föstudagur, 31. janúar 2014

Bókmenntaverðlaun: Listamenn sem þora og geta

Satt að segja var ég hreykinn af því fólki sem stóð með verðlaunagripi í höndunum í gær á Bessastöðum.  Andri Snær Magnason, Sjón og Guðbjörg Kristjánsdóttir. Þessi þrjú mynda eina heild. Við höfum umhverfissinna og baráttumann sem hefur náð til breiðs hóps lesenda á
öllum aldri, svo er það Sjón, mannréttindafrömuður og talsmaður utangarðsmanna. Svo er Guðbjörg, fulltrúi þess fólks sem vinnur að viðhalda og auka lendur og víðerni  íslenskrar menningar fyrri alda.  

Ræðurnar þeirra sýndu þessa stöðu þeirra, það hefði verið gaman að hafa ræður þeirra til að vitna í en ekki hef ég fundið þær á netinu.  Andri Snær talaði um þá þversögn að þurfa að vinna að ritstörfum á tímum þegar þeirra hlutverk er frekar að vera í baráttu fyrir umhverfi og betra mannlífi. Hann tók meira að segja dæmi vorra daga, Þjórsárver, Gálgahraun og pólitíska ráðningu í útvarpsráð þar sem einum helsta menningarfrömuði landsins er sparkað út til að koma flokksgæðingi framsóknarflokksins inn.  Það var gott að hann gerði það á þessum stað á Bessastöðum, staðnum þar sem æðsti fulltrúi kosinn af þjóðarinnar ætti að sitja og hlúa að menningu og betra mannlífi.  Sjón talaði um stöðu utangarðsmanna, samkynhneigðs fólks sem oft þurfti að lifa við aðstæður sem hlutu með tímanum að naga í sundur hjartaræturnar, nefndi þá sem höfðu gert þessa bók mögulega, Elías Mar og Alfreð Flóka og tileinkaði hana frænda sínum Sævari Geirdal sem dó úr alnæmi.  .  Guðbjörg ræddi um þetta einstaka verk sem við eigum, Teiknibókina, þetta verk sem ég heyrði aldrei minnst á í háskólanámi í íslensku. Sem á fyllilega að verða þekkt um okkar menningarsvæði þar sem það er eina sinnar tegundar á Norðurlöndum.  

Satt að segja varð ég hugsi eftir að hafa hlustað á þessa athöfn.  Hvað þetta fólk okkar er sterkt. Það lifir í samfélagi þar  sem það sætir stöðugt gagnrýni að stunda sína köllun. Þar sem fólk heldur að listamenn séu afætur á þjóðfélaginu sem murka peninga af okkur hinum launafólkinu.  Þótt maður viti annað, vonandi boða okkar tímar að listamenn taki kraftmeiri þátt í þjóðmálaumræðu.  Það hefur heldur hallað á það seinni árin, þótt ég sé ekki að tala um alla. Við eigum svo kraftmikla sveit lista, vísinda og menningarfólks.  Gott væri ef við gætum sagt það sama um ráðamenn sem nú sitja við völd.




fimmtudagur, 30. janúar 2014

Sotji: Olympíuleikar í skugga spillingar og harðræðis

Það er erfitt að horfa upp á Olympíuleika í skugga einræðis og kúgunar.  Það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist núna í Sotji í Rússlandi. En við höfum aðgang að betri upplýsingum í dag
en áður, við fáum fréttir um framferði spillingargossa sem hirða til sín milljarða í skjóli Pútins forseta.  Ég horfði á rannsóknarblaða- mennskuþáttinn Uppdrag Granskning í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi.  Tveir sænskir fréttamenn fóru til Sotji, fóru í opinberar sýningar Rússa þar sem sýndar voru glæsibyggingarnar, vegir og járnbrautir sem komið hefur verið upp fyrir meira fé en allir aðrir Vetrarolympíuleikarar hafa kostað frá 1980. En þeir gerðu meira, þeir náðu sambandi bæði við Rússa og Farandverkamenn sem hafa þrælað 12 tíma í dag við að byggja upp þessi mannvirki.  

En sjá hvað gerist, þeir fengu fyrstu launagreiðslu og síðan ekki söguna meir.  Þá virðast undirverktakar nota sér það 
með stuðningi yfirvalda að sleppa við launagreiðslur og hirða þær í eigin vasa.  Rússi sem gekk lengst í því að heimta launin sín var tekinn í yfirheyrslu og pyndingar, ásakaður um að hafa stolið rafmagnsgræjum, honum var misþyrmt á alla vegur og meira að segja var stungið járnröri upp í rassboruna á honum.  Hann hefur síðan verið miður sín, andlega og líkamlega, og þótt þingmenn í rússneska þinginu hafi tekið hans mál upp hefur það ekkert dugað.   Farandverkamenn frá nágrannaríkjum Rússlands í suðri og austri hafa fjölmennt í tugum þúsunda til að fá sér vinnu þarna, þeir fengu ekki launin sín og voru síðan sendir heim, án launa og Borgarstjórinn í Sotji flutti ræðu í sjónvarpinu þar sem hann sagði að þetta fólk væri að misnota sér aðstöðu sína og ætluðu að trufla leikana þess vegna hefur þeim verið smalað upp í flugvélar og sendir úr landi. 

Rætt var við æðsta forystumann Svía í Olympíusambandinu. Hún var á móti því upphaflega að halda leikana í Rússlandi og Olympíusambandið hefur gert kröfur á hendur rússneskum yfirvöldum að greiða launin en lítið virðist verða úr efndum.Enda verkamennirnir farnir heim til sín þar sem þeir búa við fátækt og eymd.

Erlendir fjölmiðlar hafa sagt frá því hvernig karlar, gamlir vinir og kunningjar Pútíns hafa fengið stærstu verkefnin í Sotji, öll verkefni hafa farið fram úr áætlun fyrir milljarða. Kostnaðurinn er óheyrilegur. En allt á að vera hið glæsilegast til að dásama hinn nýja alræðisherra, Pútin. 

Íþróttaráðherra Svía ætlar ekki að mæta við setningarathöfnina en ætlar að fylgjast með sínu fólki í keppninni.  Mér skilst að slíkt komi ekki til greina hjá íslenska ráðherranum, enda virðist það vera stefna stjórnarinnar að hafa sem mest og bezt samskipti við harðræðisstjórnir eins og í Rússlandi.   



miðvikudagur, 29. janúar 2014

Philip Glass: Hálffullt eða hálftómt ???

Það var gaman að fara á tónleikana í gærkvöldi í Hörpunni.  Það var svo annað públikum en venjulega er á klassískum tónleikum.  Ungt fólk, boðsgestir, maður sá einn og einn fastagest sinfoníunnar. Þeir voru ekki margir.  En fólk skemmti sér vel, þrátt fyrir að erfitt sé að hlusta á 20 etýður í stíl sem oft virðist vera svo keimlíkur.  En býr yfir ýmsu þegar nánar er hlustað á. Er oft í hugleiðslustíl, austurlensk áhrif, Búddismi. 

Eflaust komu margir vegna góðrar auglýsingamennsku og viðtölum við Glass í fjölmiðlum.  Hann virðist vera ansi geðþekkur maður.  Engir stórstjörnustælar. Þótt líklega sé hann einn mest seldi lifandi tónlistarmaður nútímatónlistar.  Hann hefur auðþekkjanlegan stíl, alla vega heyri ég alltaf hver það er þegar hans tónlist er spiluð í fjölmiðlum.  Ef þið viljið hlusta á hann þá eru verk eins og The Hours (kvikmyndatónlistin), Fiðlukonsert, Book of Longing, með söng og taltextum Leonards Cohen, Einstein on the Beach, ópera, Kundun, kvikmyndatónlist við mynd Martin Scorseces, Heroes sinfonía byggð á stefjum Bowies og Enos við samnefndan disk, Metamorphosis, píanótónlist, svo ég nefni eitthvað sem ég hef heyrt og séð.  

Hann, Víkingur Heiðar okkar og Maki, bráðmyndarleg japönsk kona,  skiptust á að spila etýður, tvö píanó voru á sviðinu, Glass spilaði alltaf á það sama, hin skiptust á.  Glass var auðsjáanlega lakastur þeirra í spilamennskunni, enda 78 ára gamall, hinu voru afbragðsgóð, og margar etýðurnar voru hugljúfar stundum, svo voru óvenjukraftmiklir kaflar á milli.  Svo fjölbreytnin var meiri en ég bjóst við. Seinasta etýðan var gríðarfalleg þar sem hann fetar nýjar slóðir, miðað við hinar. 

Svo ég skemmti mér vel, áhorfendum virtist ekki leiðast, fögnuður mikill í lokin.  Og nú hefur maður séð Philip Glass lifandi.  Svo er spurningin hvort glasið var hálffullt eða hálftómt.  Hver dæmir fyrir sig.  Og sýpur á. 

þriðjudagur, 28. janúar 2014

Pete Seeger: Baráttumaður kveður

Einn af mestu áhrifavöldum alþýðutónlistar 20. aldarer látinn. Pete Seeger dó í gær 94 ára gamall.  Ég myndi nefna hann, Woody Guthrie og Alan Lomax sem þeir sem höfðu mest áhrif
og komu þjóðlagabyltingunni af stað á 6. áratugnum.  Seeger sem andi sem hafði áhrif á aðra og var síungur í anda allt fram á seinusta áratug. Guthrie sem lagasmiður og Alan Lomax sem safnari, Pete vann fyrir hann á unga aldri í söfnun, þar sem faðir hans og Lomax voru vinir.  Hann var sístarfandi í mannréttindamálum, friðarmálum og umhverfismálum.  Margir þekkja lög sem hann er höfundur eða meðhöfundur að: 
Dylan kynslóðin og Greenwich Village hópurinn sungu þessi lög og önnur. sem dregin voru fram í söfnun Lomax. Peter, Paul and Mary og Kingston tríóið komu þeim til almennings.  Leadbelly kom þar við sögu, lagið hans Goodnight Irene, var sungið af Weavers þjóðlagagrúppunni frægu sem Seeger starfaði í.  Þetta lag komst meira segja til Íslands í byrjun 6. áratugs.  Pabbi minn söng það oft þegar hann dró gítarinn fram yfir glasi.   Svo var annað frægt (alræmt) lag sem kom við sögu Petes: Wimoweh , The lions sleeps tonight. Sem var kynnt fyrst sem þjóðlag frá Suður-Afríku þótt það væri frumsamið af fátækum söngvara þaðan. Það er bara seinustu árin sem fjölskylda hans hefur fengið eitthvað úr milljóna stefgjöldum lagsins.  

Pete Seeger var sístarfandi að baráttumálum sínum, hann lenti að sjálfsögðu í Maccarthyismanum, Weavers var bannað að koma fram í nokkur ár.  En hann lét aldrei bugast, brátt var hann kominn aftur í upprisu blökkumanna á 7.. áratugnum og umhverfismálin urðu honum æ meira brennandi og seinast var mynd af honum á  Ocuppy Wall street mótmælunum. 



Þetta er mín mynd af Seeger, með banjóið sitt, og baráttuandann í hvunndagsfötunum!! 


Þarna tekur hann lagið með Bruce Springsteen við innsetningu Obamas, þá höfu menn einhverja von um merkan leiðtoga í Hvíta húsið  ..... 


Þessi mynd er af konsert á 90 ára afmælis hans.  þarna er Springsteen og spúsa, Joan Baes og lengst til vinstri er Arlo Guthrie sem við á sjöunda áratugnum þekkjum svo vel, Woodstock, Alices Restaurant. .  
 Mótmæli gegn Wall Strreet og fjármálaspillingu 

sunnudagur, 26. janúar 2014

Gísli Marteinn, Elín, Bogi, Þórður Snær, Egill,Katrín og Magnús

Ég leyfði mér undanþágu í morgun og horfði á sjónvarp fyrir hádegi, Kíkti á Gísla Marteins Show.  Vil vera í ró og næði á sunnudagsmorgnum, þoli ekki geðshræringu og sálarstríð svo snemma dags. En ég horfði á þessa rólyndu stjórnmálaumræðu.  Þarna sátu Þórður Snær, Elín Hirst og Bogi Ágústs og ræddu dægurþrasið.  Svo voru Egill og Katrín Odds leidd fram að ræða Hrunið með stórum staf.  Þá var komið nóg hjá mér.  Ætli ég þurfi nokkuð að horfa á fleiri þætti.  Þetta er ekki óhefðbundinn þáttur ef ég nota uppáhaldsorð landans nú um stundir.  

Fordómar mínir, hugmyndir og skoðanir sönnuðust vel þennan morgun.  Mér er frekar vel við Gísla Martein, ég sat einu sinni nálægt honum á kaffihúsi og heyrði umræðu hans við kunningja, allt var til þess að mér finnst hann viðkunnanlegur karl.  En hann er enginn leiftrandi þáttastjórnandi.  Vantar einhvern innri mátt til að kveikja í umhverfinu.  Svo það er fólkið sem hann velur sem á að segja til hvernig þátturinn verður.   

Ég verð alltaf miður mín þegar Elín Hirst tjáir sig, hún var svo ánægð með xD jafnvel þegar búið var að ræða um að flokkurinn væri með allra minnsta fylgi sem hann hefði haft.  Þá talaði hún um hversu vel gengi um þessar mundir.  Svo ég held áfram að verða miður mín. Það er merkilegt hvað hún á gott aðgengi að fjölmiðlum.  Og þó það er ekkert skrítið.  

Þórður Snær og Bogi eru báðir viðkunnanlegir karlar.  Það er gaman að heyra í frjálslyndum Sjálfstæðismanni sem þorir að vera frjálslyndur eins og Bogi, þegar allt á hægri vængnum gengur út á að kúga og halda niðri skoðunum fólks, blá hönd Davíðs gerir allt óhugnanlega dapurlegt.   

Þórður Snær hefur komið feiknavel inn í fjölmiðlaheiminn með Kjarnann.  Þó vantar meira menningarefni í fjölmiðilinn. Og pólitísk umræða er of Samfylkingarlituð. Svo væri skemmtilegt að hafa eitt almennilegt viðtal þar sem almennileg skoðanaskipi eiga sér stað, beittar spurningar og engin linkind.  

 Umræðan um Hrunið, var svona eins og maður bjóst við.  Egill var of litaður í framsóknarlitum, alhæfingar hans um vinstri stjórnina sálugu eru oft þreytandi.  Katrín Odds er viðkunnanleg kona sem hefur þroskast frá því fyrir 5 árum.   Þegar ég hlustaði á hana flytja ræðu á Austurvelli í hálfgerðum Einars Olgeirs stíl.   Ég held að hún yrði góður stjórnmálamaður, hún hefur góða yfirsýn og er eldhugi með hjartað á réttum stað. 

Magnús Scheving kom svo í heimsókn, það var gaman á Húnavöllum fyrir 14 árum þegar hann kom í heimsókn í skólann og tók prógramm með  krökkunum í skólanum.  Þá var fjör, hann á gott með að ná sambandi við ungt fólk.  Mér er líka vel við hann því ég vann með afa hans fyrir 51 ári, það var merkilegur karl.  Blessuð sé minning hans.  

Svo  ég er búinn að hlusta á Gísla Martein, ég held að ég kveiki ekki oft á sjónvarpinu á sunnudagsmorgnum.  Útiloka ekki þó að gera það ef einhverjir virkilega spes eru í heimsókn hjá honum.   Ég á enn erfitt að fyrirgefa GM það að fá Sinead í heimsókn og fá hana ekki til að syngja eitt lag. John Grant er allt í lagi en hann er engin O´Connor.

                                             Sumar ó sumar hvar ert þú? 



laugardagur, 25. janúar 2014

Sri Lanka: Enn veldur Forsetinn hjartasviða

Enn veldur Forsetinn okkar hjartasviða, enn eru það mannréttindabrjótar og ofbeldisherrar sem eru viðhlæjendur  hans. Ríkísstjórnin afsalar sér málaflokki utanríkismála.   Nú er það forseti Sri Lanka:

Á heimasíðu hans var farið fáum orðum um fund þeirra Rajapaksa og Ólafs, 


Forseti Sri Lanka


Forseti á fund með Mahinda Rajapaksa, forseta Sri Lanka, sem einnig sækir alþjóðaþing um hreina orku og vatnsbúskap í Abu Dhabi. Á fundinum var rætt um alþjóðlegt samstarfsverkefni sem byggt verður á reynslu og kunnáttu Íslendinga við þurrkun sjávarfangs. Forseti Sri Lanka var áður sjávarútvegsráðherra og heimsótti þá Ísland til að kynna sér veiðar og vinnslu sem og starfsemi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum gerði forseti Sri Lanka einnig grein fyrir þeim vandamálum sem við er að glíma í kjölfar vopnaðra átaka sem um áraraðir geisuðu í norðurhluta landsins.

Forsetaembættið í Sri Lanka segir frá fundinum: 

Sri Lanka has made a remarkable transformation – Iceland President
“Sri Lanka has made a remarkable transformation since the end of the conflict,” President of Iceland Ólafur Ragnar Grímsson told President Mahinda Rajapaksa during a conversation yesterday. “More time is needed to address remaining issues. Setting time frames does not yield results.”

The President of Iceland made these comments during a bilateral discussion that took place this afternoon at the Emirates Palace Hotel with President Rajapaksa who was in Abu Dhabi for a one-day visit to the United Arab Emirates (UAE). President Grímsson, recalling his two previous meetings with President Rajapaksa, said he is pleased to meet the Sri Lanka President again.

“My thinking is that we should enhance relations between the two countries,” the Icelandic President said while proposing to initiate projects on a commercial basis in the fields of fishing, meat processing and fruit production. These products have good markets in 50 to 60 countries, he pointed out. Iceland is now equipped with the latest technologies in these sectors, enabling the country to preserve fish, meat and fruit, he further said.

President Rajapaksa, while acknowledging President Grímsson’s proposal to enhance bilateral relations between the two countries, apprised the Iceland President of the progress made by Sri Lanka since the end of the war four years ago.

“Demining has been completed,” President Rajapaksa said. “We have resettled around 300,000 internally displaced persons. Around 11,000 former combatants have been reintegrated back into the society following rehabilitation. We also have handed over around 2,000 child soldiers to their parents.”

Major infrastructure development is taking place in the areas of road development, the healthcare sector, water supply systems, electricity generation and the education sector, President Rajapaksa further said. People in the North were given the opportunity to elect their own representatives through Provincial Council elections. However, certain elements who fail to see the reality is exerting unfair pressure on Sri Lanka, the President said. “We can overcome challenges. But external pressure is a hurdle,” President Rajapaksa added.

Monitoring MP of the Ministry of External Affairs Mr. Sajin de Vass Gunawardena also participated in the discussion.

Skrítið þetta með ávextina...... 

Betur var sagt frá samskiptum þeirra á Eyjunni : 

Á vef varnarmálaráðuneytisins í Sri Lanka er að finna ítarlegri frásögn af fundi forsetanna. Hefst hún á tilvitnun í forseta Íslands sem segir að „undraverðar umbætur“ hafi orðið á Sri Lanka frá lokum átakanna. Þá hafi forsetinn hvatt til þess að auka ætti samskiptinn á milli ríkjanna og lagt til verkefni á sviði sjávarútvegs, kjötvinnslu og ávaxtaframleiðslu, þar sem Ísland hafi mikið til málanna að leggja.

Á alþjóðavettvangi er ríkisstjórn Rajapaksa (hvernig ætli Gunnar Bragi beri þetta nafn fram) þekktari fyrir annað en undraverðar umbætur, Ásakanir um fjöldamorð í lok átaka við minnihluta Tamíla, spillingu og ofbeldi, nepótismi allsráðandi .  Tvær heimildarmyndir hafa sýnt fram á morðin í lok átakanna   Sri Lanka's Killing Fields,  og  No Fire Zone. Ástandið er óhugnanlegt : 

Það hefur verið fjöldi, sumir segja hundruð, mannrána. Blaðamönnum er kerfisbundið ógnað. Verkalýðsleiðtogar og mannréttindafrömuðir fá reglulega „aðvaranir“ eða eru beittir ofbeldi. Stjórnarskránni hefur verið breytt svo að Rajapaksa fái þriðja kjörtímabilið. Tugir ættingja hans gegna opinberum embættum og ráða yfir, samkvæmt einni áætlun, nærri helmingi ríkisútgjalda. Verið er að undirbúa son hans fyrir að taka við af honum í embætti. Það eru margháttaðar ásakanir um spillingu og aukningu ofbeldis gagnvart minnihlutahópum,

Auðvitað koma svo Kínverjar til bjargar þessari óbjörgulegu stjórn með gríðarlegar framkvæmdir: 

Vestræn ríki hafa á liðnum árum dregið umtalsvert úr þróunaraðstoð vegna ástands mannrétttindamála. Rajapaksa snéri sér þá að Kínverjum sem hafa fjármagnað risavaxnar framkvæmdir í landinu, meðal annars nýjan alþjóðaflugvöll, ráðstefnuhöll, 35 þúsund manna krikketleikvang og 1,5 milljarða dollara höfn í Hambantota.

Við sem fylgjumst með mannréttindamálum verðum að spyrja Utanríkisráðherra, hver er stefna ríkisstjórnar í þessum málum.  Er það Forsetinn sem ríkir eða meirihlutaríkisstjórn? Hver er afstaða hennar til mannréttindabrota og fjöldamorða á Sri Lanka?



föstudagur, 24. janúar 2014

Víkingur Heiðar sló í gegn, enn og aftur.

Það eru ekki margir listamenn sem komast í þann hóp að verða ástsælir, listamenn sem flestir þekkja og meta. Þar eru
nokkrir, ekki margir þó í klassíkinni.  Sigrún Eðvalds, Bryndís Halla, Garðar Cortes, Jón Nordal, Atli Heimir. Megas, Maggi Eiríks, Gunnar Þórðar, Siggi Flosa og Bubbi í hryntónlistinni.  Við höfum séð einn flytjast upp og bætast við þann hóp.  Víkingur Heiðar Ólafsson. Þrátt fyrir ungan aldur.   Hann sannaði það enn og aftur í gærkvöldi.  Það eru ekki margir klassískir listamenn íslenskir sem fylla Hörpuna tvisvar.  

Hann hefur náð frábærri leikni á píanó, hann er einlægur, allt að því vandræðalegur á sviðinu, gengur inn með hendurnar í vösum.  En þegar hann er sestur við píanóið er einbeitingin algjör, hann fylgist með hljómsveitinni og stjóranum, sveiflar höfðinu eftir taktinum.  Hann er engum líkur.  

Þannig var það í gærkvöldi í Píanókonsert númer 1 eftir Brahms. Þetta er firnaerfitt verk að spila.  En það er svo fallegt og kraftmikið fyrir okkur áhorfendur.  Streymir fram eins og stjórfljót með litlum þverám.  Annar þátturinn var svo fallegur, maður var hrærður. 

Hljómsveitin var líka fín, öll verk vel flutt.  Schubert sjötta sinfonían, létt og leiftrandi, Enesco, algjört þjóðlagapopp.  Það var mikil gleði og kátína hjá hljómsveitagestum eftir tónleikana. Þarna voru ráðherrar, þingmenn, embættismenn, kennarar, tónlistarmenn, rithöfundar, eftirlaunaþegar, svo eitthvað sé talið.  
 Það er ekki létt verka að klífa á toppinn. 


Víkingur sló í gegn, enn og aftur. 

fimmtudagur, 23. janúar 2014

Gjaldþrot Verkalýðsforystu

Þeir eru sárir verkalýðstopparnir í fílabeinsturnunum allir sáu hvernig úrslitin yrðu í kosningum um kjarasamninga nema 
þeir.  Þeir hafa of lengi eingöngu umgengist SA og kó.  Þeir eru svo vanir að fá sér einn með þeim á börum bæjarins eftir sáttahrinur.  Mesti andstæðingur Gylfa var Vinstri stjórnin.  Aðalatriðið var að slást við Jóhönnum og Steingrím og láta þau líta sem verst út. Enda tókst það. 

Svo situr Verkalýðsforystan uppi með hina drengilegu og óspilltu stjórn Sigmundar Davíðs, Bjarna og Ólafs.  Ætlast til að ríkisstjórnin útvegi kjarasamninga svona einn tveir og þrír.  Það virðist ekki vera hlutverk ASÍ að sækja kjarasamninga hand sínu fólki.  Og margir launamenn eru búnir að fá nóg. Svo Gylfi stendur frammi á bjargbrúninni og horfir ofan í hyldýpið. Vinir hans í SA horfnir auðvitað búnir að samþykkja samningana 98% að sjálfsögðu og hlæja að vandræðagangi hálaunayfirstéttarinnar. Greyin, Vilhjálmur Birgisson nartar í hælana á þeim . 

Enginn Indiana Jones til bjargar.Enginn viti til að lýsa leiðina heim aftur.  


miðvikudagur, 22. janúar 2014

Harpa: Sellósvítur Bachs, Brahms og Glass á Íslandi!!!

Fór á frábæra tónleika Kammermúsíkklúbbsins á sunnudagskvöldið í Hörpu.  Bryndís Halla Gylfadóttir lék 3
cellósvítur J.S.Bachs, nr. 1,2 og 6.  Flutningurinn var satt að segja frábær gaf ekkert eftir heimsstjörnum sem spila þetta verk, allt frá því að Pablo Casals kom þessum verkum á kortið á fyrri hluta seinustu aldar. Bryndís Halla ætlar að spila hinar 3 næsta vetur hjá Kammermúsíkklúbbnum nr. 3,4 og 5.  

Ekki get ég gert upp á milli þessara þriggja sem ég hlustaði á ásamt 330 öðrum gestum í Norðurljósum. Þó fannst mér sú sjötta alveg mögnuð, þar er Bach orðinn kröfuharðari við uppbyggingu og kröfurnar á spilarann eru ótrúlegar . Þeir sem vilja fræðast nánar um svíturnar geta gert það hér.  Og hér heyrum við Pablo Casals leika þær allar og hér sjáum við Mstislav Rostropovitch  leika þær allar. Svo er hægt að panta mjög skemmtilega bók um svíturnar, tilurð þeirra og örlög: 

The Cello Suites: In Search of a Baroque Masterpiece 

eftir Eric Siblin. Ég las hana fyrir nokkrum árum.  

Mikið er gaman fyrir okkur sem kunnum að njóta tónlistar að hafa fengið Hörpu.  Í þessari viku eru margir viðburðir á heimsmælikvarða.  Bryndís Halla að spila cellósvíturnar,
Víkingur Heiðar Ólafsson spilar 1. píanókonsert Brahms á fimmtudag og föstudag.  Og á þriðjudaginn kemur kemur sjálfur Philip Glass, eitt frægasta tónskáld seinustu áratuga, í heimsókn og spilar sjálfur ásamt Víkingi Heiðari og Japana Maki Namekawa að nafni, allar etýður hans fyrir píanó en þær eru 20. Hér er viðtal við Glass sem Einar Falur Ingólfsson tók og birtist í Morgunblaðinu.  Og næsta sumar er Wynton Marsalir, trompetistinn góði, væntanlegur.  Svo mætti lengi telja.  

Já lesendur góðir það eru hátíðir margar í lífi okkar bara ef við viljum njóta. Livet er ikke det værste man har om lidt er kaffen klar.  Þannig er það.    

þriðjudagur, 21. janúar 2014

Ríkisstjórnin skellur á hausinn í hálkunni

Hvað er að gerast myndi einhver spyrja sem les brot úr frétt í Fréttablaðinu í dag á bls. 8. hér að neðan  Við fengum nýja ríkisstjórn á seinasta ári sem lofaði okkur framkvæmdum og fjármagni frá útlöndum. Það væri fjöldi fyrirtækja sem vildu
fjárfesta hjá okkur en það væri þessi vinstri stjórn sem kæmi í veg fyrir það, hún stöðvaði allt !!!!!   En hver er raunin þegar upp er staðið???? 

Íslenska ríkið þarf að greiða 6,4% vexti af skuldabréfum á meðan þjóðir sem lentu í hruni greiða langtum minna sbr. Írland og Portúgal (1,8 og 3,8%). Vegna þvergirðingsháttar stjórnarinnar í samskiptum við alla utan landssteina.

Erlend fjármálarit dásama verk fyrri ríkisstjórnar: Í umfjöllun IFR er staðan sögð hafa verið afar vænleg fyrir Ísland fyrir tveimur árum. Þá hafi landið lokið efnahagsáætlun sinni með Alþjóðagjaldeyris- sjóðnum á undan áætlun og snúið aftur á alþjóðlegan verðbréfamarkað með vexti á milljarð dollara skuldabréf til fimm ára sem ekki voru nema fimm prósent, auk þess sem Icesave-deilan hafi verið að baki.

Já, lesendur góðir, þau eru mörg öfugmælin sem ég ræddi um í seinasta bloggi.  Sú ríkisstjórn sem nú situr ástundar hægri öfgastefnu sem er mjög sérstök, sambandsleysi við umheiminn, kærleikur við harðstjórnir, grunur um spillingu og óbilgirni í stjórnarháttum (sbr. Stóra MP málið, og Stóra Hönnu Birnu málið) . Það er
merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í slíkri stjórn.  Þar sem grundvallargildi þeirra eru fótum troðin.  Frelsi á sem flestum sviðum ( þótt ég taki ekki undir þá stefnu í einu og öllu).

Veruleikinn er oft flókinn.  Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eiga erfitt að fóta sig á þessum hálkuvetri.  Þeir skella oft á hausinn.  

--------------------------------------------------------- 

Ísland úti í kuldanum á fjármálamörkuðum
Óvissa vegna hnúts sem er á deilu íslenskra stjórnvalda og kröfuhafa föllnu bankanna um uppgjör kann að rýra kjör þau sem ríkinu bjóðast í erlendri skuldabréfaútgáfu. Meðan vextir á bréf Íra og Portúgala lækka hafa vaxtakjör Íslands versnað.
Efnahagsmál Ísland er úti í kuldanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á meðan peningar streyma aftur til annarra landa sem urðu illa úti í alþjóðlegu fjármálakreppunni.
Efnahagsmál
Ísland er úti í kuldanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á meðan peningar streyma aftur til annarra landa sem urðu illa úti í alþjóðlegu fjármálakreppunni.

Á þetta er bent í nýrri umfjöllun International Financing Review (IFS). Staða Íslands er borin saman við Írland, Portúgal og Grikkland. Hér er þróunin rakin til stjórnarskiptanna og ósveigjanleika stjórnvalda í viðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna.

"Fyrir um ári virtist sem þíða væri komin í deilu Íslands og kröfuhafa og samkomulag talið á næsta leiti," segir í umfjöllun IFS. "En kjör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem forsætisráðherra með
popúlísku
loforði um að lækka húsnæðisskuldir fólks, að hluta með því að leggja afturvirkan skatt á eignir föllnu bankanna, hefur blásið hita í deiluna á ný."

Bent er á að frá því að ný ríkisstjórn tók hér við völdum hafi vextir á fimm ára skuldabréf ríkisins farið úr 4,1% í 6,4% fyrr í þessum mánuði. "Á sama tíma hafa sambærileg kjör á írska ríkispappíra náð nýju lágmarki á evrusvæðinu frá því að Írland sneri aftur á fjármálamarkaði með 1,8% vöxtum. Og fimm ára vextir Portúgals, sem einnig hefur sótt sér fé á markaði á ný, hafa farið niður í 3,8%."

Í umfjöllun IFR er staðan sögð hafa verið afar vænleg fyrir Ísland fyrir tveimur árum. Þá hafi landið lokið efnahagsáætlun sinni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á undan áætlun og snúið aftur á alþjóðlegan verðbréfamarkað með vexti á milljarð dollara skuldabréf til fimm ára sem ekki voru nema fimm prósent, auk þess sem Icesave-deilan hafi verið að baki.

Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir erfitt að
fullyrða um hvaða þættir hafi áhrif á kjörin sem ríkinu bjóðast í skuldabréfaútgáfu erlendis. Líklega hafi öll óvissa mest áhrif í þeim efnum
.

"Vissulega er óvissa tengd þessari aðgerð að skattleggja þrotabú bankanna, sumir telja þá leið færa og aðrir ekki," bendir hún á. Eins kunni að spila inn í áhyggjur af því að fyrirhuguð skuldaniðurfelling lengi í gjaldeyrishöftunum. "Þannig að mögulega er verið að horfa til þess líka."
olikr@frettabladid.is





mánudagur, 20. janúar 2014

Ríkisstjórn: Öfugmælasmiðirnir högu

Það er margt skrítið að gerast hjá nýju valdhöfunum; 
Frískuldamark fjármálafyrirtækja eru sett svona út í loftið.  En koma samt til góða banka sem
er óþægilega mikið tengdur forsætisráðherra og hans nánasta hring.  

Ríkisstjórnin mun vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og öðrum þjóðum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar. Ísland hefur sérstöðu í umhverfismálum í krafti ósnortinnar náttúru og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda. Sú ímynd er auðlind í sjálfri sér. Unnið verður að því að styrkja þá ímynd og grundvöll hennar, að vernda íslenska náttúru og efla landgræðslu og skógrækt þar sem það á við.

Annar flokkurinn virðist ætla að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aframhald aðildarviðræðna þrátt fyrir loforð i aðdraganda kosninga. 

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Utanríkisráðherra finnst eðlilegra að hafa náin samskipti við spillingar- og einræðisríki þar sem Kína og Rússland eru fremst í flokki heldur en lýðræðisríki Vesturlanda.  Að því er virðist í umboði Forseta og Forsætisráðherra og Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. 

Áratugs vinna að umhverfismálum er fótum troðin og gerð að engu, þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar í stjórnarsáttmála.  Rammaáætlun lögð til hliðar, friðlýsingarvinna jörðuð og gerð að engu. Allt með fákunnáttu og vanþekkingu sem leiðarljós.  

Menningar - og vísindavinna einskis metin þrátt fyrir skýrslur og þekkingu okkar um það hversu miklu þetta skilar í okkar þjóðarbú. 

Sumum finnst þessi upptalning einhverjar ýkjur en þeir sem nenna að skoða í gögnum það sem er að gerast munu komast að því að þetta er rétt.  Því miður.   

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hér að neðan úr stjórnarsáttmálanum (og aðrar ekki feitletraðar í þessum texta) eigum við svo langt í land að eiga einhvern samjöfnuð við Norðurlandaþjóðirnar.  Enda er enginn áhugi á því hjá þeim sem tala um „svokallað hrun" og vilja eingöngu hlúa að yfirstétt landsins sem á okkur öll og vill nota okkur sem ódýrt vinnuafl. Það er öfugmæli í munni þessara valdhafa að Samfélags sé samvinnuverkefni. 

Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur. Mikilvægt er að hlúð sé að þeim sem þurfa á aðstoð að halda og jafnframt að fólk fái notið árangurs erfiðis síns og hugkvæmni. Aldraðir skulu njóta öryggis og velferðar og öllum skal tryggð hlutdeild í þeirri verðmætasköpun sem Ísland og íslenska þjóðin getur af sér.

Þessi á nú betur við : 

Í eld er best að ausa snjó,
eykst hans log við þetta,
gott er að hafa gler í skó
þá gengið er í kletta. 


föstudagur, 17. janúar 2014

Heilsufíkn: Allt blómstrar á nýju ári

Þar er ekkert sem breytist.  Nú er jólahátíð óhófs og ofáts búin og þá er að setja sig í heilsugírinn.  Það er dásamlegt að lesa miðjukálfa blaðanna og skoða heilsíðuauglýsingarnar og
fjórblöðungana.  Nú á allt að verða betra á nýju ári.  Lesa viðtöl við annálaða heilsuspekinga svo kemur öðru hverju, ég er að byrja með nýja hópa núna í jóga og hollu mataræði.  Ég er í þessum þætti í sjónvarpinu.  Og allt eigum við að borga, ekkert er ókeypis, hvorki námskeiðsgjöldin eða áskriftirnar.   

Það er magnesium og kísill sem blívur.  Hann doktor X hefur þetta allt á hreinu við höfum verið á sama reiki og hann lengi. Heilsubúðirnar fullar af úrvalsvörum.  Þó að einhver læknir segir að þetta sé rugl, við séum full af magnesium af því að borða góðan daglegan mat þá látum við ekki okkar segjast.  Því þetta er líka gaman, spennandi að upplifa eitthvað nýtt. Nú þarf ég að dansa inn í hráfæðið.  Ég vissi af konu sem mætti alltaf með kálið sitt í öll matarboð, hún var ekki í samneyslu, nei.  En þetta einkennir okkar samfélag, við eigum að velja sjálf, það er svo fátt sem við eigum að gera saman, ekki einu sinni borða. Þetta er orðin fíkn, heilsufíkn.  Bráðum þurfum við námskeið og stofnanir gegn henni.  Að frelsa fólk frá heilsufæðinu.  Tólfsporakerfið; Ég heiti Erling, ég er Heilsufíkill.  

Erum við svo hamingjusamari, líður okkur betur?  Samkvæmt skoðanakönnunum erum við ein af hamingjusömustu þjóðum heims.  En ..... svo kemur þetta sígilda en .........  við lifum í sífellt lagskiptara og stéttskiptari þjóðfélagi.  Það eru margir sem koma ekki nálægt Heilsuþjóðfélaginu vegna efnahags, en þeir sem verða alltaf ríkari og ríkari þeir leika sér með skrokkinn sinn.  Þeir eiga hann mega  gera allt með hann. Fara til læknis í útlöndum, námskeið í útlöndum,  fá sitt d vítamín í Suðurlöndum. Á meðan aðrir fá gleðina með því að fara á góðan skyndibitastað með glás af hitaeiningum.  Það skapar líka gleði.   

Já, lesandi góður, það er komið nýtt ár, ef þú færð
smásamviskubit yfir heilsueyðslunni, gefurðu bara í Rauða Krossinn eða Hjálparstofnun kirkjunnar. Þetta eru auðvitað þínir peningar eða þínar skuldir.     

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Góð mynd: American Hustle, svindl og græðgi

Ætla að reyna að taka mig á og sjá eitthvað af góðum myndum í bíó en aldrei þessu vant er mikið af þeim um þessar
mundir.  Svo sagði mér einhver að frönsk kvikmyndavika væri að byrja bráðum.  
Ég byrjaði á American Hustle sem er ein af myndum sem nefnd hefur verið í sambandi við Óskar í ár og hún fékk 3 Golden Globe verðlaun núna í vikunni.Hustle þýðir brask eða svindl, það er líka vel við hæfi að nefna myndina American Hustle, því það er fjallað um svindl; í mannlegum samskiptum, í fjármálum, stjórnmálum og svo framvegis.  Það er athyglisvert að tvær myndir sem hafa vakið mikla athygli og fjalla um fjármálaspillingu hafa náð huga almennings um þessar mundir, hin myndin er  Wolf of Wall Street sem Martin Scorsese leikstýrir, sem er víst hrikaleg lýsing á græðgi og ólifnaði peningamanna fyrir Hrunið. Það sannast vel að margur verður af aurum api.  Það má benda á að þessar myndir hafa fengið helmingi meiri aðsókn í Norður-Ameríku en mynd Íslandsvinarins Ben Stillers The Secret Life of Walter Mitty, sem er endurgerð á mynd Danny Kays sem sýnd var í Tjarnarbíó fyrir rúmlega hálfri öld sem ég sá.  En á Íslandi held ég að Stiller vinni aðsóknarsamkeppnina það voru ansi fleiri að fara að sjá hana í Kringlunni í dag klukkan sex. 

En þá er kominn tími til að minnast á myndina sem ég sá, Amerískt Svindl.  Söguþráðurinn er flókinn til að endursegja hann og svo er gott að vita ekki mikið.... Þetta er ansi mögnuð mynd, hún heldur manni föstum allan tímann, tvo og hálfan tíma.  Þó byggist myndin fyrst og fremst upp af samtölum, en handritið er svo vel gert, samskipti persónanna svo trúverðug, það eru allur skali mannlegra tilfinninga, sorg, reiði, gleði og grín, en David O Russell leikstjórinn skrifar handritið með tveimur öðrum. Og leikurinn, drottinn minn dýri, hann var ótrúlegur, ansi margar persónur og mikil átök andleg aðallega.  Russell er þekktur fyrir stjórn sína á leikurum og nota sömu leikara aftur og aftur.  Hér eru það, Christian Bale, sem eru óþekkjanlegur frá fyrri myndum, virðist hafa bætt á sig tugum kílóa, Bradley Cooper, Amy Adams, Jeremy Renner og Jennifer Lawrence, öll eru þau frábær. Svo bregður Robert De Niro fyrir í smáhlutverki Mafíustjóra. Dregin er upp skemmtilega ýkt mynd af vestrænni menningu og tónlist rétt fyrir 1980.   Myndir er djörf, stundum óþægileg, kemur við mann, og mörg atriði sitja í minninu.  

Ég hef ekki séð margar myndir Russells, ég sá Three Kings, áleitna mynd um Írak stríðið fyrir mörgum árum en það er öruggt að ég þarf að sjá fleiri, The Fighter, Silver Lining Playbook.   

þriðjudagur, 14. janúar 2014

Þjóðaratkvæðagreiðslu um útvarpsstjóra

Það er einvalalið sem sækir um stöðu útvarpsstjóra Ríkisins.  ÉG held að það sé óhjákvæmilegt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mjög svo digra embætti.  Ég trúi ekki öðru en það verði undirskriftasöfnun um það að við fáum að hafa okkar seinasta orð um það við hlustendurnir. Ég trúi ekki öðru en Advice hópurinn snúi til baka og leiði okkur inn á rétta braut.  

Mér líst einna best á tvo aðila, Sigurð Árna Ásgeirsson en hann er ógleymanlegur landsmönnum fyrir málsókn sín gegn Britney Spears: „Það er alveg ljóst að Britney Spears stal plötutitlinum okkar,“ segir Sigurður Ásgeir Árnason, meðlimur sveitarinnar, í viðtali í Monitor. „Það kemur ekkert í veg fyrir málsókn á hendur Britney Spears,“ heldur Sigurður áfram. „Nafnið er okkar og konseptið er okkar.“ 
Svo og Hrafn Gunnlaugsson en ég held að landinn muni hann best sem höfund og leikstjóra Blóðrauðs sólarlags sem frumflutt var að sjálfsögðu í Ríkissjónvarpinu og það að hafa misþyrmt Bob Dylan á herfilegan hátt á gamlárskvöld með flutningi sínum á Mr. Tambourine Man með undirleik Stuðmanna í sjónvarpi allra landsmanna, gott ef hann var ekki dagskrárstjóri þá!!

Þjóðaratkvæðagreiðslu strax!!!!

Árni Thoroddsen
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri
Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri
Björn Þorláksson, ritstjóri og rithöfundur
Böðvar Ingi Aðalsteinsson, atvinnubílstjóri
Dana Rún Hákonardóttir, verkefnastjóri
Davíð Elvar Marinósson, ráðgjafi
Edda Björgvinsdóttir, leikari
Ester Sveinbjarnardóttir, verkefnastjóri
Filipe Carvalho, sölumaður
Fjölnir Már Baldursson, kvikmyndagerðamaður
Gauti Sigþórsson, lektor
Guðjón Pedersen, leikstjóri
Guðjón E. Hreinberg
Guðmundur Þór Sigurðsson
Gunnar Konráðsson, húsasmíðameistari
Hallur Guðmundsson, bókavörður
Helgi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri
Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur
Hrannar Már Gunnarsson, BA lögfræði
Íris Alma Vilbergsdóttir, almannatengill
Jón Ólafsson, aðstoðarrektor
Ketill Gauti Árnason, nemi
Kolbrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri
Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður
Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri
Magnús Sigurðsson, almannatengill í ferðaþjónustu
Maríanna Friðjónsdóttir, framkvæmdastjóri
Magnús Víðisson, sölumaður
Michael Jón Clarke, tónlistarmaður
Ólafur Páll Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður
Ólína Þorvarðardóttir, doktor í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði
Salvör Nordal, forstöðumaður
Sigurður Ásgeir Árnason, viðburðarstjóri
Stefán Jón Hafstein, sviðsstjóri
Sveinn Ívar Sigríksson, viðskiptafræðingur
Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur
Víðir Benediktsson, blikksmiður og skipstjóri
Þorgils Björgvinsson, tónlistarmaður

mánudagur, 13. janúar 2014

Sigurður Ingi: Ríkið það er ég

Sigurður Ingi notar þöggun og hótanir á sérfræðinga, ekki í fyrsta sinn,  fólk í faghópi á ekki að úttala sig um pólitík, og auðvitað er
það hans að skilgreina hvað er pólitík. Fagfólk má vera í pólitík, hann má það ekki.  En sorglegt. Ef maður lítur á stuttan ráðherraferil hans þá hefur enginn ráðherra í núverandi stjórn verið í meiri pólitík en hann.  

Það er hans að ákveða allt um afmarkanir svæða, hann þarf ekki að hafa samskipti við, sérfræðinga, vísindamenn, faghópa.  Hann er Valdamaður með stórum staf.  Ríkið það er ég sagði Lúvík 14.Minniháttar eða meiriháttar það ákveð ég.  
Mér finnst að það eigi að setja lög að dýrafræðingar fái bara að vera fjármálaráðherrar. 

Umhverfisráðherra segir að fagmenn sem unnið hafi fyrir verkefnisstjórn Rammaáætlunar sem skilað hafi af sér fyrir tveimur árum megi hafa sínar skoðanir á afmörkun Þjórsárvera. Hann sé ekki sammála og velti fyrir sér af hverju fagmenn megi vera pólitískir en ekki stjórnmálamenn.
Tíu sérfræðingar, sem voru í faghópi um náttúru og menningarminjar í öðrum áfanga Rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða, vísa á bug rökstuðningi Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra í umdeildri ákvörðun hans í desemberlok þar sem hann breytti tillögu um friðlýst svæði Þjórsárvera en breytingin gerir Norðlingaölduveitu mögulega.
Sérfræðingarnir mótmæla því að mörk friðlýsta svæðisins hafi ekki verið dregin skýrt í öðrum áfanga og að í afmörkun friðlandsins hafi verið gengið lengra en gert hafi verið ráð fyrir og að breyting ráðherra frá fyrri tillögu sem hann kynnti í desemberlok hafi verið minniháttar. 
Þessu er ráðherra ósammála. Hann segir að skoði menn hið núverandi friðlýsa svæði annars vegar, og síðan stækkunina sem um er að ræða, þá sé hún mjög minniháttar. Hann segir að þessir fagmenn hafi skilað vinnu sinni til verkefnisstjórnar sem sé ráðgefandi fyrir Alþingi en þingið taki svo ákvörðun. Það sé mat ráðuneytis og lögfræðinga þess og Umhverfisstofnunar að það sé ekki skýrt hver afmörkunin sé.
Sigurður Ingi segir að fagmenn sem unnu fyrir verkefnisstjórn og skiluðu af sér fyrir tveimur árum geti haft sínar skoðanir, það sé fullkomlega eðlilegt. En þeir fagmenn séu ekki í verkefnisstjórn þrjú, enda hafi þar ekki verið settir á laggirnar faghópar.  
„Ég hef velt því fyrir mér upp á síðkastið hver er munurinn á því ef að stjórnmálamenn mega ekki leggja pólitísk mat á neinar niðurstöður en fagmenn hafi fullt vald til þess að vera pólitískir á hverjum tíma,“ segir Sigurður Ingi. (ruv.is)

sunnudagur, 12. janúar 2014

Líf og fjör í ráðuneytum: Hefur eitthvað breyst?

Skrifræði og klíkuskapur hefur löngum einkennt stjórnun á Íslandi, skemmtileg grein í dv.is sýnir það vel í dag.  

Stjórnendur á vergangi

Skrifstofustjórar án skrifstofu með 700 þúsund krónur í laun á mánuði
Þegar ráðuneyti voru sameinuð á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um það innan veggja hins nýstofnaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að svipta skrifstofustjóra ekki þeirri stöðu þrátt fyrir að skrifstofum fækkaði í hinu nýja ráðuneyti. Fyrir vikið starfa fjórir skrifstofustjórar í ráðuneytinu án þess að sinna starfi skrifstofustjóra. Síðan þessar breytingar voru gerðar hafa minnst tveir skrifstofustjórar verið ráðnir inn.

Sama er í velferðarráðuneytinu 9 skrifstofustjórar en 6 skrifstofustjórar.  Já, það er líf og fjör í ráðuneytunum. Það eiga að vera 20 skrifstofustjórar en þeir eru 7 í viðbót.   Og þá er kerfið í rusli.  Búið að ráða fleiri nýja og öðrum má ekki hrófla við.

Svo er stöðugt rætt um sparnað við hátíðleg tækifæri, þeir sem ætla að einfalda stjórnsýsluna gera hana bara flóknari. Svo er alltaf , vinir, kunningjar, flokksfélagar og ættingjar   sem þarf að hjálpa og taka tillit til. Aldrei fleiri aðstoðarmenn og nógu langt í næstu kosningar svo það er óþarfi að hafa áhyggjur í bili.  Munum líka að þetta er ekki bara svona hjá ríkinu.  Hver man ekki heila sveit ungra sjálfstæðismanna í Landsbanka Björgólfanna og samvinnuhreyfingarráðningar forðum daga.  Hefur þetta eitthvað breyst???

     

fimmtudagur, 9. janúar 2014

Þingkonur og heilbrigt klám

Einhvern veginn var lítill spenningur í mér í gær þegar við fóum í Þjóðleikhúsið að sjá Þingkonurnar, kannski eitthvað í blöðunum en ég er nú farinn að lesa ekki gagnrýni fyrr en eftir að ég hef séð sýninguna.  En satt að segja kom þessi sýning mér á óvart.  Hún var oftast skemmtileg, hæfileg blanda af upphaflegu leikriti Aristófanesar og leikstjórans Beneditkts Erlingssonar.  Sviðið Alþingishússalurinn, söngvar og tónlist, dansar; allt hjálpaði þetta að skapa heild sem að mestu leyti gekk upp.  Svo var fyndið að sjá klám og fíflagang í hæfilegum skammti eins og þótti eðlilegt í Aþenu forðum daga. Heilbrigt klám er ekki svo slæmt!!! 

Ég er ekki að segja að þetta sé snilldarverk, langt í frá því, en þarna var samræða Grikkjanna fyrir tvöþúsund og eitthvað árum um  lýðræði, jafnrétti, samskipti kynjanna og skipan stjórnmála.  Þar sem við sjáum að fólkið í fornöld gat gert grín að sjálfu sér, blandað með alvöru og léttýðgi sem fékk mann til að labba út með glotti á vör.  Tónlistin hans Egils textarnir hreyfing og dans, lyfta manni upp og nútímaþrællinn í meðferð Guðrúnar Snæfríðar var óborganlegur þar sem hún þeyttist um Alþingissalinn með vínkerruna og fjarstýringuna.  

Það er gaman að fá öðru hverju eldgamla klassíkera, þar sem þeir eru matreiddir og kryddaðir passlega fyrir okkur nútímapakkið. En einhvern hafði maður á tilfinningunni að leikhúsið okkar allra hefði ekki haft trú á þessari uppsetningu, einstaklega fátæklegt prógramm sem boðið var upp á, það væri jafngott að setja uppýsingar um sýningarnar og valdar greinar um leikritin og fróðleik  á netið.  Það var líka gaman að sjá Heru Björk söngkonuna knáu þarna með leikurunum hún bar af í söng og gamli nágranni minn Þorsteinn Bachmann verður alltaf betri og betri leikari með árunum. 

Að lokum nokkuð skemmtileg sýning sem fær mann til að brosa og pæla smá,um leið gegnir Þjóðleikhúsið skyldu sinni að sýna klassísk stykki.  Það hefði verið hægt að gera beittari sýningu, en þarna fékk stór hópur leikkvenna tækifæri á að spreyta sig. Það er nú ekki oft sem svona stór hópur þeirra stígur á sviðsfjalirnar.  

Þingkonurnar

miðvikudagur, 8. janúar 2014

Ráðgjafinn góði: Björn Ingi hjálpar Sigmundi Davíð

Sigmundur Davíð velur sér ráðgjafa á bak við tjöldin, auðvitað þarf það að vera spillingagossinn Björn Ingi, ég skil ekki þá sem dandalast með honum á Pressunni og Eyjunni.  Hann sýnir það vel hversu gamla liðið tengist enn flokknum þrátt fyrir allan fagurgala yngra fólksins um kynslóðaskipti.  Hver var það sem fjármagnaði Pressuna í upphafi er það ekki VÍS og hver var það annar en Ólafur Ólafsson?  Hver var það sem hleypti Birni Inga að peningakötlunum þótt það færi ekki vel. Svo ræða menn um breytt samfélag. Og hinn vammlausi forsætisráðherra treystir þessum karli best.
  


Ráðgjafi Sigmundar

sunnudagur, 5. janúar 2014

Valdamenn og skáld: Skuggamyndir og orðsnilld.

Nú er orrahríð áramótaræðnanna að mestu þögnuð. Sáttavilji tvíbúranna á Bessastöðum og í Stjórnarráðinu ofræddur að mestu enda var viljinn varla Þjóð(ar)vilji.  Svo við flest okkar höfum snúið okkar að þarfara verki að lesa bækur,hlusta á tónlist og hitta fólk, vini og ættingja  og ræða nútíð fortíð og framtíð.


Tvær bækur urðu fyrst á vegi mínum eftir jól og aðra hef ég klárað og hin er langt komin.  Það eru Skuggasund Arnaldar og Fiskarnir hans Jóns Kalmans.  Það er skemmtilegt og merkilegt hversu þeir eru frjóir að fást við árekstra fortíðar og nútíðar, það er uppruni okkar Íslendinga
og þróun seinustu öldina.  Þar verður ekki komist hjá því að samskipti við útlendinga verði stór þáttur sögu og atburða.

Arnaldur fæst við glæpi úr seinni heimsstyrjöldinni þar sem samspil Íslendinga og Ameríkana eru lykillinn.  Þegar upp er staðið þá kemur margt manni á óvart.  Það er ekkert sem er einfalt, það eru engir algóðir eða alvondir, samt verða glæpir, mönnum verður á, lífið býður upp á freistingar, þeir sterku nota sér aðstöðu sína gagnvart hinum veiku, sem að sjálfsögðu verða fórnarlömb. Útlendingar eru ekki skúrkar út á það að vera útlendingar, þeir rekast hingað vegna hinna stóru strauma sögunnar, heimsstyrjöld og kalt stríð.  Út úr mistrinu sjáum við loks sögu þar sem flestir upplifa harmleik og verða aldrei samir.

Jón Kalman fléttar saman á listfenginn hátt atburði frá  æskuárum sínum og um leið fléttar hann saman líf fjöskyldu í heila öld.  Fólk sem býr í sjávarþorpi  og flyst síðan í nágrenni stórbæjarins, þar sem samskipti við ameríska herinn móta allt mannlíf og byggja upp lífsmynstur sem er ólíkt öllu öðru hér á landi. Í sjávarþorpinu eru það náttúruöflin sem ráða miklu, snjóflóð, sjósókn, vinátta, ættarbönd. 


Einhvern veginn varð mér hugsað til valdamanna okkar í núinu í samskiptum við útlönd og útlendinga. Við sjáum skuggamynd þeirra á sjónvarpsskjánum, annað hvort þá sjálfa eða eftirhermur. Við hlustum á orðflæði þeirra, þar sem þeir búa til heim til að þóknast valdagræðgi sinni , einræðisherrar langt út í heimi verða allt í einu þeir sem við eigum að faðma að okkur og hafa mest samskipti við.  Hinir fátæku, hinir stóru skarar stríðshrjáðra og hungraðara eiga ekkert inni hjá okkur, við eigum frekar að skera niður aðstoð til þeirra en að auka skatta og álögur á hina ofurríku. Skammsýnin ræður ríkjum, náttúra okkar og sjávarlíf er eitthvað til að leika með og eyða.  

   Hversu skáldin eru djúpsærri en stjórnmálamennirnir.  Þar sem mannvirðing og húminismi ráða ríkjum, ungt fólk stígur feilspor sem reynast dýrkeypt, hjá stjórnmálamönnum er það afturámóti, skammvinnur gróði eða valdafíkn, allt verður þetta skiljanlegt og lifandi, hvetur okkur til að taka afstöðu. 

Hjá báðum þessum höfundum er leiftrandi frásagnarlist, þó gjörólík. Arnaldur með sinn massíva stíl og fléttur.  Jón Kalman með sína logandi orðakúnst og samsetningu sem fékk mig til að tárast á stundum. Það er ótrúlegt að við skulum eiga milli 5 og 10 bækur í þessum gæðaflokki fyrir ein jól.  Og við flykkjumst í búðir og söfn til að meðtaka þessa snilld.  Ég á enn nokkrar bækur sem ég á eftir að liggja yfir, Guðmund Andra, Vigdísi Gríms, Þórunni Erlu.  

Svo eru margar athyglisverðar ljóðabækur sem vert væri að glugga í.  Ég vil þar benda á nýja ljóðabók Berglindar Gunnarsdóttur og ljóðaþýðingar Jóns Kalmans. 

Já, lesandi góður, það er margt að lifa fyrir, jafnvel þótt manni verði stundum þungt fyrir brjósti þegar maður upplifir hroða valdamanna í hvunndeginu. Ég hef hvorki stílgáfu né tíma til að lýsa þessum bókum og tíma.  En vonandi fæ ég þig til að leggja sjálfur í að glugga í þeim og meðtaka.  Góðar stundir.