föstudagur, 24. janúar 2014

Víkingur Heiðar sló í gegn, enn og aftur.

Það eru ekki margir listamenn sem komast í þann hóp að verða ástsælir, listamenn sem flestir þekkja og meta. Þar eru
nokkrir, ekki margir þó í klassíkinni.  Sigrún Eðvalds, Bryndís Halla, Garðar Cortes, Jón Nordal, Atli Heimir. Megas, Maggi Eiríks, Gunnar Þórðar, Siggi Flosa og Bubbi í hryntónlistinni.  Við höfum séð einn flytjast upp og bætast við þann hóp.  Víkingur Heiðar Ólafsson. Þrátt fyrir ungan aldur.   Hann sannaði það enn og aftur í gærkvöldi.  Það eru ekki margir klassískir listamenn íslenskir sem fylla Hörpuna tvisvar.  

Hann hefur náð frábærri leikni á píanó, hann er einlægur, allt að því vandræðalegur á sviðinu, gengur inn með hendurnar í vösum.  En þegar hann er sestur við píanóið er einbeitingin algjör, hann fylgist með hljómsveitinni og stjóranum, sveiflar höfðinu eftir taktinum.  Hann er engum líkur.  

Þannig var það í gærkvöldi í Píanókonsert númer 1 eftir Brahms. Þetta er firnaerfitt verk að spila.  En það er svo fallegt og kraftmikið fyrir okkur áhorfendur.  Streymir fram eins og stjórfljót með litlum þverám.  Annar þátturinn var svo fallegur, maður var hrærður. 

Hljómsveitin var líka fín, öll verk vel flutt.  Schubert sjötta sinfonían, létt og leiftrandi, Enesco, algjört þjóðlagapopp.  Það var mikil gleði og kátína hjá hljómsveitagestum eftir tónleikana. Þarna voru ráðherrar, þingmenn, embættismenn, kennarar, tónlistarmenn, rithöfundar, eftirlaunaþegar, svo eitthvað sé talið.  
 Það er ekki létt verka að klífa á toppinn. 


Víkingur sló í gegn, enn og aftur. 

fimmtudagur, 23. janúar 2014

Gjaldþrot Verkalýðsforystu

Þeir eru sárir verkalýðstopparnir í fílabeinsturnunum allir sáu hvernig úrslitin yrðu í kosningum um kjarasamninga nema 
þeir.  Þeir hafa of lengi eingöngu umgengist SA og kó.  Þeir eru svo vanir að fá sér einn með þeim á börum bæjarins eftir sáttahrinur.  Mesti andstæðingur Gylfa var Vinstri stjórnin.  Aðalatriðið var að slást við Jóhönnum og Steingrím og láta þau líta sem verst út. Enda tókst það. 

Svo situr Verkalýðsforystan uppi með hina drengilegu og óspilltu stjórn Sigmundar Davíðs, Bjarna og Ólafs.  Ætlast til að ríkisstjórnin útvegi kjarasamninga svona einn tveir og þrír.  Það virðist ekki vera hlutverk ASÍ að sækja kjarasamninga hand sínu fólki.  Og margir launamenn eru búnir að fá nóg. Svo Gylfi stendur frammi á bjargbrúninni og horfir ofan í hyldýpið. Vinir hans í SA horfnir auðvitað búnir að samþykkja samningana 98% að sjálfsögðu og hlæja að vandræðagangi hálaunayfirstéttarinnar. Greyin, Vilhjálmur Birgisson nartar í hælana á þeim . 

Enginn Indiana Jones til bjargar.Enginn viti til að lýsa leiðina heim aftur.  


miðvikudagur, 22. janúar 2014

Harpa: Sellósvítur Bachs, Brahms og Glass á Íslandi!!!

Fór á frábæra tónleika Kammermúsíkklúbbsins á sunnudagskvöldið í Hörpu.  Bryndís Halla Gylfadóttir lék 3
cellósvítur J.S.Bachs, nr. 1,2 og 6.  Flutningurinn var satt að segja frábær gaf ekkert eftir heimsstjörnum sem spila þetta verk, allt frá því að Pablo Casals kom þessum verkum á kortið á fyrri hluta seinustu aldar. Bryndís Halla ætlar að spila hinar 3 næsta vetur hjá Kammermúsíkklúbbnum nr. 3,4 og 5.  

Ekki get ég gert upp á milli þessara þriggja sem ég hlustaði á ásamt 330 öðrum gestum í Norðurljósum. Þó fannst mér sú sjötta alveg mögnuð, þar er Bach orðinn kröfuharðari við uppbyggingu og kröfurnar á spilarann eru ótrúlegar . Þeir sem vilja fræðast nánar um svíturnar geta gert það hér.  Og hér heyrum við Pablo Casals leika þær allar og hér sjáum við Mstislav Rostropovitch  leika þær allar. Svo er hægt að panta mjög skemmtilega bók um svíturnar, tilurð þeirra og örlög: 

The Cello Suites: In Search of a Baroque Masterpiece 

eftir Eric Siblin. Ég las hana fyrir nokkrum árum.  

Mikið er gaman fyrir okkur sem kunnum að njóta tónlistar að hafa fengið Hörpu.  Í þessari viku eru margir viðburðir á heimsmælikvarða.  Bryndís Halla að spila cellósvíturnar,
Víkingur Heiðar Ólafsson spilar 1. píanókonsert Brahms á fimmtudag og föstudag.  Og á þriðjudaginn kemur kemur sjálfur Philip Glass, eitt frægasta tónskáld seinustu áratuga, í heimsókn og spilar sjálfur ásamt Víkingi Heiðari og Japana Maki Namekawa að nafni, allar etýður hans fyrir píanó en þær eru 20. Hér er viðtal við Glass sem Einar Falur Ingólfsson tók og birtist í Morgunblaðinu.  Og næsta sumar er Wynton Marsalir, trompetistinn góði, væntanlegur.  Svo mætti lengi telja.  

Já lesendur góðir það eru hátíðir margar í lífi okkar bara ef við viljum njóta. Livet er ikke det værste man har om lidt er kaffen klar.  Þannig er það.    

þriðjudagur, 21. janúar 2014

Ríkisstjórnin skellur á hausinn í hálkunni

Hvað er að gerast myndi einhver spyrja sem les brot úr frétt í Fréttablaðinu í dag á bls. 8. hér að neðan  Við fengum nýja ríkisstjórn á seinasta ári sem lofaði okkur framkvæmdum og fjármagni frá útlöndum. Það væri fjöldi fyrirtækja sem vildu
fjárfesta hjá okkur en það væri þessi vinstri stjórn sem kæmi í veg fyrir það, hún stöðvaði allt !!!!!   En hver er raunin þegar upp er staðið???? 

Íslenska ríkið þarf að greiða 6,4% vexti af skuldabréfum á meðan þjóðir sem lentu í hruni greiða langtum minna sbr. Írland og Portúgal (1,8 og 3,8%). Vegna þvergirðingsháttar stjórnarinnar í samskiptum við alla utan landssteina.

Erlend fjármálarit dásama verk fyrri ríkisstjórnar: Í umfjöllun IFR er staðan sögð hafa verið afar vænleg fyrir Ísland fyrir tveimur árum. Þá hafi landið lokið efnahagsáætlun sinni með Alþjóðagjaldeyris- sjóðnum á undan áætlun og snúið aftur á alþjóðlegan verðbréfamarkað með vexti á milljarð dollara skuldabréf til fimm ára sem ekki voru nema fimm prósent, auk þess sem Icesave-deilan hafi verið að baki.

Já, lesendur góðir, þau eru mörg öfugmælin sem ég ræddi um í seinasta bloggi.  Sú ríkisstjórn sem nú situr ástundar hægri öfgastefnu sem er mjög sérstök, sambandsleysi við umheiminn, kærleikur við harðstjórnir, grunur um spillingu og óbilgirni í stjórnarháttum (sbr. Stóra MP málið, og Stóra Hönnu Birnu málið) . Það er
merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í slíkri stjórn.  Þar sem grundvallargildi þeirra eru fótum troðin.  Frelsi á sem flestum sviðum ( þótt ég taki ekki undir þá stefnu í einu og öllu).

Veruleikinn er oft flókinn.  Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eiga erfitt að fóta sig á þessum hálkuvetri.  Þeir skella oft á hausinn.  

--------------------------------------------------------- 

Ísland úti í kuldanum á fjármálamörkuðum
Óvissa vegna hnúts sem er á deilu íslenskra stjórnvalda og kröfuhafa föllnu bankanna um uppgjör kann að rýra kjör þau sem ríkinu bjóðast í erlendri skuldabréfaútgáfu. Meðan vextir á bréf Íra og Portúgala lækka hafa vaxtakjör Íslands versnað.
Efnahagsmál Ísland er úti í kuldanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á meðan peningar streyma aftur til annarra landa sem urðu illa úti í alþjóðlegu fjármálakreppunni.
Efnahagsmál
Ísland er úti í kuldanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á meðan peningar streyma aftur til annarra landa sem urðu illa úti í alþjóðlegu fjármálakreppunni.

Á þetta er bent í nýrri umfjöllun International Financing Review (IFS). Staða Íslands er borin saman við Írland, Portúgal og Grikkland. Hér er þróunin rakin til stjórnarskiptanna og ósveigjanleika stjórnvalda í viðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna.

"Fyrir um ári virtist sem þíða væri komin í deilu Íslands og kröfuhafa og samkomulag talið á næsta leiti," segir í umfjöllun IFS. "En kjör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem forsætisráðherra með
popúlísku
loforði um að lækka húsnæðisskuldir fólks, að hluta með því að leggja afturvirkan skatt á eignir föllnu bankanna, hefur blásið hita í deiluna á ný."

Bent er á að frá því að ný ríkisstjórn tók hér við völdum hafi vextir á fimm ára skuldabréf ríkisins farið úr 4,1% í 6,4% fyrr í þessum mánuði. "Á sama tíma hafa sambærileg kjör á írska ríkispappíra náð nýju lágmarki á evrusvæðinu frá því að Írland sneri aftur á fjármálamarkaði með 1,8% vöxtum. Og fimm ára vextir Portúgals, sem einnig hefur sótt sér fé á markaði á ný, hafa farið niður í 3,8%."

Í umfjöllun IFR er staðan sögð hafa verið afar vænleg fyrir Ísland fyrir tveimur árum. Þá hafi landið lokið efnahagsáætlun sinni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á undan áætlun og snúið aftur á alþjóðlegan verðbréfamarkað með vexti á milljarð dollara skuldabréf til fimm ára sem ekki voru nema fimm prósent, auk þess sem Icesave-deilan hafi verið að baki.

Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir erfitt að
fullyrða um hvaða þættir hafi áhrif á kjörin sem ríkinu bjóðast í skuldabréfaútgáfu erlendis. Líklega hafi öll óvissa mest áhrif í þeim efnum
.

"Vissulega er óvissa tengd þessari aðgerð að skattleggja þrotabú bankanna, sumir telja þá leið færa og aðrir ekki," bendir hún á. Eins kunni að spila inn í áhyggjur af því að fyrirhuguð skuldaniðurfelling lengi í gjaldeyrishöftunum. "Þannig að mögulega er verið að horfa til þess líka."
olikr@frettabladid.is





mánudagur, 20. janúar 2014

Ríkisstjórn: Öfugmælasmiðirnir högu

Það er margt skrítið að gerast hjá nýju valdhöfunum; 
Frískuldamark fjármálafyrirtækja eru sett svona út í loftið.  En koma samt til góða banka sem
er óþægilega mikið tengdur forsætisráðherra og hans nánasta hring.  

Ríkisstjórnin mun vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og öðrum þjóðum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar. Ísland hefur sérstöðu í umhverfismálum í krafti ósnortinnar náttúru og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda. Sú ímynd er auðlind í sjálfri sér. Unnið verður að því að styrkja þá ímynd og grundvöll hennar, að vernda íslenska náttúru og efla landgræðslu og skógrækt þar sem það á við.

Annar flokkurinn virðist ætla að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aframhald aðildarviðræðna þrátt fyrir loforð i aðdraganda kosninga. 

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Utanríkisráðherra finnst eðlilegra að hafa náin samskipti við spillingar- og einræðisríki þar sem Kína og Rússland eru fremst í flokki heldur en lýðræðisríki Vesturlanda.  Að því er virðist í umboði Forseta og Forsætisráðherra og Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. 

Áratugs vinna að umhverfismálum er fótum troðin og gerð að engu, þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar í stjórnarsáttmála.  Rammaáætlun lögð til hliðar, friðlýsingarvinna jörðuð og gerð að engu. Allt með fákunnáttu og vanþekkingu sem leiðarljós.  

Menningar - og vísindavinna einskis metin þrátt fyrir skýrslur og þekkingu okkar um það hversu miklu þetta skilar í okkar þjóðarbú. 

Sumum finnst þessi upptalning einhverjar ýkjur en þeir sem nenna að skoða í gögnum það sem er að gerast munu komast að því að þetta er rétt.  Því miður.   

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hér að neðan úr stjórnarsáttmálanum (og aðrar ekki feitletraðar í þessum texta) eigum við svo langt í land að eiga einhvern samjöfnuð við Norðurlandaþjóðirnar.  Enda er enginn áhugi á því hjá þeim sem tala um „svokallað hrun" og vilja eingöngu hlúa að yfirstétt landsins sem á okkur öll og vill nota okkur sem ódýrt vinnuafl. Það er öfugmæli í munni þessara valdhafa að Samfélags sé samvinnuverkefni. 

Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur. Mikilvægt er að hlúð sé að þeim sem þurfa á aðstoð að halda og jafnframt að fólk fái notið árangurs erfiðis síns og hugkvæmni. Aldraðir skulu njóta öryggis og velferðar og öllum skal tryggð hlutdeild í þeirri verðmætasköpun sem Ísland og íslenska þjóðin getur af sér.

Þessi á nú betur við : 

Í eld er best að ausa snjó,
eykst hans log við þetta,
gott er að hafa gler í skó
þá gengið er í kletta. 


föstudagur, 17. janúar 2014

Heilsufíkn: Allt blómstrar á nýju ári

Þar er ekkert sem breytist.  Nú er jólahátíð óhófs og ofáts búin og þá er að setja sig í heilsugírinn.  Það er dásamlegt að lesa miðjukálfa blaðanna og skoða heilsíðuauglýsingarnar og
fjórblöðungana.  Nú á allt að verða betra á nýju ári.  Lesa viðtöl við annálaða heilsuspekinga svo kemur öðru hverju, ég er að byrja með nýja hópa núna í jóga og hollu mataræði.  Ég er í þessum þætti í sjónvarpinu.  Og allt eigum við að borga, ekkert er ókeypis, hvorki námskeiðsgjöldin eða áskriftirnar.   

Það er magnesium og kísill sem blívur.  Hann doktor X hefur þetta allt á hreinu við höfum verið á sama reiki og hann lengi. Heilsubúðirnar fullar af úrvalsvörum.  Þó að einhver læknir segir að þetta sé rugl, við séum full af magnesium af því að borða góðan daglegan mat þá látum við ekki okkar segjast.  Því þetta er líka gaman, spennandi að upplifa eitthvað nýtt. Nú þarf ég að dansa inn í hráfæðið.  Ég vissi af konu sem mætti alltaf með kálið sitt í öll matarboð, hún var ekki í samneyslu, nei.  En þetta einkennir okkar samfélag, við eigum að velja sjálf, það er svo fátt sem við eigum að gera saman, ekki einu sinni borða. Þetta er orðin fíkn, heilsufíkn.  Bráðum þurfum við námskeið og stofnanir gegn henni.  Að frelsa fólk frá heilsufæðinu.  Tólfsporakerfið; Ég heiti Erling, ég er Heilsufíkill.  

Erum við svo hamingjusamari, líður okkur betur?  Samkvæmt skoðanakönnunum erum við ein af hamingjusömustu þjóðum heims.  En ..... svo kemur þetta sígilda en .........  við lifum í sífellt lagskiptara og stéttskiptari þjóðfélagi.  Það eru margir sem koma ekki nálægt Heilsuþjóðfélaginu vegna efnahags, en þeir sem verða alltaf ríkari og ríkari þeir leika sér með skrokkinn sinn.  Þeir eiga hann mega  gera allt með hann. Fara til læknis í útlöndum, námskeið í útlöndum,  fá sitt d vítamín í Suðurlöndum. Á meðan aðrir fá gleðina með því að fara á góðan skyndibitastað með glás af hitaeiningum.  Það skapar líka gleði.   

Já, lesandi góður, það er komið nýtt ár, ef þú færð
smásamviskubit yfir heilsueyðslunni, gefurðu bara í Rauða Krossinn eða Hjálparstofnun kirkjunnar. Þetta eru auðvitað þínir peningar eða þínar skuldir.     

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Góð mynd: American Hustle, svindl og græðgi

Ætla að reyna að taka mig á og sjá eitthvað af góðum myndum í bíó en aldrei þessu vant er mikið af þeim um þessar
mundir.  Svo sagði mér einhver að frönsk kvikmyndavika væri að byrja bráðum.  
Ég byrjaði á American Hustle sem er ein af myndum sem nefnd hefur verið í sambandi við Óskar í ár og hún fékk 3 Golden Globe verðlaun núna í vikunni.Hustle þýðir brask eða svindl, það er líka vel við hæfi að nefna myndina American Hustle, því það er fjallað um svindl; í mannlegum samskiptum, í fjármálum, stjórnmálum og svo framvegis.  Það er athyglisvert að tvær myndir sem hafa vakið mikla athygli og fjalla um fjármálaspillingu hafa náð huga almennings um þessar mundir, hin myndin er  Wolf of Wall Street sem Martin Scorsese leikstýrir, sem er víst hrikaleg lýsing á græðgi og ólifnaði peningamanna fyrir Hrunið. Það sannast vel að margur verður af aurum api.  Það má benda á að þessar myndir hafa fengið helmingi meiri aðsókn í Norður-Ameríku en mynd Íslandsvinarins Ben Stillers The Secret Life of Walter Mitty, sem er endurgerð á mynd Danny Kays sem sýnd var í Tjarnarbíó fyrir rúmlega hálfri öld sem ég sá.  En á Íslandi held ég að Stiller vinni aðsóknarsamkeppnina það voru ansi fleiri að fara að sjá hana í Kringlunni í dag klukkan sex. 

En þá er kominn tími til að minnast á myndina sem ég sá, Amerískt Svindl.  Söguþráðurinn er flókinn til að endursegja hann og svo er gott að vita ekki mikið.... Þetta er ansi mögnuð mynd, hún heldur manni föstum allan tímann, tvo og hálfan tíma.  Þó byggist myndin fyrst og fremst upp af samtölum, en handritið er svo vel gert, samskipti persónanna svo trúverðug, það eru allur skali mannlegra tilfinninga, sorg, reiði, gleði og grín, en David O Russell leikstjórinn skrifar handritið með tveimur öðrum. Og leikurinn, drottinn minn dýri, hann var ótrúlegur, ansi margar persónur og mikil átök andleg aðallega.  Russell er þekktur fyrir stjórn sína á leikurum og nota sömu leikara aftur og aftur.  Hér eru það, Christian Bale, sem eru óþekkjanlegur frá fyrri myndum, virðist hafa bætt á sig tugum kílóa, Bradley Cooper, Amy Adams, Jeremy Renner og Jennifer Lawrence, öll eru þau frábær. Svo bregður Robert De Niro fyrir í smáhlutverki Mafíustjóra. Dregin er upp skemmtilega ýkt mynd af vestrænni menningu og tónlist rétt fyrir 1980.   Myndir er djörf, stundum óþægileg, kemur við mann, og mörg atriði sitja í minninu.  

Ég hef ekki séð margar myndir Russells, ég sá Three Kings, áleitna mynd um Írak stríðið fyrir mörgum árum en það er öruggt að ég þarf að sjá fleiri, The Fighter, Silver Lining Playbook.