föstudagur, 26. júlí 2013

Þoka: Hlátrasköll úr Hádegismóum

Það er þoka úti í Reykjavík.  Í nótt sást varla út úr augum.  Ætli það lýsi ekki vel sjóndeildarhring margra Íslendinga um þessar mundir. Að skynja ekkert þarna úti í þokunni?

Ég er að verða gamall, verð 67 á næsta ári.  En að verða gamall þýðir ekki að maður sé kjáni.  Því er það skrítið að lesa í dag að öryrkjar og ellílífeyrisþegar  hafi búist við að fá miklar kjarabætur frá nýju ríkisstjórninni.  Af hverju?  Af því að Vigdís Hauksdóttir lofaði fullum bótum aftur í tímann í kosningaþætti fyrir kosningar?   Vegna ótal loforða sérstaklega Framsóknarmanna í kosningabaráttunni?  

En af hverju að búast við einhverju fyrir láglaunafólk?  Hvað gerði ríkisstjórnin fyrsta mánuðinn, til kynnti um afnám hátekjuskatts,  skar niður gjöld á útgerðaraðlinum, sem hefur það svo bágt.  Á svo lítið, skuldar svo mikið en passar samt alltaf að það leki nóg til þeirra.  Eins og dæmin sanna.   

Fjármálaráðherrann hamrar á því að staða ríkissjóðs sé erfið.  Hann virðist vera einn af fáum Íslendingum sem virtist ekki vita það seinustu árin, hvernig sem hann fór að því.  Líklega var hann svo upptekinn að neiti eigin sök í Hruninu og þátttöku sinni með félögum sínum í Milestone og Sjóvá.  

Hverjir voru það sem fengu fyrstir eitthvað í sinn hlut af eldra fólki, nú þeir sem höfðu aðstöðu til að stunda vinnu og tækifæri til að útvega sér slíkt.   Svo  kæru samaldrar mætið bara með mér í byrjun haustsins þegar okkur gefst gott tækifæri að láta sjá okkur og heyra á Austurvelli.    

Forsætisráðherrann mætir í viðtal í Landsbankann og slær sér á brjóst og hrópar Vei yður yfir þjóðina í sjónvarpið.  En hann ætlar ekkiert að gera, getur auðvitað ekkert gert.  Hann er líka að uppgötva erfiða efnahagsstöðu landsins.  Ég hef vitað um hana árum saman.  Á meðan var fjölskylda forsætisráðherrans að raka að sér milljónum.  Svo skrifar þeir feðgar vandlætingargreinar í blað útgerðarmannanna gegn þeim sem hafa vit, þekkingu og móral til að fletta ofan af fjárglæfrum yfirstéttarinnar. 

Hverjir eru það sem eru skattakóngarnir?  Þeir sem hafa fengið mestan niðurfellingu á skuldum í bönkum landsins.  Svo borga þeir í blaðið sitt, flokkana sína og svo heldur aumingja fólkið í landinu að það, það fái kjarabætur!!!!!  Það er grínið,  það er kaldhæðnin.  Er það nema vona að við heyrum hlátrasköllin úr Hádegismóum út úr þokunni?

 


fimmtudagur, 25. júlí 2013

Skálholt: Afkristnaðir ráðherrar

Nú er það svart og sykurlaust.  Enginn ráðherra mætir á Skálholtshátíð.  Þeir virðast flestir vera í fríi og halda upp á ráðherratitilinn með ferðum á lúxusstrandir í útlöndum.  Enginn, ekki einn af níu mættu, kirkjumálaráðherrann lætur ekki sjá sig, engin tilkynning frá henni um að hún sé í leyfi.  Það var öðruvísi í tíð Ögmundar Jónassonar, hann lét sig ekki vanta við svona hátíðir. 

En það var einn sem mætti, kom æðandi úr sumarleyfi.  Nú auðvitað Forsetinn, það er gegnumheill og kristinn maður.  Og Björn Bjarnason hann sömuleiðis.  Og Árni Johnsen enginn vafi.  Vonandi er það síðasta sinn sem hann sér kofann sinn við kirkjuna.  Og þó, ætli þessir afkristnuðu ráðherrar vilji ekki halda þessu minnismerki á lofti. Minnismerki um liðna tíð og spillta milljarða.

„Forseti Íslands var viðstaddur – sem betur fer. Hann var meira að segja svo elskulegur að rjúfa sitt sumarfrí fyrir þennan atburð. Enda eru þetta merkileg tímamót – fimmtíu ár liðin frá því að Skálholt var afhent kirkjunni. Þar með  varð kirkjan í fyrsta skipti persóna að lögum. Þá voru fyrstu skrefin tekin í áttina að því að skilja á milli ríkis og kirkju,“ segir Kristján Valur.


Já, lesendur góðir, nú er illt í  efni engin þjóðmenning heldur á ferðinni, ein svikin loforð enn. Og betra væri ef öll skrefin hefðu verið tekin til virks trúfrelsis í landinu.


   

mánudagur, 22. júlí 2013

Woody Allen, Snowden og við hin .......

Við erum mörg sem höfum fylgst með Herra Allen, eins og þeir segja í New York Times, i áratugi og hann hefur orðið heimilisvinur okkar, sem við vitnum í, horfum á og hugsum um.  Samt er þessi maður skrýtinn, furðufugl, gott ef ekki pervert, en um leið mannvinur og sá sem skilur best þessa skrítnu dýrategund; Homo Sapiens, sem við tilheyrum og losnum aldrei við úr heilabúinu.

Konurnar sem hann hefur lýst og notað í myndum sínum eru ansi fjölbreytt flóra.   Og alltaf gefa þær okkur eitthvað nýtt að hugsa um kveneðlið og manneðlið. Og náttúruna sem í okkur flestum býr.  


Nú eigum við von á nýrri Allenmynd, Blue Jasmine.  Hún mun gleðja okkur furðufuglana.  Hinir munu enn hrista höfuðið og ekkert skilja hvað við sjáum í þessum myndum.  Samt virtist Midnight in Paris ná til margra sem ekki höfðu áður skilið galdurinn,  og meira að segja réttindahafar Williams Faulkners rithöfundarins frábæra,  fundu ekki náð fyrir augum dómara með smátilvitnun Allens í þeirri mynd:  The past is not dead. Actually, it’s not even past.

Svo við höldum áfram að horfa á Allen myndir, ekki eru þær allar fullkomnar sú seinasta um Róm náði mér ekki alveg.  En margar hafa glatt mig og mína, þá fyrstu sá ég í Tónabíó ef ég man rétt.  Hann er orðinn ansi fullorðinn svo hver og ein sem maður sér eftir þetta getur orðið sú síðasta.  

Og kannski verðum það við sem missum af þeirri seinustu ef við verðum að hraða okkur yfir Hadesarfljót..... Þannig er lífið.... og dauðinn.

Það er alltaf gott að hafa þetta í huga á hverjum degi: 
    

The talent for being happy is appreciating and liking what you have, instead of what you don't have.

Snowden lærði þetta af Woody: 

I believe there is something out there watching us. Unfortunately, it's the government.


Lengi lifi Woody Allen. Ekki of lengi, vegna Sjúkratrygginganna......   





Blue Jasmine 

sunnudagur, 21. júlí 2013

Brynjar Níelsson: Einkavæðing eða ekki?

Brynjar Níelsson virðist hafa skapað sér sess sem helsti talsmaður einkaframtaks eftir að Hannes Hólmsteinn varð uppvís að alls kyns prettum svo að fáir taka hann alvarlega.    

Brynjar vantar rök fyrir tilvist RÚV, segir að það hafi fáir komið með haldbær rök: Um leið virðist hann einblína á það sem hann kallar fréttamiðil:

Útvarpstjóri spurði hvort ég vildi að allir fréttamiðlar væru undir stjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Afskaplega eru það nú klén rök fyrir tilvist RÚV á kostnað skattgreiðenda. Ekki eru nú fréttamiðlar þeirra kumpána lakari en sá sem heyrir undir útvarpsstjóra. Þar að auki mætti gera ráð fyrir fleiri fréttamiðlum kæmu fram hætti ríkið að reka RÚV.


Nú er það þannig í skoðanakönnunum um traust á fréttaflutningi hefur RÚV árum ef ekki áratugum saman skarað fram úr að mati landans.  Svo gæðarökin í sambandi við fréttaflutning standast ekki. Og ef fleiri fréttamiðlar kæmu til sögunnar myndu þeir telja sig hafa tækifæri að vera með vandaðri fréttaflutning?    

Við höfum reynslu af einkareknum fréttamiðlum að þeir treysta sér á engan hátt að vera með þá fjölbreytni í efni sem tíðkast hefur hjá RÚV.  Fréttskýringar, fréttir um listir og menningu, fréttamenn víða um heim og svo framvegis.   En ég ætla að taka hér að neðan nokkra þætti sem þarf að ræða í samhengi við rekstur ríkisfjölmiðils.   Auðvitað er hægt að hætta með RÚV, þá verða menn að greiða afnotagjöld annars staðar, það erum við sem höfum ákveðið að hafa öll okkar viðskipti við RÚV.  Svo það er ekki beinn sparnaður við fjölskyldur í landinu.  En sumir kalla þetta frelsi, að fá að velja sjálfur.

Hér fyrir neðan tek ég nokkra þætti sem mér finnst skipta máli í rekstri ríkisfjölmiðlis:  

Menningarlegir, Þjóðlegir,Efnislegir, Öryggislegir, Sögulegir:  


Reynslan hefur sýnt okkur að fjölbreytt menningarumfjöllun og ræktun, tónlist (allar tegundir), bókmenntir, myndlist, kvikmyndir, hefur ekki átt sér stað á einkreknum fjölmiðlum.  Þetta hafa stærri þjóðir en við séð og hafa haldið áfram að reka ríkisreknar stöðvar.  Við þurfum ekki að líta á annað en RÚV  1 hjá okkur. Slík stöð yrði ekki rekin í einkarekstri.  Í heimi alþjóðavæðingar þegar við höfum aðgang að öllum heiminum í gegnum netið þá á margt sem einkennir bara okkur Íslendinga undir högg að sækja, það verðum við að hafa í huga  og ekkert skammast okkur fyrir þótt sumir vilji beita þessum þætti í annarlegum tilgangi.  Það er margt sem á erindi til minnihlutahópa og á aldrei tækifæri í einkageiranum, öryggisþátturinn hefur oft verið í umræðunni og að lokum tek ég þann sögulega.  Ríkisútvarp hefur verið farsælt hjá okkur frá upphafi og því eru ákveðin söguleg rök fyrir rekstri sterks ríkismiðils.  Þar sem ríkir meira frelsi í dagskrárgerð .  Ríkisútvarpið stefndi í þá átt með því að minnka þátt stjórnmálamanna og flokka í stjórnun og í staðinn að hafa í stjórn fulltrúa þeirra  sem koma að rekstri og dagskrárgerð og flutningi. En nýja stjórnin þurfti auðvitað að eyðileggja þá hugmynd með afsökun um eignarhald.  Að eiga er að mega.

En þegar upp er staðið verður afstaða okkar alltaf á þann veg hvort við eigum að láta alla þætti lífs okkar stjórnast af peningum og eignarhaldi. Við getum skorið niður alla þætti sem hafa að gera með listir og menningu.  Svo verður hver og einn að ákveða hvort það geri okkur hamingjusamari og þjóðfélag okkar gæfuríkara. Er það ríki fullkomnast þar sem minnstir skattar og gjöld eru lögð á almenning.  Til reksturs, heilbrigðisþjónustu, velferðar og menningar.  

Það er stóra spurningin.

    





laugardagur, 20. júlí 2013

John le Carré og Benjamin Britten

Það er ágætistími til að lesa um þessar mundir.  Og horfa á sjónvarp.  Alla vegana í Reykjavík.   
En svona er Ísland stundum er gott veður fyrir norðan og austar, stundum fyrir sunnan og vestan.  Og það er óþarfi að fara á taugum:  

Var að lesa tvær nýlegar John Le Carré bækur.  Our Kind of Traitor (2010) og A Delicate Truth (2013).  
Le Carré eða David Cornwell eins og hann heitir réttu nafni er kominn á níræðisaldur og enn er hann að skrifa. Við sem höfum lesið bækur seinustu áratugi, höfum fylgst með honum frá því að hann sló í gegn með The Spy Who Came in from the Cold, þriðju bók sinni, gleyptum bækur hans um erkinjósnanarann Smiley , lesið flestar seinni bækurnar þótt þær hafi misjafnlega höfðað til manns. Constant Gardener bókin og kvikmyndin tóku sprett um heiminn fyrir nokkrum árum.  Og Tinker, Taylor, Soldier, Spy var kvikmynduð fyrir 3 árum við góðar undirtektir, í ískaldri útgáfu Thomas Alfredsons. Og bækur hans eiga ansi vel við um okkar tíma. Það er ekki hægt að segja að þessi öldungur fylgist ekki straumum síns tíma. 

Our Kind of Traitor fjallar um ungt par, sem fer í hálfgildingsævintýraferð í Karabíahafið og kemst þar i kynni við rússneska skrítna fjölskyldu og hirð sem þar er á ferðinni.  Þar er Guðfaðir sem ræður ríkjum en á undir högg að sækja fyrir yngri Mafíósum í Rússlandi nútímans.  Og honum finnst gaman að æsa sig í tennis með unga breska karlmanninum.  Svo brátt erum við stödd í nútíma sem við þekkjum, fjármálaglæfrum, njósnum og spennu.   Ekki meira um söguþráðinn.  

A Delicate truth segir frá skrítinni aðgerð Breta og Ameríkana til að ná arabískum vopnasala á sitt vald við Gíbraltar þar sem allt endar með ósköpum.  Breskur dæmigerður embættismaður er fulltrúi ráðherra við þessa aðgerð og fær upphefð fyrir bragðið.  En breskur hermaður bankar upp á 3 árum seinna og heimtar sannleikann. Þá fer margt af stað. 

 Það er svo gaman að lesa Le Carré,stíllinn svo fágaður og hann soddan snillingur að skilja mann eftir í óvissu. Það verður aldrei neitt straumlínulagað, um leið er þessi breski heimur, ríkisbubba, embættismanna, njósnara, menntamanna og hermanna svo furðulegur.  Þetta verða svo meiri bókmenntir en hinar venjulegu glæpasögur, þótt glæpir komi við sögu.  Ég er að hugsa að lesa aftur Smiley bækurnar og sjá þáttaröðina með Alec Guiness.   Svo er ég að lesa bók Jóns Ólafsson Appelsínur frá Abkasíu.  Meira um hana seinna.  

Annar Breti á svo 100 ára árstíð Benjamin Britten, ég fékk kassa með 10 diskum á 2000 krónur á Amazon.com, Britten 100. Margt gott PeterPears að syngja Serenöðuna fyrir Tenór, Horn og Strengi. Pears og Britten spila Die Schöne Müllerin, til að sýna píanóhlið Brittens.  Og margt annað góðmeti.  Svo eiga allir að hlusta á War Requiem, meistaraverkið mikla.  

Það er svo margt sem hægt er að gera í sólarlausu sumarfríi.  Góðar stundir, lesendur góðir.



    

fimmtudagur, 18. júlí 2013

Páll Vilhjálmsson eða Páll Vilhjálmsson

Einu sinni var Páll Vilhjálmsson sem gladdi marga, börn og fullorðna, Páll hennar Guðrúnar frænku minnar, nú er annar Páll Vilhjálmsson sem gleður fáa.  Sjúklegt hatur hans á Samfylkingu, ESB og menntamönnum er alþekkt.  Það er bara Davíð Oddsson sem gleðst yfir skrifum hans.  Það er skrítið að fjölmiðlamaður skuli taka upp hanskann fyrir óvini frjálsrar fjölmiðlunar.  Óvinir sem virðast ætla að gera atlögu að eina fjölmiðlinum í landinu sem stundar frjálsa og óháða blaðamennsku.  Það væri gaman að vita hver borgar þessum karli laun.

Svona er einn pistill hans í dag, ætli þetta sé ekki sá fimmþúsundasti  um skepnuskap xS. Sjónarhorn hans er oft æði þröngt. Það myndi heldur ekkert barn brosa að honum í Sjónvarpinu.         


RÚV hleður undir opinbera talsmenn Samfylkingar, eins og Gunnar Bragi Sveinssonvekur athygli á. RÚV mylur undir sértrúarkreddu Samfylkingar um að Ísland skuli inn í Evrópusambandið og beitir til þess blekkingum.
Samfylkingin er nýkomin úr mælingu í þingkosningum. Flokkurinn fékk 12,9 prósent fylgi.
RÚV er ekki á fjárlögum til að vera sérstakt málgagn Samfylkingarinnar.


Heilbrigðiskerfið: Einkavæðing og jöfnuður?

Maður mátti svo sem búast við þessu.  En ansi er það samt sorglegt.  Um leið og hægri stjórn tekur völdin á Íslandi þá þarf að byrja að ræða um Einkavæðingu heilbrigiðiskerfisins.  Sem á að spara fyrir ríkið.  Kerfis sem flestir eru tiltölulega ánægðir með.   

Ekki að Kerfið sé fullkomið. Ó nei.  Það vitum við öll sem höfum þurft á því að halda.  En samt er það þannig að það er tiltölulega sveigjanlegt.  Maður getur skipt um lækni ef manni líkar ekki. Kerfið bregst fljótt og vel við í neyð. En biðraðir eru víða á aðgerðum.   Kerfið byggist  á mörgum og sterkum einkavæddum læknastofum, og ríkisreknum sjúkrastofnunum. Það er ekki ódýrt, mörg lönd í kringum okkur hafa langtum ódýrara kerfi fyrir almenning.  Ekki hefur gengið vel að semja við ýmsa hópa lækna, svo að við minnumst nú ekki á tannlækna.  Búseta skiptir ansi miklu máli, margir þurfa að fara langt til að leita þjónustu. En vinstri menn hafa verið fylgnir sér að halda upp rödd jafnaðar í þessu kerfi, það eru engar sjúkrastofnanir eða stofur sem eru bara fyrir betur stætt fólk, eins og Árni Páll segir í Fréttablaðinu í dag: 

En sporin hræða. Það tók mig og aðra samningamenn Samfylkingarinnar margar vikur að þvinga orðin „án tillits til efnahags“ inn í lagatextann. Grunnstefna okkar var þá sú sama og nú: Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á ekki að leiða til aukins kostnaðar fyrir almenning eða að fólki verði mismunað um þjónustu eftir efnahag.

Ögmundur Jónasson er á sömu slóðum: 

Það er hreinlega rangt að bera saman ýmsa þætti opinberrar þjónustu og starfsemi flestra fyrirtækja. Vissulega verða opinberar stofnanir að reyna að laga sig að fjárhagnum. En þær starfa líka samkvæmt lögum og ber lagaleg skylda til að sinna tilteknum verkefnum. Eða hvað gerir bráðamóttakan þegar fjármunir eru uppurnir en jafnframt komið með konu í barnsnauð á bráðamóttöku eða ef fjöldaslys yrði? 

Og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir  bendir enn frekar á þetta  út frá sjónarhorni stjórnsýslusérfræðings: 

Spurningin er þessi, ráðherra: Hvert er markmið þitt með því að fela öðrum en ríkinu rekstur heilbrigðisþjónustu núna? Ef markmiðið er að halda betur utan um kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu sýna allar rannsóknir að árangursríkustu kerfin í þessum efnum eru kerfi sem fjármagna þjónustuna með almennum sköttum og hafa starfsemina að mestu í opinberum rekstri. Ef markmiðið er hins vegar að skerpa á gæðum og öryggi þjónustunnar þá fjölga menn valkostum fyrir notendur með því að auka fjölbreytileika í rekstri til að kalla fram ákveðna eiginleika markaðarins. Leiðin að þessu marki leiðir hins vegar til kostnaðar sem erfiðara er að hafa stjórn á, eins og dæmin sanna. Markaður í heilbrigðisþjónustu er því marki brenndur að hann er ekki eins og almennur markaður og því þarf öflugri aðkomu hins opinbera með góðum stjórntækjum og virku eftirliti. Þess vegna, ráðherra, þarf að byrja á réttum enda.

Lagaramminn í kerfi okkar þarf að vera sterkur til að þessi jöfnuður sé til staðar. 

En það eru ýmsir annmarkar á þessu kerfi:   

Tannlæknageirinn hefur algjörlega brugðist. 
Augnaaðgerðir eru ansi dýrar og kostnaður við gleraugu getur verið ansi mikill.  
Heyrnartæki eru ofviða mörgum ellilífeyrisþegum og öryrkjum.   
Nýju lyfjalögin hafa jafnað lyfjakostnað en virðast hafa ýmsa annmarka.

Svo við fylgismenn jafnaðar þurfum að vera vel á verði og í stríði við hina óábyrgu ríkisstjórn sem laug sig inn á fólkið í landinu.