta það sem valdið hefur ólgu almennings sem sýnir sig vel í skoðanakönnunum vikunnar.  Vinsældamissir stjórnarflokkanna, mikill meirihluti við umræður við ESB. 

Hvað er það sem hámenntaðir sérfræðingar og pönkari minntust ekki á.  Sem hefur vantað svo í stjórnmálaumræðu á Íslandi??? Það er sá einfaldi sannleikur að stjórnmálamenn eiga ekki að ljúga. Við eigum að krefjast þess að við upplifum ekki svona viku aftur. OG þeir sem eru staðnir að lygum, eiga að segja af sér. 

Siðvæðingar er þörf.  Í nágrannalöndum er slíkt í heiðri haft.  Maður sem staðinn er að lygur og falsi hann segir af sér.  Það er engin undankoma.  

Þetta eigum við svo erfitt með.  Við Íslendingar.  Að hafa skýrar og tærar reglur.   Þess vegna segi ég:  Siðvæðingar er þörf.  Þetta er það sem liggur undir í ólgu landans seinustu vikuna. 

Stjórnmálamenn eiga ekki, mega ekki ljúga.  Þá eru þeir búnir að fyrirgera rétti sínum að vera fulltrúar okkar í fulltrúalýðræði þjóðarinnar.